Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/„Minning látinna"

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. nóvember 2016 kl. 22:02 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. nóvember 2016 kl. 22:02 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Minning látinna

Alfreð Hjörtur Alfreðsson.
F. 9. nóv. 1952. — D. 23. apr. 1975.

Alfreð Hjörtur Alfreðsson.

Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 9. nóvember 1952 og á heimili foreldra sinna í Haga sleit hann barnsskónum í hópi 6 systkina. Foreldrar hans eru Alfreð Hjartarson vélstjóri frá Geithálsi og kona hans Jóna Friðriksdóttir, ættuð frá Siglufirði. Þau eru nú búsett í Grindavík.

Ungur fór hann á sjóinn og réri fyrst á útgerð föður síns á Frigg VE 316. Og enn var hann á Frigg, þegar hún sökk út af Krísuvíkurbjargi 29. mars 1973, eftir að hafa fengið á sig brotsjó. Svo er hann skipverji á Járngerði frá Grindavík, þegar hún sökk undir loðnufarmi í febrúarmánuði 1975. Öll áhöfnin bjargaðist. Þá er það, að hann ræðst skipverji á Vonina, sem gerð var út á þorskanetaveiðar frá Ólafsvík. Þann 23. apríl voru þeir á Voninni að leggja trossu skammt undan Rifi. Alfreð Hirti þótti illa ganga út færið eftir að seinni drekinn var farinn, og tók þar til hendi. En hann flæktist í færinu og dróst með því útbyrðis. Hann fannst aldrei. Menn hafa við orð, að eftir svo stutta ævi sé engin saga til. En það er rangt. Ævi manns, þótt ungur kveði, er mikil saga og stórbrotin. Hún er bara ekki öllum tiltæk til frásagnar.

Jafnöldrum Alfreðs Hjartar, þeim sem þekktu hann vel, ber saman um að hann hafi verið mikill vinur vina sinna, hjálpsamur og greiðvikinn. Hrókur alls fagnaðar í vinahópi. Hann var lipur sjómaður, áhugasamur og ósérhlífinn, sem og frændur hans margir. Líklegur til afreka á þeim vettvangi með vaxandi reynslu og þroska.

Alfreð Hjörtur lét eftir sig dóttur á sjöunda ári. Hún elst upp hjá móður sinni á Akranesi.
Minningarathöfn um Alfreð Hjört Alfreðsson fór fram í Landakirkju 7. júní 1975.


Halldór Elías Halldórsson.
F. 23. júlí 1902. - D. 8. okt. 1975.

Halldór Elías Halldórsson

Hann var fæddur 23. júlí 1902 í Sjónarhól á Stokkseyri, og þar ólst hann upp. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Sigurðardóttir og Halldór Magnússon, sem jöfnum höndum var bóndi og sjómaður, svo sem þá tíðkaðist mjög í sjávarplássum víða um landið.

16 ára að aldri hóf Halldór sinn langa sjómannsferil með sjóróðrum frá Stokkseyri. Og 17 ára gamall kom hann fyrst á vertíð til Vestmannaeyja. Frá Eyjum réri hann síðan hverja vertíð upp frá því, meðan heilsan leyfði, en var þess í milli heima á Stokkseyri í föðurhúsum, uns hann fluttist alfarinn þaðan. Árið 1929 fluttist Halldór búferlum til Vestmannaeyja. Það ár kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Sigríði Friðriksdóttur frá Rauðhálsi í Mýrdal. Þau áttu einn son barna.

Halldór stundaði sjómennsku óslitið til ársins 1960, en þá verður hann fyrir því að veikjast af berklum. Lagðist hann þá inn á Vífilstaðahæli og var þar í 2 ár. Hann náði aldrei fullri heilsu eftir það. Eftir að Halldór kom heim frá Vífilstöðum hóf hann störf hjá bæjarfógetaembættinu í Vestmannaeyjum, og þar starfaði hann þar til jarðeldarnir brutust út í janúar 1973. Halldór flutti ekki til Eyja aftur eftir gosið. Halldór Halldórsson var sérstakt prúðmenni í framgöngu og viðkynningu allri. Hann tók þungbærum veikindum sínum af stakri karlmennsku og þolgæði, var hress í bragði og vinsæll í nýju starfi og ólíku hans fyrri ævistörfum. Halldórs verður minnst sem heiðursmanns, sem ekki vildi vamm sitt vita í neinu.
Hann lést í Reykjavík 8. október 1975.


Ásbjörn Guðmundsson, Húsadal.
F. 25. júlí 1894. - D. 22. júlí 1975.

Ásbjörn Guðmundsson, Húsadal

Hann var fæddur að Brekku í Mjóafirði 25. júlí 1894, og skorti því aðeins fáa daga til 81 árs aldurs, þegar hann lést eftir langvarandi veikindastríð.
Foreldrar hans voru Arnbjörg Oddsdóttir, ættuð af Suðurnesjum, og Guðmundur Ásbjörnsson frá Stóru-Heiði í Mýrdal.

Ásbjörn var 6 ára gamall, er hann missti móður sína. Var honum þá komið í fóstur til hjónanna Sigríðar Marteinsdóttur og Jóns Vilhjálmssonar að Gerðisstekk í Norðfirði. Þar ólst hann upp. Ásbjörn fór ungur að stunda sjóinn frá ýmsum verstöðvum norðanlands og sunnan. Hingað til Vestmannaeyja kom hann fyrst á vertíð um tvítugsaldur.

