Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Farsæll Eyjaskipstjóri - Einar Runólfsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. mars 2017 kl. 11:02 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. mars 2017 kl. 11:02 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) (Ný síða: <center>'''HELGI BERNÓDUSSON'''</center><br><br> <big><big><big><center>'''Farsæll Eyjaskipstjóri:'''</center></big></big></big><br> <big><big><big><center>'''[[Einar Runólfsson...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
HELGI BERNÓDUSSON




Farsæll Eyjaskipstjóri:


Einar Runólfsson



Einar af keppni æskumanns
Ísleifi af hrönnum beitir.
Aflasæld og heppni hans
hróður með réttu veitir.

Þannig yrkir Loftur Guðmundsson í Formannavísum frá 1944 um Einar Runólfsson á Velli, þá skipstjóra á Ísleifi. Einar var einn farsælasti og fengsælasti skipstjóri Eyjaflotans á blómatíma útgerðar í Vestmannaeyjum um miðbik síðustu aldar, 1940-1960. Hann er nú hátt á níræðisaldri, en er vel ern, hugurinn skýr, minnið ótrúlega traust og dómgreindin óbiluð. Þótt heilsan sé ekki fullkomin er Einar vel á sig kominn, hugsar um sig sjálfur í íbúð sinni á Digranesvegi 36 í Kópavogi þar sem hann hefur búið síðan hann fluttist frá Eyjum 1964. Einar varð ekkjumaður á síðasta ári þegar Vilborg („Monna“), eiginkona hans, lést eftir 64 ára sambúð.
Einar var vel metinn í sinni stétt í Vestmannaeyjum, öflugur fiskimaður og öruggur og eftirsóttur sjómaður. Skipstjórnarsaga hans var nær áfallalaus, og hann naut virðingar samborgara sinna fyrir prúðmennsku og hógværð. Faðir hans var skipstjóri og synir hans urðu sjómenn. Þrjá ættliði úr fjölskyldunni má finna í Skipstjóra- og stýrimannatali, Runólf, Einar og Atla! Og Hlöðver, yngri sonur Einars, var virkur í félags- og öryggismálum sinnar stéttar, vélstjóranna.

Austfirðingur kemur til Eyja.
Einar er Austfirðingur að ætt, fæddur á Seyðisfirði á jóladag 1918 þegar aðeins nokkrar vikur voru liðnar frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Hann fluttist til Vestmannaeyja með foreldrum sínum 5 ára gamall, síðla árs 1924. Hann segist ekki muna mikið úr æsku sinni á Seyðisfirði, en eiga margar minningar frá Austurlandi síðar, t.d. þegar hann var sendur austur á firði, Vopnafjörð, fyrir fermingu og eins þegar hann var á bátum fyrir austan síðar á ævinni. „Það var uppgangur á Austfjörðum í byrjun aldarinnar, en orðin stöðnun þar þegar hér var komið og meiri möguleikar í Vestmannaeyjum þar sem allt var á fullri ferð á þessum tíma. Faðir minn var kunnugur þar því að hann var á vetrarvertíðum í Eyjum nokkur ár áður en við fluttumst þangað og móðir mín hafði verið búsett þar um tíma. Eins komu Eyjamenn oft austur á sumrin á þessum árum til róðra og kynntust mönnum þar eystra vel.“
Foreldrar Einars voru þau Runólfur Sigfússon og Friðrikka Einarsdóttir. Þau bjuggu fyrst í Eyjum hjá Jóni Jónssyni í Hlíð og Þórunni Snorradóttur, konu hans, en Runólfur hóf skipstjóraferil sinn í Vestmannaeyjum vertíðina 1925 á Kap sem Jón gerði út. Einar segist muna vel eftir sér í Hlíð. „Ég man vel eftir því þegar við fluttumst til Eyja haustið 1924. Ég var á 6. ári. Við komum að austan með Esjunni og Jón í Hlíð kom út á Víkina á árabát að sækja okkur. Veðrið var gott þennan dag og ég man eftir Hreggviði, syni Jóns, í árabátnum.“

