Blik 1969/Endurminningar II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. nóvember 2009 kl. 16:44 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. nóvember 2009 kl. 16:44 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Háseti gerir uppreisn; hann hýrudreginn

Í einum af fyrstu róðrunum, er ég var með bát þennan, fór ég suður með Heimaey og leitaði fisks á miði því, er Siggamið heitir. Við komumst brátt í nægan fisk. Sagði ég þá öðrum andófsmanni mínum, sem Auðunn hét, að renna, því að hinn andófsmaðurinn gæti haldið báðum árunum. Vestan kaldi var á. Hásetinn neitaði að renna færi sínu með þeim ummælum, að ég hefði víst sett sig í andófið til þess að andæfa. Þá sagði ég honum að andæfa einum, svo að Ólafur, en svo hét hinn andófsmaðurinn, gæti rennt. Þá kvaðst Auðunn ekki vera skyldur til að róa nema einni ár, enda kvaðst hann ekki róa með fleirum. Jafnframt kvaðst hann ætla að sýna mér, að hann gerði aðeins það, sem honum sjálfum sýndist. Kvaðst hann ekki sjá, að mér færist að gera mig stóran, þó að ég væri formaður með bátshorn þetta. Fleira sagði hann í líkum tón. Í róðri þessum fengum við 20 í hlut.

Þegar við fórum að skipta aflanum, kom stúlka til að hirða afla Auðuns, „draga hann úr Sandi“. Þá sagði ég henni, að Auðunn fengi engan hlut; hún gæti því farið heim.

Áður en skiptum var lokið, kom húsbóndi Auðuns og spurðist fyrir um það, hverju það sætti, að vinnumaður sinn yrði svo afskiptur. Ég sagði honum sem var, að Auðunn hefði ekki hlýtt forsvaranlegum fyrirskipunum og við liðið fiskitap sökum þess, enda gæti hann haft Auðunn sjálfur, - ég mundi ráða mér mann í stað hans.

Þegar hásetar mínir sögðu hið sama um óhlýðni Auðuns, bað húsbóndinn mig að reyna hann einn róður enn, sem ég og gjörði.

Eftir þetta atvik var Auðunn boðinn og búinn til alls, er honum var sagt, enda sýndi hann aldrei hina minnstu óhlýðni upp frá þessu, meðan hann var með mér.

Með sexæringinn Ingólf vertíðirnar 1892, 1893 og 1894

Vertíðirnar 1892-1893 var ég formaður á skipi sem Ingólfur hét. Ólafur Magnússon í London smíðaði það og var einn eigandi þess. Þetta var sexæringur, og rérum við 14 á honum.

Fyrstu vertíðina (1892) fengum við 209 í hlut. Það var mjög rýr vertíð. Næstu vertíð (1893) fengum við 387 í hlut. Og þar næstu vertíð (1894) 420. Aldrei hrepptum við vont veður á Ingólfi þessar þrjár vertíðir.

Eins og ég gat um, þá fiskuðum við vel á Ingólfi báðar síðari vertíðirnar, eftir því sem þá taldist góður afli.

Þá ympraði Ólafur Magnússon á því við mig, hvort ég vildi ekki verða hjá sér formaður á stórum áttæringi. Hann gat þess, að svo legðist það í sig, að næstu árin yrðu aflaár. Nú vildi hann stækka Ingólf og gera hann að áttæringi, - stærsta áttæringi í Eyjum.

Ég leitaði nú ráða föður míns sem oftar, - spurði hann hvað hann legði til þessara mála. Hann latti mig mjög og sagði ýmsa formenn, sem hefðu fiskað vel á minni skip, aflað illa á þau hin stærri. Nefndi hann nokkur dæmi þessa. Þá óttaðist hann, að ég kynni ekki að stilla sjósókn minni í hóf, þegar ég væri búinn að fá eitt af hinum stærstu skipunum. Einnig ræddi ég þetta við ýmsa háseta mína, - mest við þá yngri, og hvöttu þeir mig eindregið til að taka tilboði Ólafs.

Nokkru síðar tjáði ég Ólafi í London það, að ég tæki tilboði hans um áttæringinn.

Nokkrum dögum eftir vertíðarlok (1894) byrjaði Ólafur á verkinu.

Með áttæringinn Ingólf, stærsta áraskipið í Eyjum, vertíðirnar 1895-1904 eða 10 vertíðir alls

Áttæringurinn Ingólfur var 25 fet (7,5 m) á kjöl. Millum stefna var hann 32 fet (9,6 m) og 11 feta (3,30 m) víður. Dýptin var 4-5 fet (1,20 -1,50 m) .

Vertíðina 1895 hóf ég svo róðra á þessu skipi. Síðan var ég með það í 10 vertíðir eða til vertíðarloka 1904.

Ingólfur reyndist hið ágætasta skip, eins og flestir þeir áttæringar, sem hér gengu á vetrarvertíðum. Við vorum 19-20 á þessu skipi. Þar að auki oft 1-2 drengir, meðan færin voru notuð, - hálfdrættingar.

Á Ingólfi var loggortusigling, eins og tíðast var um önnur skip hér. Siglutrén voru tvö. Framsiglan reis á mörkum kjalar og stefnis. Aftursiglan reis miðskips og var mun hærri en framsiglan. Afturseglið var mikið stærra en framseglið. Útleggjari (bugspjót) var hafður og oftast eitt forsegl, en á þessum áttæringi var einnig stagfokka. Árar voru 8 og voru 9 álna langar (5,67 m).

Síðar, eða eftir að lína og lóð varð hér aðal-veiðarfærið, voru árarnar bæði styttri og grennri. Þá var settur barka- eða skutróður á áttæringana og hætt að „falla á“, sem oft var áður gjört.

Áttæringurinn

Áttæringnum, eins og minni bátunum, var skipt í rúm. Fremst var barki. Næst fyrir aftan barkann var andófsrúmið, þá fyrirrúmið og svo miðskipsrúm. Aftast var austurrúmið og svo formannssætið. Aftan við það skuturinn.

Í barka, skut og miðrúmi voru pallar uppi í miðjum síðum. Hétu þeir fótafjalir. Einnig voru í öllum róðrarrúmum skipsins þvertré til þess að spyrna í, þegar róið var. Þessi tré hétu fótatré.

Bæði í barka og skut voru hafðar fjalir til að sitja á, þegar færunum var rennt - barkafjalir og skutfjalir.

Í botni skipsins, nema í austur og fyrirrúmi, voru þiljur, til þess að leggja fiskinn á, sem fyrst var dreginn. Hét það „að leggja á þiljur". Það var gjört til þess að sjór rynni betur til austurrúms og stæði ekki kyrr í rúmum þeim, sem fiskur var í. Í austurrúmi og fyrirrúmi voru austurtrog til að ausa með. Bitinn (þóftan), sem aðskildi skut og austurrúm, var eiginlega stokkur, er náði þvert yfir skipið. Hann var hólfaður sundur og op á. Í hólfum þessum voru geymd ýmis smærri tæki eða áhöld, svo sem seilarnálar (gjörðar úr hvalbeini), hamar, öxi o. fl.