Árið 1928 fluttist Ásbjörn alkominn hingað til Eyja, og 13. október það ár kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Sigurbjörgu Stefánsdóttur. Þau eignuðust þrjá syni.
Á besta aldri varð Ásbjörn að hætta sjómennsku vegna veikinda í baki. Gerðist hann þá um sinn gæslumaður leikvalla bæjarins. Margt fólk, sem nú er á miðjum aldri, minnist hans löngum síðan með hlýhug og þakklæti fyrir hjálpsemi hans og nærgætni við sig, þegar það var sem börn að leika sér á Stakkó.

1941 réðst Ásbjörn til starfa hjá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja og hafði hann þar með að gera alla meðferð á lýsinu og hreinlæti á tækjum og kerjum. Þar reyndist hann sem annarsstaðar ábyggilegur, ósérhlífinn og aðgætinn í störfum. Páll Scheving, fyrrum verksmiðjustjóri, skrifar m. a. eftirfarandi um Ásbjörn látinn: ,,Það er ekki oflof þótt sagt sé, að Ásbjörn hafi verið dagfarsprúður maður, sem alltaf var tilbúinn að rétta öðrum hjálparhönd."

Fyrir sex árum hætti Ásbjörn störfum, vegna heilsubrests. Hann lést 22. júlí 1975.
Ásbjörn átti tvíburasystur, sem Margrét hét. Mjög kært var með þeim systkinum. Hún andaðist 16 dögum á undan honum.


Jakob Guðmundsson, Heiðarvegi 24.
F 19. nóv. 1901. — D. 28. nóv. 1975.

Jakob Guðmundsson, Heiðarvegi 24.

Hann var færeyskur að ætt, fæddur í Thorshavn í Færeyjum 19. nóvember 1901. Þar ólst hann upp til 15 ára aldurs. Árið 1916 fluttist hann til íslands, að Melum á Fljótsdalshéraði til föðursystur sinnar, sem þar bjó.

Jakob bar alla tíð hlýjan hug til æskustöðva sinna í Færeyjum. Að Melum dvaldi Jakob í 4 ár. Þá fer hann vinnumaður til Ólafs heitins Lárussonar læknir, sem þá bjó að Brekku á Fljótsdalshéraði. Þar vann Jakob þau störf, sem til féllu á stóru heimili og fór einnig í læknisvitjanir með Ólafi um hið víðlenda læknishérað. Ferðir þessar voru oft erfiðar í misjöfnum veðrum allan ársins hring, því samgöngur voru þá með öðrum hætti en nú gerist.

Í útfararræðu séra Kjartans um Jakob segir svo orðrétt: „Það sýnir best, hvert álit Ólafur hafði á þessum unga vinnumanni sínum, að þegar hann flytur til Vestmannaeyja árið 1925, þá tekur hann Jakob með sér. Góð og trygg vinátta var með Jakobi og Ólafi og fjölskyldu hans, sem hélst alla tíð. Var þar um að ræða gagnkvæma virðingu og traust. — Hér i Vestmannaeyjum kunni Jakob strax vel við sig og hefur minningin frá æskuárunum eflaust átt sinn þátt í því. — Fyrstu árin hér í Vestmannaeyjum stundaði Jakob sjóróðra, enda vart í annað hús að venda með atvinnu. En vinnuslys veldur því, að Jakob varð að hætta á sjónum. Þá hefur hann vinnu í Lifrarsamlaginu, og þar verður starfsvettvangur hans í rúm 40 ár. Segir það meira en mörg orð um staðfestu hans og lunderni."

Eftirlifandi eiginkona Jakobs er María Jóhannsdóttir frá Höfðahúsi. Þau eignuðust þrjá syni Jakob var þekktur sem iðjusamur, vandvirkur drengskaparmaður. Hann var fremur dulur og enginn hávaðamaður. Hann hafði yndi af tónlist, var bókhneigður og bjó yfir listrænum hæfileikum.
Jakob andaðist 28. nóvember 1975.


Hjörtur Einarsson, Geithálsi.
F. 19. ág. 1887. — D. 30. des. 1975.

Hjörtur Einarsson, Geithálsi.

Hjörtur var fæddur í Vestra-Þórlaugargerði 19. ágúst 1887. Foreldrar hans voru hjónin Guðríður Helgadóttir og Einar Sveinsson, sem þar bjuggu. Í Þórlaugargerði ólst hann upp, þar sleit hann barnsskónum að fullu og þar stofnaði hann fyrst til heimilshalds. Hjörtur Einarsson var því einn af þessum gömlu grónu Vestmannaeyingum; ofanbyggjari í húð og hár.

Hjörtur mun snemma hafa kunnað að taka til hendi. Heimildir liggja fyrir um, að hann hafi um tíu ára aldurinn hafið sjósókn úr Klaufinni. Og ennfremur eru til skráðar heimildir um að árið 1909 er hann stórvirkur og velvirkur sjómaður á mótorbátum, og eftirsóttur í skiprúm. Hann stundaði síðan sjó um langan aldur fram til efri ára, sem formaður, vélamaður eða háseti. Lengst var Hjörtur vélamaður, og þekktastur var hann á sjónum fyrr á árum sem slíkur. Hann var lengi vélamaður í góðum skiprúmum með afburða formönnum og fiskimönnum. Hann var fróður um vélar og vélbúnað í fiskibátum sinnar tíðar, umhirðu þeirra og viðhald.

