Sigurður Gottskálksson (Kirkjubæ)
Sigurður Gottskálksson frá Vatnshóli í A-Landeyjum, sjómaður, verkamaður, bóndi fæddist 23. ágúst 1894 og lést 5. apríl 1955 á Sjúkrahúsinu.
Foreldrar hans voru Gottskálk Hreiðarsson bóndi í Vatnshól í A-Landeyjum og síðan sjómaður og formaður í Hraungerði, f. 5. nóvember 1867 , d. 22. maí 1936, og fyrri kona hans Sigurbjörg Sigurðardóttir húsfreyja frá Hvammi u. Eyjafjöllum, f. 11. september 1867, d. 25. júní 1910.
Stjúpmóðir Sigurðar var Ingibjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 20. mars 1873, d. 5. maí 1969.
Börn Sigurbjargar og Gottskálks:
1. Sigurður Gottskálksson bóndi, f. 23. ágúst 1894, d. 5. apríl 1955.
2. Hreiðar Gottskálksson, síðar bóndi á Hulduhólum og víðar í Mosfellssveit, f. 9. apríl 1896, d. 28. júní 1975.
3. Ragnhildur Gottskálksdóttir, f. 18. október 1899, d. 21. október 1899.
4. Sigurjón Gottskálksson í Hraungerði, formaður, f. 21. mars 1910, d. 13. febrúar 1995.
Sigurður var með foreldrum sínum í æsku, en móðir hans lést, er hann var tæpra sextán ára.
Hann var með föður sínum og Ingibjörgu stjúpu sinni, fluttist með þeim til Eyja 1912.
Sigurður var verkamaður og sjómaður. Þeir bræður hann og Hreiðar réðust kaupamenn í Ölfus. Þeir voru við orgelnám í Hallgeirsey í A-Landeyjum hjá Sigurði Vigfússyni kennara þar og í kvöldskóla hjá Ísleifi Jónssyni í Reykjavík. Einnig voru þeir við fiskveiðar frá Borgareyri í Mjóafirði sumarið 1916. Sigurður nam einn vetur í Samvinnuskólanum. Þá var hann organisti í KFUM & K um skeið.
Þau Dýrfinna voru leigjendur á Túnsbergi 1922, giftu sig í nóvember á því ári, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu í Hraungerði við fæðingu Sigurástar 1923 og Ingunnar 1926, voru þá vinnuhjú í Vallartúni í þrjú ár. Þau byggðu húsið við Landagötu 23 1929, bjuggu þar til 1939, er þau keyptu og fluttust að Norðurbæ á Kirkjubæ og voru bændur þar meðan bæði lifðu, en Sigurður lést 1955.
I. Kona Sigurðar, (18. nóvember 1922), var Dýrfinna Ingvarsdóttir frá Hellnahóli u. Eyjafjöllum, húsfreyja, f. 7. júlí 1900, d. 1. desember 1986. Þau Sigurður voru systkinabörn að skyldleika, hún dóttir Ástríðar, hann sonur Sigurbjargar Sigurðardætra.
Börn þeirra:
1. Sigurásta Sigurðardóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 4. nóvember 1923, d. 23. desember 1980. Maður hennar Snorri D. Halldórsson.
2. Ingunn Sigurðardóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 7. júlí 1926, d. 11. júlí 2017. Maður hennar Þorsteinn B. Sigurðsson.
3. Sigurður Gotthard Sigurðsson bifreiðastjóri, f. 1. desember 1937, d. 9. nóvember 2015. Kona hans Oddhildur Guðbjörnsdóttir.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.