Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1970/ Minnzt 30 ára afmælis Verðanda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. apríl 2017 kl. 16:08 eftir Vpj1985 (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. apríl 2017 kl. 16:08 eftir Vpj1985 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Minnzt 39 ára afmælis Verðanda


–– Stutt ágrip af sögu Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda, flutt í afmælisfagnaði félagsins 15 nóvember 1969.

Góðir félagar og gestir.
Það hefur þótt hlýða, er minnzt er 30 ára afmælis Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda að staldra nokkuð við og rifja í fáum orðum upp sögu félagsins og starf á liðnum árum.
Þó að 30 ár séu ekki langur tími í ævi þjóðar eða einstaklings, er sá tími nokkur í ævi og starfi félags. Og þegar litið er um öxl er breytingin, sem orðið hefur á þessu tímabili, firna mikil.

I.


Við skulum reyna að bregða upp fyrir okkur mynd ársins 1938 og fletta til baka þessu 30 ára blaði í sögu lands og þjóðar.
Íslenzka þjóðin var þá rétt vöknuð og aðeins 20 ár, síðan Íslendingar fengu fullveldi. Þetta var í lok heimskreppunnar miklu, og meðal landsmanna ríkti mikil fátækt og víða örbirgð eftir 8 ára stopula vinnu og verðfall afurða.
Úti í hinum stóra heimi voru miklar viðsjár, borgarastyrjöld í nálægum og mikilvægum verzlunarlöndum, eins og á Spáni, en yfir meginland álfunnar færðist skuggi einræðis og ófrelsis.
Siglingar hins unga kaupskipaflota þjóðarinnar voru einu tengslin við umheiminn.
Mannfjöldi á öllu Íslandi árið 1938 var tæplega 119 þús. Í Vestmannaeyjum var íbúatalan um 3.500 manns og hafði að mestu staðið í stað eftir hina öru uppbyggingu kaupstaðarins frá 1910 til 1930, en það ár var Vestmannaeyjakaupstaður stærsti kaupstaður landsins, á eftir Reykjavík. En svo kom kreppan með sína dauðu hönd og hlutum var um snúið. Þeir báru nú minnst úr býtum, sem mestan afla fluttu að landi og fallegasti fiskur Atlantshafs - stór saltfiskur frá Vestmannaeyjum - var svo til verðlaus á markaðstorgum suðurlanda.
Sem fyrri daginn, var sjórinn samt sóttur af krafti frá Vestmannaeyjum og jafnframt barizt við að sigra úthafsölduna með varanlegum hafnargörðum. Hafði sú barátta staðið látlaust í rúm 20 ár. Höfnin var eins og nú lífæð byggðarlagsins, og þrátt fyrir þröngan efnahag höfðu Eyjamenn ráðizt í kaup á grafskipinu Vestmannaey, sem stöðugt vann að dýpkun hafnarinnar. Erfiðleikar við löndun voru ótrúlega miklir, þó að bátar flytu nú orðið að bryggju. Var öllum fiski kastað á stingjum úr lest og á þilfar og síðan upp á bryggju, en þaðan á bíl. Handvagnaöldin var þó liðin tíð, er hér var komið sögu.
Fátæktin var mikil, öryggi í sjósókn lítið og slys tíð. Um vertíðina 1937 segir í Ægi: „Vertíðin var svo með afbrigðum léleg, að það mun þykja minnisstætt.“
Skipin voru smá, og í öllu landinu voru aðeins 4 vélskip yfir 100 rúmlestir, meginhluti fiskiskipa yfir 100 rúmlestir voru þá gufuskip og línuveiðarar. Frá Vestmannaeyjum gengu 84 vélbátar, og voru 73 bátanna 12 lestir eða meira; 11 bátar minni en 12 lestir gengu þá héðan. Stærsti báturinn var 36 rúmlestir. Í nóvember 1938, skömmu fyrir stofnun Verðanda, kom nýr bátur til Vestmannaeyja frá Danmörku. Var það Skúli fógeti, sem nú er með minnstu bátum í flota Vestmannaeyjabáta. Þessi nýi bátur, sem var 22 rúmlestir brúttó, mun hafa kostað hingað kominn rúmar 30 þúsundir króna, búinn 110 hestafla vél og öllum nýjustu tækjum, eins og segir í samtíma blaðafrétt. En hvað myndu þau tæki þykja nú á tímum?
Í skipum eru á þessum tíma engir dýptarmælar, engin ratsjá; sem sé hvorugt þeirra siglingatækja, sem sjómönnum þykja nú hvað nauðsynlegust til öruggra siglinga með ströndum fram í dimmviðri og náttmyrkri.