Á Þórláksmessu 1913 kvæntist Hjörtur Katrínu Sveinbjörnsdóttur frá Mjóafirði eystra. Katrín er látin fyrir allmörgum árum. Þau eignuðust níu börn, sex syni og þrjár dætur. Sjö barnanna komust til fullorðinsára.
Kringum 1920 byggðu þau Katrín og Hjörtur veglegt hús nálægt höfninni og nefndu Geitháls. Þar bjuggu þau til dauðadags.

Hjörtur Einarsson var orðfár og orðvar. Hann var hlédrægur og laus við að trana sjálfum sér fram. Þeir, sem þekktu hann fyrr á árum, meðan hann var og hét, muna hann sem ráðvandan sístarfandi dugnaðarmann, sem vann sín daglegu störf hljóðlátur og góðgjarn, sáttur við allt og alla.
Á sextugsaldri réðst Hjörtur Einarsson sem háseti á Maggý til Guðna Grímssonar og var með honum í ellefu vertíðir samfleytt. Þá hætti hann sjómennsku og fór alfarið í land. Eftir það vann Hjörtur að netagerð og viðhaldi veiðarfæra á útvegi sona sinna og víðar, meðan kraftar entust.
Hjörtur lést í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 30. desember 1975.


Jón Auðunsson frá Húsavík.
F. 12. ág. 1891. — D. 15. maí 1975.

Jón Auðunsson frá Húsavík.

Jón fæddist í Eyvakoti á Eyrarbakka. Foreldrar hans voru Guðrún Gísladóttir og Auðunn Jónsson frá Strönd í V-Landeyjum.
Jón fór sex ára gamall í fóstur til Alberts Arnoddssonar bónda í Fíflholtshjáleigu, seinna í Káragerði, og konu hans Ingibjargar Jónsdóttur. Albert var skemmtilegur karl, greindur, en nokkuð forn í háttum, „í flestu harðvítugur og fylginn sér." Hann lét oft fjúka í kviðlingum um daglega viðburði. Jón lét vel af vistinni hjá Albert og fólki hans. — Jón mun hafa verið um tvítugsaldur er hann fór til Eyja. Árið 1914 er hann kominn að Vinaminni, þá skráður lærlingur hjá Benedikt Friðrikssyni skósmið. Þá er Jón hafði lokið skósmíðanámi hélt hann til Austfjarða, sótti sjó og stundaði aðra vinnu, en tvö ár var hann skósmiður á Norðfirði. Þar kynntist Jón konuefni sínu, Sigríði Jónsdóttur, og fluttust þau til Eyja árið 1917, giftu sig þar 16. des. það ár. — Foreldrar Sigríðar bjuggu í Selvogi; var móðir hennar úr Þykkvabæ, en faðirinn Fljótshlíðingur. Svo ber fundum þeirra Jóns saman austur á Norðfirði og á eftir fer um sextíu ára hjónaband. Þetta sýnir m. a. hve víða fólk leitaði sér atvinnu á þessum árum þrátt fyrir erfiðar samgöngur.

Eftir að þau Jón komu til Eyja hófust þau handa að koma sér upp þaki yfir höfuðið þrátt fyrir lítil efni. Foreldrar Jóns voru þá flutt til Eyja fyrir nokkru; þau byggðu Húsavík. Jón og Sigríður létu smíða sér hús austan við þá Húsavík sem fyrir var, þar sem þau bjuggu síðan alla tíð fram að gosi. Þau eignuðust átta mannvænleg börn og eru fimm þeirra á lífi. Heimilið var þungt og oft erfiðir tímar. Þá kom sér vel, að Jón hafði lært skósmíði. Hann var sjómaður margar vertíðir, en vann á skósmíðaverkstæði á sumrin, lengst af hjá Oddi Þorsteinssyni.

En svo kom að því, að Íslendingum þótti ófínt að ganga á bættum skóm. Þá fór Jón aftur að stunda verkamannavinnu á efri árum og réðst til starfa í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja.

Jón var hress og glaður á hverju sem gekk og gott með honum að vinna. Hann var slíkur skapstillingarmaður, að ég minnist þess ekki, að hann hafi skipt skapi þau ár sem við vorum samstarfsmenn. Hann var stéttvís maður, og dró sig aldrei í hlé ef í odda skarst, þó friðsemdarmaður væri, en stéttarátökin voru oft hörð hér fyrr á árum. Hann hefur áreiðanlega horfið af þessum heimi sáttur við alla menn. Hann var drengur góður og hans er gott að minnast.
H. G


Anders Bergesen Hals.
F. 5. okt. 1908. — D. 22. sept. 1975.

Anders Bergesen Hals.

Anders í Þinghól, eins og við Eyjamenn nefndum hann, dags daglega, fæddist 5. október 1908 í Vågsöy í Nordfjord, í nágrenni Bergen í Noregi.
En þar bjuggu foreldrar hans, Martina og Berge Hals, bóndi og sjómaður. Þar og með foreldrum sínum ólst Anders upp.

Í maímánuði 1930 léttir Anders heimadraganum, fer þvert yfir Atlandsála og kemur ráðinn til Vestmannaeyja. Réðst hann til Ólafs Auðunssonar í Þinghól, er rak og stundaði jöfnum höndum, útgerð fleiri báta, hafði búskap og verslaði með kol og salt. Auk opinberra starfa, er Ólafur innti af hendi fyrir Eyjamenn.