Á bitann annars vegar var negld svo kölluð bitafjöl. Á henni stóð nafn skipsins útskorið og ártalið, er það var byggt. Einnig var á fjöl þessari, sérstaklega í eldri skipum, vísa eða vers. Efni hennar var bæn til guðs um það, að skipi og skipshöfn farnaðist vel. Ég set hér eina bitavísu sem sýnishorn:

Ljúfur guð um landahring
leiði af miskunn sinni
menn og skipið Mýrdæling,
mein svo ekkert vinni.

Í formannssæti eða skut var höfð varastýrissveif. Framan á formannssætinu var áttaviti í þar til gerðum umbúðum og festingum. Þá var einnig í formannssætinu geymdur stokkur með nöglum og fleira, er að gagni gat komið.

Siglutrén voru lögð miðskips, hvort við annars hlið, og seglin ofan á þau.

Þegar róið var, sátu menn við árar sitt hvoru megin á þóftunum, þegar fallið var á.

Verkaskipting háseta

Öllum hásetum var skipað á sinn stað á skipinu. Í því sambandi voru þeir oft kenndir við rúmin sín í skipinu, t.d. framá- eða barka-menn, andófsmenn, fyrirrúms-, miðskips- og austurrúmsmenn, og svo að síðustu bita- og miðskutsmenn. Allir þessir menn höfðu sérstökum störfum að gegna á skipinu. Andófsmenn áttu alltaf að andæfa undir færum. Fyrirrúmsmenn lögðu næstir út árar í andófi. Einnig bar þeim að ausa, ef austurrúmsmaður hafði ekki við.

Þá kom röðin næst að austurrúmsmönnunum, og þyrftu allir að andæfa, urðu miðskipsmenn að leggja út. Þá var það kallað „allra manna andóf“. Þeir af skipshöfninni, sem skipuðu skiprúm fyrir framan andófsrúm og aftan austurrúm, voru líka oft kallaðir yfirskipsmenn.

Miðskipsmenn áttu að ýta skipi og fara síðastir upp í skip. Þeim bar einnig að taka á móti, þegar skipið lenti. Þá komu bitamenn í þeirra stað og réru í þeirra rúmi.

Miðskipsmenn áttu að reisa siglutrén, - „ganga undir möstrum“, eins og það var kallað - þegar sigla átti. Eins skyldu þeir taka á móti siglutrjánum, þegar þau voru felld.

Fremsta framá-manni bar að sjá um klífi, t. d. rifa hann og draga upp. Hann var líka stundum kallaður húmborumaður.

Barkamenn sáu um framseglið. Skutmenn og þeir, sem um róðurinn voru, sáu um afturseglið.

Fjórir stagir voru á hvoru siglutré. Þeir voru hertir með köðlum, sem hétu „undirgjarðir“.

Tveir menn voru hafðir til þess að gefa eftir á seglum, þegar misvindi var. Hét það að gefa eftir eða „slaka á pikknum“. Eins var gjört á lensi, þegar stórar kvikur komu að skipinu. Stundum voru seglin höfð þanin sitt á hvort borðið. Það hét að sigla „tveggja skauta byr“.

Vissir menn áttu að seila fiskinn. Fór það eftir því, hvar seila þurfti úr skipinu. Öðrum bar að bera upp siglur og árar, áður en skip var sett. Þeir sóttu einnig „farviðina“, þegar búið var að setja skipið fram.

Fyrsti kippur. „Að sigla fleyi og sofa í meyjarfaðmi ...“

Þegar róið var og komið út á miðja Víkina, var „hvílt“. Það var kallaður „kippur“, - fyrsti kippur sjóferðarinnar. Svona var haldið áfram að hvíla, þegar ekki var siglt, þar til komið var í fiskileitir. Ætlazt var til, að hver kippur væri sem næst 10 mínútur. Þegar verið var á færum og kippt var á fiskimiðum, hvíldu yfirskipsmenn þá, er andæft höfðu.

Mjög þótti ákjósanlegt að fá góðan byr og hagstæðan úr höfn, en þó enn betra að fá hann í land.

Löngum þótti það ánægjulegt að sigla í góðum og hagstæðum byr á góðu og skemmtilegu skipi. Þó átti það stundum sér stað, að hagyrðingar tóku til að yrkja og létu þá í ljós gleði sína og nautn, - þá mestu eða næstmestu, sem þeir nutu á lífsleiðinni. Ég birti hér tvær vísur af mörgum:

Að sigla á fríðum súðahæng,
segja lýðir yndi;
blakki ríða og búa í sæng
baugahlíðar undir væng.
Að sigla á fleyi og sofa í meyjarfaðmi
ýtar segja yndið mest, -
og að teygja vakran hest.

Í norðanátt var oft siglt undir Sand á stærri skipunum, þó að einrifa þyrfti. Stundum kom það fyrir „að siglt var í logni“, þegar komið var austur með Sandi.

Eitt sinn sigldum við frá Faxaskeri með öllu einrifuðu og fyrir Elliðaey að norðan. Þegar við komum skammt austur fyrir eyna, varð að rifa meira. Þannig var haldið áfram um hríð. – Enn hvessti. Að síðustu var rokið orðið svo mikið, að ekki þoldi nema með einu segli tvírifuðu. Með þessari seglpjötlu sigldum við undir Bjarnarey. Þá fór heldur að lægja. Undan Bjarnarey sigldum við með öllu tvírifuðu.

Þegar við svo ætluðum að draga niður segl á Víkinni, stóð allt fast af gaddi, svo að seglin náðust illa niður, enda var frostið 13 stig.

Þennan sama morgun komust tvö skip, sem höfðu verið all-langt á undan okkur, í logn fram af Holtsvörðum. Fengu þau þar nægan fisk, en tóku aðeins hálffermi. Sigldu þau svo út með Sandi og hleyptu síðan „út í Eyjar“, þegar þau áttu nógu liðugt að sigla.

Landkrabbar á sjó

Eitt sinn rérum við í norðan blæ og ládauðum sjó. Þegar við vorum að fara út Leiðina, urðum við þess varir, að stór síldartorfa óð undir Heimakletti nokkru utar en móts við Hringskerið. Við héldum á síldartorfuna. Þarna renndum við færum og drógum fljótlega um 600 fiska. Eftir stutta stund komu tvö jul mönnuð verzlunrarmönun til okkar, og renndu þeir færum þarna.

Skyndilega tók að brima af austri.

Formaður, sem var að koma af sjó, ráðlagði verzlunarmönnunum á julunum að flýta sér í land, ef þeir vildu komast inn Leiðina vandræða- og áhættulaust. Það gerðu þeir.

„Aðgæzluverð Leið“! „Ófær Leið“!

Okkur rak út undir Klettshelli og vorum þá orðnir létthlaðnir. Þá var komið svo mikið brim, að boðuð hafði verið „aðgæzluverð Leið“ með einu flaggi. Brimið jókst látlaust, svo að við höfðum uppi og féllum á árar inn Leiðina. Þegar við vorum staddir utantil á „grynnstu legu“, var verið að draga upp annað merkiflaggið, sem þýddi „ófær Leið“. Við vorum því á síðasta augnablikinu að komast inn úr Leiðinni, áður en „flaggað var frá“. Þennan dag urðu mörg skip að lenda á Eiðinu og nokkur þeirra með fullfermi.

