Guðni Jóhannsson (Götu)
Guðni Jóhannsson frá Stokkseyri, skipstjóri fæddist á Sjónarhóli þar 8. október 1905 og lést 2. nóvember 1985.
Foreldrar hans voru Jóhann Guðmundsson sjómaður, verkamaður, f. 18. ágúst 1863 í Skíðbakkahjáleigu í A-Landeyjum, d. 25. október 1923, og kona hans Guðný Stefánsdóttir húsfreyja, f. 15. mars 1864 í Ysta-Skála u. Eyjafjöllum, d. 2. mars 1941.
Börn Guðnýjar og Jóhanns í Eyjum:
1. Kristmundur Jóhannes Jóhannsson sjómaður, bifreiðastjóri, verkamaður, síðar í Reykjavík, f. 19. október 1899, d. 26. febrúar 1971.
2. Stefanía Jóhannsdóttir húsfreyja, síðar í Reykjavík, f. 20. mars 1902, d. 6. október 1997.
3. Guðni Jóhannsson skipstjóri, síðar á Seltjarnarnesi, f. 8. október 1905, d. 2. nóvember 1985.
4. Jóel Jóhannsson sjómaður, síðar í Reykjavík, f. 20. febrúar 1911, d. 20. október 1955.
Fósturbarn þeirra var
5. María Konráðsdóttir, síðar húsfreyja í Biskupstungum og Hveragerði, f. 9. september 1916, d. 16. mars 2003.
Guðni var með foreldrum sínum í æsku, flutti með þeim til Eyja 1910, bjó með þeim í .Péturshúsi við Urðaveg 9, á Gjábakka við Bakkastíg, Sæbergi við Urðaveg og Götu við Herjólfsgötu 12.
Hann lauk hinu meira stýrimannaprófi í Stýrimannaskóla Íslands 1947.
Guðni fór til Austfjarða 14 ára, reri á árabátum frá Vattarnesi við Reyðarfjörð, en var á vetrarvertíðum í Eyjum.
Hann var formaður á Þrasa VE 2 1926, síðan skipstjóri á ýmsum bátum í Eyjum, tók við Heimi VE 9 1937 og stjórnaði honum til 1946, en reri síðan á eigin bátum til 1955, en hætti þá sjómennsku.
Guðni varð útgerðarstjóri hjá Einari Guðfinnssyni í Bolungarvík ásamt starfi hjá Fiskveiðasjóði Íslands, hætti vegna heilsubrests 1974.
Þau Jóhanna giftu sig 1925, eignuðust eitt barn. Þau bjuggu á Staðarhóli við Kirkjuveg 57 1930, á Brekku við Faxastíg 4, síðast á Sæfelli á Seltjarnarnesi.
Jóhanna lést 1963.
Guðni dvaldi á Hrafnistu. Hann lést 1985.
I. Kona Guðna, (14. nóvember 1925 á Vattarnesi), var Jóhanna Hálfdanía Þorsteinsdóttir frá Vattarnesi, húsfreyja, f. þar 27. ágúst 1900, d. 12. september 1963.
Barn þeirra:
1. Sigþór Hilmar Guðnason skipstjóri, f. 11. júní 1925, d. 30. janúar 1962.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Prestþjónustubækur.
- Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.