Úr þessari ferð Anders til Eyja varð meira en vistráðning, felldu þau hugi saman, Sólveig, einkaddttir Ólafs og Margrétar Sigurðardóttur, konu hans. Giftust þau 9. desember árið 1933. Settu þau bú sitt í Þinghól. Hjónaband þeirra gaf þeim 4 dætur, Margrét, Ólafía, Birgit og Inger. Margrét er gift Kjartani Úlfarssyni, eiga þau 3 börn og búa í Reykjavík. Birgit er gift Ásmundi Jónssyni og búa þau í Eyjum og eiga 5 börn. Ólafía er gift Jóni Stöyva og búa þau í Nordfjörd í Noregi og eiga 1 barn. Inger býr í Eyjum og heldur hús með móður sinni og á eitt barn, með sambýlismanni sínum, Arnþóri Flosa Þórðarsyni.

Eftir að Ólafur heitinn Auðunsson varð allur, héldu þeir Anders og Kjartan sonur Ólafs, áfram rekstri og umsvifum fyrirtækisins, enda eigendur þess um árabil.
Eftir að Anders og Kjartan hættu útgerð, vann Anders árum saman á netaverkstæðum Ingólfs Theodórssonar og Reykdals hér í Eyjum. Við hamfarir gossins, er rót kom á alla Eyjamenn, stakk Anders og fjölskylda hans niður fæti á fastalandinu um hríð, en hugurinn stefndi aftur til Eyja og þangað var farið. Seldu þau hjónin Þinghól, pöntuðu hús frá Noregi, sem reist var í Eyjum, og fóru aftur heim.

Grimm örlög gripu nú inn, er Anders lenti í bílslysi 24. sept. 1974. Átti hann við það að stríða í nærrí heilt ár, uns hann andaðist 22. sept. 1975.

Á besta blómaskeiði Eyjanna tók Anders þátt í uppbyggingu byggðarlagsins. Heiðvirður maður, óáreitinn, er ekki mátti vamm sitt vita. Góður heimilisfaðir, öruggur, stundvís og réttsýnn.
Það varð skarð fyrir skildi, við brottför hans, hjá konu hans og börnum. Eyjarnar misstu einn sinna bestu sona, er austan um haf, eins og forfeður vorir, hélt vestur og varð tryggur og traustur Eyjamaður. Blessuð veri minning Anders í Þinghól.
Einar J. Gíslason


Egill Árnason, Hólagötu 19.
F. 18. júní 1911. — D. 9. jan. 1976.

Egill Árnason, Hólagötu 19.

Hann var fæddur á Seyðisfirði 18. júní 1911. Foreldrar hans voru Árni Þorkelsson og kona hans Kristín Eyjólfsdóttir.

Þegar Egill var á fyrsta ári, flytja foreldrar hans búferlum til Reykjavíkur og síðan að Látrum í Aðalvík. Þar bjuggu þeir samtímis Árni faðir Egils og hálfbróðir Árna, Friðrik Magnússon og stunduðu jöfnum höndum búskap og sjómennsku, svo sem löngum hafði tíðkast á þeim slóðum og allt framundir seinustu ár.
Á heimili foreldra Egils hefur þurft að halda vel á öllum hlutum, því Egill eignaðist 9 systkini, fjögur þeirra dóu á barnsaldri. En Egill ólst upp hjá föðurbróður sínum, Friðrik Magnússyni á Látrum og konu hans Rannveigu Ásgeirsdóttur, í næsta nágrenni við foreldra sína.

Á æskuárum kynntist Egill sjómennsku allvel, þegar hann réri með föðurbróður sínum til fiskjar úr Aðalvík. Þar heima á Látrum hefur framtíð hans sem sjómanns verið ráðin. Vaxinn úr grasi lagði Egill að heiman, fyrst til Ísafjarðar, þar sem hann stundar sjómennsku um nokkur ár. Á Ísafirði gekk hann á vélstjóraskóla og hlaut réttindi sem vélstjóri. Hingað til Vestmannaeyja kom Egill 27 ára gamall og starfaði hér síðan sem vélstjóri á fiskiskipum allt fram að þeim tíma, er fyrst varð vart við þann sjúkdóm, sem varð honum að aldurtila.

Egill kvæntist 28. desember 1940. Eftirlifandi kona hans er Guðrún Magnúsína Kristjánsdóttir. Eru börn þeirra fimm, fjórir synir og dóttir.

Sá, er þessar línur ritar, var ekki persónulega kunnugur Agli Árnasyni svo neinu nam. Hafði aðeins verið í nábýli við hann í áratugi, sem helgast af hliðstæðum í atvinnu og umhverfi, í höfn og utan hafnar. En hann getur án hiks sagt það hér, að á því nálega 30 ára tímabili, sem fyrrnefnd kynni stóðu, heyrði hann aldrei orði hallað að Agli Árnasyni nema til góðs eins. Hann hyggur því, — og raunar veit, — að eftirfarandi ummæli í minningarræðu séra Kjartans Sigurbjörnssonar um Egil, eru sannmæli:
„Egill Árnason var friðsamur maður og hógvær, sem vann gott lífsstarf af trúmennsku og drengskap. Líf hans rann fram á mildan og ljúfan hátt og starf hans varð til blessunar þeim sem voru samfylgdarmenn hans."
Hann lést 9. janúar 1976.