Barningur á „Hannibal“. Holdvotir, matarlausir og drykkjarvatnið að ganga til þurrðar. Treysta skal á þrek og þor!

Eftir þessa vertíð réri ég eitt sinn á bátnum Hannibal suður að Geirfuglaskeri. Það var um varptímann. Nokkru áður höfðum við komizt þangað á julinu Immanúel, sem áður er nefnt í frásögnum þessum.

Við höfðum í undanförnum róðurum alltaf orðið að fleygja fleiri og færri stórum lúðum til þess að getat tekið þorsk í þeirra stað eða smærri lúður, sem voru hafða í rikling. Þetta var ástæðan til þess að við fengum okkur stærri bát en julið Immanúel.

Við rérum 7 á Hannibal.

Um morguninn, þegar við rérum, var logn en dimmt í lofti. Þegar við komum í fiskileiðir suður við Geirfuglasker, var að byrja að kula austan. Við komumst þarna í allgóðan fisk á vissum bletti.

Austankulið varð brátt að stormi. Þá var ekki lengur til setu boðið. Sett voru upp segl og haldið heim á leið. – Brátt rokhvessti, svo að við urðum að rifa öll segl. Okkur hrakti mjög af leið, því að vesturfallið var sérstaklega hart. Vestur af Álfsey hættum við að sigla og tókum að berja undir eyna. Allt var í einu rokkófi, er við loks náðum undir Álfsey. Flestir hásetar mínir lögðu til, að við lægjum undir Moldarnefinu og biðum þess að lygndi. Það vildi ég ekki. Ég benti á, að við værum flestir eða allir meira og minna blautir; einnig værum við matarlausir og drykkjarvatn næst gengið til þurrðar; engrar hjálpar væri að vænta úr landi.

Svo var seglubúið og lagt á stað inn eftir flóanum sunnan verðum. Mikil var ágjöfin austur flóann, en allur seglaumbúnaður var traustur og bilaði ekki þótt í blési. Við náðum fyrir Hænu. Þá voru felld segl og tekið að berja austur með Heimaey norðanverðri. Lengi vorum við að berja austur að Örn og strangt var austur á Eiði. – Þegar þangað kom, var þar enginn maður, því að enginn gat búizt við, að við drægjum þangað. Við settum því upp veifu á Eiðinu, eins og stundum var gjört. Eftir stuttan tíma tók fólkið okkar að tínast inneftir. Það færði okkur kaffi og brauð, og var hvorttveggja vel þegið eftir allan hrakninginn og barninginn.

Við sjóróðra í Mjóafirði sumrin 1895 og 1896 með Vigfúsi í Holti og Jóni í Brautarholti. Sjórinn sóttur af kappi og metingi. Þarna lærðu Eyjasjómenn að nota línu. Síðar ruddu þeir línunni braut í heimabyggð sinni.

Sumarið 1895 og 1896 fórum við Vigfús í Holti og Jón í Brautarholti austur í Mjóafjörð til þess að stunda fiskveiðar. Við vorum ráðnir hjá Vilhjálmi Hjálmarssyni á Brekku.

Fyrra sumarið höfðum við 1/6 af aflanum í kaup, og Jón og Vigfús fengu sínar 50 krónurnar hvor um mánuðinn. Síðara sumarið fengum við 1/3 af afla bátsins og þeir 50 krónur um mánuðinn. Við skiptum fiskinum og kaupinu jafnt á milli okkar.

Vigfús í Holti hafði verið í Mjóafirði áður og þekkti þar flest fiskimið, enda kom það sér vel, þegar við fórum að róa. Ég vildi því, að Vigfús yrði formaður okkar. Það vildi hann ekki vegna þess, að ég var formaður hans heima á vetrum.

Bátur sá, er við fegnum til að róa á, bar hlaðinn 2 skp. (320 kg) af óhausuðum fiski. Og er þá miðað við þurran fisk.

Annan róðrarbát átti Vilhjálmur. Hann var talinn bera 1/3 meira en okkar bátur. Fyrra sumarið var maður að nafni Sigurður með bát þennan, en síðara sumarið hét hann Jón. Báðir voru þessir menn Sunnlendingar frá veiðistöðvum á Suðurnesjum. Hásetar þeirra voru einnig þaðan. Þessi skipshöfn var kappsöm og dugleg og aflaði mjög vel bæði sumurin.

Fyrra sumarið hófum við róðra 1. júní og enduðum sumarúthaldið 20. september. Við öfluðum það sumar 22.526 fiska í 66 sjóferðum.

Síðara sumarið hófum við róðra 29. maí og hættum róðrum 3. nóvember. Við öfluðum þá 33.707 fiska í 101 sjóferð.

Bæði þessi sumur fleygðum við mjög miklum fiski, því að iðulega gátum við ekki tekið allt af lóðinni, þó að við hausuðum. Þó var lóðin ekki lengri en 960 krókar.

Á sunnudögum var aldrei róið, og línan eða lóðin var alltaf látin í stokktré á laugardagskvöldum, meðan róið var. Það var kallað að „stokka upp“ línuna.

Ég hafði aldrei séð þorskalóð fyrr en ég kom austur í Mjóafjörð. Fyrsta laugardagskvöldið, sem ég dvaldist þar, fór ég á undan félögum mínum til að stokka upp bjóðið mitt (línuna mína), því að við rérum með línu strax eftir að austur kom. Ég hafði lokið við að stokka upp svo sem ¼ af línunni, þegar þeir Vigfús og Jón komu í beitningarskúrinn. Þá var þeim skemmt. – Ég kunni sem sé ekki betur að stokka upp línu en svo, að allir krókarnir snéru öfugt: Oddurinn inn að miðju en bugur króksins utan á trénu. Stokktrén voru af gömlu gerðinni. Vigfús taldi það mikið lán og herlegheit fyrir mig og alla Vestmannaeyinga, að enginn nema þeir tveir vissu vankunnáttu mína um meðferð línunnar.

Fiskverð á Austfjörðum sumarið 1895

Bæði þessi ár (1895 og 1896) var verð á þurrfiski í Mjóafirði sem hér segir:

Þorskur kr. 32,00 hvert skippund
Smáfiskur kr. 28,00 hvert skippund
Ýsa kr. 24,00 hvert skippund

(41,4 cm). Skippund er 320 pund eða 160 kg.

