Blik 1960/Nýborgarheimilið, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. janúar 2010 kl. 13:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. janúar 2010 kl. 13:23 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Ný síða: Efnisyfirlit 1960 ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON ==''Nýborgarheimilið''== <big>Hjónin Sigurður Sveinsson og<br> Þóranna Ingimundard...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1960



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Nýborgarheimilið

Hjónin Sigurður Sveinsson og
Þóranna Ingimundardóttir


Margar sagnir hafa af því farið hér í Vestmannaeyjum, hversu lífsbarátta fólks undir Eyjafjöllum, í Mýrdalnum og Vestur-Landeyjunum var gífurlega hörð um langan aldur og kjör alls almennings bág. Jarðirnar voru yfirleitt smáar og slægjur lélegar á útengi, sauðfé rýrt og um of treyst á lífsbjörg úr sjó, sem iðulega brást. Einnig voru samgöngur mjög slæmar sökum hafnleysis Suðurstrandarinnar. Því má heldur ekki gleyma, að enginn landshluti varð fyrir eins miklum skemmdum og skaða af eldgosum öld eftir öld eins og héruð Suðurlandsins. Sjávarútvegur var stopull, ekki sízt sökum hafnleysis suðurstrandarinnar. Sendin strandlengja fyrir opnu hafi, hvergi afdrep, hvergi skjól, „því að hafgang þann ei hefta veður blíð, sem voldug reisir Rán á Eyjasandi, þar sem hún heyir heimsins langa stríð,“eins og listaskáldið kemst að orði. Einasta lífhöfn sjómanna úr þessum byggðum var í raun og veru Vestmannaeyjahöfn, þarna úti í hafinu. Hver sú skipshöfn, sem ýtti frá sandi til fiskjar, var því í lífshættu, því að oft brimar snögglega við sanda Suðurstrandarinnar, og brýtur þá brattan á sandrifjum, jafnvel æði spöl frá landi.
Formenn hinna opnu skipa frá þessari löngu sjávarströnd sanda og hafnleysis, sem báru í hverjum róðri ábyrgð á 10— 20 mannslífum, þurftu í raun og sannleika að vera gæddir sérstökum eigindum í ríkum mæli. Þar reið á, að athyglin, íhyglin, glöggskyggnin á veður og sjólag ekki síður en kjarkurinn og dirfskan væru ríkir þættir í gáfnafari foringjanna.
Hin harða lífsbarátta þessa fólks og herzla í hörðu stríði hefur ekki orðið einskisvirði þessu byggðarlagi og bæjarfélagi, því að mjög mikill hluti þeirra mörgu sem hingað fluttust og ílengdust á síðustu öld og fyrri hluta þessarar aldar, kom einmitt frá þessum landshlutum, og öllu láglendi Suðurlands frá Ölfusá að vestan til Jökulsár á Breiðamerkursandi að austan.
Þessir innflytjendur og afkomendur þeirra hafa reynzt hér í Vestmannaeyjum með afbrigðum dugmikið fólk, djarft í sókn og framtakssamt, sem ekki hefur átt lítinn þátt í hinni heillaríku þróun atvinnulífsins og batnandi afkomu alls almennings og bæjarfélagsins í heild allan fyrri helming þessarar aldar. Þetta fólk á og hefur vissulega átt sinn hlut að því að gera garðinn frægan.
Einn af þessum dugmiklu og framtakssömu innflytjendum undan Eyjafjöllum á síðustu öld var Sigurður Sveinsson, bóndi, útgerðarmaður og smiður í Nýborg.
Sigurður Sveinsson fæddist að Rauðafelli undir Eyjafjöllum 28. júlí 1841. Hann ólst upp í foreldrahúsum við öll algeng bústörf og dvaldist þar til 24 ára aldurs.