Guðmundur Hróbjartsson, Landlyst.
F. 6. ágúst 1903. — D. 20. ágúst 1975.

Guðmundur Hróbjartsson, Landlyst.

Hann var fæddur að Kúfhóli í Austur-Landeyjum, 6. ágúst 1903. Foreldrar hans voru hjónin Hróbjartur Guðlaugsson frá Hallgeirsey í Landeyjum og Guðrún Guðmundsdóttir frá Voðmúlastöðum í Landeyjum.
Guðmundur ólst upp í foreldrahúsum og fluttist til Vestmannaeyja með foreldrum sínum árið 1920. Hann hóf brátt að stunda sjósókn, og var vélstjóri hjá þekktum fiskimönnum. Til dæmis hjá Guðmundi Tómassyni frá Bergsstöðum og Guðmundi Vigfússyni frá Holti.

20. desember 1930 kvæntist Guðmundur eftirlifandi konu sinni, Þórhildi Guðnadóttur frá Borgarfirði eystra. Þau eignuðust 7 börn.

Sigtryggur Helgason skrifar til minningar um Guðmund Hróbjartsson í Morgunblaðið, m. a. eftirfarandi:
„Guðmundur var harðduglegur maður og hlífði sér í engu. Í ágústbyrjun 1938, þá 35 ára gamall, fór hann á sjóinn eins og venjulega, þrátt fyrir það, að hann hafði kennt sér nokkurs lasleika um morguninn. Er að landi kom, varð hann að fara í rúmið fársjúkur, og næsta morgun hafði hann lamast algerlega. Var honum tjáð, að batavon væri lítil sem engin, og hefði slíkt áfall orðið ofraun hverjum venjulegum manni. En kjarkur hans og andlegur styrkur var óbugaður, þrátt fyrir aflvana líkama. Hann einsetti sér að komast aftur á fætur, og það tókst honum með sínum mikla viljakrafti og aðstoð góðs hjúkrunarliðs. Að vísu fékk hann ekki mátt aftur í fæturna, en gat gengið á jafnsléttu á hækjum. Til marks um kjark hans og dug í veikindum hans, má geta þess, að hann notaði sjúkrahússdvölina til að læra ensku og þýsku í tungumálakennslu útvarpsins. Hann hafði ánægju af að ræða við erlenda sjómenn, er hann hitti á bryggjunni í Vestmannaeyjum, en þangað fór hann eins oft og tök voru á til að hitta menn að máli, því að ætíð var hugur hans bundinn við sjóinn.
Í þessum veikindum og í lífinu var Þórhildur eiginkona hans honum ómetanlegur styrkur og stóð við hlið hans óbuguð og sterk.

Guðmundur eirði ekki iðjulaus. Þrátt fyrir skerta heilsu vildi hann sjálfur sjá sér og sínum farborða. Strax árið 1941, er hann hafði þrótt til, hóf hann skósmíðar, fyrst með Karli Sigurhanssyni, en síðar á eigin verkstæði. Að vísu var lífsbaráttan hörð framan af, en er börnin uxu úr grasi og gátu farið að létta undir, hófu þau störf og hjálpuðu foreldrum sínum af fremsta megni."

Guðmundur Hróbjartsson verður öllum þeim minnisstæður, sem tækifæri fengu til að hitta hann að máli. Það var freistandi að stansa lengur en tími var til á verkstæðinu hjá honum, þegar skórnir eða stígvélin voru sótt úr viðgerð. Hann var einkar skemmtilegur í viðræðum, hafði viðfeldinn viðræðumáta og var víðlesinn og fróður.
Þau hjón fluttu búferlum til Reykjavíkur 1972.
Þar lést Guðmundur 20. ágúst 1975.


Jón Jóhann Jónsson, frá Suðurgarði.
F. 3. júlí 1893. — D. 12. febr. 1976.

Jón Jóhann Jónsson, frá Suðurgarði.

Jón Jóhann Jónsson, þekktur, gamall Vestmannaeyingur, sem jafnan var kenndur við Suðurgarð, lést í Sjúkrahúsi Hafnarfjarðar 12. febrúar sl. á áttugasta og þriðja aldursári, en hann var fæddur 3. júlí 1893 á Kirkjulandi í A-Landeyjum, sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar og Ingibjargar Jónsdóttur, sem bjuggu þar þá, en síðar í Hallgeirsey, og fluttu hingað út í Eyjar skömmu eftir aldamótin og bjuggu allan sinn búskap eftir það í Suðurgarði.

Ættingjar hans og vinir kölluðu hann jafnan sín á milli, Hanna í Suðurgarði, og því nafni bast hann Eyjunum og vinum sínum hér frá því fyrsta til hins síðasta.
Hanni í Suðurgarði byrjaði snemma að stunda sjóinn, fyrst hér í Eyjum og síðan langtímum saman á línuveiðurum og togurum, og varð sjómennskan þannig ævistarf hans, ýmist sem háseta, stýrimanns eða skipstjóra. Reyndist hann jafnan traustur og dugandi starfsmaður að hverju sem hann gekk, og kunni enda vel til allra verka. Hann hafði lokið fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík og tók síðan oft að sér að sigla fiskibátum til erlendra hafna fyrir skipstjóra, sem af einhverjum ástæðum kusu heldur að sitja heima eða höfðu ekki réttindi til að sigla.

