Sigfús Guðmundsson (skipstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigfús

Sigfús Guðmundsson fæddist 28. júní 1912 og lést 10. nóvember 1995. Hann bjó á Brimhólabraut 10 en bjó síðustu ár sín á Hraunbúðum.

Sigfús var formaður með mótorbátinn Ísleif.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Sigfús:

Heldur fær um súðar sveif
sonur Guðmunds Fúsi,
á æginn færir Ísaleif
aldan stafn þó knúsi.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Björg þétt með fiski fjörgar
frískur Einar ónízkur,
son Guðmunds siglu-konu,
séður með afla hleður.
Heldur sá hafs á keldur,
hríð þó að rjúki víða,
hól með úr skipaskóla
skipstjórinn fór með lipur.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.

Frekari umfjöllun

Sigfús Guðmundsson frá Hólakoti u. Eyjafjöllum, skipstjóri fæddist 28. júní 1912 og lést 10. nóvember 1995.
Foreldrar hans voru Guðmundur Einarsson bóndi, f. 13. mars 1880, d. 19. júní 1932, og kona hans Þuríður Vigfúsdóttir húsfreyja, f. 22. júlí 1877, d. 1. febrúar 1932.

Sigfús stundaði sjómennsku frá unglingsárum. Hann tók próf frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1939 (sjá mynd).
Þau Alda giftu sig 1934, fluttust til Eyja, eignuðust tvö börn. Þau bjuggu í Hjálmholti, Urðavegi 34 við fæðingu Jóhanns 1936 og enn 1945, á Brimhólabraut 10 1949 við fæðingu Guðmundar Þórs, en að lokum bjó Sigfús í Hraunbúðum.
Auróra Alda lést í maí 1995 og Sigfús í nóvember 1995.

I. Kona Sigfúsar, (22. september 1934), var Auróra Alda Jóhannsdóttir frá Brekku, húsfreyja, f. 6. maí 1913, d. 11. maí 1995.
Börn þeirra:
1. Jóhann Guðbrandur Sigfússon flugmaður í Reykjavík, f. 15. október 1936 í Hjálmholti . Kona hans er Gunnvör Valdimarsdóttir. Þau búa í Kirkjulundi 12 í Garðabæ.
2. Guðmundur Þór Sigfússon pípulagningamaður, kaupmaður í Eyjum, f. 13. mars 1949 á Brimhólabraut 10. Kona hans er Jóna Ósk Gunnarsdóttir.

Myndir



Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.
  • Skipstjóra- og stýrimannatal. Guðmundur Jakobsson. Ægisútgáfan 1979.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.