II.


Úr þessum jarðvegi og við þessar þjóðfélagsaðstæður vex Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi. Þrátt fyrir kröpp kjör er þó mikill framfarahugur og þróttur í sjómönnum hér.
Svo sem kunnugt er sjómönnum, er landtaka hér vestan Eyja erfið og hættuleg skipum, einkum vegna blindskerja og hættulegra grunna sunnan Þrídranga. Viti á Þrídröngum var því öllum sjófarendum ákaflega þýðingarmikið öryggismál. Sameinar þetta mál svo skipstjórnarmenn hér í Vestmannaeyjum, að þeim er ljós þörfin á sé stökum félagsskap til að ræða og túlka áhuga- og hagsmunamál sín. Höfðu formenn komið saman haustið og veturinn 1938 og rætt þetta mál. Hinn 26. febrúar 1938 er haldinn fjölmennur fundur skiptjóra og segir svo í fundargerð, sem síðar er send Alþingi ásamt áskorun, sem er undirrituð af 72 skipstjórum í Vestmannaeyjum: „Á þessum tímum, er áhugi íslenzku þjóðarinnar virðist vera fyrir alvöru að vakna fyrir slysavörnum, ættu vitabyggingar jafnhliða að vera fyrsta sporið, sem stigið væri, því hvað er beri slysavörn en góður viti á hættulegri leið?“ Koma skipstjórnarmenn í Eyjum síðan þessu máli farsællega í höfn, og gekk fyrsti formaður Verðanda, Árni Þórarinsson hafnsögumaður, ósleitilega fram í málinu og hafði verkstjórn á hendi við byggingu vitans, sem gekk ótrúlega vel við erfiðar aðstæður. Var það skemmtilegt tafl örlaganna, að bygging vita á hættulegri leið skyldi tendra upphaf að félagi skipstjórnarmanna í Vestmannaeyjum.
Formlegur stofnfundur Verðanda var síðan haldinn í húsi K.F.U.M. & K. hinn 27. nóv. 1938, og var félagið í fyrstu nefnt Skipstjóra-og stýrimannafélag Vestmannaeyja. Nafninu var að tillögu Þorsteins Jónssonar í Laufási breytt í Verðandi á aðalfundi hinn 3. janúar 1942. Legg ég og fleiri þann skilning í nafnið, að Verðandi sé bæði sá, sem verður, sá sem hverfur ekki af sjónarsviðinu og sá, er skapar framtíð, sbr. verðandi skipstjóri o.s.frv. Haga ég því beygingu nafnsins í samræmi við það, enda oftast verið beygt þannig og orðin hefð í máli hér.

III.


Í stofnlögum félagsins er sett fram markmið og ætlunarverk félagsins. Segir svo í 2. gr.: „Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmuna- og launamálum skipstjóra og stýrimanna, efla samvinnu og viðkynningu þeirra á meðal og vernda rétt þeirra. Einnig vill félagið láta til sín taka hvers konar endurbætur, er snerta sjávarútveg og siglingar.“
Hefur félagið dyggilega fylgt þessari skorinorðu stefnuskrá, en auk þess gerzt merkur brautryðjandi í fjölmörgum öryggismálum sjómanna. Hafa félagar Verðanda stundum verið langt á undan öðrum landsmönnum. Merkast þessara mála er barátta Verðanda fyrir gúmmíbjörgunarbátum um borð í skipum. Flutti Sighvatur Bjarnason skipstjóri, sem alla sína skipstjóratíð starfaði mikið og vel í félaginu, tillögu um þetta mál. Öllum er kunnug heillavænleg þróun málsins og hverjum straumhvörfum í björgunarmálum gúmmíbátarnir hafa valdið. Hafa nú hundruð íslenzkra sjómanna bjargast vegna tilkomu þessara tækja.
Nokkra baráttu kostaði þetta mál, en þrjá fyrstu gúmmíbjörgunarbáta í íslenzk skip kaupa útgerðarmenn og skipstjórar héðan úr Vestmannaeyjum árið 1950. Og hér sönnuðu þeir fyrst afburða gildi sitt og yfirburði sem björgunartæki árið 1952. Þetta framtak Verðanda verður til þess, að Íslendingar eru taldir brautryðjendur á þessu sviði björgunar- og slysavarnamála. Leitaði núverandi skipaskoðunarstjóri iðulega liðsinnis og hjástoðar félagsins, er hann stóð í ströngu hér heima og erlendis að fá gúmmíbátana viðurkennda og lögleidda sem bjögunartæki. Kostaði þetta mikla baráttu á sinni tíð.
Ég ræði þetta mál hér allítarlega, þar eð þetta mun merkast mála, sem félagið hefur beitt sér fyrir.

