Blik 1978/Þrír ættliðir, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 3. september 2009 kl. 16:02 eftir ZindriF (spjall | framlög) Útgáfa frá 3. september 2009 kl. 16:02 eftir ZindriF (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

II
Mamma og pabbi
Brautryðjendur í atvinnulífinu.

Eins og ég hef drepið á hér að framan, þá var á Yzta-Skála undir Eyjafjöllum þríbýli í síðari hluta síðustu aldar. Í Suðurbænum, sem svo var kallaður, bjuggu bóndahjónin frú Kristín Björnsdóttir og Jón Einarsson, meðhjálpari. Þau hófu þar búskap árið 1883 eins og áður segir. — Börn þeirra voru á æskuskeiði, þegar hér er komið sögu. Halldóra dóttir þeirra var elzt, þá 17 ára. Hún fæddist 28. febr. 1875. Þrjá sonu áttu þau einnig: Svein, síðar kunnan formann og aflamann í Vestmannaeyjum, Svein á Landamótum, eins og hann var nefndur í daglegu tali fólks; — Gísla, sem var á sínum tíma kunnur sjómaður og formaður undir Eyjafjöllum. Mér er tjáð, að hann hafi verið formaður á opnu skipi um 40 ára bil og róið frá Eyjafjallasandi; þriðja barn þeirra var Björn, sem ég veit engin deili á.

Á Miðbæjarjörðinni á Yzta-Skála bjuggu hreppstjórahjónin frú Ingibjörg Jónsdóttir og Einar bóndi Jónsson. Þau voru nokkru eldri en hjónin á Suðurbænum og börn þeirra þá einnig nokkrum árum eldri. Jón hét sonur þeirra. Hann fluttist til Vestmannaeyja árið 1897 og varð þar kunnur kaupmaður. Hann var fæddur 1867. Jón Einarsson kvæntist í Eyjum árið 1898 Sesselju Ingimundardóttur bónda og hreppstjóra Jónssonar á Gjábakka og konu hans, frú Margrétar Jónsdóttur.

Annar sonur hjónanna á Miðbæjarjörðinni á Yzta-skála var Bjarni, fæddur árið 1869.

Árið 1893 (3. marz) ól heimasætan Halldóra Jónsdóttir á Yzta-Skála barn, sem skírt var heima hjá afa sínum og ömmu og hlaut nafnið Björn. Móðirin var 18 ára að aldri, þegar þetta gerðist. Vitað var, að Bjarni Einarsson í Miðbænum var faðir þessa barns, enda gekkst hann við því umbúðalaust. Þau felldu svo hugi saman, eins og það var kallað. Við þessu óhappi var ekkert að segja, enda þótt foreldrar stúlkunnar hefðu kosið, að ávöxturinn hefði beðið, þar til móðirin næði meiri þroska.

Þegar leið fram um mitt árið 1894 var heimasætan í Suðurbænum á Yzta-Skála orðin vanfær aftur. Var þá undinn að því bráður bugur, að þau gengu í hjónaband, Halldóra heimasæta og Bjarni í Miðbænum. Þau giftust svo síðar á árinu 1894. Halldóra Jónsdóttir fæddi annað barnið þeirra í febrúar 1895. Það var stúlkubarn og skírt heima eins og hið fyrra barnið. Meybarn þetta hlaut nafn föðurmóður sinnar og var skírt Ingibjörg. Þessi Ingibjörg er þekkt bóndakona undir Eyjafjöllum, frú Ingibjörg Bjarnadóttir húsfreyja í Varmahlíð, gift Einari bónda Sigurðssyni.

