Blik 1973/Söguþættir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. október 2010 kl. 12:54 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. október 2010 kl. 12:54 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Söguþættir


ctr


I


Horfin strönd


Lesari góður. Ef þú hefur hug á sögulegum þáttum og viðburðum, skulum við í sameiningu athuga fyrst gaumgæfilega myndina hér á síðunni. Hún hefur í sannleika sagt margan fróðleik til brunns að bera og er býsna söguleg. Hafnarklappirnar þarna eru allar horfnar undir mannvirki eins og skerin og grjóthólarnir. Básaskersbryggjan mikla, sem var á sínum tíma eitt mesta hafnarmannvirki á landinu, hylur meginið af þeim stöðum við ströndina, sem hér verða nefndir og skýrðir.
Mynd þessi er tekin sumarið 1925. Þurrkdagur er í Eyjum, logn og blíða og breiddur saltfiskur um öll stakkstæði í bænum og í útjaðri hans.
Lítum svo á strandlengjuna þá, sem sést á myndinni.
Til vinstri er bryggja Gunnars Ólafssonar og Co., Tangabryggjan svokallaða. Vörugeymsluhús fyrirtækisins sést við austurjaðar vegarins upp frá bryggjunni. Þetta eru steinsteyptar byggingar, sem teknar voru í notkun árið 1924 eða ári fyrr en myndatakan átti sér stað. Þarna standa þau enn. Austan við vörugeymsluhúsið ber verzlunarhús þessa fyrirtækis, sem var stofnað hér 1910. Austar blasir íbúðarhúsið Valhöll við. Það var byggt 1912.
Tangastakkstæðin eru þakin fiski. Austan við vörugeymsluhús Tangaverzlunarinnar og verzlunarhús eru hallandi klettar og klungur. Sá hraungrýtishalli heitir Brattaklöpp eða Bratti. Bratti hét upprunalega hæðin suður af verzlunarhúsinu.
Vestan við Tangabryggjuna er vik, sem hét Tangavikið. Vestan við Tangavikið blasa við Básaskerin, hið efra og hið fremra. Á löngu liðnum tíma var hlaðinn grjótgarður milli skerjanna til þess að verja sjógangi vestur í víkina fyrir vestan skerin, því að þar var uppsátur, líklega helzt aðkomusjómanna, svo sem „Landmanna“, — útvegsmanna úr Landeyjum, austan undan Eyjafjöllum eða úr Skaftafellssýslu. Þarna voru Básar kallaðir¹. En fjaran vestan við skerin hét og heitir enn Skildingafjara. Nafnið hefur loðað við hana síðan grjótgarðurinn milli skerjanna var hlaðinn, því að þá var verkakörlunum, hafnarbótakörlunum, greidd laun í áttskildingum við grjótnám, grjótflutning og hleðslustörf.
Þessi sjóvarnargarður á milli skerjanna var aldrei kallaður annað en Grjótgarðurinn. (Ég minni jafnframt á Fúlugarðinn sunnan við Nausthamar til skýlis skipunum í Hrófunum fyrir austansjógangi, kenndur við Fúlu).