Gúmmíbátamálið er mál, sem lengi má líta til og minnir okkur á, að félög eins og Verðandi geta áorkað ótrúlega miklu, ef félagar eru samstilltir og samtaka.
Þessi merka ábending lætur ekki mikið yfir sér í ítarlegum fundargerðum félagsins.
Þetta gerðist á 40. fundi félagsins, sem haldinn var þriðjudaginn 9. janúar 1945 og hófst kl. 8:30 e.h. í Akógeshúsinu. Á fundi þessum er m.a. rætt um samninga fyrir komandi vetrarvertíð, sjómannadagsráð og byggingu kappróðrarbáta, styrktarheimili aldraðra sjómanna, minnismerki drukknaðra, bætta viðgeðarþjónustu á talstöðvum, stemmt verði stigu við áfengisflóðinu í bænum. Styrktarsjóðurinn er og til umræðu og hvetur Hannes Hansson félagsmenn til að róa með línustamp á línuvertíð og renni aflinn til sjóðsins. Um sjöunda og síðasta lið dagskrárinnar segir svo: „Sighvatur Bjarnason hóf máls á því, að nauðsynlegt væri að setja hlíf kringum dragnótaspilin, sem geti varnað slysum. Einnig að stjórn félagsins yrði falið að leitast fyrir um, hvort ekki væri hægt að fá gúmmíbáta, sem hver bátur hefði meðferðis til öryggis.“
Þessi fundur er dæmigerður um ótal fundi í starfi félagsins á undanförnum 30 árum. Á fundinum er fjallað um kjaramál félagsmanna, menningarmál, félagslegt öryggi allra sjómanna og öryggismál.
Þetta hafa verið helztu viðfangsefnin, og þegar gluggað er í fundargerðarbækur, er á fundum bryddað á mörgum málum, sem löngu síðar hafa áunnizt fyrir íslenzka sjómannastétt.
Komið var á skipulagðri hlustun milli Vestmannaeyjabáta þegar á árinu 1943, en ekki var mikill skilningur á þessu máli á hinum hærri stöðum. Ætlaði félagið að tilkynna hlustunartíma bátanna, en þá fékkst það aðeins gegn því, að félagið útvegaði og innheimti 2 heilsíðuauglýsingar í almanak Fiskifélagsins, en hver síða kostaði 110 kr., sem var talsvert fé í þá daga. Mikið gagn og öryggi var í þessari hlustun, en þessi kvöð varð til þess að þessi skipulagða tilkynningarskylda Eyja lagðist niður.
Þá beitti félagið sér fyrir föstu starfi hlustvarðar á Landsímastöðinni, og hafa þeir úrvalsmenn, sem hafa gegnt því, verið ómissandi liður í störfum og öryggi bátaflotans við Vestmannaeyjar. Á árunum 1940 til 1950 var mjög hvatt til endurresnar Björgunarfélags Vestmannaeyja og stofnunar björgunarsveitar innan vébanda Björgunarfélagsins. Var í Verðanda starfandi sérstök nefnd til björgunaræfinga og samþykkt, að í hverjum báti skyldi vera línubyssa til að koma línu á milli skipa. Eignaðist félagið björgunartæki á þessum tíma. Enn í dag er kjarni björgunarsveitar Björgunarfélagsins gamlir félagar Verðanda og úr þessari björgunarnefnd.
Þá hefur félagið beitt sér fyrir bættri þjónustu veðurstofunnar og öruggari og áreiðanlegri veðurfregnum. Veðurlýsingar á Mýrum fengust t.d. beinlínis fyrir tilstilli félagsins. Eins og ég gat í upphafi, hefur Verðandi frá stofnun haldið uppi baráttu fyrir bættum og öruggum ljósvitum við strendur landsins. Er aukið ljósmagn Skarðsfjöruvitans og stærri ratsjármerki á söndunum þar austur frá eitt af þeim málum, sem fulltrúar munu beita sér fyrir á næsta farmanna-og fiskimannaþingi, sem haldið verður í lok þessa mánaðar.
Í siglingamálum er auk þess iðulega rætt um bætta leiðréttingu áttavita og örugga viðgerðarþjónustu Landssímans, svo og fleiri og langdrægari radíóvita.
Af menningarmálum, sem félagið hefur styrkt, vil ég nefna Fiskadeild Byggðasafnsins og minnismerki drukknaðra og hrapaðra, en í seinni tíð hafa félagsmenn sýnt hinu lifandi fiskasafni Náttúrugripasafnsins óskiptan áhuga og flutt því og gefið fjölda fiska og sjávardýra.