Ungu hjónin fengu dálítinn skika af jörð foreldra sinna til afnota. Þarna á Yzta-Skála bjuggu þau stuttan tíma. Þar fannst þeim of þröngt um sig. Nokkur hugur var í hjónunum ungu til þess að stækka bú sitt og efla, því að bæði voru þau dugmikil og kappsöm og sóttu fast að því marki að verða efnalega sjálfstæð og eiga myndarlegt bú, eins og þau voru þá kölluð, stærstu búin undir Eyjafjöllum. Eftir stuttan búskap á Yzta-Skála fengu þau ábúð á jörðinni Efra-Hóli. Þar bjuggu þau fá ár. Þá afréðu þau að flytja til Vestmannaeyja og freista þar gæfunnar við sjávarútveginn. Enda ekki loku fyrir það skotið, að þau gætu fengið þar jörð til ábúðar, því að ávallt losnaði öðru hvoru úr ábúð ein og ein jörðin þar af þeim 49 jörðum, sem sýslumaðurinn hafði þar til ráðstöfunar.

Til Vestmannaeyja fluttu þau síðan árið 1901. Þá höfðu þau hokrað þarna undir Eyjafjöllum við lítil efni í sjö ár og bætt lítið efnahag sinn þrátt fyrir mikinn dugnað, atorku og kappgirni við búskapinn.

En erfitt var að fá inni í Vestmannaeyjakauptúni þá. Mjög lítið var þar um leiguhúsnæði, og það sem fékkst leigt, var vægast sagt mjög lélegt, svo að nú þætti það ekki bjóðandi nokkrum manni til íbúðar.

Hjónin frá Efra-Hóli fengu inni í Garðfjósinu, sem svo var nefnt, gamla fjósi einokunarverzlunarinnar þar austur á Skansinum. Það hafði upp úr miðri fyrri öld verið innréttað og gert íbúðarhœft að mati verzlunarstjórans þá. Sérstaklega virðist það hafa verið til taks handa innflytjendum úr Skaftafells- og Rangárvallasýslu. Samkvæmt gildum heimildum hafa ýmsir mætir innflytjendur úr sýslum þessum hafið tilveru sína í kauptúninu einmitt í þessum aumlegu húsakynnum. Ef til vill var ástæðan sú, að þeir fluttu til Eyja með vissu um vinnu á vegum einokunarverzlunarinnar og þeim holað þar niður þess vegna, þar sem ekki var í annað hús að venda.

Og nú voru hjónin á Efra-Hóli reiðubúin til Vestmannaeyjaferðarinnar, þegar leiði gafst frá Útfjallasandi.

Uppstigningadagurinn 16. maí 1901 rann upp bjartur og fagur. Þó sást blika við sjónarrönd, þegar austur var litið. Nú varð samt að nota leiðið, þó að helgur dagur væxi.

Lognið, bjartviðrið og ládeyðan við sandinn freistaði fólksins til Vestmannaeyjaferðar.

Áttæringurinn Kristbjörg þeirra Yzta-Skálabænda stóð á fjörukambinum búinn til nota, enda höfðu Yzta-Skálamenn og fleiri Fjallabændur stundað færafiskirí á honum þá um veturinn og vorið, þegar fiskurinn gekk í torfum upp undir sandinn. Og fleiri voru erindin til Eyja en að flytja þau hjónin frá Efra-Hóli. Byrgja skyldi heimilin af nauðsynjum fyrir sumarið, og svo heimsækja frændur og vini í Eyjum, áður en vorannir hæfust að marki.

Búshlutum hjónanna var í skyndi lyft til klakks og haldið til strandar.

Hlaðið var á og ýtt í drottins nafni. Allt lék í lyndi. Brátt rann á austan kul, svo að siglt var og róið undir megin hluta leiðarinnar til Eyja. Lent var heilu og höldnu í Eyjum um hádegisbilið. Þá hafði vindur glæðzt að mun. Þrem tímum síðar eða svo sást Fjallaskip koma siglandi austur við Bjarnarey. Glöggir Eyjabúar þekktu þar brátt Skarðshlíðarskipið. Formaður þess var hinn kunni sjómaður og bóndi Fjallamanna, Björn Sigurðsson í Skarðshlíð. Nú var sjór tekinn að stækka og austan stormurinn hafði vaxið að miklum mun.