Sigurður bóndi í Nýborg var sonur Sveins bónda að Rauðafelli Jónssonar prests Jónssonar í Stóradal. Kona Sveins bónda hét Þórunn Ólafsdóttir. Voru þeir Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi hér, faðir séra Jes A. Gíslasonar á Hóli og þeirra systkina, og Sigurður Sveinsson systkinasynir, með því að Anna dóttir séra Jóns Jónssonar í Stóradal var gift Stefáni stúdent Ólafssyni bónda í Selkoti undir Eyjafjöllum. Þóttu þeir frændur, Sigurður og Gísli, snemma fræknir, ungir menn, sem ekki létu sér allt fyrir brjósti brenna. Haustið 1864 gengu þeir t.d. á Eyjafjallajökul upp að Guðnasteini¹, sem í heiðinni tíð hét Goðasteinn. Þótti þetta hin frækilegasta för, og fáum fært þá að ganga svo á jökul, enda hún í minnum höfð og skráð í þjóðsögum. En 30 árum síðar eða 1894 klifu þeir bræður Ágúst og Stefán, synir Gísla Stefánssonar, Eldey með Hjalta Jónssyni, sem frægt er. Það er og vitað, að fræknleiki erfist. Þannig hafa dóttursynir Sigurðar í Nýborg og fleiri afkomendur reynzt liðtækir íþróttamenn í Vestmannaeyjum síðan íþróttafélög voru þar stofnuð og íþróttir iðkaðar til leika og keppni.
Snemma bar á handlagni og smíðahneigð Sigurðar drengs á Rauðafelli. Hann var því sendur til smíðanáms. „Snikkari“ skyldi hann verða. Til þess þurfti knappt minna en smíðanám í sjálfri Kaupmannahöfn. Þangað var hann því sendur til námsins. Þar lærði hann húsgagna- (mublu) smíði. Bráðlega að loknu því námi fluttist Sigurður Sveinsson hingað til Vestmannaeyja. Það var árið 1876. Gerðist hann þá fyrst um sinn starfsmaður hjá Gísla Engilbertssyni, verzlunarstjóra í Júlíushaab. Þessi Eyfellingur var glæsilegur maður að vallarsýn, og áberandi gáfaður. Búhygginn var hann og nýtinn, sparsamur og samhaldssamur, svo að nær gekk nurli og nízku í augum sumra Eyjabúa.
Ekki hafði Sigurður Sveinsson lengi dvalizt í Eyjum, er hann tók að sjá sér út tómthúslóð, þar sem hann gat ekki fengið jörð til ábúðar.
Sigurði Sveinssyni brann í brjósti framtaksþrá og sjálfsbjargarhugur og vildi verða fjáraflamaður. Það skyldi honum takast með mörgu vinnufólki og margþættum atvinnurekstri. Undirstaðan var fyrst og fremst jarðnæði eins og atvinnulífi var þá háttað, og nægilega stórt íbúðarhús. Ábúð jarðar var þá ekki auðfengin í Eyjum, því að börn tóku við jörðunum af foreldrum sínum lið fram af lið.
Jóhann Jörgen Johnsen í Frydendal og Sigurður Sveinsson urðu brátt miklir vinir, eftir að Sigurður fluttist til Eyja. Hélzt sú vinátta lengi síðan með þeim fjölskyldum. Vorið 1876 seldi Jóhann Jörgen Sigurði hálfa tómthúslóð í námunda við Frydendal, íbúðarhús sitt. Um sumarið og haustið vann Sigurður að því öllum stundum að byggja timburhús á þessari lóð. Það var ein hæð á lágum kjallara og með háu risi. Þar voru kvistar á gegn norðri og suðri. (Sjá Blik 1959, mynd af kauptúninu í Eyjum frá árunum 1876—1880 með skýringum). Þetta íbúðarhús sitt kallaði Sigurður Nýborg. Það bar af flestum eða öllum íbúðarhúsum í Vestmannaeyjum á þeim tíma og var sannkölluð „borg“ í samanburði við þau.
¹Sjá handrit Jóns Sigurðssonar frá Steinum í Landsbókasafni 421 8vo og Þjóðsögur Jóns Þorkelssonar.

