Blik 1972/Við „Siggi í Hruna“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. febrúar 2018 kl. 22:02 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. febrúar 2018 kl. 22:02 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Við „Siggi í Hruna“


Þegar ég hugleiði þessa mynd, koma minningarnar fram í hugann ein af annarri. Þær flögra að mér eins og dálitlir sérlegir fuglar, sem kvaka mér glaðlega í eyra. Jafnframt minna þær mig á erfiða tíma, - gamla tíma þrenginga og þrautastunda, ekki sízt hjá heimilisföður eins og Sigurði mínum Þorleifssyni með fullt hús af börnum á tímum fjárkreppu og atvinnuleysis.
Leiðir okkar Sigurðar Þorleifssonar í Hruna lágu saman í harðri lífsbaráttu á áratugnum 1930-1940. Við unnum þá saman fáa daga á vori hverju. Og þá var það ég, sem var atvinnurekandinn, mikil ósköp! Og við unnum saman í glaðværð og gáska og af miklum vinnuhug. Þó gáfum við okkur góðan tíma til að krydda tilveruna með spaugi og sprettum, því að Sigurður var glaðvær og spaugsamur, þegar hann vildi það við hafa.
Báðir vorum við umkomulitlir menn í umhverfinu og tilverunni í kaupstaðnum, við „Siggi í Hruna“, - hann bláfátækur barnamaður með stopula atvinnu, - ég „hugsjónaangurgapi“ í skólastarfi, talinn handónýtur kennari og ennþá vesælli skólastjóri að dómi ríkjandi konsúlamenningar í bænum, enda talinn vanrækja starf mitt, svo sem hér sannast með tilvitnun í fréttaklausu, þó að ég ynni við skólastarfið langan vinnudag í kennslu, skólastjórn, félagslífi nemenda og stílavinnu á kvöldum o.s.frv. Öll var þessi vinna greidd með nokkru broti þeirra launa, sem starfsbræður mínir fengu greidd annars staðar í landinu. Verst fóru þó svívirðingarnar og persónulegu brigzlyrðin með sálarlífið. Dómum hinna ríkjandi menningarvita í bænum varð ekki þokað. Þar var mælikvarðinn á eitt og allt, - líka á mannkosti okkar Sigurðar í Hruna. - En þegar við Sigurður vorum í essinu okkar við vorstörfin, þá voru ekki maðkarnir í mysunni. Þá fundum við ekki mikið til andstreymis lífsins. Við gleymdum í rauninni öllu í glensi okkar og gamni í vorönnunum.
Jafnframt skólastjóra- og kennslustörfunum við Gagnfræðaskólann í kaupstaðnum var ég bóndi. Og þeirri stétt íslenzkri hef ég alltaf unnað. Ég þakka henni ávallt, hvað við Íslendingar vorum og erum á menningarsviðinu.
Við hjónin bjuggum í Háagarði, sem er frá fornu fari ein af Vilborgarstaðajörðunum, en þær eru átta, svo sem ýmsum er kunnugt. Þangað fluttum við vorið 1935, þegar við urðum að láta frá okkur húseignina Brekku við Faxastíg (nr. 4), sem við höfðum þá fest kaup á fyrir þrem árum. Við gátum ekki staðið í skilum með greiðslur af húsinu þrátt fyrir staka reglusemi í hvívetna og látlaust starf.
Hvernig var svo samstarfi okkar Sigurðar í Hruna varið á vori hverju?
Öðrum þræði a.m.k. hafði Sigurður það að atvinnu vissan tíma úr árinu að vera ökumaður. Hann átti vagnhest og kerru, - líka forarvagn. Í honum ók hann ,,skarni á hóla“, eins og sagt er í Njálu um bóndann á Bergþórshvoli. Það var nú einmitt það, sem Sigurður í Hruna gerði fyrir mig austur í Háagarði. Hann ók skarninu, húsdýraáburðinum, undan þrem kúm okkar á túnið, Háagarðstúnið, og ég „þvoði út“ eins og sú athöfn var kölluð manna á milli daglegu tali.
Við Sigurður Þorleifsson áttum ýmislegt sameiginlegt. Það var t.d. af okkur fnykur, þó ekki forarlykt utan vinnustundanna við vinnsluna á túninu, en fnykur samt, - pólitískur óþefur. Sigurður var þó miklu róttækari en ég, enda ofureðlilegt, þar sem hann var gæddur hetjulund og fann mun meir til rangsleitninnar, misréttisins og kúgunarinnar í bæjarfélaginu en ég, og þó var mér stundum heitt í hamsi.