Austur á Kirkjubæjum var fylgzt með skipi þessu. Það nálgaðist brátt Yzta-Klettinn. Þá skipti það engum togum: Skipinu hvolfdi. — Karlmenn á Kirkjubæjum tóku þegar til fótanna og hlupu í dauðans ofboði vestur og niður að höfn. Þar hrundu þeir skipi á flot og réru af fremsta megni austur að Yztakletti gegn stormi og sjóum. Þarna fundu þeir Skarðshlíðarskipið á hvolfi og einn mann á kili. Á skipinu höfðu verið 28 manns alls, 20 karlar og 8 kvenmenn. Alls drukknuðu því þarna 27 manns. — Þetta gerðist eins og áður segir á uppstigningardag 16. maí 1901, tveim til þrem tímum eftir að hjónin frá Efra-Hóli, Bjarni og Halldóra, stigu á land í Eyjum heilu og höldnu.

Þau fluttu þegar í Garðfjósið með börnin sín tvö, Björn og Ingibjörgu. Hann var 8 ára og dóttirin 6 ára að aldri.

Bjarni Einarsson stundaði sjóinn fyrstu árin sín í kauptúninu. Hann var vertíðarmaður á áttæringi.

Tengdaforeldrar Jóns Einarssonar frá Yzta-Skála bróður Bjarna, Ingimundur bóndi og hreppstjóri Jónsson og frú Margrét Jónsdóttir á Gjábakka, voru í hópi hinna fáu efnuðu hjóna í Eyjum, svo að Sesselja kona Jóns fékk dálaglegan heimanmund. Þessi ungu hjón, frú Sesselja og Jón, höfðu ákveðið að ráðast þegar í það stórvirki að byggja sér íbúðarhús þarna austur á Gjábakkajörðinni. Þær byggingarframkvæmdir voru vel á veg komnar, þegar hjónin Bjarni og Halldóra, settust að í Garðfjósi árið 1901. Þegar var afráðið milli bræðranna, að Bjarni og Halldóra fengju íbúð í nýja húsinu, þegar til kæmi. Og það fengu þau von bráðar.

Á Gjábakka bjuggu þau síðan næstu fjögur eða fimm árin. Þá fengu þau ábúð á einni Vilborgarstaðajörðinni hjá Magnúsi sýslumanni. Það var Miðhlaðbæjarjörðin, sem svo var kölluð. Þar var smákofi til íbúðar. Þessa vistarveru fluttu þau í líklega 1905 eða 1906 og kölluðu Skála. Nafnið var dregið af Yzta-Skálanafninu, sem þeim þótti vænt um. Þarna byggðu þau bráðlega fjós og hlöðu.

Vissulega höfðu hjónin efnast dálítið þessi fáu ár, sem þau höfðu dvalizt í kauptúninu. Atvinnu hafði Bjarni Einarsson haft við sjóróðra á vetrum og fiskverkun á sumrum. Og hjónin héldu vel á, enda var eiginkonan búkona í bezta lagi, hyggin og vinnusöm, svo að henni féll helzt aldrei verk úr hendi.

Og svo hófst nýr þáttur í útgerð og atvinnulífi Eyjafólks. Þar létu þau ekki sinn hlut eftir liggja, heldur urðu með í hópi þeirra karla og kvenna, sem ruddu þar markverðar brautir til að efla vélbátaútveginn til velmegunar og farsældar þessu afskipta og einangraða byggðarlagi.