Vestan við uppsátrið í Skildingafjöru var eyri, sem kom upp um fjöru. Hún hét Máfaeyri, enda venjulega alsetin máfum, þegar lágsjávað var. Þar var fyrir nokkrum áratugum gjörð uppfylling, sem verða skyldi undirstaða olíugeyma.
Básaskersbryggjan, sem byggð var á árunum 1929—1937, þekur alla strandlengjuna frá eystri brún Tangabryggjunnar inn að vestri brún Básaskerjanna. Haus bryggjunnar nær spölkorn út fyrir Fremra-Básaskerið.
Í Skildingafjöru sést trébryggja, smíðuð haustið 1920 og tekin í notkun með vertíð 1921. Tveir voru eigendur þessarar bryggju: Gísli Magnússon, útgerðarmaður í Skálholti við Urðaveg, og „Úndínuútgerðin“, kennd við v/b Úndínu VE 242, en hana átti frú Sigríður Bjarnasen í Dagsbrún og synir.
Báðir þessir útvegsaðilar áttu aðgerðarhús eða fiskhús þarna ofanvið Skildingafjöruna. Þau standa þar reyndar enn. Bryggja þessi var ýmist kölluð Úndínubryggjan eða Skildingafjörubryggjan. Hún var rifin að öllu leyti árið 1930.
Húsið vestan við bryggjuna og næst höfninni er aðgerðarhús Eiríks útgerðarmanns Ásbjörnssonar, byggt árið áður en myndin var tekin eða 1924.
Við rennum augum suður með Básaskerjum að austanverðu. Þar sjáum við grjóthæð skammt frá flæðarmálinu vestast í Tangavikinu. Þessi hraungrýtishóll hét Sjóbúðarhóll eða Sjóbúðarklöpp. Þarna var eitt sinn fyrir öldum byggð sjóbúð, hlaðin úr grjóti. Þar munu hafa hafzt við aðkomusjómenn á vertíðum. Þeir hinir sömu munu hafa sett upp skip sín eða fleytur sínar í Bása vestan við Básaskerin eða austast í Skildingafjöru.
Engilbert okkar Gíslason, listmálari, gerði eitt sinn málverk af Sjóbúðarhól. Hann var, sem enn er kunnugt, alinn upp í verzlunarhúsunum Julíushaab, Tangaverzlunarhúsunum gömlu. Hann leit út um vesturloftsgluggann á íbúðarhúsi Júlíusarhaabverzlunarinnar og málaði þar Sjóbúðarhólinn. Þá var listmálarinn ungur að árum. Byggðarsafn Vestmannaeyja á þetta málverk.
Sjóbúðarhóll var brotinn niður fyrir nokkrum áratugum. Þar sem hann stóð, er nú afgreiðsluhús Herjólfs eða Hafnarsjóðs þarna suður af Básaskersbryggjunni. Minnið um hólinn lifir í listaverki meistarans.
¹ Séra Sæmundur Hólm, sem gerði uppdrátt af Heimaey árið 1776, er einn um örnefnið Básar. Þess misskilnings gætir hjá fræðimönnum, að Básar hafi verið uppsátur austan við Básaskerin. Vegna brims við hina óvörðu strönd sunnan Hafnarvogsins, gefur að skilja, að uppsátrið Básar hlaut að vera vestan skerjanna, vestur í Skildingafjörunni.