Og nú vil ég minnast hér sérstaklega vorsins 1939 og þeirra tveggja daga, sem hann vann þá hjá mér við áburðarakstur og dreifingu á Háagarðstúnið. Við hófum starfið daginn eftir að ég sleit Gagnfræðaskólanum. Ég hafði nokkrum dögum áður undirbúið þetta starf: þynnt út áburðinn í safnþrónni og hrært hann upp að nokkru leyti. Þarna var í þrónni áburður undan þrem kúm og svo töluvert meira af ýmsum mætum áburðarefnum.
Vinnubrögð okkar voru frumstæð og þó ekki öðruvísi en almennt gerðust á þeim tímum, þó að ýmsir bændur í Eyjum og aðrir mjólkurframleiðendur og túnræktarmenn hefðu áburðardælur á safnþróm sínum. Að þeim framförum í tækni og tökum vann Búnaðarfélag Vestmannaeyja frá fyrstu tíð þess (1924). En við Sigurður fórum öðruvísi að. Hann jós áburðarleginum upp í forarvagninn með fötu á skafti, ók honum til mín á túnið og lét hann renna í kerald. Úr því dreifði ég áburðarleginum með fötu á túnið, þvoði út á túnið, eins og það var kallað á mínum æskuslóðum. - Einnig ók Sigurður áburði í stóran kartöflugarð, sem við áttum og rófugarð og svo matjurtareit, þar sem við ræktuðum gulrætur, kál og fleira grænmeti. Af þessari ræktun allri höfðum við mikinn stuðning öll búskaparárin okkar, sem jafnframt voru kreppuár, að minnsta kosti þar til styrjöldin brauzt út (1939). Við þessi ræktunarstörf naut ég þess auðvitað, að ég var búfræðingur. Og svo hafði ég þar að auki unnið á norskum bændabýlum á æskuskeiði mínu. - Já, þeirrar þekkingar á margháttaðri ræktun, sem ég hafði þannig aflað mér, nutum við hjónin nú í harðri lífsbaráttu.
Snemma morguns var forarstampurinn kominn á sinn stað efst á Háagarðstúninu.
Veðrið var dásamlegt, logn og sólskin, og allt lék í lyndi fyrir okkur. Og svo kom Sigurður á tilskyldum tíma með hestinn og forarvagninn. Hann var reifur og glaður í bragði, - einn þeirra mörgu manna, sem ógjarnan láta fátæktina og baslið smækka sig um of. Við unnum af kappi og verkið gekk vel. Við vorum báðir í essinu okkar í blíðviðrinu, - já, vissulega.
Og kaffið drukkum við saman úti á túninu, dagmálakaffið, þó að í seinna lagi væri. Hvorki var það sparað né meðlætið, enda báðir hraustir menn þá og vinnuþjarkar, þó að ég segi sjálfur frá. Og báðir vissum við vel, svona með sjálfum okkur, hverjir við vorum, ég og hann Sigurður minn Þorleifsson.
Þegar við höfðum drukkið kaffið og gert ýmislegt að gamni okkar um menn og málefni, tók ég allt í einu eftir því, að upp úr brjóstvasa á samfestingi Sigurðar stóð blaðsnepill. Ég varð forvitinn. Jú, þetta reyndist vera Eyjablaðið, og dagsett 24. marz 1939. Sigurður kvaðst hafa tekið þetta blað með sér um morguninn til þess að sýna mér fréttaklausu í því, ef blaðið kynni að hafa farið fram hjá mér, þegar það var selt á götum kaupstaðarins. - Onei, onei, ég hafði séð þessa fréttaklausu, sem bæjarfulltrúar minni hlutans höfðu birt þarna almenningi. Ég leyfi mér að birta hér þessa fréttaklausu orðrétta úr Eyjablaðinu, svona til þess að gefa lesendum mínum eilitla hugmynd um viðhorf og skoðanir ráðandi manna hér þá um skólastarf og fræðslumál yfirleitt. Nöfnum þeim, sem nefnd eru í fréttaklausunni, breyti ég til hlífðar hinum nánustu. Það eru nöfn á tveim bæjarfulltrúum hins alvalda meirihluta þá í stjórn kaupstaðarins og byggðarlaginu í heild.
Fréttaklausu þessa kölluðu útgefendur eða ritstjórar Eyjablaðsins „Gagnfræðaskólinn og íhaldsmeirihlutinn“, og hún hljóðaði á þessa leið :

„Börnin okkar verða voldug þá,
þótt vitið skorti; náðin guðs þau leiðir.
Þorsteinn Erlingsson.