Á vertíð 1906 hófst útgerð á tveim fyrstu vélbátunum, sem til Eyja komu. Áður hafði að vísu Gísli J. Johnsen keypt til Eyja eilítið vélbátshorn, sem ekki varð nothæft til fiskveiðanna sökum smæðar. En bátur sá varð til þess að kveikja í framsæknum formönnum í byggðarlaginu, auka hugmyndir þeirra, áhuga og skilning á nýrri tækni, nýjum möguleikum til eflingar útveginum og atvinnulífinu í heild. Jafnframt höfðu hyggnir og dugmiklir Eyjamenn kynnzt vélbátaútgerð Austfirðinga á þessu tímaskeiði, með því að margir þeirra leituðu sér atvinnu á Austfjörðum á sumrum. Þá hafði vélbátaútvegurinn þar gerzt ríkur þáttur í atvinnulífinu og Austfirðingar rutt brautir á því sviði, svo að athygli vakti.

Á vetrarvertíð árið 1907 hófst mjög aukin útgerð vélbáta í Vestmannaeyjum. Haustið áður voru fimm vélbátar þar í notkun. En á þessari vertíð bættust seytján vélbátar í flotann. — Vestmannaeyingar tóku höndum saman til þess að efla vélbátaútveginn sinn. Þeir mynduðu lítil sameignarfélög um kaup á vélbátunum. Fimm til átta menn voru venjulega í hverju sameignarfélagi. Þeir lögðu saman hinar fáu krónur sínar, því að flestir höfðu þá lítið fé milli handa, og afréðu vélbátskaup. Í hópi þessara brautryðjenda voru hjónin í Miðhlaðbæ, Bjarni Einarsson og frú Halldóra Jónsdóttir. Á fyrstu árum vélbátanna voru það tveir kaupmenn helzt, sem veittu fyrirgreiðslu. Það voru þeir Gísli J. Johnsen og J.P.T. Bryde, en hann lézt 1910.

Árið 1907 mynduðu nokkrir Fjallamenn, sem flutzt höfðu til Eyja á fyrstu árum aldarinnar, sameignarfélag og festu kaup á vélbát frá Danmörku. Gísli J. Johnsen studdi dyggilega við bakið á þeim við bátakaupin. Hann gerðist einnig einn af fimm eigendum bátsins. Í þessu sameignarfélagi voru hjónin í Miðhlaðbæ, Bjarni og frú Halldóra. Þriðji aðilinn að bátakaupum þessum voru hjónin á Sandfelli (nr. 36) við Vestmannabraut, Guðjón Jónsson og frú Ingveldur Unadóttir. Guðjón var kunnur innflytjandi til Eyja undan Eyjafjöllum, sægarpur mikill og aflakló. Hann varð formaður bátsins. — Vélbátur þessi var svipaður á stærð og flestir hinir, sem þegar voru keyptir til Eyja. Hann var 7,5 rúmlestir að stærð með 8 hestafla Danvél. Hann var smíðaður í Friderikssundi í Danmörku og hlaut nafnið Ingólfur og einkennisstafina VE 108. Guðjón Jónsson frá Sandfelli var formaður á bátnum næstu 12 vertíðirnar og aflaði jafnan ágætlega, svo að gróði varð af útgerðinni.

Flestir þeir meðeigendur í vélbátum þessum, sem ekki réru sjálfir á þeim, gerðu að aflahlut sínum og önnuðust að öllu leyti sinn þátt í útgerðinni. Afla var skipt á milli útgerðarmanna, þegar að landi kom, eins og aflanum milli sjómannanna á opnu skipunum áður fyrr um langan aldur.

Eftir fyrstu vertíðina veturinn 1907 sáu hjónin í Hlaðbæ sér fært að hefja byggingu nýs íbúðarhúss á Jörðinni. Jafnframt sáu þau sér tök á að festa fjármuni í nýjum vélbáti. Sameignarmenn að þeim vélbáti voru sex. Eins og fyrri báturinn var hann keyptur frá Frederikssundi í Danmörku, 7,5 rúmlestir að stærð með 8 hestafla Danvél. Hann var einnig keyptur í umboði Gísla J. Johnsens. Þessi vélbátur hlaut nafnið Haffari og einkennisstafina VE 116.