Smáfiskur, þ.e. minni en 18 þm. (41,4 cm). Skippund er 320 pund eða 160 kg.
Síld var notuð í beitu, ýmist nýveidd eða frosin. Alltaf var þó notað eitthvað af ljósabeitu með, væri hún til, en svo hét steinbítur og karfi (t.d.), ef fiskurinn af þeim var notaður í beitu.
Við rérum alltaf með lóð að undanteknum þrem róðrum síðara sumarið. Oftast sóttum við mjög langt, þegar veður leyfði, eða 2-2½ tíma róður til hafs frá utasta tanga fjarðarins, Steinsnesi. Innan frá Brekku var 1¼ tíma róður út að Steinsnesi.
Mikið var kappið í sjósókn við Mjóafjörð um þessar mundir, enda gengu þar þá um 60 bátar.
Eftir því sem okkur var tjáð, þá fiskuðum við mest við fjörðinn bæði þessi sumur. Var þá miðað við þyngd. Við lögðum líka hið mesta kapp á að fiska, og metnaður okkar var svo mikill, að okkur fannst að heiður Vestmannaeyja lægi við, ef Sunnlendingar aðrir og heimamenn fiskuðu betur en við.
Þeir sem réru á opnum bátum fyrir austan, sérstaklega frá Seyðisfirði og Mjóafirði og sóttu djarft, fengu vissulega að kynnast því, hve erfitt og hættulegt var að sækja sjó á Austfjörðum.
Þegar fór að líða á síðara sumarið, vorum við orðnir svo slæmir af handadofa, að við urðum að byrja á því að halda handleggjunum ofan í köldum sjónum, áður en við hófum róður á morgnana eða síðari hluta nætur. Það kom fyrir, að ég missti ár úr hendi mér sökum handadofans; ég réri með tveim árum.
Oft var lóðin mjög þung í drætti, bæði sökum straums og festu í botni. Þegar maður svo loks hafði lokið við að draga lóðina, kom það fyrir, að berja þurfti alla leið í land. Smáfiskur, þ.e. minni en 18 þm. (41,4 cm). Skippund er 320 pund eða 160 kg.
Síld var notuð í beitu, ýmist nýveidd eða frosin. Alltaf var þó notað eitthvað af ljósabeitu með, væri hún til, en svo hét steinbítur og karfi (t.d.), ef fiskurinn af þeim var notaður í beitu.
Við rérum alltaf með lóð að undanteknum þrem róðrum síðara sumarið. Oftast sóttum við mjög langt, þegar veður leyfði, eða 2-2½ tíma róður til hafs frá utasta tanga fjarðarins, Steinsnesi. Innan frá Brekku var 1¼ tíma róður út að Steinsnesi.
Mikið var kappið í sjósókn við Mjóafjörð um þessar mundir, enda gengu þar þá um 60 bátar.
Eftir því sem okkur var tjáð, þá fiskuðum við mest við fjörðinn bæði þessi sumur. Var þá miðað við þyngd. Við lögðum líka hið mesta kapp á að fiska, og metnaður okkar var svo mikill, að okkur fannst að heiður Vestmannaeyja lægi við, ef Sunnlendingar aðrir og heimamenn fiskuðu betur en við.
Þeir sem réru á opnum bátum fyrir austan, sérstaklega frá Seyðisfirði og Mjóafirði og sóttu djarft, fengu vissulega að kynnast því, hve erfitt og hættulegt var að sækja sjó á Austfjörðum.
Þegar fór að líða á síðara sumarið, vorum við orðnir svo slæmir af handadofa, að við urðum að byrja á því að halda handleggjunum ofan í köldum sjónum, áður en við hófum róður á morgnana eða síðari hluta nætur. Það kom fyrir, að ég missti ár úr hendi mér sökum handadofans; ég réri með tveim árum.
Oft var lóðin mjög þung í drætti, bæði sökum straums og festu í botni. Þegar maður svo loks hafði lokið við að draga lóðina, kom það fyrir, að berja þurfti alla leið í land.

Þeir sigla á hval

Eitt sinn vorum við, að mig minnir, rúmar 7 klukkustundir að berja inn að fjarðarkjafti og þaðan 4 klst. inn að lendingu. En eftir að yztu nesjum var náð, gátum við hvílt okkur öðru hvoru. Skrifa mætti langt mál um allt það erfiði, sem þessir 167 róðrar eða sjóferðir kostuðu okkur, og um ýmsar hættur, sem við lentum í. Ég greini hér aðeins frá tveim af þeim.
Eitt sinn vorum við nýbyrjaðir að sigla til lands í góðum byr. Þá rennir smáhveli sér þvert fyrir stafn bátsins og svo nærri honum, að báturinn rann á fiskinn miðjan. Svo virtist sem hvalurinn næmi staðar um leið og báturinn snerti hann. Um leið virtist hvalurinn sveigja sig um miðjuna, því að haus hvalsins kom upp úr yfirborðinu á annað borðið og sporðurinn á hitt. Báturinn lagðist á hliðina um leið og hann lenti á hvalnum og rann svo yfir hann. En um leið og báturinn rann af hvalnum, fór svo mikill sjór yfir hann aftanverðan, að litlu munaði, að hann sykki. Þá var það okkur til bjargar, hve báturinn var létthlaðinn. Þetta atvik sýnir, að margar eru hætturnar búnar þeim, sem um sjóinn fara, — sérstaklega á smáfleytum.

Geigur í garpi. Erfiðar draumfarir. Gat búizt við lífsháska, enda rættist draumurinn. „Það þykir mér verst, ef við drepum okkur, að ég er ekki búinn að borða bitann minn!“

Síðara sumarið, sem við rérum úr Brekkuþorpi, fórum við eitt sinn á sjóinn kl. 1 að nóttu. Þá var liðið fram í september.
Þessa nótt rérum við langt á undan öðrum fjarðarmönnum, eins og við gerðum jafnan, þegar góð voru veður, því að okkur þótti það miklu fiskilegra að vera búnir að leggja lóðina á undan öðrum.
Þessa nótt var logn og heiður himinn og veður hið fegursta. Þó lagðist þessi róður mjög illa í mig. Mig dreymdi þannig, að ég gekk þess ekki dulinn, að ég mundi komast í lífsháska á sjó, áður langt liði. Ég hafði orð á þessu við félaga mína, Jón og Vigfús. Við fórum nú samt í lengstu fiskileitir, því að veðurútlitið var mjög gott. En slíkur geigur var í mér við draum minn, að ég lagði ekki nema 2/3 af línunni, enda þótt Vigfús léti undrun sína í ljós, þar sem stillilogn var og heiðríkja.
Þegar við höfðum lokið við að leggja það, sem lagt var, tók að birta í norðaustri. Þá birtist veðurbakki í þeirri átt. Hann hækkaði brátt.
Þegar lóðin hafði legið fjórðung stundar, skipaði ég að róa að endabóli og fara að draga. Jón mæltist til þess, að hann fengi að borða áður, en ég neitaði því. Um það bil sem stjórinn var innbyrtur, hvessti snögglega af austri-norðaustri.
Fiskur var nægur, og þegar við hófum drátt á síðara bjóðinu, var miðrúmið orðið hálft og skutur hálfur af fiski. Öllum fiskinum á lóðinni, sem þá var ódregin, fleygðum við, enda var nú komið hvassviðri með miklum sjó, því að harður straumur fór á móti storminum.
Við sigldum aðeins á þríhyrnunni einni heim, og þó hljóp báturinn oft og tíðum hættulega mikið.
Alla leiðina heim urðu þeir báðir Jón og Vigfús, að standa í austri og hvíla hvorn annan.
Seinna kom okkur saman um, að ekki sjaldnar en 20 sinnum hefði bátinn hálffyllt á siglingu þessari. Eitt sinn skall á okkur ólag, sem færði mig í kaf, þar sem ég sat undir stjórn. Hélt ég þá, að sjóferð þessari væri lokið. Þá flaug sú hugsun eins og leiftur í gegnum huga minn, að nú væri um enga björgun að ræða, og sorgbitin yrði hún móðir mín, er hún frétti látið mitt. Flest lauslegt í bátnum fór fyrir borð. Þar með var fiskurinn. Mig minnir, að 4 fiskar væru eftir í miðrúminu.
Eftir að ólagið var liðið hjá, fór báturinn að lyfta sér, enda dró Jón ekki af sér við austurinn. Þegar hann hafði þurrausið bátinn, bað hann Vigfús að hvíla sig og bætti þá við: „Það þykir mér verst, ef við drepum okkur, að ég er ekki búinn að borða bitann minn.“

