Guðmundur H. Guðjónsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Hafliði Guðjónsson er fæddur 22. desember 1940 að Kjörvogi í Árneshreppi á Ströndum. Kona Guðmundar er Dagný Pétursdóttir (áður Ubonwan Paruska) frá Thailandi, sem Eyjamenn þekkja betur sem Deng, og búa þau að Helgafellsbraut 6. Þau eiga tvær dætur, Rósu og Védísi.

Guðmundur á jólatónleikum Landakirkju 2005.

Guðmundur stundaði nám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar, við Kirchenmusikschule í Hannover, Royal School of Church Music í London og nám í orgellleik í Róm og Siena á Ítalíu. Var skólastjóri Tónlistarskóla Barðastrandarsýslu frá 1968 til 1970 og organisti við Patreksfjarðarkirkju á sama tíma. Guðmundur fluttist til Vestmannaeyja árið 1970 og varð organisti Landakirkju og stjórnandi Kórs Landakirkju auk þess sem hann hefur verið skólastjóri Tónlistarskóla Vestmannaeyja.

Guðmundur stofnaði jeppaklúbbinn Herði í Vestmannaeyjum og hefur stjórnað hálendisferðum á hans vegum um árabil.

Frekari umfjöllun

 
Guðmundur Hafliði Guðjónsson.

Guðmundur Hafliði Guðjónsson kennari, skólastjóri, organisti, kórstjóri fæddist 22. desember 1940 að Kjörvogi í Árneshreppi, Strand.
Foreldrar hans voru Guðjón Magnússon trésmiður, oddviti, síðar í Reykjavík, f. 28. júní 1908, d. 25. janúar 1993, og kona hans Guðmunda Þorbjörg Jónsdóttir húsfreyja, f. 2. apríl 1916, d. 14. desember 2005.

Guðmundur nam í Tónlistarskóla Þjóðkirkjunnar og í Námsflokkum Reykjavíkur 1956-1961, í Kirchenmusikshule der Ev. Luth. Landeskirche í Hannover 1961-1966, Royal School of Church Music í London 1967 og 1968. Hann var undir leiðsögn hjá Fernando Germani í orgelleik í Róm og við Academia Musicale Chigiana í Siena á Ítalíu sumurin 1970 og 1972, sótti sumarnámskeið hjá Marie-Clair Alain við Academie Internationale d´orgue de Saint-Donat í Frakklandi 1981 og fjögur tónlistarnámskeið í Reykjavík.
Guðmundur var skólastjóri Tónlistarskóla V.-Barð. frá stofnun 1968-1970, Tónlistarskóla Vestmannaeyja frá 1970-2011. Hann var organisti í Patreksfjarðarkirkju 1968-1970, Landakirkju frá 1970-2011.
Hann hélt fjölda tónleika Kórs Landakirkju víðsvegar, svo og einleiks- og samleikstónleika.
Guðmundur eignaðist barn með Ásgerði 1967.
Þau Dagný giftu sig 1979, eignuðust tvö börn.

I. Barnsmóðir Guðmundar er Ágerður Ágústsdóttir, f. 14. apríl 1946.
Barn þeirra:
1. Ágúst Herbert Guðmundsson athafnamaður, körfuboltaþjálfari, f. 26. ágúst 1967, d. 1. janúar 2021.

II. Kona Guðmundar, (22. desember 1979), er Dagný Pétursdóttir (upprunalegt nafn Ubonwan Paruska), f. 20. mars 1949 í Thailandi.
Börn þeirra:
2. Rósa Guðmundsdóttir tónlistarmaður, f. 11. mars 1979. Hún er gift Moonli Shingha.
3. Védís Guðmundsdóttir sviðsstjóri á skrifstofu borgarstjóra í Reykjavík, f. 24. maí 1982. Sambúðarmaður hennar Hreggviður Vopni Hauksson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Guðmundur.
  • Íslendingabók.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.