Svo liðu árin. Hjónin luku við byggingu íbúðarhúss síns á Hlaðbæjarjörðinni og þau önnuðust útgerðarhluti sína af natni og samvizkusemi. Þau önnuðust verkun aflahlutar síns að fullu, og þau uxu að eignum og áliti í hinni miklu útgerðarstöð. — Ekki var hlutur húsmóðurinnar neitt smáræði í öllum þessum umsvifum. M.a. stjórnaði hún stóru heimili hverja vertíð. Aðkomusjómenn, sem réru á vélbátunum, og svo allt landverkafólk, aðgerðarmenn og þjónustustúlkur, bjuggu heima hjá útvegsbændunum. Það kom þess vegna í hlut húsmæðranna að annast matreiðslu og alla þjónustu við þetta starfsfólk á vertíð hverri, og það starf gerði kröfu til langs vinnudags og mikillar stjórnsemi, ætti þar gagn og gifta að fylgja athöfnum.

Vetrarvertíðin 1911 var með afbrigðum aflasæl. Eftir hana afréðu hjónin í Miðhlaðbæ að leggja enn sitt af mörkum til þess að efla útgerðina og atvinnulífið í kauptúninu. Þau lögðu þá fé í tvö sameignarfélög til kaupa á tveim nýjum vélbátum. — Annar báturinn hlaut nafnið Sæfari og einkennisstafina VE 154. Hann var 12 rúmlestir að stærð með 12 hestafla Gideonvél. Hann var eins og hinir fyrri bátar þeirra smíðaður í Frederikssundi. Fjórir voru eigendur hans og áttu jafnan hlut hver í útgerðinni. Þessi bátakaup minna á sérstakan þátt í þróuninni.

Með auknu fjármagni verða bátarnir stærri, sem keyptir eru til Eyja, og eigendum hvers báts fækkar, sameignarfélögin gerast fámennari. Einn af fjórum eigendum þessa vélbáts var Sveinn Jónsson frá Landamótum í Eyjum, bróðir frú Halldóru húsmóður í Miðhlaðbæ og mágur Bjarna. Hann var formaður á bátnum, og hann reyndist jafnan aflasæll og dugnaðarsjómaður.

Hinn vélbáturinn, sem hjónin lögðu fé í og keyptur var til Eyja sama árið (1912) hlaut nafnið Happasæll og einkennisstafina VE 162. Hann var 10,67 rúmlestir að stærð með 12 hestafla Scandiavél, sem var sænsk, enda var bátur þessi smíðaður í Svíþjóð. Kaupendur þessa báts voru fimm.

Árið 1917 lögðu þessi athafnasömu hjón fé sitt í siðustu bátakaupin sín. Sá vélbátur var smíðaður í Eyjum. Bátasmíðameistarinn var Guðmundur Jónsson á Háeyri. Þessi bátur var 11,17 rúmlestir að stærð með 20 hestafla Alfavél. Hann kölluðu eigendurnir Ingólf Arnarson og hann fékk einkennisstafinaVE 187. Þrír voru eigendur þessa báts, — aðeins þrír. Og nú er vélaaflið orðið rúmlega hálft annað hestafl á rúmlest hverja. Tveir af eigendunum voru mágarnir Bjarni og Sveinn, og áttu þeir sinn þriðjunginn hvor í bátnum. Sveinn Jónsson var formaðurinn.

Hjónin í Hlaðbæ, Bjarni Einarsson og frú Halldóra Jónsdóttir, eignuðust sex börn. Þrjú þeirra náðu fullorðinsaldri. Björn í Bólstaðarhlíð var elztur þeirra, eins og áður getur. Hann verður þriðji ættliðurinn, sem ég skrifa hér um í þessu greinarkorni mínu.

