Skötuselur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sjávardýr
Fiskar
Önnur sjávardýr

Skötuselur (Lophius piscatorius) er botnfiskur sem lifir í austanverðu Atlantshafi við Ísland til Múrmansk og allt suður til Gíneuflóa. Hann finnst hvorki við Grænland né við austurströnd Norður-Ameríku. Skötuselur hefur fundist allt í kringum Ísland, en er algengari sunnan og vestan landsins.

Skötuselur er gríðarlega hausstór og kjaftvíður. Neðri kjálkinn nær fram fyrir þann efri. Munnurinn er breiður og nær yfir allt höfuðið og í báðum kjálkum eru hvassar tennur sem allar vísa aftur. Engin bráð sleppur ef skötuselur nær að læsa skoltunum utan um hana.

Skötuselur getur notað ugga á kviðnum sem eins konar fætur og gengið eftir sjávarbotninum en þar felur hann sig í sandi og þangi. Fiskurinn fellur afar vel inn í botngróður og tekur breytingum eftir botngróðri og líkist sjálfur þangi og getur því falið sig þar sem mest er um æti. Kvenfiskar geta orðið meira en 2 metra langir. Stærsti skötuselur sem hefur veiðst við Ísland var 134 sm langur.

Mikill munur er á útliti og stærð karlkyns og kvenkyns fiska. Karlkyns skötuselur er miklu minni en kvenfiskur eða um 20-30% af stærð kvenkyns skötusels. Kvenfiskurinn hefur fálmara sem hann notar sem agn til að ginna bráð en karlfiskurinn hefur enga fálmara og getur því lítið veitt. Hann verður að finna kvenfisk og bíta sig fastan við húð hans. Við bitið gefur karlfiskurinn frá sér hvata sem leysir upp og meltir bæði húð kvenfisksins og munn karlfisksins og karlfiskurinn verður þannig sníkjudýr á líkama kvenfiskins og nærist á blóði og hrörnar með tímanum í að verða aðeins eistu sem dæla sæði eftir þörfum inn í líkama kvenfisksins.

Fiskurinn hefur þrjá langa fálmara ofan á höfðinu sem hann notar sem tálbeitu til að lokka til sín bráð. Magi skötuselsins getur þanist afar mikið út og geta skötuselir étið bráð sem er stærri og þyngri en þeir sjálfir.

Lífshlaup

Hrogn skötuselsins svífa um í þunnu einföldu lagi af glæru slímkenndu efni sem er 60-90 sm breitt og 8 til 9 metra langt. Skötuselur vex um 15-20 cm fyrsta árið og á þriðja ári er hann orðinn 50 cm langur. Hann verður kynþroska þegar hann hefur náð 75-80 cm lengd.



Heimildir

  • „Skötuselur“ á Wikipedia, frjálsa alfræðiritinu. Sótt 5. júlí 2007 af is.wikipedia.org.