Borið við að veiða á línu — enginn árangur

Meðan formenn hér þekktu ekkert til þorskveiða á línu, töldu þeir víst, að helzt mundi á hana veiðast, þegar fiskur var hvað örastur á færi. En þá er fiskurinn uppi í sjó og eltir þar æti. Það skildu þeir ekki þá, hinir reyndu formenn. Sumir fengu þess vegna þá hugmynd, að fiskur hér væri þess eðlis, að hann veiddist aldrei á línu.
Sumir héldu línuna stórrhættulega fiskveiðum, nema þá skötulóðina. Í öllum veiðistöðvum landsins, sem nokkuð kvað að, var þorsklóðin orðin aðalveiðarfærið hjá landsmönnum seint á 19. öldinni, nema þar sem þorskanetin skipuðu öndvegissessinn, eins og sumstaðar á Suðurnesjum við Faxaflóa. Hér í Vestmannaeyjum var árið 1896 enn notað sama veiðarfærið eins og í fornöld eða þegar fiskveiðar hófust fyrst hér, það er að segja handfærið.
Vestmannaeyingar höfðu þó kynnzt lóð fyrir mörgum árum, sérstaklega á Austfjörðum, enda höfðu verið gjörðar lítilsháttar tilraunir hér með lóð fyrir 1896. Verzlunarstjóri við hina svo nefndu Miðbúð, J. Thomsen að nafni, sem var kominn hingað af Vesturlandi og hafði kynnzt lóðinni þar, hafði stundum, eftir að hann fluttist hingað, lagt lóð hér úti í Flóanum að sumarlagi, en engar sögur fara af afla hans. Hann mun hafa aflað lítið, enda tilraun þessi enga eftirtekt vakið til eftirbreytni.
Hannes Jónsson, hafnsögumaður, skýrði mér frá, að hann ásamt fleirum hefði náð sér í fjóra strengi af lóð frá Faxaflóa. Ekkert varð þó úr því, að þeir reyndu línuna fyrst um sinn.
Eitt sinn kom mikið fiskihlaup hér um Bershúsaklakkinn og inn í Flóann. Hlaup þetta var samfara síldargöngu, því að fiskur sá, er veiddist, var með fullan maga af síld og var mikið af henni ómelt.
Nú fannst Hannesi og þeim, sem áttu lóðina með honum, gefast gott tækifæri til að reyna hana, því að þeir höfðu heyrt það, að síld væri einhver allra bezta beitan á þorskalóð. — Þeir fengu nóg af góðri síld til þess að beita lóðina með. Þeir lögðu svo lóðina, þar sem bátarnir höfðu hlaðið á færin.
Vonbrigðin urðu mikil, því að þeir fengu einn smáfisk á lóðina.
Eg hafði líka heyrt þá sögu, sem var sönn, að Sigurður Sigurfinnsson, síðar hreppstjóri, hefði keypt sér þorskalóð til þess að reyna hana á vertíðarskipi hér. Eitt sinn á vertíðinni beitir hann lóðina með þorskhrognum og leggur hana síðan „undir Sandi“. Þann dag tvíhlóðu færaskipin þar, svona flest þeirra a.m.k.
Sigurður fékk hinsvegar lóðina seilaða af háf.
Eftir að þessi tilraun misheppnaðist hjá Sigurði, reyndi hann aldrei að leggja lóðina aftur; flestir munu hafa haft þá trú, að það væri alveg tilgangslaust, og jafnvel héldu sumir því fram, að það gæti verið stórhættulegt. Kem ég að því síðar.
Skötulóðin var eina línan, sem hafði skilað árangri. Nokkrir höfðu reynt hana hér á Innleirunni og aflað vel.
Skötulóðin var með fáum og stórum segulnaglaönglum íslenzkum af sömu gerð og hér voru notaðir á handfæri. Ás skötulóðarinnar var mjór kaðall.
Skötulóðin var látin liggja um sólarhring og stundum lengur, ef veður bagaði. Þessi lóð virtist engin áhrif hafa í þá átt að hvetja menn til þess að nota þorskalóð.

Magnús Guðmundsson býr sig undir brautryðjandastarfið

Hann dregur að sér efni í línuna. Ekki skorti hrakspárnar. Ólafur útgerðarmaður í London hvetur Magnús til dáða: „Gefðu þig aldrei, Magnús. Það verður sjaldan mikið úr ungum mönnum, sem hætta við áform sín.“