II


Danskt verzlunarskip strandar


Þá kem ég að sögulegum atburði, sem gerðist hér í Vestmannaeyjum fyrir 262 árum einmitt nú á þessu vori (1973). Með öðrum orðum: Atburður þessi átti sér stað vorið 1711.
Áður en ég get greint skilmerkilega frá þessum atburði fyrir 262 árum, verð ég að skrá hér dálitla skýrgreiningu.
Árið 1929 hófust hinar risavöxnu framkvæmdir Eyjamanna við bryggjugerð á Básaskerjum. Þeim markverðu og mikilvægu framkvæmdum var haldið svo áfram næstu árin.
Árið 1934 samþykktu ráðandi menn í kaupstaðnum um hafnargerð, að láta Dani byggja dýpkunarskip, svo að hinu þykka sandlagi á botni Vestmannaeyjahafnar yrði dælt upp og sandurinn fjarlægður.
Árið 1935 kom heim til Eyja sanddæluskip Vestmannaeyjahafnar, „Vestmannaey“, og hefur verið notað síðan við dýpkun hafnarinnar.
Á árunum 1935—1937 var dælt upp sandi vestan við Básaskersbryggjuna nýju.
Einhverntíma á þessu tímaskeiði urðu hafnarverkamennirnir, sem unnu á dýpkunarskipinu, varir við þúst eða hæð, eitthvert hrúgald þarna á sjávarbotninum. Ef til vill var þetta bara móbergshóll. — Þeir sugu upp sandinn í kring um hrúgaldið og dældu honum upp í bryggjuna til uppfyllingar þar.
Svo fóru að koma trjábútar upp úr hrúgaldi þessu. Loks var það fjarlægt, tekið upp af sjávarbotninum. Kom þá í ljós, að þetta var skipsflak. Eftir voru aðeins máttarviðir skipsins, kjölur, bönd og krikkjur. Flakið var dregið upp í Skildingafjöru og síðan flutt vestur á Brimhóla. Þar náði ég í hluta af skipskjölnum og eina krikkju handa Byggðarsafninu.
En hver er svo söguþáttur skipsins hér heima í Vestmannaeyjum?
Mig langar til að segja þér hana, lesari minn góður.
Við hvörflum huga til ársins 1711. Vetrarvertíðin þá var gæftasöm og aflasæl í Eyjum, þó að veiðarfærin væru aðeins handfæri ein. Mikill fiskur beið því útflutnings við vertíðarlok um vorið.
Um það bil 10. júní kom fyrsta verzlunarskip einokunarverzlunarinnar dönsku til Vestmannaeyja. Það var í síðasta lagi sökum styrjaldarinnar, sem þá geisaði milli Svía ag Dana. Svíar léku þá þann skollaleik að sökkva dönskum skipum, hvar sem þeir gátu komið því við. „Íslandsförunum“ varð því að safna saman í flota og sigla þeim til hafna í Vestur-Noregi undir herskipavernd. Þaðan voru þau svo nokkurnveginn örugg á siglingu sinni til Íslands. En öll þessi hindrun stal tíma, svo að allt varð seinna en ella.
Þegar verzlunarskipið kom til Vestmannaeyja, var byrjað á því að flytja í land sjálfan einokunarkaupmanninn, sem þá var Andres Bech, bæjarfulltrúi í Kaupmannahöfn. Síðan var skipið bundið kyrfilega við járnkenginn mikla í Hringskerinu þarna utarlega í hafnarmynninu, eða réttara sagt aðeins utan við það. Svo lá tóg úr afturstafni skipsins inn í Holuklett, sem var í fjörunní undir Skansinum. Gat var gegnum þennan jarðfasta stein og var kaðlinum stungið þar í gegn og endanum vafið upp á staur, sem hafður var annars vegar við gatið í klettinum. Þarna átti skipinu að vera borgið, hvað sem á gengi.
Svo var þá verzlunarvörunum skipað á land á uppskipunarbátum einokunarverzlunarinnar. Þeir lögðust að „Austurbúðarbryggjunni“, sem var hraungrýtishali innan við Holuklettinn, og hafði hann verið sléttaður að ofan með steinlímsblöndu einhverskonar, svo að auðveldara var um hann að ganga með kornvörupokana á bakinu eða þá að velta tunnum með sírópi, öli, áfengi, tjöru og ýmsu öðru vökvakyns, sem gaf mikinn gróða í aðra hönd í viðskiptunum við Eyjafólk og bændur og búalið úr sveitum Suðurlandsins.
Þetta var fremur stórt verzlunarskip, á annað hundrað smálestir.