IV.


Þessi upptalning er orðin nokkuð löng, en auk þessa hafa, sem eðlilegt er, kaup- og kjaramál tekið mjög mikinn tíma á fundum, og eru að sjálfsögðu stór liður í starfi félagsins. Hafa í samningum undanfarinna ára áunnizt áragömul baráttumál stéttarinnar, svo sem sjúkrasjóður og lífeyrissjóður allra sjómanna. En í þessu sambandi má geta um það, að tryggingarmál félagsmanna komu til umræðu þegar á öðrum fundi félagsins hinn 9. desember 1938. Var þá samþykkt, að sjómenn skyldu tryggðir í starfi allt árið.
Lokasigur þessara mála verður lífeyrissjóður félagsmanna, sem stjórn félagsins hefur beitt sér mjög fyrir að undanförnu. Þegar minnzt er á þetta mál, geta bæjarbúar aldrei ofþakkað forráðamönnum Verðanda og öðrum forystumönnum sjómanna í Eyjum þá kröfu þeirra, að lífeyrissjóður sjómanna í Vestmannaeyjum verði sérsjóður heima í héraði og ávaxtaður hér í bæ. Er hér stórmál á ferðinni. Fái sjóðurinn að standa óhreyfður og safna vöxtum og félagsiðgjöldum eftir núverandi viðhorfi í peningamálum og sama aflamagni áætla fróðir menn, að hann verði eftir 20 ár orðinn um 400 milljónir króna. Getur því lífeyrissjóður bundinn hér í bæ gert sjómönnum og byggðarlaginu ómetanlegt gagn, auk síns aðalmarkmiðs, tryggingu lífeyris að loknu ævistarfi. Getur slíkur sjóður valdið straumhvörfum í lánamálum til íbúðarbygginga sjómanna og fleiri nauðsynlegum, en fjárfrek­um framkvæmdum. Hafa sjómenn og útvegsmenn hér í bæ nú komið þessu máli í höfn.

V.