Þrátt fyrir þetta, sem nú hefur verið minnzt á, fór mér að detta í hug að gera tilraun með þorskalóð. Jafnframt var mér það ljóst, að það mundi mæta andúð og óvíst, hvort ég kæmi því í framkvæmd.
Síðara sumarið, sem ég var á Austfjörðum, útvegaði ég mér heimilisfang þeirra útlenzku verksmiðja, sem þeir í Mjóafirði fengu veiðarfæri frá. Þar var notuð tveggja punda lína í ás og fjögurra punda lína í bólfæri. Í tauma var notuð eins punds lína, sem var rakin sundur á sérstakan hátt. Önglarnir voru frá Mustad og Sön.
Fyrsti maðurinn, sem ég talaði við um þetta áform mitt var Ólafur Magnússon, eigandi skips þess, er ég var formaður með á vetrarvertíðum, Ólafur í London.
Mér þótti miklu máli skipta, hvernig Ólafur tæki í þetta mál, þar sem hann fékk um 1/4 aflans í sinn hlut, — bátshluti fjóra og tvo hásetahluti. Ég tjáði honum hugmynd mína að reyna lóðina hér úti í leirnum, þegar liði fram á aprílmánuð, því að þar hefði lóð aldrei verið lögð. Ólafur tók vel í þetta mál og hvatti mig til að koma því í framkvæmd. Hann kvað ekki skyldi standa á sér að leggja sitt til þess, að þessi tilraun mætti takast.
Einnig orðaði ég þessa hugmynd við nokkra yngri háseta mína, — helzt þó þá, sem kynnzt höfðu lóðinni á Austfjörðum. Hvöttu þeir mig eindregið allir til þess að reyna þetta, en þeir unnu allir á vegum feðra sinna eða annarra húsbænda og höfðu þvi engin fjárráð.
Næst þessu fór ég til Gísla Stefánssonar kaupmanns. Hann sigldi um árabil út til Englands til þess að gera vöruinnkaup og þekkti sig því þar. Hann vildi aðstoða mig við að ná í öngla og strengi frá Englandi, en greiðsla yrði að fylgja pöntun, sagði hann.
Ég gerði ráð fyrir að hefja línuveiðarnar með 1600 önglum. Annað eins þurfti ég að eiga til vara, ef illa tækist til, svo sem ef yfirgefa yrði lóðina vegna veðurs. Einnig gat svo illa til tekizt, að lagt yrði á hraun og lóðin tapaðist þar. Þá gat einnig hákarlinn klippt lóðina sundur, eins og oft kom fyrir á Austfjörðum. Við öllum þessum óhöppum vildi ég vera búinn. Línuveiðarnar skyldu reyndar til þrautar. Næst þessu tók ég að biðja um framlag af hverjum hlut, — kr. 7,50 afréð ég. Ýmist fékk ég ekkert loforð um styrkinn eða óákveðið — loðið og lítið á að byggja. Nokkrir tóku illa málaleitan minni: töldu það hina mestu dirfsku að ætla sér að nota þorskalóð við Eyjar, — hér úti í hafi. Menn vissu mýmörg dæmi þess, að svo snögglega hefði hvesst á þessum slóðum, að menn hefðu flýtt sér að hafa upp færin og seglbúa, — komast sem allra fyrst í land. Svo hefði það líka sýnt sig, sögðu menn, að hér veiddist ekki á lóð, enda væri það bezt, því að menn mundu drepa sig hér unnvörpum, ef farið yrði almennt að nota það veiðarfæri.
Ég gekk nú á fund Ólafs skipseiganda og tjáði honum undirtektirnar og álit ýmissa á framtaki þessu. Það var haustið 1896.
Meðan ég lét dæluna ganga, gekk Ólafur um gólf og sagði við og við: „Já, ójá; já, já.“
Ég hafði lokið máli mínu, og enn gekkk Ólafur Magnússon um gólf, hugsandi.
Mér flaug ýmislegt í hug. Var honum nú snúinn hugur, þegar hann heyrði, hve margir voru á móti mér?
Allt í einu kemur hann fast að mér og segir með mikilli áherzlu á hverju orði: „Gefðu þig aldrei, Magnús: það verður sjaldan mikið úr ungum mönnum, sem hætta við áform sín.“
Ég kvaðst vera honum þakklátur fyrir orðin, og væri ég ekki í þeim hug, að hætta við þetta. Hinsvegar hlyti að koma annað hljóð í strokkinn minn, ef ég fengi hvergi peninga til lóðakaupanna.
Þá sagði Ólafur: „Þú getur fengið peningana hjá mér. Misheppnist þetta, getum við haft það grafið og gleymt. Takist áformið hinsvegar, lukkist það, sem ég treysti, þá verða karlarnir fúsir til þess að borga þetta eftir á.“

Línurúlla, goggar, bjóð og kálfsbelgir eins og í Mjóafirði

Eftir að lóðarefnið var komið, unnum við nokkrir að því að setja lóðina upp. Sumir þeirra höfðu aldrei séð lóð áður. Líka voru ýmis áhöld smíðuð til línuveiðanna, svo sem línurúlla, goggar, bjóð. Þá voru drepnir og flegnir kálfar til þess að hafa belgina í ból, — línuból. Allt var útbúið, eins og það ætti að notast austur á Mjóafirði. Þegar línan og öll hennar fylgitæki voru tilbúin, voru veiðitæki þessi öll geymd þar til síðari hluta næstu vertíðar (1897). Þá var ætlunin að nota þau. Mér kom það þá ekki til hugar, að vertíð hæfist hér nokkru sinni með línu. Við vildum vanda sem bezt allan undirbúning veiðanna með lóð og bíða svo, þar til veður færu að stillast eða fram í aprílmánuð.

Veiðarnar hefjast

Línan ryður sér til rúms. Sultarvofan flýr loks frá dyrum Eyjabúa.
Laugardagurinn 10. apríl 1897 er einn allra merkasti dagur í sögu
Vestmannaeyja. Fiskur á öðrum hverjum krók til jafnaðar.

Vertíðina 1897 hófum við róðra 4. marz. Janúar og febrúar voru þá með fádæmum stormasamir.
Þessa vertíð notuðum við handfæri til 10. apríl, og alltaf hékk lóðin ónotuð inni í húsi.
Dagana 7. og 8. apríl leituðum við víða fisks, en fengum aðeins einn í hlut. — Ördeyða. Við fengum þá ekki svo mikið sem beitu á lóðina.
Þann 9. apríl réri smáfleyta inn á Flúðir og hlóð þar, — aðallega af þorski. Eg keypti öll hrognin úr aflanum, en þau nægðu ekki á helming lóðarinnar, svo að ég fékk mér keilu og smáfisk í viðbót. Þannig tókst okkur að egna þessa 1600 króka, sem við vildum róa með.
Árla morguns hinn 10. apríl byrjuðum við að beita línuna. Kl. 10 f.h. sama dag lögðum við frá landi í fyrsta línuróðurinn.
Blíðuveður var um láð og lög, og við byrjuðum að leggja nokkuð langt austur af Réttarklakk. Þar lögðum við alla lóðina beint í austur.
Þegar við höfðum lokið við að leggja, tók að vinda af austri. Svo að við héldum okkur við ytra endabólið og fórum ekki á milli, eins og það var kallað á Austfjörðum.
Þegar línan hafði legið í einn tíma, fórum við að draga.
Endafærið eða stjórinn virtist fast í hrauni, og svo illa, að við slitum bólfærið eftir lítinn tíma. Við rérum nú í næsta ból. Á milli bóla voru tvö bjóð eða 400 önglar. Það bólfæri reyndist einnig fast í hrauni. Þá leið mér ekki vel, — og var mér satt að segja ekki farið að lítast á blikuna. Byrjunin var ekki sigurvænleg.
Allt í einu losnaði færið. Auðfundið var, að stjórinn var með. Þegar stjórinn kom upp að borðinu, reyndust aðeins fyrir þrír krókar af austurálmu línunnar við stjórann. Þar með var 1/4 af lóðinni tapaður. En vesturhluti lóðarinnar var heill, og við grilltum 10 úti þegar stjórinn kom upp, ekki háfa, heldur stóra og fallega þorska. Þegar við höfðum innbyrt þá, sáust enn margir. Við drógum nú línuna viðstöðulaust til enda.
Á þessa 1200 öngla fengum við 21 þorsk í hlut og 2 ýsur. Skipt var í 24 hluti. Með 400 krókana, sem við misstum, höfðum við lent austur í hið stórgerða hraun, sem er norður af Dýpri-Mannklakknum.
Það var kominn austan stormur, þegar við vorum búnir að draga. Vel lá á strákunum, þegar við höfðum seglbúið og Ingólfur öslaði heim á leið með þennan góða afla. Byrjunin spáði góðu og strákarnir sungu og gerðu að gamni sínu.
Nú fengum við nóg af hrognum í næsta róður. En austanáttin, sem hófst með þessum degi, hamlaði róðrum til 17. s.m. Þann dag rérum við í annað sinn með lóðina, 1600 öngla. Beitan var orðin mjög úldin, enda engir frystiklefar þá til þess að geyma beitta línu í. Samt fiskuðum við vel; fengum 24 þorska í hlut og 4 ýsur. Í þessum róðri misstum við ekkert af lóðinni.
Við hættum að róa 6. maí. Höfðum þá farið 11 róðra með línuna og tapað samtals 800 önglum. En aflinn þennan stutta tíma nam samtals 5596 þorskum og 1416 ýsum. Auk þess fengum við talsvert af lúðu og skötu.
Frá því að við drógum út og til 10. apríl, að við hófum veiðarnar með línuna, vorum við búnir að fá 218 í hlut. Gera má ráð fyrir, að lítið hefði við það bætzt, eftir því sem aflinn reyndist hjá hinum, sem stunduðu eingöngu færi til vertíðarloka.