Á bæjarstjórnarfundi 6. þ.m. gekk Klúton Karlsson (bæjarfulltrúi), fram fyrir skjöldu um það að láta skerða sem mest framlög til gagnfræðaskóla kaupstaðarins eða svo þúsundum króna skipti og hnekkja þannig vexti skólans og viðgangi. Samkvæmt lögum ber skólanum víst framlag úr bæjarsjóði í hlutfalli við nemendafjölda. Þessi lög virti íhaldsmeirihlutinn að engu og samþykkti að veita til skólans tæpum 4 þúsundum minna framlag en lögin ákveða, og brutu þeir þannig lög á skólanum.
Platon Jóakimsson (bæjarfultrúi) gerði grein fyrir atkvæði sínu með þessari árás á skólann á þá leið, að ,,nemendur gagnfræðaskólans væru lítilmótlegar persónur, sem aldrei virtust ætla að verða til nokkurra nota í atvinnulífi bæjarfélagsins. Einnig fullyrti þessi bæjarfulltrúi íhaldsins, að kennarar skólans vanræktu uppeldið á unglingunum, þar sem þeir færu aldrei með þá í beituskúra bæjarins til þess að kenna þeim að beita. Þvílíkur endemis Platon!“ (- Leturbreytingin er mín. Þ.Þ.V.).
- Svo mörg voru þau orð.
Þessa fréttaklausu í Eyjablaðinu las Sigurður ökumaður upp í heyranda hljóði og var býsna alvarlegur, fannst mér. Ég hló hjartanlega. Þá undraðist hann og spurði, hvernig ég hefði hugsað mér að bregðast við samþykkt þessari, því að fjórar þúsundir króna var mikið fé árið 1939. Ég tjáði mínum áhyggjufulla velvildarmanni, að ég léti öll fjármál skólans vaða á súðum þetta ár vegna samþykktarinnar, þó að öll slík fjármálamennska væri mér óeðlileg og hvimleið. Neiti þeir að greiða reikninga skólans, sprettur af því opinbert hneykslismál, sem þeir óska ekki eftir, því að framlag bæjarsjóðs til reksturs skólanum er bundið ákvæðum gildandi landslaga og er afráðið í samræmi við nemendafjöldann. Þeir munu því sjá sér vænzt að lúta, þola og þybbast við á annan veg.
Þeir vilja fá að níðast á skólastarfi mínu í kyrrþey ¹. Við þetta svar mitt undi Sigurður Þorleifsson vel og við tókum upp léttara hjal á milli þess, sem við unnum af kappi. Ekkert gat skyggt á tilveru okkar við foraráburðinn þarna á Háagarðstúninu.
¹ Orð þeirra og álit á gildi skólans og getu var þá æðsti dómur í kaupstaðnum. Fræðslumálastjórnin hafði þá ekki gert neina rannsókn á starfinu og borið það saman við árangur annarra skólamanna í fræðslustarfi. Sá samanburður fékkst að 2-3 árum liðnum. Verður komið að þeirri niðurstöðu í Bliki síðar.