Upp og niður.
Eftir vetrardvöl í Hlíð bjó fjölskyldan á ýmsum stöðum í Vestmannaeyjum, fyrst í Langahvammi, Kirkjuvegi 41, og var þar meðan Runólfur byggði hús við Kirkjuveg 82 og kallaði „Breiðuvík“ eftir fæðingarstað sínum. Hefði þá mátt ætla að brautin væri bein hjá þeim, en svo var sannarlega ekki. Runólfur var útgerðarmaður og hann varð fyrir áföllum, lenti í skuldabasli um 1930 og missti aleiguna. Þau hjón og börn þeirra fóru því enn á flæking. Þau fluttust þá að Sæbóli, við Strandveg 50, kallað „Jacobsenshús“ eftir norskum skipstjóra sem byggði það og bjó þar um tíma. Þetta hús var síðar brotið niður og látið víkja fyrir Strandvegi.
Enn gaf á hjá fjölskyldunni fáum árum seinna því að Runólfur veiktist þá af krabbameini, rúmlega fertugur að aldri, og lést haustið 1936. Friðrikka, kona hans, var orðin ekkja í annað sinn. En nú stóð hún ekki ein, því að börn hennar voru að komast á legg og gátu hjálpað henni við framfærsluna og annað sem fellur til á stóru heimili.
Eftir lát Runólfs fluttist fjölskyldan í leiguhúsnæði á Bergi við Bárustíg, en það hús var síðar flutt þegar Miðstræti var framlengt til vesturs og sett niður við „Reglubraut“. Þau leigðu síðar á Velli, Kirkjuvegi 23, en eigandinn, Elsa Ólafsdóttir, bjó þá tímabundið í Reykjavík hjá Unni, dóttur sinni. Því næst fóru þau að Vegbergi, Skólaveg 32, og loks í Fagurlyst, Urðaveg 16, sem þá var í eigu Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns. Svona var ástandið í Eyjum á þessum tíma, mikið húsnæðisleysi og óvissa fyrir það fólk sem ekki átti húseign. Síðar tókst þeim, þegar Einar var orðinn fullgildur sjómaður, að festa kaup á Birtingarholti, við Vestmannabraut 61, eystri enda þess húss. Það var hálf eignin á móti lngvari Þórólfssyni sem bjó með fjölskyldu sinni í vestri endanum. Birtingarholt er horfið núna. Heiðarbrún stóð austan við það en Oddi vestan við.

Friðrikka Einarsdóttir.
Friðrikka Ingibjörg, móðir Einars, var fædd 22. febr. 1890 á Seyðisfirði. Leið hennar lá til Vestmannaeyja eins og margra annarra ungra austfirskra stúlkna.
Hún kom þangað 1908, 18 ára gömul. Hún giftist þar Ágústi Scheving frá Vilborgarstöðum, syni Vigfúsar Schevings og Friðrikku Sighvatsdóttur. Ágúst var fæddur 1888, varð ungur sjómaður, fyrst á áraskipum, en síðar á vélbátum, og formaður á „Haffrú“ sem hann átti með föður sínum og fleirum. Þau Ágúst eignuðust tvo syni, Friðrik Vigfús, f. 1910, og Harald, f. 1912. Ágúst veiktist og lést aðeins 24 ára gamall í lok mars 1913. Þá höfðu þau misst eldri son sinn, tveggja ára gamlan. Þungur var skapadómur Friðrikku, orðin ekkja 23 ára gömul. Hún hélt til æskustöðva sinna á Seyðisfirði á ný, árið 1913, „einstæðingur“ eins og Einar, sonur hennar, orðar það og þar lést Haraldur, yngri sonur hennar, ári síðar, tveggja ára.
„Mynd af Ágústi fylgdi mömmu allatíð, hún hékk í svefnherbergi hennar, svo og mynd af öðrum drengnum“ segir Einar. „Og við höfðum alltaf gott samband við Schevingfólkið í Eyjum, fórum í heimsóknir í Heiðarhvamm til Sigfúsar, bróður Ágústs, og Sesselju, konu hans, og héldum jafnan góðum kunningsskap við það fólk.“
En Friðrikka lét ekki bugast, hún vann fyrir sér næstu árin á Seyðisfirði uns hún giftist á ný síðari manni sínum, Runólfi Sigfússyni. „Vera má að þau hafi fyrst kynnst í Vestmannaeyjum“ segir Einar, „en þá hafa þau kynni eflst þegar þau hittust á ný fyrir austan.“
Þau eignuðust sex börn: Oddný var elst, fædd 1916; hún lést fyrir skömmu. Einar er annar í röðinni, f. 1918, þá Sigfríð, f. 1920, giftist Alfreð Einarssyni sjómanni, síðar yfirverkstjóra í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og síðast verksmiðjustjóra í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja. Sigfríð var tvíburi, en systir hennar, sem var skírð Hulda, dó í frumbernsku. Næstur var Gústaf, f. 1922, sjómaður. Hann var giftur Huldu Hallgrímsdóttur sem oftast var kennd við húsið Bjarma. Gústaf fórst í Helgaslysinu ægilega við Faxasker í ársbyrjun 1950, en hann var 2. vélstjóri þar um borð. Fjórar myndarlegar dætur misstu þar föður sinn, innan við þrítugt. Dagmar (Dagga) er fædd 1926. Hún býr í Columbus, Indiana, í Bandaríkjunum þangað sem hún fluttist ung að árum með manni sínum sem var hermaður hér á landi í stríðinu, en síðar vel metinn skólameistari í Columbus. Yngstur barna Friðrikku og Runólfs er Sævaldur, sjómaður frá ungum aldri, var m.a. síðar stýrimaður hjá Einari á Sídon. Hann bjó fyrst í Brautarholti í Vestmannaeyjum en fluttist um 1960 í Kópavog; var lengi á togurum og við ýmis störf í landi. Kona hans er Sigurbirna Hafliðadóttir.
Friðrikka var hæg kona og hlý í viðmóti. Á seinni árum héldu þær mæðgur, hún og Oddný, heimili saman og hjá þeim ólst upp Friðrik Jósepsson, sonur Oddnýjar, fyrst á Fífilgötu 2, síðar í Miðstræti 14 og loks í Blokkinni fram að eldgosinu 1973. Skrifari þessa þáttar er jafnaldri Friðriks og æskufélagi og varð heimagangur hjá Friðrikku um árabil. Hún var umvafin kyrrð og virðuleika þar sem hún sat jafnan í stofu sinni og sinnti hannyrðum, og leit stundum í dönsku blöðin. Hún vék oft góðum orðum, og stundum góðum bitum, að fjölmennri vinasveit Friðriks nafna síns, ungum sveinum sem fóru ekki alltaf hljóðalaust um hús. Friðrikka lést 1979 í Reykjavík, nær níræð að aldri.