Árið 1934, þann 5. ágúst, kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Ástu Ásmundsdóttur frá Auraseli í Fljótshlíð. Bjuggu þau öll sín búskaparár í Hafnarfirði og starfaði hann mestan hluta starfsævi sinnar hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Lengst var hann á togaranum Sviða og gekk í land, ekki fyrr en hann var tekinn fast að eldast og heilsan farin að bila, svo að hann þoldi illa að standa á dekki vegna fótanna. Það er sagt, að ekki verði feigum forðað né ófeigum í hel komið, en þótt ég ætli mér ekki að fara að rökstyðja þessa rótgrónu trú íslenskrar alþýðu, þá gerðist nú samt sá sorglegi atburður úti fyrir Vesturlandi, að nokkrum dögum eða vikum eftir að Hanni hafði hætt sjómennsku svo gott sem fyrir fullt og allt, að botnvörpungurinn Sviði fórst með rá og reiða.

En Hanni hætti ekki á sjónum til þess að setjast í helgan stein. Hann var meiri eljumaður en það að hann þyldi að halda að sér höndum í tilbreytingarlausu iðjuleysi. Honum bauðst ávallt nóg atvinna, því allir, sem þekktu hann, vissu, að það rúm var vel skipað, sem hann tók að sér að skipa, og allt til þess er hann lagðist banaleguna féll honum ekki verk úr hendi.

Ásta og Hanni áttu saman eina dóttur barna, Guðbjörgu, sem nú er húsfreyja í Arnarnesi, gift Hreiðari Ársælssyni, fyrrum prentara og knattspyrnuþjálfara, en systkini Hanna í Suðurgarði, sem öll eru nú látin, voru þrjú, en hann var þeirra elstur. Þau voru Sigurgeir, þekktur bjargmaður og íþróttamaður hér í Eyjum á sinni tíð, má reyndar bæta því við, að hann hafi verið afburðamaður í sínum greinum, ekki síst sem drengskaparmaður og góður félagi. Og sem mannkostakonur voru systurnar tvær engir eftirbátar bræðra sinna, en þær voru Margrét Johnsen, sem gift var Árna heitnum Johnsen, kaupmanni, og Guðrún Jónsdóttir, húsfreyja í Þórlaugargerði eystra, sem gift var Jóni heitnum Guðjónssyni.

Þótt allir Vestmannaeyingar á sínum tíma, hafi þekkt vel þessa fjölskyldu, finnst mér samt vel hlíða að geta þess, að fóstursystkinin í Suðurgarði hafi verið fjögur, Guðlaug Bergþórsdóttir, húsfreyja í Innri-Njarðvík, gift Guðmundi Finnbogasyni, Árný Sigurðardóttir, enn í Suðurgarði, Þá Svavar Þórarinsson, nafnfrægur bjargmaður, sem drukknaði 1950 og Hlöðver Johnsen, kvæntur Sigríði Haraldsdóttur.

Hanni í Suðurgarði var vinsæll maður, virtur meðal starfsfélaga og stéttarbræðra, maður, sem lét lítið yfir sér og gerði sér ekki far um að trana sjálfum sér fram, enda jafnlyndur og rólyndur. En þrátt fyrir látleysi hans, duldist samt engum hvílíkur gæðadrengur hann var og bar öllum saman um, að hann væri einn þeirra úrvalsdrengja, sem aldrei lofaði upp í ermina. Fannst öllum kunnugum sem orð hans og munnleg loforð jafngiltu handsölum annarra manna. Slíkir menn eru lifandi og starfandi á öllum tímum. Slíkir menn hafa gert 76. vísu Hávamála sígilda og ódauðlega, og sannindi hennar raunhæf með lífi sínu og breytni. En vísuorðin eru þessi:
,,Deyr fé
Deyja frændur,
Deyr sjálfur it sama.
En orðstír deyr aldrei
hveim sér góðan getur."
Þorsteinn L. Jónsson.


Ólafur Guðmundsson frá Bergsstöðum.
F. 1. nóv. 1928. — D. 24. des. 1975.

Ólafur Guðmundsson frá Bergsstöðum

Fullu nafni hét hann Guðjón Ólafur Guðmundsson, en gekk undir nafninu Ólafur. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 24. desember sl., eftir langvarandi og erfið veikindi. Ólafur fæddist 1. nóvember 1928 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Elín Sigurðardóttir og Guðmundur Tómasson, sem lengi var formaður á bátum hér í Eyjum. Guðmundur er nú látinn, en Elín er á lífi. Systkini Ólafs voru fjögur, og eru þrjú þeirra á lífi, Tómas sem býr í Ólafsvík, Óskar og Hjördís, sem búa í Reykjavík. Ólafur ólst upp hjá foreldrum sínum í Eyjum, en dvaldist oft hjá föðurfólki sínu að Arnarhóli í Landeyjum.

Ólafur var sjómaður og formaður síðustu árin á bát sínum, sem ber nafn föður hans. Duglegur og ósérhlífinn var hann við vinnu og áhuginn mikill. Ólafur var rólyndur maður, en glaðvær og góður félagi. Reglulegur vinur vina sinna. Sérstaklega var hann barngóður, hændust börn mjög að honum, bæði litlu systkinabörnin og börn vina hans.