Af almennum kjaramálum sjómannastéttarinnar, sem Verðandi hefur unnið að, má nefna samþykkt félagsins um sunnudagafrí. Var á fundi félagsins 3. júní 1942 samþykkt að róa ekki á sunnudögum yfir sumarmánuðina, og fyrir vetrarvertíð 1943 var samþykkt, að sunnudagaróðrar yrðu alveg afnumdir, nema á tímabilinu frá 15. marz til 15. maí. Var félagið þarna langt á undan sínum tíma. Nokkuð hafa þessi helgarfrí raskazt síðan, en eru ávallt sanngirniskrafa sjómanna. Bættur aðbúnaður sjómanna og vertíðarfólks, verbúðir og mötuneyti, svo og sjómannastofa, hafa iðulega verið til umræðu. Bætt aðstaða til löndunar og sérstakir löndunarkranar ásamt áskorun í hafnarmálum um umbætur á höfninni, svo og gerð bátakvíar fyrir enda Friðarhafnar, eru allt mál, sem gerðar eru samþykktir um.
Áskorun um verndun fiskimiðanna er oft á dagskrá, og skorað er á Alþingi að fiskileitarskip verði haft hér við suðurströndina.
Þrátt fyrir mikinn dugnað og ákefð félagsmanna að ná í þann gula, hafa þeir þó sýnt fiskivernd mikinn áhuga og af framsýni barizt fyrir friðun hrauna og bent á hættur þær, sem geti steðjað að fiskistofnunum hér í Norður-Atlantshafi. Veiði smásíldar er fordæmd og samþykkt tillaga um bann við smásíldarveiði löngu áður en slíkt var leitt í landslög.
Bætt þjónusta í siglingamálum hefur alltaf verið ofarlega á baugi. Tillaga um gerð sérstakra fiskikorta, sem sýni botnslag greinilega, er mjög merkileg. Hefur sú tillaga ýtt við þessum málum, og var stuttu síðar allt Selvogsbankahraunið mælt upp vegna þessa. Eru slík fiskikort algeng meðal annarra þjóða.
Skóla- og menntunarmál sjómanna hafa alltaf verið mikið rædd á fundum félagsins. Unnu margir félagsmenn mjög gott starf við að koma þeim málum í rétt horf aftur, eftir að námskeiðin, til mikils óhagræðis, svo ekki sé meira sagt, voru flutt úr héraði til Reykjavíkur.
Þegar á árinu 1943 var stofnun stýrimannaskóla í Vestmannaeyjum til umræðu á fundum félagsins. Frá stofnun Stýrimannaskólans hér árið 1964 hefur stjórn og félagar Verðanda stutt skólann af fremsta megni og m.a. veitt til skólans mjög dýr og eftirsóknarverð verðlaun, sem er Verðandaúrið. Standa félagsmenn dyggan vörð um skólann, og hafa margir fært honum góðar gjafir. Vil ég hér við þetta tækifæri þakka stjórn og félagsmönnum Verðanda fyrir þann styrk og uppörvun, sem velvild þeirra og samhugur hefur veitt skólanum, mér og kennurum skólans í starfi okkar. Vona ég, að félagar Verðanda muni alltaf standa svo þétt saman um þessa stofnun sína, sem skólinn sannarlega er og á að vera.

VI.


Eins og þetta stutta og knappa yfirlit gefur til kynna, hefur félagið unnið gagnmerkt starf í þágu sjómannastéttarinnar. Flest af því, sem hér hefur verið talið, hefur verið unnið í kyrrþey, og er þá enn ótalinn styrktarsjóður félagsins.
Stofnun styrktarsjóðs komst strax til umræðu á fyrstu fundum félagsins, og er tilgangur sjóðsins að styrkja ekkjur félagsmanna og félaga Verðanda vegna slysa, sjúkdóma og elli og þá, sem án eigin gjörða verða illa úti fjárhagslega. Var styrktarsjóður Verðanda stofnsettur á aðalfundi 3. jan. 1942. Við síðustu áramót var sjóðurinn um 270 þúsund kr. Heimilt er að veita úr honum vöxtum og helmingi tekna. Hafa félagsmenn oft heitið á sjóðinn og þótt gefast vel. Væri þó þörf á að efla hann enn meira.
Margur hefur notið sjóðsins, og hefur samtals verið veitt úr honum 187.400 kr. til 108 aðila, en fyrst var veitt úr sjóðnum fyrir jólin 1954.

VII.


Hér hef ég drepið á helztu störf félagsins undanfarin 30 ár. Vil ég þá geta að nokkru þeirra manna, sem hafa setið í stjórn félagsins.
Fyrstu stjórn félagsins skipuðu:
Árni Þórarinsson, formaður; Sighvatur Bjarnason, varaformaður; Sigfús Scheving, ritari; Ármann Friðriksson, vararitari; Karl Guðmundsson frá Reykholti, gjaldkeri; Jónas Bjarnason, varagjaldkeri. Var Árni Þórarinsson formaður næstu 6 árin. Tala formanna er síðan þannig:

Hannes Hansson frá Hvoli 1944-46
Páll Þorbjörnsson 1947
Jóhann Pálsson 1948-51
Júlíus Sigurðsson 1952-54
Eyjólfur Gíslason 1955-56
Sigurgeir Ólafsson 1956—57
Kristinn Pálsson 1957-60
Júlíus Sigurðsson aftur formaður 1961-62
Friðrik Ásmundsson 1963-64
Steingrímur Arnar 1964—66
Sigurður Gunnarsson 1966-68
Guðjón Pálsson frá 1968.