Bjargi bylt af brautu

Leiðin rudd. Vertíðina 1898 notuðu öll skip í Eyjum línu. Beitan var gota og ljósabeita. Sumir skáru í vanþekkingu sinni alla krókana af línunni til þess að geta greitt hana.

Næstu vertíð, 1898, voru öll skip, sem hér gengu þá á vetrarvertíðinni, útbúin með lóð. Á hverju bjóði voru 200 krókar og milli tauma 2—2½ alin (126—157 sm).
Átt-æringar réru með 8 bjóð og minni bátar svo minna að tiltölu. Beitan var jafnan þorsk- og ýsuhrogn, ef þau voru til, og svo ljósabeita með.
Bezta ljósabeitan þótti lúða og steinbítur.
Fyrst í stað voru margir lengi að beita, t.d. gamlir menn, og það bar við, að við hinir yngri, sem vorum orðnir vanir lóðinni, gerðum okkur gaman að sumum körlunum.
Ýmsar sagnir gengu um „samskipti“ sumra karlanna við línuna. — Tveir, sem beittu saman, höfðu fengið flækju. Þá stóðu þeir ráðalausir, þar til þeir sáu það ráðlegast að skera alla krókana af flækjunni.
Eitt sinn sá ég þrjá vera að beita sama bjóðið úr stokk. Einn tók krókana úr trénu, annar krækti beitunni á önglana og sá þriðji lagði þá niður í bjóðið. Dýr mundi hún þykja slík beitning í dagvinnu, hvað þá í næturvinnu!
Vertíðina 1898 var þó ekki einvörðungu notuð lóð. Svo var það einnig næstu vertíðir. Þessa vertíð (1898) hóf ég róðra 22. febr. Þá byrjaði ég með línuna og hélt því áfram, þangað til loðnan kom um miðjan marz. Þá tókum við handfærin um tíma.
Framan af vertíðinni var tregur fiskur á lóðina og þar af leiðandi lítið um hrogn til beitu.
Svona reyndist þetta næstu vertíðir, að fiskur var tregur á lóð, þangað til kom fram í apríl. Og eftir að loðnan tók að ganga, þýddi sjaldan að nota lóðina. Þetta mun þó hafa stafað af því fyrst og fremst, hversu einhæf beitan var. Hér vantaði síld, sérstaklega fyrri hluta vertíðar. Þó fiskaðist stundum mjög vel „Undir Sandi“ og á Álnum á lóðina, eftir að loðna kom, en alltaf aflaðist þá meira af ýsu en þorksi.
Fyrstu vertíðarnar eftir að lóð varð hér aðalveiðarfærið, var helzta veiðisvæðið frá heimamiðum austur að Dýpri-Mannklakk og Ledd, sunnan við Rófu og allt austur að Sandahrauni.
Þegar fram í sótti og bátum fór fjölgandi, fór sjósókn vaxandi, — ekki sízt eftir að bátar með færeyska laginu voru almennt notaðir. Þá tóku menn að sækja suður að Súlnaskersklakk. Hann var um tíma mjög ásótt fiskimið línubáta.

Sumarstörfin í Eyjum fyrr á árum

Róið á julum. Sigið í björg. Aflað heyja á túnum og í úteyjum. Þannig um aldir.

Áður en lóðin varð aðalveiðarfærið, stunduðu menn hér líka fiskveiðar á sumrum —sérstaklega þó að vorinu og fyrrihluta sumarsins. Þá réru menn á hinum svonefndu smáferjum eða „julum.“ Aðallega var róið á heimamiðin, svo sem Mannklakk, Réttarklakk, Flókamið, Holu, Bessa, Þórarinshraun, Bót, Klakka, Ledd og Rófu.
Í júlí og til ágústloka var lítið stundaður sjór, því að á þeim tíma sumarsins voru flestir ungir menn við fuglaveiðar, og þeir eldri við slátt og aðra vinnu í landi.
Einstök sumur kom hér mikill fiskur, svo sem sumarið 1880. Þá hafði verið mjög mikill fiskur bæði „suður í sjó“ hér um Flóann og víða, en þá máttu fáir vera að því að sinna fiskveiðum nema í hjáverkum, því að það sumar var hin svonefnda Nýjabúð byggð, þ.e. Austurbúðarhúsið austur við Skansinn. Þar voru margir í vinnu. Sumarið 1892 gekk líka mikill fiskur á heimamið, þá fékk ég 400 fiska í hlut af þorski frá júlíbyrjun til ágústloka. Mestur hluti þess afla veiddist vestur á Sviðum og á öðrum fiskimiðum í „suðursjónum.“
Bátar þeir, sem róið var á utan vertíðar, voru bæði litlir og að ýmsu leyti lélegir. Þeir gengu illa, sérstaklega í mótvindi. Eitt sinn vorum við á slíkum báti í 6 tíma að berja heim af Ledd.
Á vorin blésu hér oft austanvindar og jafnvel vikum saman með litlum hvíldum. En á þessum litlu bátum þýddi ekki að fara á sjó nema í góðu veðri. Menn stunduðu þó þessa vorróðra, þegar tök voru á, og það jafnvel hvernig sem gekk, því að lítið var annað að starfa um þann tíma árs og „lítið dró vesalan“. Það sem fékkst, var þá fundinn peningur og eilítil viðbót við innleggið frá vertíðinni.
Oft fiskaðist allmikið af öðrum fiski en þorski og löngu á vorin. Sérstaklega var það lúðan, sem menn oftast höfðu meira en nóg af til matar, enda var það þá og lengi síðar siður hér, að Eyjabúar gáfu hver öðrum í soðið, eftir því sem á stóð fyrir hverjum og einum í það og það skiptið.
Meðan handfærin voru einvörðungu stunduð á vertíðum, var stundum hætt við vertíðarskipin 20.—30. apríl sökum aflatregðu. Fóru menn þá að róa sumarbátum, svo framt að nokkur aflavon var.
Eftir að lóðin var tekin upp almennt, fóru menn fljótlega að nota hana á vorin og svo yfirleitt á öllum tímum ársins.
Í fyrstu áttu fáir nothœfa báta til þess að stunda á með lóð. Þar stóð ég hinsvegar strax vel að vígi, því að ég hafði ráð á hinum bezta bát, nefnilega „Hannibal“, sem áður er sagt frá, enda var hann notaður á vorin og sumrin, þar til vélbátarnir tóku við af opnu skipunum.
Það var því fljótlega hætt við hin svokölluðu „smájul“. Nú fóru Eyjabúar einnig að panta sér báta frá Færeyjum. Um árabil komu fleiri og færri bátar þaðan með hverri ferð dönsku millilandaskipanna. Að síðustu var kominn hingað mesti fjöldi af færeyskum sumarbátum.
Eftir að Eyjabúar hófu fiskveiðar með lóð, voru margar vertíðir hér mjög arðvænlegar. Margar sögur eru til um það, hvað menn lögðu þá mikið erfiði og miklar vökur á sig. Og það fór þá eins með vorvertíðarnar eins og vetrarvertíðarnar, að frádráttur frá afla var mjög lítill.
Á vorin notuðu menn gamla lóð frá vetrarvertíðinni. Vorlóðin, ef ég mætti nefna hana svo, var mjög stutt, aðeins 400—600 önglar, og beitan var eingöngu ljósabeita, helzt ýsa, sem veiddist venjulega samhliða löngunni. Voraflinn var mestmegnis langa. Af henni fóru í skippundið (160kg) 50-60.
Bezta fiskisvæðið var Þríhamradýpið suður af Klökkum, — og svo svæðið frá Djúpamiði suður að Þórarinshrauni.
Þegar fram í sótti, tóku menn að sækja lengra á vorbátunum, t.d. austur á Rófu og Dýpri-Mannklakk, út á Ledd og suður að Súlnaskersklakk.