Þannig leið dagurinn fram að nóni. Þá veittist okkur kaffið, nónkaffið.
Sigurður lét hestinn bíta, meðan við gæddum okkur á því, sem okkur var fært, en við kusum að drekka kaffið úti á túni, drekka það þar í sólskininu og blíðunni.
Þegar við höfðum rennt niður síðasta sopanum, bar góðkunningja að garði. Það var aldraður nágranni, fyndinn og spaugsamur. Við gleymdum tímanum um sinn, svo að kaffitíminn varð í lengsta lagi, enda þurfti hesturinn líka að njóta gestrisni og bíta grasið sér til næringar og fylli. Við gáfum okkur því góðan tíma og reyndum eftir mætti að kreista skringilegar frásagnir upp úr komumanni. – Í reynd var hér ekki neitt að kreista, því að gesturinn okkar hafði sjálfur hið mesta yndi af að segja frá og skemmta öðrum með meinlausum skrítlum sínum og kynjasögum. Því miður hef ég gleymt flestum kynjasögunum hans. Þó loða nokkrar enn í minninu.
Hér kemur ein svona nokkurn veginn orðrétt:
Nú hefur Sibba sæta sagt skilið við hann Halla hengilmænu. Það sem hún hefur látið bóka í doðrant bæjarfógetaembættisins í því sambandi hefur vakið mikinn hlátur hinna borðalögðu og nánustu kunningja þeirra. Gestur okkar kvaðst vera einn af hinum allra nánustu og hló mikið. Hann kvaðst sjálfur hafa lesið bókunina, svo að ekki væri um að villast. Þá trúðum við Sigurður auðvitað allri frásögninni eins og nýju neti, og forvitni okkar jókst nú um allan helming, fyrst gesturinn hafði lesið sjálfur bókunina!
Sibba sæta lét bóka, að hún hefði jafnan liðið við það í hjónabandinu, hversu Haraldur eiginmaður hennar hefði alltaf vanrækt það, sem hún kallaði helgustu hjónabandsskylduna. Loks kvaðst hún hafa saumað sér eldrauðan náttkjól, því að hún vissi, að eiginmaðurinn tilbað rauðan fána og elskaði valdhafann Stalín. Ekki vildi hún neita því, að rauði litur náttkjólsins hefi lífgað hengilmænuna eilítið upp fyrstu kvöldin, sem hún kom upp í til hans í fagurrauða náttkjólnum, en aðeins fyrstu kvöldin. - Þegar svo eiginmaðurinn var lagstur fyrir eitt kvöldið eftir langvarandi dauðyflahátt, brá Sibba sæta sér hálfnakin í náttkjólinn og lék svo allskyns fótamennt ballettkvenna fyrir framan rúmstokkinn hans og sendi honum um leið sitt blíðasta bros. Hvar hefur hún lært ballett, spurðum við hinn frásagnarglaða gest. Auðvitað af bíómyndum, svaraði hann. Og svo áfram með frásögnina, báðum við í einu hljóði eða skipuðum nánast. - Sjálfsagt, sagði gesturinn og logaði af frásagnargleði.
Þegar hengilmænan lyfti naumast augnalokum við ástarglettur þessar og ginningarbrögð, afréð Hin sæta að heimta skilnað, svo að hún gæti leitað með hreinan skjöld á önnur mið.
Satt að segja vorum við Sigurður dálítið tortryggnir. - Er þessi frásögn bókuð í doðrant bæjarfógetaembættisins? spurðum við báðir í einum rómi. Gesturinn hélt nú það svo sannarlega, og hafði sem sé lesið þar sjálfur frásögnina. Það brá fyrir alvörusvip í andliti hans, er við drógum þetta í efa. Þar las hann það sjálfur, sem sagt. Þá er það víst satt, ályktuðum við í sakleysi okkar og grandvaraleysi.
Auðvitað er frásögn þessi hér aðeins daufur skuggi af henni eins og hún var, er hún streymdi af vörum þessa frásagnarsnillings þarna af næsta bæ með látbrögðum hans og orðavali.
Sigurði fannst nú kaffitíminn vera orðinn nógu langur og nóg komið af listisemdum þessum. En ég vildi fá meira að heyra, með því að ég taldi okkur Sigurð hafa unnið svo vel og kappsamlega allan fyrri hluta dagsins. Og þá hélt gesturinn áfram.
Ef til vill er þér það ekki ljóst, Þorsteinn, sagði gesturinn, að hinn íslenzki Munch-Hausen er hér bóndi á einni Vilborgarstaðajörðinni. Ýmsar sögur hans gefa ekki mikið eftir frásögnum hins heimsfræga snillings. Hér kemur ein: Vilborgarstaðabóndinn var um vetur að líta eftir kindum sínum, sem gengu úti í Heimakletti. Kollur klettsins, kvað hann, hafði þá verið einn samfelldur klakahjúpur. Bóndi hafði með sér tík, sem hann átti. Snögglega missti bóndi fótanna og tók til að renna hratt niður að snarbrattri bergbrúninni, þar sem nálega 100 metra hátt standbergið stendur þverhnípt niður í sjó.
Á hinni hröðu ferð niður brekkuna af Hákollum niður á brún, gafst bónda hvorki hugsun né tóm til að biðja fyrir sálu sinni. Á bergbrúninni lyfti hann þó hendi svo sem eins og í fórnarskyni. Þá var eins og skott tíkarinnar væri lagt í lófa hans. Hann greip þar um, og sjá! Tíkin dró bónda upp á Hákolla og bjargaði þannig lífi hans.
Við Sigurður hlógum hjartanlega. Hafið þið ekki heyrt þessa sögu fyrr, drengir? spurði gesturinn. - Nei, við höfðum aldrei heyrt neina af þessum Munch-Hausensögum í Eyjum fyrr. Nokkrar fleiri slíkar sögur fylgdu þarna á eftir. Það man ég.
Við Sigurður Þorleifsson skemmtum okkur konunglega. Því er ekki að neita. Og svo tókum við til starfa af meira kappi en nokkru sinni fyrr, því að við höfðum slórað, fannst okkur.
En viti menn : Þegar ég nú er að ljúka við að vélrita þessa frásögn um vinnu okkar Sigurðar og slór á túninu, kemur ein af sögum gestsins enn fram í hugskot mitt og minni.
Það gerðist, áður en Áfengissala ríkisins eignaðist hér útsölu, sagði komumaður og spýtti mórauðu. Áttatíu og tveggja ára gamall öldungur, sem hér hafði lengi dvalizt, kom inn á póstafgreiðsluna í kaupstaðnum og spurðist fyrir um það, hvort hann ætti nokkra kröfu. „Enga,“ sagði afgreiðslustúlkan. ,,Eiga þá strákarnir ekki kröfur?“ spurði öldungurinn. ,,Enga heldur,“ svaraði afgreiðslustúlkan. „Strákarnir“ voru gamlir drykkjubræður öldungsins, annar 79 ára, hinn hálf áttræður. Afgreiðslustúlkan var öllum hnútum kunnug.