Uppskipunin gekk vel. Og þegar henni var lokið, var strax hafizt handa um að ferma skipið. Þeir höfðu flutt í það 65 smálestir af fiski, þegar ósköpin dundu yfir. Hinn 17. júní eða viku eftir að skipið kom til Eyja, gerði fárviðri af suðaustri. Þetta veður fór yfir suður- og vesturlandið og gerði mikinn usla, sérlega þar sem verzlunarskip lágu við landfestar. T.d. sleit Eyrarbakkaskipið upp og strandaði vestan við Ölfusárósa. Þar drukknuðu nokkrir menn. Verzlunarskipið, sem komið var til Ólafsvíkur, slitnaði frá legugögnum sínum og rak á haf út og vestur fyrir Látrabjarg.
Og hvað svo um Vestmannaeyjaskipið? Brotsjóirnir gengu yfir Hringskerið, Hafnareyrina, Hörgeyrina og reistu sig býsna hátt inn á sjálfum Hafnarvoginum. Skipið lá þarna undir brotsjóunum sem varnarlaus leiksoppur. Og brátt sleit það upp og rak með hraða inn voginn. Því héldu engin bönd lengur. Það hafnaði á Fremra-Básaskerinu. Þar sem sé strandaði það.
Um leið og skipið sleit framtógið, sem tengdi það við Hringskerið, rauk skipshöfnin til og hjó á afturtógið, sem lá í Holuklettinn, eins og fyrr segir, til þess að skipinu slægi frá landi, fram hjá skerinu Skötu þarna austan við Nautshamarinn og frá Hamrinum sjálfum. Ávallt var von til að geta bjargað skipi, sem ræki upp í eða vestur í sandbotn Hafnarvogsins, sem við sjáum að nokkru leyti lengst til hægri á myndinni. En hvernig fór svo þetta? Eins og ég sagði: Það strandaði á Básaskerinu fremra.
Þegar veðrinu slotaði, var hafizt handa um að bjarga skipinu. Þá kom í ljós, að það var mikið brotið. Þá var borið við að reyna að ná úr því fiskinum. En það reyndist erfiðleikum háð eins og öll vinnutækni var þá á lágu stigi. Loks tókst körlunum að bjarga á land fimm smálestum eða svo af fiskinum. Þá gerði enn hið versta veður, svo að sjóarnir byltu skipinu vestur af Básaskerinu og „svæfði það svefninum langa“ þarna á sandbotninum fyrir vestan Skerið. Þarna lá það afskiptalaust og sökk smátt og smátt lengra niður í sandinn.
Svo liðu 225 ár. Þá fannst skipsskrokkurinn þarna niðri í sandinum, eins og fyrr segir. Súð skipsins var á burt með þilfarinu og öllu öðru en böndum, kili og krikkjum. Sýnishorn af þessum skipsleifum gefur að líta á Byggðarsafni kaupstaðarins.
Þetta skipsstrand í Vestmannaeyjahöfn þótti ekki aðeins annálsvert heldur annálavert. Ekki færri en 4 annálar geta þessa atburðar. Fitjaannáll segir svo frá við ártalið 1711: „Þann 17. júní brotnaði Vestmannaeyjaskipið, hálffermt af fiski, í sterkum sunnanstormi. Í það voru komnar 65 lestir fisks, en náðust aftur óskemmdar 4 eða 5 lestir, hitt fordjarfað.“
Grímstaðaannáll segir: „Vestmannaeyjaskip sleit að landi og brotnaði í veðri.“
Setbergsannáll: „... Í sama veðri brotnaði Vestmannaeyjaskip hálffermt. Drukknaði þar af einn maður.“
Vallaannáll: „Nær fardögum kom skip til Vestmannaeyjar og Grindavík, en er það hafði legið tvær nætur á höfninni, sleit það upp af áhlaupsveðri, og sló því við klett einn þar við höfnina, svo að það brotnaði, og góssið, er á því var, týndist mest allt, en menn héldust.“
Öllum annálum ber saman um, að strandið hafi átt sér stað árið 1711 nema Vallaannál. Hann segir, að það hafi gerzt 1710. Frásögn hans að þessu leyti og öðru ber með sér, að fréttin er færð í letur löngu eftir að strandið átti sér stað og þá notaðar fréttalindir, sem að mestu leyti voru gengnar til þurrðar.


Kveðið í september 1972
Nonni boli ber sinn keim,
bölvar, ragnar, fretar.
Blygðast sín og halda heim
halaklipptir Bretar.
Þ.Þ.V.