•••

Um langan aldur eða líklegast frá landnámstíð Vestmannaeyja höfðu Kirkjubæjarbændur haft nytjar af Yztakletti. Á 16. öld var sá ráðsmaður konungs í Eyjum, er Símon Surbech hét. Hann þótti harðdrægur og ágengur við Eyjabændur, sem sendu á hann kærur til Alþingis. Surbech tók Yztaklett undan Kirkjubæjunum og gerði að sérstakri jörð, 49. jörðinni. Síðan fengu svo sýslumenn Eyjanna þessa túnlausu jörð til afnota og var hún nytjuð af þeim mann fram af manni.
M. Aagaard sýslumaður (1872—1891) breytti þessum ábúðarháttum og byggði Sigurði Sveinssyni Yztaklett árið 1877. Þá um haustið var gerð úttekt á Yztakletti. Hún er dags. 22. september. Talin er þar þá útigangsbeit handa 120 sauðkindum og slægjur handa einni kú. Fýlungaveiði að jafnaði um 4000 fuglar árlega og 3000 lundar í hlut jarðarinnar. Hér var því um mikil hlunnindi að ræða og góða aðstöðu fyrir athafnasaman og duglegan búhyggjumann eins og Sigurð Sveinsson. Þarna fékk hann aðstöðu til að koma sér upp stórum og góðum fjárstofni og stunda fuglatekju. Öll hlunnindin einsetti Sigurður sér að nota út í æsar. Jafnframt hugði hann til útgerðar í Eyjum. Til alls þessa atvinnureksturs þurfti mikið vinnuafl.
Fleiri höfðu sótt það að fá Yztaklett til nytja en Sigurður Sveinsson, t.d. vinur hans Jóhann J. Johnsen í Frydendal. Það varð að samkomulagi milli þeirra, að þeir skyldu ekki keppast um afnotaréttindin af Klettinum heldur skipta þeim á milli sín. Sigurður fékk svo afnotaréttinn af Yztakletti, eins og áður segir, en Jóhann J. Johnsen fékk að hafa þar margt fé í skjóli Sigurðar. Um margra ára skeið greiddi Sigurður Sveinsson árlega 200 kr. leigu eftir Yztaklett. Það var æði drjúgur peningur í þá daga.
Síðar mun ársleigan hafa verið hækkuð upp í 250 krónur.
Eftir fyrri heimsstyrjöldina, 1914—1918, breyttust ákvæði verðlagsskránna mjög mikið, og fór þá allt verðlag mjög hækkandi. Þá mun afgjaldið af Yztakletti hafa orðið 1000 kr. eða þar um bil. Þetta þótti Sigurði bónda gífurleg leiga, en afsalaði sér þó ekki Klettinum.
Um margra ára skeið mun Sigurður Sveinsson hafa sjálfur átt 60—70 fjár í Yztakletti, en leigði að öðru leyti sauðfjárbeit þar, svo að flest árin munu hafa gengið þar um 120 fjár, eins og kveðið er á í leigumálanum.
Þegar árlegt afgjald hækkaði svo mjög, mun Sigurður bóndi hafa hækkað beitargjaldið að sama skapi, svo að hann hafði jafnan endurgjaldslaust beit þar handa sínu eigin fé.
Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ stundaði árum saman fuglaveiðar í Yztakletti í skjóli Sigurðar Sveinssonar eins og margir aðrir þurrabúðarmenn í Eyjum. Telur Ólafur það vafalaust, að Sigurður hafi árlega borið úr býtum í sinn hlut um 3000 lunda og 4000 fýlunga, eins og tekið er fram í leigumálanum, þegar Sigurður tók Klettinn á leigu.