Runólfur Sigfússon.
Runólfur Sigfússon var fæddur 16. febr. 1893 í Stóru-Breiðuvík í Helgustaðahreppi í Reyðarfirði; það er norðan megin í firðinum, austan við mynni Eskifjarðar. Hann varð sjómaður ungur að árum, fyrst á árabátum og síðar vélbátum. Hann var með báta fyrir austan og fiskaði ágætlega, en var líka í transporti milli fjarða.
Eins og margir Austfirðingar fór Runólfur til Eyja yfir vetrarvertíðina og réri þar. Hann var m.a. vélstjóri með Sigurði Oddssyni í Skuld. Honum bauðst svo formennska á Kap árið 1925, en góður kunningsskapur var með þeim nágrönnum, Sigurði í Skuld og Jóni í Hlíð sem gerði út Kapina. Runólfur tók sig því upp með eiginkonu og fjögur börn og fluttist til Eyja síðla árs 1924. Eftir formennsku á Kap vertíðina 1925 tók hann við Tjaldi 1926 og 1927, bát sem Ólafur Auðunsson í Þinghól átti, en var á síld fyrir norðan á sumrin, stundum skipstjóri, stundum vélstjóri hjá öðrum. Skipstjóri á Olgu, sem Guðmundur á Háeyri átti, var hann 1928 og tók svo 1929 við Hilmi VE 282. Hann átti hlut í bátnum. Hilmir var með ónýta vél og dró ekki til hafnar þegar var austan hvassviðri, komst kannski upp undir Hamarinn eða Eiðið og varð að halda sig þar þangað til að veðrum slotaði. Það gekk illa um veturinn. Bátnum var lagt við ból sitt á legunni um lokin 11. maí. Runólfur hætti þá útgerð með sameignarmönnum sínum en fékk á sig skuldabagga og missti húseign sína, Kirkjuveg 82.
Vertíðina 1930 var hann formaður með Kára Sölmundarson og 1931 með Magnús VE 210. Þetta voru bátar sem Gunnar Ólafsson á Tanganum átti og gerði út. Þá tekur hann vertíðina 1932 við Snyg VE 247 („Snugg“ eins og Einar ber það fram) sem Tangamenn áttu líka. Það var 27 tonna bátur sem var upphaflega smíðaður í Noregi, og gekk lengi fyrir vestan, á Bíldudal m.a., og síðar fyrir norðan, og var lengdur þar og endurbyggður. „Hann var áður skúta með einu mastri. Þeir Þórður H. Gíslason og Ottóníus Árnason keyptu hann til Eyja 1924, frá Eskifirði“ segir Einar. Runólfur var með Snyg á vetrarvertíðum 1932 og meðan heilsan leyfði, fram til vertíðarloka 1935. Sumarið 1935 leigði Gunnar Guðjónsson á Kirkjubæ Snyg og var á reknetum við Suðurströndina. En svo illa tókst til að báturinn sló úr sér. Þeir voru skammt undan landi, voru að koman vestan að í austan hvassviðri og fóru þess vegna grunnslóð. Gunnari tókst að sigla bátnum upp í fjöru, Ragnheiðarstaðarfjöru í Flóa, og mannbjörg varð. Þeir hirtu úr honum vélina, öfluga vél, og hún var sett í Geir goða. Með þann bát átti Runólfur að vera vertíðina 1936, var búinn að fullráða skipshöfn, þar á meðal Einar, son sinn, en Runólfur komst aldrei á sjó meira. Óskar Gíslason frá Skálholti tók við bátnum. Runólfur var fyrst lagður inn á spítala í Eyjum og síðar í Reykjavík og þar lést hann á