Björn Bjarnason var fyrirmálsbarn elskendanna á Yzta-Skála, eins og ég drap á í upphafi máls míns. Fyrstu átta ár ævinnar dvaldist hann hjá afa sínum og ömmu á Yzta-Skála, móðurforeldrum sínum. Hann fluttist með foreldrum sínum til Vestmannaeyja árið 1901, þegar þau settust þar að.

Annað barn hjónanna er frú Ingibjörg Bjarnadóttir húsfreyja að Varmahlíð undir Eyjafjöllum, sem gift er Einari Sigurðssyni bónda þar. Þriðja barn hjónanna var Sigurður Gísli, skipstjóri og útgerðarmaður í Svanhóli í Eyjum. Kona hans var frú Þórdis Guðjónsdóttir bónda Eyjólfssonar á Kirkjubæ.

Árið 1935 keyptum við hjónin íbúðarhúsið Háagarð í lendum Vilborgarstaða og fengum um leið afnot af nokkrum hluta jarðarinnar, sem var ein af átta jörðum Vilborgastaðatorfunnar, eins og Miðhlaðbærinn. Íbúðarhúsið að Háagarði stóð svo sem 8-10 metrum fyrir vestan Hlaðbæjarhúsið. Þarna bjuggum við hjónin í 12 ár, eða frá 1935-1947. Fyrstu sjö árin, sem við bjuggum í Háagarði, lifði frú Halldóra húsfreyja í Hlaðbæ. Hún lézt 2. júní 1942, 67 ára að aldri.

Sambýlið þarna á jörðum þessum var í alla staði vinsamlegt og gott, — drengilegt og innilegt. Það var laust við allan átroðning frá báðum hliðum. Vissulega getum við hjónin um það borið, hversu Halldóra húsfreyja var mikill forkur við hússtjórnarstörfin. Þá voru mestu útgerðarannir þeirra hjóna um garð gengnar, þegar við fluttum í nágrennið. Hyggin búkona var frú Halldóra einnig. Því veittum við athygli. Enda naut atvinnurekstur hjónanna um tugi ára þeirra eiginleika hennar í ríkum mæli. Svo mikið fé fór um hendur hennar þá í hinu fjölmenna húshaldi. Okkur er í minni, hversu létt var jafnan yfir heimilinu í Hlaðbæ, húsráðendur glaðværir og léttir í lund, þegar gesti bar að garði. Og ekki leyndist það neinum, að eiginmaðurinn mat konu sína mikils.

Frú Halldóra Jónsdóttir var gjafmild kona og fátækum hjálpsöm. Þess urðum við vör. Hún var léttlynd, trygg og vinaföst. Það sögðu þeir, sem bezt þekktu hana. Og vissulega nutum við hjónin þeirra góðu eiginleika hennar þau ár, sem hún lifði eftir að við fluttum í nágrennið.

Þegar ég hugleiði eiginleika þessarar mætu konu og fráfall hennar, minnist ég einstaks atburðar, sem mér verður lengst af hugstæður. Þegar lík húsfreyjunnar skyldi kistulagt heima í Hlaðbæ, kom eiginmaðurinn til mín með skilaboð frá hinni látnu. Beiðni hennar hin hinzta var sú, að ég læsi vissan Passíusálm við kistu hennar, áður en henni yrði lokað. Frú Halldóra kunni alla Passíusálmana utanbókar frá bernsku- og æskuárum sínum að Yzta-Skála. Vitaskuld gerði ég þessa bón hennar svo vel og innilega, sem mér var unnt. Við hjónin litum á þessa bón hinnar látnu sem vott um hlýhug hennar og traust, vinsemd og innileik, sem ávallt ríkti milli þessara nágranna.

Bjarni Einarsson í Hlaðbæ, bóndi og útgerðarmaður, lézt 16. des. 1944, 75 ára að aldri. — Blessuð sé minning þessara nágrannahjóna okkar.