•••

Á tómthúslóð sinni lét Sigurður Sveinsson brjóta land og efndi þar og víðar á Heimaey til garðræktar í stærri stíl en áður hafði þekkzt í Vestmannaeyjum.
Þegar Sigurður Sveinsson hafði búið á hálfri tómthúslóðinni Nýborg í þrjú ár, fékk hann með samkomulagi við Jóhann J. Johnsen byggingu fyrir henni allri. Það var árið 1879. Það haust fékk hann uppskeru, sem nam 10 tunnum af kartöflum og rófum til samans, en 4 árum síðar nam garðuppskera hans 26 tunnum af kartöflum og 10 tunnum af rófum. Á þessum 4 árum varði Sigurður Sveinsson 600 krónum úr eigin vasa til húsa- og skipasmíða. Þetta var á þeim tíma mikið fé, þegar tímakaup nam aðeins 16—18 aurum. Auk þessara framkvæmda á þessum fyrstu búskaparárum sínum byggði Sigurður tvo vatnsbrunna úr höggnu grjóti við hús sitt og „sementaði“ þá innan, þ.e. múrhúðaði. Þær framkvæmdir kostuðu hann 130 kr. Brunnarnir tóku samtals 55 tunnur af vatni. Þannig bætti hann úr vatnsskorti heimilis síns, sem svo mjög var algengur í Eyjum þá.
Gerð þessara brunna Sigurðar Sveinssonar þóttu til fyrirmyndar húseigendum og heimilisfeðrum í Eyjum þá, og hafði sýslunefnd það á orði á fundi sínum og dáði framtak bóndans í Nýborg.
Allt þetta framtak Sigurðar Sveinssonar þótti þá einstakt í Vestmannaeyjum. Aðeins einn maður þar stóð honum þá framar í jarðyrkju, enda hafði hann 4 jarðir undir. Það var presturinn á Ofanleiti, séra Brynjólfur Jónsson. Hann settist að á Ofanleiti 1860. Var þá allt tún þar kargaþýft. Þegar hann dó, 1884, hafði hann lokið við að slétta hið stóra tún og töluvert af því með eigin hendi. Það mikla framtak prestsins varð fleiri Eyjabúum til fyrirmyndar og hvatningar en Sigurði í Nýborg.
Árið 1875 hafði Árni bóndi Diðriksson í Stakkagerði fengið fyrsta lundaháfinn frá Færeyjum til Eyja fyrir atbeina Bryde kaupmanns (N.N. Bryde). Til þess tíma hafði lundi verið veiddur í Eyjum um langan aldur í net eða með grefli bæði á Heimaey og í Úteyjum. Í þeirri veiði ríkti hin skefjalausa samkeppni, þar sem veiðikapp eins spillti veiði annars og beggja oft á tíðum. Sömu veiðihættir héldust í Eyjum fyrst í stað, eftir að háfurinn var tekinn í notkun. Tveir veiðimenn og jafnvel fleiri vildu hafa sama veiðistaðinn, en þeir eru misgóðir, svo sem kunnugt er. Þannig spilltu menn veiði hver fyrir öðrum með harðri keppni um veiðistaðina og þrauki og þrjózku á sama veiðistað. Af þessu risu einnig úfar með mönnum. Bændur í Eyjum sáu fljótlega gallana á þessum veiðiháttum, þegar háfurinn var tekinn í notkun, en samtök og staðfestar samþykktir skorti til úrbóta.
Hér var það, sem Sigurður Sveinsson ruddi brautir í félags- og menningarmálum Eyjamanna.
Svo sem áður greinir, hafði Sigurður í Nýborg einn afnotarétt af Yztakletti gagnvart ríkisvaldinu. Hann leigði síðan ýmsum tómthúsmönnum í Eyjum veiðirétt í Klettinum fyrir einhvern vissan hluta af veiðinni.
Sigurður sá það og skildi, að veiðihættirnir í úteyjum Vestmannaeyja og fjöllum, sem einkenndust af ofurkappi og skefjalausri samkeppni, spilltu bæði veiði og samlífi Eyjamanna. Hann afréð því sjálfur ákveðnar reglur um veiðihætti í Yztakletti. Þar skyldu allir veiða fyrir einn og einn fyrir alla. Síðan skyldi skipta dagveiðinni bróðurlega á milli sín, að sínu leyti eins og aflanum var skipt eftir róður hvern. Þetta gafst svo vel, að innan fárra ára höfðu allir Eyjamenn tekið upp þessa veiðihætti og hafa þeir haldizt síðan í Vestmannaeyjum².
Árið 1885 getur sýslunefnd þess í fundargjörð, að Sigurður Sveinsson í Nýborg hafi „tekið upp nýjan veiðimáta á lundanum“ fyrstur manna í Eyjum, og „allir leiguliðar hér eru farnir að breyta eftir dæmi hans í því tilliti,“ eins og segir í fundargerð sýslunefndar frá þessum tíma, og viðurkennir sýslunefnd þessa gagnmerku forustu Sigurðar Sveinssonar með miklu þakklæti.
Með notkun lundaháfsins, ekki sízt eftir veiðireglum Sigurðar Sveinssonar, var endi gjör á hina viðurstyggilegu veiðiaðferð með greflinum, sem naumast var mannsæmandi. Sama er í rauninni um netin að segja.
Klettsvík hefur frá ómunatíð fylgt Yztakletti og verið þar lendingarstaður. Þar höfðu árlega um langan aldur fundizt nokkur æðarhreiður. Eftir að Sigurður fékk byggingu fyrir Yztakletti, einsetti hann sér að koma upp arðvænlegu æðarvarpi í Klettsvík. Gerði hann allt, sem hann gat, til þess að hlynna að þeim fugli, sem þar verpti. M.a. flutti hann þangað sjófang honum til matar. Árangurinn varð sá af þessari aðhlynningu Sigurðar, að æðarvarp fór vaxandi í Klettsvík ár frá ári. Munu hreiður þar hafa skipt nokkrum tugum, þegar öfund og illkvittni nokkurra miður vel gerðra Eyjabúa spilltu varpinu og upprættu það.
Eins og drepið var á í upphafi þessa greinarkorns, var Sigurður Sveinsson sigldur og lærður húsgagnasmiður. Í Vestmannaeyjum reyndust lítil verkefni fyrir hann á því sviði. En þá sneri hann sér að húsbyggingum og var einn helzti húsasmiður í Eyjum á sinni tíð. Þau verk innti hann af hendi bæði fyrir einstaklinga og sýsluna.
Árið 1880 lét Brydeverzlun (Austurbúðin) byggja stórt verzlunarhús úr höggnu móbergi. Var Sigurður yfirsmiður við þá miklu byggingu. Sú bygging stendur enn í Eyjum, svo sem kunnugt er, og var um mörg ár eitt af stærstu húsum landsins, og er enn hin mesta bygging.
Árið 1883—1884 lét Vestmannaeyjasýsla byggja fyrsta skólahúsið þar. Það var einnig byggt úr tilhöggnu móbergi að dæmi Brydeverzlunar. Einnig þar var Sigurður Sveinsson yfirsmiður.
Allt smíðahandbragð Sigurðar Sveinssonar bar vott um meðfæddan hagleik og vandvirkni. Enn eru til í Eyjum húsgögn, sem Sigurður Sveinsson hefur smíðað, og bera þau meistaranum vitni.
²Hér er stuðzt við þekkingu og glöggskyggni Eyjólfs Gíslasonar á Bessastöðum og Árna Árnasonar símritara um allt, er að bjargveiði lýtur í Eyjum.