Árið 1952 kynntist Ólafur lífsförunaut sínum, Aðalbjörgu Jónsdóttur frá Siglufirði, duglegri og hjálpfúsri konu, sem var honum styrkur alla tíð og ekki síst í veikindum hans. Varla held ég að hafi liðið dagur án án þess að hún sæti við sjúkrabeð hans, þá mánuði sem hann átti í veikindum sínum. Allt reyndi hún að gera, sem hægt var til að létta honum veikindin.

Erfitt hlýtur að vera fyrir fólk á besta aldri að sætta sig við dauðann. En það var Ólafi efst í huga að tryggja framtíð barna sinna. Börn Ólafs og Aðalbjargar eru fjögur, Jón fæddur 1954, Guðbjörn fæddur 1956, Guðmundur fæddur 1958 og yngst er Þóra, fædd 1961. Son átti Ólafur fyrir, sem heitir Óskar Elvar. Sárt er að missa góðan vin, en góðar minningar lifa.

Ólafur og Aðalbjörg misstu hús sitt undir hraun í gosinu 1973, en þau gáfust ekki upp og keyptu sér annað hús og fluttust hingað aftur 1974. Gladdi það okkur vini þeirra mjög að fá þau aftur í bæinn. Að lokum vildi ég og fjölskylda mín þakka Ólafi margra ára vináttu og tryggð, og votta konu, móður, börnum og öðrum aðstandendum hans innilegustu samúð.
Vigfús Waagfjörð


Sigurjón Eiríksson, Boðaslóð 1.
F. 6. apr. 1896. — D. 19. febr. 1976.

Sigurjón Eiríksson, Boðaslóð 1.

Hann var fæddur í Skarðshlíð undir Austur-Eyjafjöllum, 6. apríl 1896. Foreldrar hans voru Geirlaug Jónsdóttir og Eiríkur Ólafsson. Þau voru bæði skaftfellskrar ættar, og munu um það leyti hafa verið í húsmennsku í Skarðshlíð, sem svo var kallað. Sigurjón Eiríksson ólst aldrei upp í skjóli foreldra sinna. Hans bernsku- og æskuár munu hafa liðið við þær aðstæður, sem flestum verða þungar í skauti, sjaldnast með fastan öruggan samastað framundan, en eilífan tilflutning stað úr stað, þó jafnan innan sinnar fæðingarsveitar undir Eyjafjöllum. Um 1915 flyst hann til séra Jakobs Kjartansson í Holti, þá tæplega tvítugur að aldri, og þar á hann heima samfleytt um tíu ára skeið, eða allt þar til hann flytur alfarinn til Eyja.

Frú Guðrún Jakobsdóttir, húsfreyja á Víkingavatni í Kelduhverfi, dóttir séra Jakobs í Holti, var barn þar heima í Holti í dvalartíð Sigurjóns. Frú Guðrún skrifar þannig um Sigurjón látinn:
„Svo fljótt sem ég man eftir mér, man ég Sigurjón, hinn hægláta góða þegn foreldra minna, sem allar stundir vann þeim af trúmennsku og dyggð, hugsaði aldrei um sinn hag, en breiddi yl og elsku á vegferð okkar barnanna. Hann mun hafa verið um tíu ára skeið á heimili mínu að Holti undir Eyjafjöllum, en fór þó flestar vertíðir til Vestmannaeyja.
Ótalin eru tár mín, er ég sá á eftir honum í burtu, einnig ómæld bros mín og öryggi, er hann kom aftur heim um lokin með þann besta brjóstsykur, sem ég hef bragðað.
Sigurjón var skemmtilegur samferðamaður daglegs lífs. Það fór ekkert fyrir honum, en góðlátri glettni hans gleyma þeir ekki, er nánasta samleið áttu með honum . . ."

1925 flytur Sigurjón til Eyja, og það ár kvæntist hann unnustu sinni, Guðrúnu Pálsdóttur, ættaðri frá Hvolsvelli í Rangárþingi. Þau hjón eignuðust 7 syni og eru 6 þeirra á lífi. Guðrún Pálsdóttir andaðist 1964.

Eftir að Sigurjón flutti búferlum til Eyja, mun hann ekki hafa stundað sjómennsku svo neinu nam. Þó mun hann hafa róið fáar vertíðir, þar á meðal með Jóni Benónýssyni á Víkingi.
Hann stundaði hér alla algenga verkamannavinnu og var síðustu árin starfsmaður kaupstaðarins.
Sigurjón lést í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 19. febrúar 1976.


Valtýr Brandsson.
F. 3. júní 1901. — D. 1. apríl 1976.

Valtýr Brandsson.

Hann var fæddur 3. júní 1901 að Önundarhorni undir Austur-Eyjafjöllum, og þar ólst hann upp til fullorðinsára í hópi fjölmargra systkina og hálfsystkina.
Foreldrar hans voru hjónin Jóhanna Jónsdóttir, ættuð úr Meðallandi, og Brandur Ingimundarson bóndi, sem áður bjó á Krókvelli.

Valtýr fór snemma að fara að heiman til atvinnuleitar. Milli fermingar og tvítugs mun hann fyrst hafa komið til sjóróðra í Vestmannaeyjar. Var hann síðan hér í Eyjum við sjósókn á vertíðum um allmörg ár, en heima við bústörf á sumrum.