—————


Sigurður Þorleifsson var Vestur-Skaftfellingur, fæddur á bænum Á í Síðuhreppi 16. ágúst 1886. Jörðin Á skammt austan við Skaftá, er landnámsjörð Leiðólfs kappa og stórbónda, sem einnig átti bú á Leiðólfsstöðum undir Leiðólfsfjalli (Landnáma).
Foreldrar Sigurðar voru hjónin á Á, Þorleifur bóndi Guðmundsson og Sigríður húsfreyja Sigurðardóttir.
Á þrítugsaldrei leitaði Sigurður sér atvinnu suður á Reykjanesi, vann þar á vetrarvertíðum og breytti svo til veturinn 1913 og vann þá á vertíð í Vestmannaeyjum. Hingað kom hann sunnan af Miðnesi. Á sumrum leitaði hann sér atvinnu á Austfjörðum eins og svo margur Sunnlendingurinn á fyrsta og öðrum tug 20. aldarinnar.


ctr


Margrét Gunnlaugsdóttir og Sigurður Þorleifsson í Hruna.


Margrét Vigdís Gunnlaugsdóttir var Eyfirðingur, fædd að Uppsölum í Svarfaðardal 6. jan. 1898, dóttir hjónanna þar, Gunnlaugs bónda Pálssonar og Unu húsfreyju Jóhannesdóttur. Snemma var Margrét Gunnlaugsdóttir látin leita sér atvinnu burt frá heimili sínu, svo sem algengt var, þar sem þröngt var í búi. Á vertíð 1917 mun hún fyrst hafa unnið í Vestmannaeyjum þá 19 ára gömul. Á sumrum fór hún í kaupavinnu til Austfjarða. Þaðan kom hún a.m.k. til Eyja haustið 1917 og vann þar þá vertíð.
Sumarið 1920 voru þau bæði kaupavinnu austur á Fáskrúðsfirði, Margrét og Sigurður, og felldu þau þá hugi saman. Komu suður um haustið í brennandi ást og með hina björtustu framtíðardrauma, sem verða skyldu að veruleika í Vestmannaeyjum, þar sem útvegurinn fór vaxandi ár frá ári.
Þau hófu búskap um haustið og fengu leigða íbúð að Reynifelli við Vesturveg. Þar fæddist þeim fyrsta barnið árið eftir. Hlaut það nafn móðurföður síns og var því skírt Gunnlaugur. Sveinninn fæddist 20. maí 1921.
Næstu fimm árin bjuggu þau Sigurður og Margrét á þrem stöðum í bænum, í Nikhól (nr. 38 við Hásteinsveg), á Eiðum (nr. 9 C við Kirkjuveg) og í Sjávarborg, sem var lítið íbúðarhús vestur af Sveinsstöðum við Njarðarstíg.


ctr
Börnin í Hruna með foreldrum sínum.
Aftari röð frá vinstri (þrjú börn): Una, Sigríður og Gunnlaugur.
Fremri röð frá vinstri (sex börn og foreldrarnir): Eiríkur, Einara, Fjóla, Pálína, Rósa og Margrét.
Sigurður og Margrét misstu eitt barn á bernskualdri - svein, sem hét Ármann.