•••

Árið eftir komu sína til Vestmannaeyja eða 1877 kusu Eyjamenn Sigurð Sveinsson í hreppsnefndina. Þar átti hann svo sæti næstu 6 árin með þeim Þorsteini lækni Jónssyni, Þorsteini hreppstjóra í Nýjabæ og Gísla Engilbertssyni, verzlunarstjóra í Júlíushaab.
Árið 1883 kusu Eyjamenn einnig Sigurð Sveinsson í sýslunefnd sína. Í henni sat hann næstu 6 árin.
Árið 1885, í júnímánuði, kaus sýslunefnd Vestmannaeyja fyrsta sinn sérstaka nefnd til þess að annast rekstur barnaskóla sýslunnar, sem þá hafði verið starfræktur undanfarin 5 ár. Skyldi nefndin skipuð þrem sýslunefndarmönnum. Til þess að annast þetta trúnaðarstarf kaus sýslunefndin Sigurð Sveinsson ásamt séra Stefáni Thordersen, sóknarpresti, og Gísla Stefánssyni, bónda í Hlíðarhúsi. Það var fyrsta skólanefnd Vestmannaeyja. Árið áður hafði sýslunefnd falið Sigurði Sveinssyni það sérstaka trúnaðarstarf fyrir hennar hönd að vera gjaldkeri barnaskólans, annast fjárreiður hans. Hann gerði það einnig, eftir að skólanefndin var kosin. Um skeið var hann einnig skipaður prófdómari við barnaskólann.
Þegar Sigurður Sveinsson fluttist til Vestmannaeyja, kom með honum barnsmóðir hans með barn þeirra, sveinbarn, tveggja ára, að nafni |Árni. Þessi barnsmóðir Sigurðar og heitmey, að álykta verður, hét Guðrún Árnadóttir. Hún var fædd að Stóru-Heiði í Hvammshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 26. ágúst 1854, og var hún þannig 13 árum yngri en Sigurður. Guðrún var dóttir Árna sýslumanns Gíslasonar að Kirkjubæjarklaustri. Móðir Guðrúnar var Þuríður Guðmundsdóttir frá Drangshlíð undir Austur-Eyjafjöllum, og var Guðrún laundóttir þeirra. (Sjá íslenzkar æviskrár). Amma Guðrúnar Árnadóttur í föðurætt var Ragnheiður systir Bjarna Thorarensens skálds.
Þegar Sigurður Sveinsson hóf búskap í Nýborg haustið 1876, gerðist Guðrún Árnadóttir „bústýra“ hans og höfðu þau barnið hjá sér. Þannig gekk það næstu 5 árin.
Árið 1881 slitnaði upp úr sambúð þeirra Guðrúnar og Sigurðar, og hvarf hún burt af heimilinu. Það ár hefur Sigurður Sveinsson orðið þrjá vinnumenn, þrjár vinnukonur, niðursetning og lausamann. Átvinnurekstur hans og framtak færist í aukana ár frá ári. Árið, sem Guðrún Árnadóttir fer frá honum, býr hann í Nýborg við 11. mann.
Guðrún Árnadóttir giftist síðar Eggerti Ólafssyni í Götu, sem margir sögðu að bæri þess merki, að hann væri launsonur Kohl kafteins og sýslumanns. Móðir Eggerts Ólafssonar var Margrét Ólafsdóttir, er var um skeið bústýra hjá Kohl sýslumanni. Guðrún Árnadóttir andaðist stuttu eftir að hún giftist Eggerti.

II. hluti