Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Sjómannadagurinn 1983

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 5. júní 2019 kl. 12:34 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 5. júní 2019 kl. 12:34 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sjómannadagurinn 1983


Sigurgeir Ólafsson setur hátíðina.

Sjómannadagurinn 1983 var haldinn hátíðlegur dagana 4. og 5. júní.
Hátíðarhöldin á laugardag hófust með því að strákar úr Samhygð sýndu sprang í Fiskhellanefi. Sáust þar margar skemmtilegar sveiflur með lykkjum og tilheyrandi.
Við Friðarhöfn byrjuðu hátíðarhöldin með kappróðri milli Skipstjóra- og stýrimannafélagið VerðandiVerðanda og Jötuns. Þar sigraði Jötunn, stýrimaður var Stefán Geir Gunnarsson, tími 2,04,75. Næstir kepptu áhafnir á Heimaey og Vestmannaey. Heimaey sigraði á tíma 2,13,60, stýrimaður Hörður Jónsson aflakóngur. Síðan komu fermingarstrákarnir. Miðbærinn sigraði, tími 2,27,67, stýrimaður Ólafur Sigmundsson. Þá komu sjóenglar, piparsveinar og löndunargengi. Í þeim riðli sigruðu piparsveinar, tími hjá þeim 2,01,48, stýrimaður Þór Engilbertsson. Næst var róið um stöðvarbikarinn. Þar sigraði frystihús F.I.V.E., stýrimaður Michael Kobot, tími 2,11,26. Að síðustu komu tveir riðlar kvenna, besti tími var hjá Sjóstangaveiðifélagi Vestmannaeyja, stýrimaður Ester Óskarsdóttir, tími 2,24,59,jafnframt nýtt brautarmet kvenna. Stakkasund var næst á dagskrá. Keppt var í tveim riðlum. Sigurvegari varð Smári Harðarson, tími 18,99,1.

Hátíðargestir í hátíðarskapi
Þessir menn voru heiðraðir fyrir vel unnin störf. T.f.v.: Sigfús Guðmundsson skipstjóri, Magnús Magnússon vélstjóri og Þórarinn Jónsson matsveinn.

Koddaslagur karla með 12 svellköldum strákum var næstur á dagskrá. Þar var lamið, slegist og pústrað og hafnað í sjónum að lokum. Sigurvegari varð Bárður Óli Kristjánsson, annað árið í röð. Koddaslagur kvenna: Sjö blómarósir börðust um að hafna ekki í sjónum. Eftir á slánni sat Rósa Einarsdóttir sem sigurvegari. Þessi slagur vakti mikla kátínu hjá áhorfendum. Sýning á sjóskíðum var endirinn á dagskrá við höfnina.
Um kvöldið var dansleikur í Samkomuhúsinu, dansað var til kl. 3 eftir miðnótt. og að sjálfsögðu þrumusjómannastuð.
Sunnudagurinn 5 júní. Hátíðarhöldin hófust við Samkomuhúsið kl. 13 með leik Lúðrarsveitar Vestmannaeyja. Hátíðina setti Sigurgeir Ólafsson, hafnarstjóri. Því næst var farið í skrúðgöngu að Landakirkju. Í Landakirkju var sjómannamessa og messaði séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson. Að messu lokinni var athöfn við minnisvarðann. Einar J. Gíslason minntist drukknaðra og hrapaðra. Fulltrúar sjómannafélaganna, bjargveiðimanna, Slysavarnarfélagsins og hjálparsveitar skáta stóðu heiðursvörð með félagsfána. Frú Jóna Guðmundsdóttir lagði blómsveig að fótstalli minnisvarðans meðan á fánakveðju stóð.
Hátíðarhöldunum var fram haldið á Stakkagerðistúni kl. 16. Lúðrasveitin lék. Ræðu dagsins flutti frú Ingveldur Gísladóttir, og er það í fyrsta skipti sem kona flytur ræðu á sjómannadaginn. Var sannarlega ánægjulegt að heyra í sjómannskonu á þessum dagi. Síðan var verðlaunaafhending fyrir unnin afrek laugardagsins. Runólfur Gíslason sá um þann þátt, jafnframt var hann kynnir dagsins. Þá voru aldraðir sjómenn heiðraðir: Sigfús Guðmundsson, skipstjóri, Magnús Magnússon, vélstjóri og Þórarinn Jónsson, matsveinn. Að endingu skemmtu Jörundur og Laddi.

Á Stakkó
lngveldur Gísladóttir sjómannskona flytur hátíðarrœðu Sjómannadagsins.

Að vanda var hið ljúffenga Eykyndilskaffi í Alþýðuhúsinu, frábært að vanda. Kl. 20 var kvöldskemmtun í Samkomuhúsinu og hófst með ávarpi Guðmundar Sveinbjörnssonar. Aflamenn voru heiðraðir, um það sá Einar J. Gíslason á þann hátt sem honum einum er lagið. Hörður Jónsson og áhöfn hans á Heimaey VE 1, fengu víkingaskipið fyrir mestan vertíðarafla. Einar Ólafsson og áhöfn hans á Kap 2 VE 4, fengu fánastöngina fyrir mesta aflaverðmæti. Sævar Brynjólfsson og skipshöfn á Breka VE 61, fengu vitann fyrir mestan afla togara. Gísli Valur Einarsson og áhöfn hans á Björgu VE. 5, fengu radarinn fyrir mestan afla togbáta. Einar J. Gíslaon afhenti þeim bræðrum Hafþóri Theodórssyni dúx Stýrimannaskólans og Sveinbirni Theodórssyni dúx vélskólans viðurkenningu fyrir námsafrek. Guðmundur Sveinbjörnsson sagði þær gleðifréttir að Guðjón Pálsson og skipshöfn á Gullbergi VE. hefðu bjargað fjórum mönnum af dönsku skipi er fórst á Færeyjarbanka þennan dag. Að lokum skemmtu Einar Sigurfinnsson og Qmen-7, Jörundur og Laddi, Jónas Þórir, Graham Smith og dixielandband Lúðrasveitarinnar. Dansað fram eftir nóttu.
Formaður sjómannadagsráðs að þessu sinni var Guðmundur Sveinbjörnsson, skipstjóri.

Á.B.

Ungir rœðarar