Árið 1927 festu þau Sigurður og Margrét kaup á húseigninni Hruna (nú nr. 9 B við Miðstræti) og bjuggu þar síðan, meðan lífið entist þeim. Húseignin Hruni var þá orðin 20 ára gömul, er þau keyptu hana.
Sigurður Þorleifsson og Margrét Gunnlaugsdóttir eignuðust saman níu börn:

1. Gunnlaugur, f. að Reynifelli við Vesturveg 20. maí 1921, d. 29. nóv. 1963.
2. Sigríður, f. í Nikhól við Háteigsveg 22. júní 1922.
3. Una G. Rósamunda, f. að Eiðum við Kirkjuveg 6. ágúst 1923.
4. Margrét, f. 3. febr. 1924 í Sjávarborg við Njarðarstíg eða Sjómannasund.
5. Fjóla, f. 17. ágúst 1928 í Hruna við Miðstræti.
6. Pálína, f. 22. okt. 1929 í Hruna.
7. Eiríkur, f. 31. jan. 1931 í Hruna.
8. Oddný Sigurrós (Rósa), f. 1. okt. 1933 í Hruna.
9. Einara, f. 17. jan. 1936 í Hruna.

Vorið 1918 hafði Margrét Gunnlaugsdóttir eignast dreng, sem ólst upp í Hruna hjá móður sinni og stjúpa. Heitir hann Pétur Sveinsson og er nú leigubifreiðarstjóri í Reykjavík.
Í fyllingu tímans kvæntist Gunnlaugur Sigurðsson og átti með konu sinni fimm börn. Hún lézt 20. nóv. 1954. Þá var elzta barn þeirra hjóna 10 ára og yngsta barnið tveggja ára. Auðvelt er að gera sér í hugarlund alla þá erfiðleika, sem fráfall eiginkonu Gunnlaugs olli fjölskyldunni í Hruna. Í allri sinni fátækt tóku hjónin öldruðu tvö af börnunum í forsjá og á framfærslu. Hin dreifðust. Þegar v/s Hólmanes fórst 29. nóv. 1963, drukknaði Gunnlaugur Sigurðsson, sem var háseti á skipinu. Þá voru börn hans enn á æskuskeiði.
Samheldni þessarar fjölskyldu, fórnarlund foreldranna og barnanna, systkina Gunnlaugs heitins, og svo samúðarríkur vinahópur gerði skyldu sína til hins ítrasta, svo að allt bjargaðist af.
Öðrum þræði stundaði Sigurður Þorleifsson hina svokölluðu eyrarvinnu. Lengst af höfðu Sigurður og Margrét í Hruna eina kú og nokkrar kindur frá ári til árs. Það var þeim mikill stuðningur við framfærslu hins stóra barnahóps, ekki sízt á kreppuárunum, þegar öll börnin voru í ómegð.
Og ekki skal fjöður dregin yfir það, að ýmsir Eyjabúar réttu fjölskyldu þessari hjálparhönd, þegar sárast svarf að. Tel ég rétt að nefna þar ein hjón sérstaklega. Þau voru ein af nágrannahjónunum, frú Anna Jesdóttir og Óskar Kárason, byggingafulltrúi, hjónin á Sunnuhól. ,,Marga máltíðina borðaði ég þar,“ sagði eitt Hrunabarnanna við mig núna á dögunum.
Ekki létu Hrunahjónin eftir liggja skyldur sínar gagnvart sínum nánustu. Síðustu æviárin dvaldist móðir Sigurðar, Sigríður Sigurðardóttir, fyrrum húsfreyja á Á, hjá þeim hjónum í Hruna, þrátt fyrir hina þungu framfærslu, sem fyrir var. Þannig varð Sigurður einnig móður sinni ellistoðin.
Margrét Gunnlaugsdóttir lézt 19. júlí 1965 og Sigurður Þorleifsson 15. maí 1969.
Ég get með sanni sagt, að mér hefur alltaf verið sönn ánægja að því að minnast þeirra karla og kvenna, sem á liðnum tímum hafa þraukað og þolað, þó að búið væri við mikla örbirgð og önn, og hrósað sigri að lokum. Við Sigurður Þorleifsson áttum það sameiginlegt, að við ólum með okkur trú skáldsins, sem kvað:

„Ég trúi því, Ísland, að hugur og hönd
og hreysti og kjarkurinn vinni.“

Okkur Sigurði varð báðum að trú okkar.