Sveinbjörn Einarsson (Þorlaugargerði)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. ágúst 2013 kl. 14:31 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. ágúst 2013 kl. 14:31 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sveinbjörn Einarsson fæddist að Þorlaugargerði í Vestmannaeyjum 12. júní 1890. Foreldrar hans voru Einar Sveinsson og Guðríður Helgadóttir.

Sveinbjörn byrjaði ungur sjómennsku. Árið 1926 var hann formaður á Hebron í eina vertíð en hann starfaði aðallega sem vélamaður.

Sveinbjörn lærði trésmíði á yngri árum og eftir að hann hætti sjómennsku stundaði hann þá iðn auk þess sem hann veitti ungum mönnum tilsögn í þeirri grein. Á fjórða áratug síðustu aldar keypti hann húsið Hljómskálann og var með smíðaverkstæði þar í kjallaranum.


Heimildir

  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.

Frekari umfjöllun

Sveinbjörn Einarsson trésmiður frá Þorlaugargerði (vestra) fæddist 12. júní 1890 og lést 13. ágúst 1984.
Foreldrar hans voru Einar bóndi Sveinsson bóndi í Þorlaugargerði, f. í Sólheimahjáleigu í Mýrdal 13. maí 1855 og kona hans Guðríður Helgadóttir húsfreyja frá Gerði, f. í Eyjum 31. október 1854, d. 14. júlí 1922.

Kona Sveinbjörns var Guðbjörg Ingvarsdóttir, f. að Hellnahóli undir Eyjafjöllum 28. júní 1897, d. 2. september 1987.
Börn Sveinbjörns og Guðbjargar:
1. Fanney, f. 12. september 1918, d. 29. desember 1990.
2. Ingvi, f. 30. janúar 1922, d. 10. ágúst 1943.

Úr fórum Árna Árnasonar símritara:
Bjargveiðimannatal.

Sveinbjörn er allhár vexti, dökkhærður og samsvarar sér vel. Fríður og prúðmannlegur í allri framkomu, kátur og léttur í lund, brosmildur og sviphýr og ágætur félagi.
Hann var afbragðs góður fjallamaður, bæði laus og bundinn, veiðimaður ágætur, iðinn og kappsfullur.
Stundum virtist Sveinbjörn vera feiminn eða halda sig til baka, en lítt var það til baga eða mjög áberandi, þótt kunnugir yrðu þessa varir. Hann fór á besta aldri úr Eyjum og hætti þá fuglaveiði og bjargferðum. Er nú við Hlíðardalsskóla í Ölfusi og hefir unnið þar við byggingu skólans, því að hann var smiður að iðn.
Sveinbjörn var víða um eyjar í bjargferðum, einn af afreksmönnum Elliðaeyjar og Bjarnareyjar, sem gerði sitt til að auka aflahróður þeirra eyja, er keppnin var mest milli austureyja og suðureyjanna. Sveinbjörn var afbragðs sigamaður, seig oft skemmtisig fyrir almenning og þótti takast vel.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit


Heimildir