Kristín Magnúsdóttir (Jómsborg)
Kristín Magnúsdóttir húsfreyja og bóndi víða á Snæfellsnesi, að lokum í dvöl hjá Karólínu dóttur sinni í Jómsborg, fæddist 21. ágúst 1832 í Eiðhúsum í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi og lést 8. apríl 1917.
Faðir hennar var Magnús bóndi í Eiðhúsum, Kljá í Helgafellssveit og Fjarðarhorni í Hraunsfirði þar, f. 25. júlí 1794, d. 15. janúar 1860, Þorkelsson bónda á Kljá 1801, f. 1749, d. 14. apríl 1818, Ívarssonar, og síðari konu Þorkels á Kljá, Oddnýjar húsfreyju, f. 1756, d. 9. apríl 1804, Magnúsdóttur bónda í Drápuhlíð, f. 1733, Ögmundssonar.
Móðir Kristínar og kona Magnúsar í Eiðhúsum var Guðrún yngri, húsfreyja, f. 1786, d. 1845, Sumarliðadóttir bónda á Kljá í Helgafellssveit, f. 1744, d. 8. júní 1806, Guðmundssonar bónda á Barkarstöðum í Miðfirði, f. um 1720, d. um 1783, Jónssonar, og fyrri konu Guðmundar, Guðrúnar húsfreyju, f. um 1720, Sumarliðadóttur.
Móðir Guðrúnar yngri og fyrri kona Sumarliða var Steinunn húsfreyja, f. 1745, Halldórsdóttir bónda víða, en á Stóru-Ágeirsá í Víðidal 1762, f. (1710), Þorleifssonar.
Maður Kristínar var Oddur Jónsson bóndi, í fóstri hjá móðurforeldrum sínum í Höskuldsey 1835, f. 2. apríl 1823, á lífi 1890.
Faðir hans var Jón, í Drápuhlíð 1801, f. 22. febrúar 1790, Illugason bónda, hreppstjóra, fálkafangara og meðhjálpara í Drápuhlíð í Helgafellssveit, f. 1759, d. 4. febrúar 1799, Illugasonar, og konu Illuga í Drápuhlíð, Ingibjargar húsfreyju og ekkju þar 1801, f. 1760, Magnúsdóttur.
Móðir Odds Jónssonar og barnsmóðir Jóns Illugasonar var Ingibjörg, síðar, 1840, húsfreyja í Drápuhlíð, f. 15. september 1799 í Helgafellssókn, d. 29. október 1857, Ólafsdóttir bónda í Efra-Koti þar 1801, síðar húsmanns í Höskuldsey, f. 1766, d. 21. maí 1836, Péturssonar, og konu Ólafs, Guðrúnar húsfreyju, f. 1764, d. 22. september 1855, Árnadóttur.
Systir Kristínar Magnúsdóttur í Eyjum var:
II. Margrét Magnúsdóttir, f. 5. október 1829 í Eiðhúsum, d. 15. maí 1913, jarsett í Eyjum 23. maí 1913. Hún giftist Þorleifi presti og prófasti Jónssyni í Hvammi í Hvammssveit í Dalasýslu, f. 8. nóvember 1794, d. 1. maí 1883.
Margrét var barnlaus.
Hún fóstraði Karólínu Kristínu systurdóttur sína á prestsetrinu í Hvammi í Hvammssveit í Dalasýslu.
Hún dvaldi í elli sinni hjá fólki sínu í Eyjum og bjó síðast í Jómsborg.
Hálfsystir Kristínar var Matthildur Magnúsdóttir húsfreyja í Landlyst, kona Þorsteins Jónssonar læknis.
Hún var dóttir Magnúsar bónda og Sigríðar Pétursdóttur vinnukonu á bænum.
Kristín var 2 ára hjá foreldrum sínum á Kljá í Helgafellssveit 1835, með þeim á Fjarðarhorni 1840, hjá föður sínum þar 1845. Þar var þá Oddur Jónsson vinnumaður.
Við manntal 1850 var Kristín hjá föður sínum og stjúpu Guðrúnu Bjarnadóttur á Fjarðarhorni.
Við manntal 1855 var hún húsfreyja í Höfðakoti í Setbergssókn með Oddi og börnunum Guðrúnu 2 ára og Kristínu eins árs.
Við manntal 1860 var Kristín húsfreyja á Hellnafelli í Setbergssókn, kona Odds Jónssonar. Þar voru hjá þeim börn þeirra, Guðrún Margrét 6 ára, Karólína Kristín 4 ára og Sigurborg 2 ára.
Við manntal 1870 voru þau hjón á Kirkjufelli í Setbergssókn með börnunum Guðrúnu Margréti 16 ára og Sigurborg 12 ára.
Við manntal 1880 voru þau hjón búandi á Hömrum í Setbergssókn án fylgiliðs.
Við manntal 1890 voru þau tvö í Árnabotni í Hraunsfirði, en 1901 er Kristín komin til Karólínu í Jómsborg, kom frá Árnabotni 1900, - og í Jómsborg var síðasti viðkomustaður hennar.
Börn Kristínar og Odds Jónssonar hér:
1. Guðrún Margrét Oddsdóttir, f. 19. ágúst 1854. Maður hennar var Jón Bjarnason bóndi. Hún var húsfreyja á Hjarðarbóli í Setbergssókn 1880, ekkja á Fossi í Ingjaldshólssókn 1901. Hún lést í Eyjum í júní 1910.
2. Karólína Kristín Oddsdóttir húsfreyja í Jómsborg, f. 21. október 1856, d. 12. september 1936. Maður hennar var Jón Sighvatsson bóksali og bókavörður.
3. Sigurborg Oddsdóttir, f. 1858. Hún var vinnukona í Einarsbæ í Stykkishólmi 1880.
4. Fóstursonur Kristínar og Odds 1890 var Runólfur Jónatansson 17 ára. Hann var f. 2. janúar 1873, bóndi í Spjör í Setbergssókn 1920, d. 18. janúar 1947.
Systir Guðrúnar Sumarliðadóttur í Eiðhúsum, Guðrún eldri húsfreyja á Gríshóli í Helgafellssveit Sumarliðadóttir, var formóðir Þorsteins Þ. Víglundssonar skólastjóra og sparisjóðsstjóra.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Garður.is.
- Íslendingabók.is.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka þjóðvinafélag 1948-1976.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.