Núverandi stjórn skipa: Guðjón Pálsson, formaður; Friðrik Ásmundsson, varaformaður; Gísli Eyjólfsson, ritari; Eyjólfur Gíslason, vararitari; Einar Guðmundsson, gjaldkeri; Hannes Haraldsson, varagjaldkeri.
Það er eftirtektarvert, að í 30 ára starfi félagsins hafa aðeins 5 menn verið kosnir ritarar, en lengst hafa gegnt því starfi tveir félagar eða samtals í 29 ár af 31 árs starfsferli. Eru það Runólfur Jóhannsson, sem er ritari frá 1940 til 1952, eða samtals í 12 ár, og Gísli Eyjólfsson, sem hefur gegnt ritarastarfi frá 1955 og til þessa dags, eða samtals í 15 ár.
Er fundargerðabóka félagsins vandlega gætt, en þær eru sérstaklega vel og greinilega færðar og nú þegar orðnar mjög merkar heimildir um störf félagsins og félagsmál sjómanna í Vestmannaeyjum á þessu tímabili.
Karl S. Guðmundsson í Reykholti hefur lengst gegnt störfum gjaldkera, eða í 6 ár. Eyjólfur Gíslason hefur lengst setið í stjórn félagsins, aðalstjórn og varastjórn, - eða samtals í 23 ár og að mestu leyti samfleytt síðan árið 1944.
Í félagið hafa verið skráðir frá upphafi 286 félagar, en virkir félagsmenn nú, flestir starfandi skipstjórar og stýrimenn, eru um 160 talsins.
Samtals hafa verið haldnir 166 fundir frá stofnun, en auk þess fjölmargir fundir í fulltrúaráði.
Níu félagar hafa verið gerðir heiðursfélagar. Þeir eru: Guðjón Jónsson, Heiði; Stefán Guðlaugsson, Gerði; Þorsteinn Jónsson, Laufási; Runólfur Jóhannsson, skipaeftirlitsmaður, allir látnir; Árni G. Þórarinsson, Hannes Hansson, Eyjólfur Gíslason, Sighvatur Bjarnason og Júlíus Sigurðsson.
Árið 1964 færði frú Bjarngerður Ólafsdóttir, ekkja Guðjóns heitins Jónssonar á Heiði, félaginu verðmæta gjöf, sem var neðsta hæð hússins Heiði. Var gjöfin gefin til minningar um Guðjón. Hefur Verðandi þar stjórnaraðsetur sitt, og hefur það orðið félaginu mikill styrkur og aflgjafi.
Í Verðanda hafa sem í öðrum félögum og á öllum sviðum þjóðlífsins skipzt á skin og skúrir. Ekki hafa allar gerðir né fundir félagsins verið jafnmerkilegir. En þegar tekin er heildarniðurstaðan, dregnir upp aðaldrættir og svipmót, sýnir það merkilegt starf í félagi manna, sem eru ávallt mjög störfum hlaðnir og eiga erfitt með að sinna félagsmálum vegna fjarvista og eðli atvinnu sinnar.
En á hverri tíð speglar Verðandi viðhorf og áhuga félagsmanna, en þróttur hvers félags er fundarsókn félaga og framlag. Þó hvílir aðalstarfið á stjórn félagsins hverju sinni.
Í kvöld minnumst við og þökkum öllum þeim mörgu, sem hér hafa lagt hönd að verki.
Félagið eru félagarnir - starfið innan vébanda þess. Þetta starf byggir gagnkvæmt upp félagið og þá, sem það rækja. Þegar harðnað hefur á dalnum, eins og í langvarandi vinnudeilum í upphafi þessa árs, þá fundu allir hvers virði stéttafélagið er þeim. Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi var þá félagsmönnum sínum sverð og skjöldur.
Við skulum vona og óska, að Skipstjóra og srýrimannafélagið Verðandi megi áfram vera hlutverki sínu trútt og félagið leggi áfram ómælt lið og tillag til allra framfara- og hagsmunamála sjómanna á Íslandi. Að Skipstjóra og stýrimannafélagið Verðandi í Vestmannaeyjum megi hér eftir sem í upphafi vera góður viti á torsóttum leiðum.

G. Á. E.