Sjómannadgsblað Vestmannaeyja 1978/ Sjómannadagurinn 1977

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. febrúar 2016 kl. 17:10 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. febrúar 2016 kl. 17:10 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Sjómannadagurinn 1977.</center></big></big><br> Að þessu sinni var Sjómannadagurinn hátíðlegur haldinn sunnudaginn 5. júní, en að venju fóru hátíðahö...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sjómannadagurinn 1977.


Að þessu sinni var Sjómannadagurinn hátíðlegur haldinn sunnudaginn 5. júní, en að venju fóru hátíðahöld fram einnig laugardaginn 4. júní, og hófust þau með ýmsum skemmtiatriðum inni í Friðarhöfn kl. 14. Þar fór fram koddaslagur og kappróður á höfninni, og tóku 19. sveitir þátt í róðrarkeppninni. Beztum tíma náðu svonefndir „Steinaldarmenn“, réru vegalengdina á 2.04.3 mín. Í sambandi við keppnina starfaði veðbanki undir stjórn Guðjóns Hjörleifssonar, gjaldkera Sparisjóðsins. Kynnir í Friðarhöfn var Sigurgeir Scheving.



Sunnudaginn 5. júní hófust hátíðahöldin með því, að komið var saman við Samkomuhúsið, en þar flutti Gísli Kristjánsson, skipstjóri, setningarávarp. Var síðan gengið til kirkju, en þar messaði sr. Kjartan Örn Sigurbjörnsson, sóknarprestur. Fjölmenni var við messu, svo og eftir messu við minnisvarðann um druknaða, hrapaða og þá, sem farizt hafa í flugslysum.


Þar flutti Einar J. Gíslason, forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins, minningarræðu og minntist látinna sjómanna. Reynir Guðsteinsson söng einsöng við undirleik Guðmundar H. Guðjónssonar, og lagður var blómsveigur að minnisvarðanum. Hátíðahöldum var síðan fram haldið á Stakagerðistúninu kl. 16 sama dag. Ræðumaður dagsins var Steingrímur Sigurðsson, skipstjóri, og veitt voru verðlaun fyrir unnin afrek í íþróttakeppni laugardagsins í Friðarhöfn. Þá voru heiðraðir sjómenn, og sá Einar J. Gíslason um afhendingu heiðursskjala og ávarpaði heiðursmennina. En þeir voru: Grímur Gíslason, skipstjóri, tilnefndur af S.s. Verðandi, Björgvin Jónsson, vélstjóri, tilnefndur af Vélstjórafélagi Vestmannaeyja, Magnús Sigurðsson, háseti, tilnefndur af Sjómannafélaginu Jötni. Þá heiðraði Sjómannadagsráð sérstaklega Ingólf Theódórsson, netagerðarmeistara, sem stutt hefur málefni Sjómannadagsins og sjómanna yfir höfuð með ráðum og dáð.



Þá var Bogi Sigurðsson heiðraður sérstaklega fyrir björgunarafrek. Kynnir á Stakagerðistúni var Magnús Magnússon.
Um kvöldið var að venju haldin skemmtun í Samkomuhúsinu. Komu þar fram ýmsir kunnir skemmtikraftar. Þar voru og afhent heiðursverðlaun, sem venja er að afhenda í Samkomuhúsinu, en verðlaunahafar voru þessir: Fiskikóngur á vetrarvertíð 1977 var Sigurjón Óskarsson, skipstjóri á m/b Þórunni Sveinsdóttur. Var hann ásamt skipshöfn sinni sæmdur viðeigandi verðlaunum.



Aflakóngur 1976 varð Guðjón Pálsson á m/b Gullbergi, VE 292, og hlaut hann ásamt skipshöfn sinni viðeigandi verðlaun.
Að lokum var stiginn dans í Samkomuhúsinu og Alþýðuhúsinu frá miðnætti til kl. 4 að morgni, en dansskemmtun var einnig í Samkomuhúsinu kvöldið áður.
Hátíðahöldin fóru að venju mjög vel fram báða dagana í þolanlegu veðri, þótt talsverður strekkingur væri fyrri daginn sérstaklega, en á sunnudeginum hafði veðrið gengið nokkuð niður. Var mikill fjöldi manna viðstaddur hátíðahöldin.


Að venju voru seld merki Sjómannadagsins, og Sjómannadagsblað Vestmannaeyja kom út, vandað rit og vel gert, undir ritstjórn Steingríms Arnar. Aðsetur Sjómannadagsráðs var í hinum nýju húsakynnum að Básum á Básaskersbryggju.