Framfarasporið mikla

Ísfélag Vestmannaeyja ryður brautina. Það byggir frosthús 1902.

Mikill bagi var það löngum við útgerðina og dró úr afla, að ekkert íshús var í byggðarlaginu fyrr en 1902, að Ísfélag Vestmannaeyja var stofnað og byggði íshús að norskri fyrirmynd það ár.
Þar sem ekkert íshús var til, skemmdist beitan fljótlega, þegar frátök gerði. Langan virtist bæði lyktar- og bragðnæm; hún aflaðist ekki nema á nýja beitu. Íshússkorturinn olli oft vandræðum, og menn urðu af þeim sökum að róa með handfæri á grunnmið eða sarga þar með línu beitta maðki og skelfiski. Stundum kom það fyrir, að ekki tókst að ná í beitu fyrir lönguna.

Mjór er mikils vísir

Snjókofar útgerðarmanna sönnuðu nauðsyn þess að byggja íshús í Eyjum. Ísinn sóttur á Vilpu eða Daltjörnina. Annars safnað snjó.

Það var árið 1900, að við tókum okkur saman fjórir og létum útbúa okkur allstóran frystikassa. Jafnframt byggðum við okkur ískjallara, þar sem vörugeymsluhús Brynj. Sigfússonar kaupmanns stendur nú. (Sjá Blik 1967, bls. 47).
Eftir að vélbátarnir komu til sögunnar, áttu flestar útgerðir slíka kjallara. Þeir voru venjulega kallaðir snjókofar.
Fyrstu tvö árin, sem við áttum ískjallarann, tókum við ís á Vilpu. Þriðja árið lagði Vilpu aldrei fyrir hátíðar. Þá söfnuðum við snjó í ískjallarann okkar, og þótti okkur betra að eiga við hann en ísinn. Annað vorið, sem við áttum ískjallarann, seldum við töluvert af ís í fiskiskútu, sem stundaði veiðar hér við Eyjar það vor (1901).
Í ískjallaranum geymdum við beitur okkar í næsta róður eða róðra, og stundum gátum við geymt beitu fyrir aðra líka.

Magnús eignast síldarnet

Hann hafði kynnzt þeim netaveiðum austur í Mjóafirði. Mesti sólarhringsafli 12 síldir.

Eftir að við byggðum ískjallarann, gerðum við fyrstu tilraun með síldarnet, því að þarna var von til að geta geymt nokkurt síldarmagn.
Gísli kaupmaður Stefánsson pantaði síldarnetin fyrir okkur, þ.e.a.s. slöngurnar. Þær fékk hann ólitaðar frá Englandi. Barkalitur og korkur í flár fylgdi slöngunum og efni í þinla eða teina.
Þetta voru tvær langar slöngur. Við bútuðum hvora þeirra í 4 hluta og fengum þannig 8 net úr þeim báðum. Netið var fellt 13 faðmar (26 metrar) á lengd og 2½ á dýpt.
Hugmynd okkar var að hafa þetta lagnet, eins og þá tíðkaðist á Austfjörðum. Þess vegna vildum við ekki hafa netin dýpri.
Þegar við vorum búnir að lita netin, fella þau og ganga frá þeim að öðru leyti, lögðum við nokkur þeirra og létum þau liggja um viku tíma út frá klöppunum sunnan við Víkina. Mesti sólarhringsafli var 12 síldar.
Um haustið fékk Jón Ingimundsson í Mandal netin lánuð og lét reka með þau á enskum síldarbáti, sem hér var þá. Hann lét reka á Flóanum austur af Urðunum. Hann veiddi talsverða síld, en veður spilltist, svo að veiði þessi varð endaslepp.

Ekki gefist upp

Samtök um síldveiðar. Full net. Hver síld boðin á einn eyri. Engin sala.

Eftir það reyndi enginn með netin fyrr en árið eftir. Þá tókum við okkur saman fjórir, Gísli Lárusson í Stakkagerði, Jón í Mandal, Stefán Gíslason í Hlíðarhúsi og ég, og fórum með netin á Hannibal suður á Stakkabót. Þetta var 26. ágúst, og netin voru fimm. Ætlunin var að láta reka með netin. Þegar við höfðum gefið út tógið og bundið það fast í bátnum, þyngdi svo á bólunum, að auðséð var að netin voru orðin full af síld. Svo reyndist þetta líka. Báturinn gerði ekki betur en bera aflann. Við buðum síldina til kaups á einn eyri stykkið. Þegar sú verzlun tókst ekki, gáfum við hverjum sem hafa vildi hálfa fötu af síld. Samt fór lítið af síldinni. Megin hluta hennar létum við salta.
Um leið og vélbátarnir komu, fengu einstaka bátsfélög sér síldarnet og öfluðu stundum vel í þau.

Vertíðarskip með færeysku lagi koma til sögunnar. Þau þóttu léttari og ekki eins „mannfrek“

Þegar í ljós kom, að aflaföng fóru stórum vaxandi með almennri notkun lóðarinnar, og Eyjabúum í heild varð það ljóst, að skipaeigendur græddu á útgerðinni, fór róðrarskipum hér fjölgandi. Mest voru það þá færeyskir róðrarbátar. Bátar með því lagi voru þá einnig brátt smíðaðir hér og reyndar öll vertíðarskip með því lagi. Þau voru flest tí-róin og með „kutter“-siglingu.
Vertíðirnar 1905 og 1906 var ég með skip með færeysku lagi, því að mér þótti gamli áttæringurinn Ingólfur svo mannfrekur og erfiður á móti bátunum eða skipunum með færeyska laginu. Við vorum 14 á þessar tvær vertíðir.
Reynsla mín og margra annarra var ágæt af skipunum eða bátunum með færeyska laginu, en þeir voru hér fá ár í notkun, því að vélbátarnir útrýmdu þeim fljótt.

M.G.