Árið 1929 fluttist Valtýr búferlum til Vestmannaeyja, og eftir það stundaði hann sjómennsku sem aðalstarf í rúmlega 20 ár, eða fram yfir 1950. En þá réðst hann til starfa hjá Vestmannaeyjabæ og var starfsmaður bæjarins til æviloka — í um það bil 25 ár.

Valtýr Brandsson var á yngri árum eftirsóttur sjómaður, harðduglegur og fylginn sér og fljótur til verka. Hann var gamansamur að eðlisfari og hélt gjarnan uppi græskulausu gamni og spaugsemi í hópi samstarfsmanna á sjó eða landi. Það var aldrei þungt yfir mönnum, þar sem Valtýr kom við sögu. Eftir að Valtýr gerðist starfsmaður Vestmannaeyjabæjar, tók hann fljótt við umsjón og eftirliti með holræsakerfi bæjarins, og er ekki ofsagt að á þeim vettvangi hafi hann verið allra manna kunnugastur.

Allir, sem kynntust Valtý Brandssyni, störfuðu með honum til sjós eða lands, eða þurftu að leita til hans ýmissa orsaka vegna, sem oft kom fyrir eftir að hann varð bæjarstarfsmaður, minnast hans af hlýhug og þakklæti. Valtýr Brandsson var vammlaus dugnaðarmaður, sem allra vanda vildi leysa.

Árið 1929, sama árið og Valtýr flutti til Vestmannaeyja, kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, Ástu Guðjónsdóttur frá Króktúni í Hvolhreppi. Þau eignuðust 14 börn, 6 drengi og 8 stúlkur.
Valtýr Brandsson lést í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 1. apríl 1976 eftir stutta legu, og hvílir nú hér í Landakirkjugarði.


Ketill Brandsson.
F. 16. jan. 1896. — D. 11. nóv. 1975.

Ketill Brandsson.

Hann var fæddur að Króksvelli Austur-Eyjafjöllum, 16. janúar 1896. Bærinn Króksvöllur stóð steinsnar frá kirkjustaðnum Eyvindarhólum, og er nú horfinn í eyði. Jörðin var lögð undir Eyvindarhóla. Foreldrar Ketils voru hjónin Guðrún Jónsdóttir og Brandur Ingimundarson, sem þá bjuggu á Króksvelli. Þegar Ketill var barn að aldri, féll Guðrún móðir hans frá, og var hann þá tekinn í fóstur af föðursystur sinni, Kristínu Ingimundardóttur og manni hennar Una Unasyni, sem bjuggu í Hrútafellskoti. Þau reyndust honum sem bestu foreldrar.

Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri, skrifar þannig um Ketil Brandsson í minningargrein í Morgunblaðinu 22. nóvember 1975:
„Eins og þá var títt um Eyfellinga fór Ketill ungur í verið til Vestmannaeyja. Hann var fyrstu vertíðirnar ráðinn beitudrengur hjá Guðjóni á Sandfelli, þekktum formanni í Eyjum, á vélbátinn Ingólf VE 108, og var yfir vertíðina heimilismaður á Sandfelli hjá Guðjóni og Ingveldi Unadóttur, konu hans.

Þorskanet voru fyrst lögð við Vestmannaeyjar vertíðina 1916 og varð notkun þeirra brátt almenn. Ketill gerðist fljótlega netamaður á netavertíðum og varð leikinn að fella net og því eftirsóttur í það starf
Hann var góður verkmaður, trúr í verkum sínum, húsbóndahollur og lítt gefinn fyrir vistaskipti.
Árið 1932 fór hann að útvegi Guðlaugs Brynjólfssonar á Lundi í Vestmannaeyjum, sem gerði út vélbátinn Glað VE 270 og síðar vélbátinn Gísla J. Johnsen VE 100. Var Ketill hjá Guðlaugi næstu 10 vertíðir. Milli vertíða sinnti hann bústörfum, en Ketill bjó með fósturforeldrum sínum í Hrútafellskoti til vorsins 1937.
Þegar Guðlaugur á Lundi hætti útgerð og flutti frá Eyjum, varð Ketill netamaður hjá Helga Benediktssyni, sem þá og næstu árin hafði mikil umsvif og gerði út fjölda báta í Vestmannaeyjum, bæði á vetrarvertíð og til sumarsíldveiða við Norðurland. Hafði Ketill yfirumsjón með veiðarfærum á bátum Helga Benediktssonar allt þar til Helgi hætti útgerð, stuttu eftir 1960, og vann hjá honum meðan hann gat unnið fullan vinnudag.

Ketill leigði lengi á Bólstað í Eyjum, en síðan í 21 ár hjá Klöru Tryggvadóttur á Heiðarvegi. Í fjöldamörg ár var hann í fæði hjá Ólöfu Unadóttur uppeldissystur sinni og Jóni Benónýssyni skipstjóra á Búrfelli við Hásteinsveg. Átti hann góða daga hjá þessu ágæta fólki.
Árið 1971 var Ketill þrotinn að kröftum og fór þá á Elliheimilið í Vestmannaeyjum. Eftir upphaf jarðeldanna í Eyjum í janúar 1973 dvaldi hann á Elliheimilinu Grund hér í bæ og þar andaðist hann 11. nóvember síðastliðinn.
Ketill var bókamaður, vel lesinn og fróður; átti hann margt góðra bóka, sem hann gaf Elliheimilinu í Vestmannaeyjum, er hann varð vistmaður þar."

Ketill Brandsson var hæglátur maður, hógvær og hreinskiptinn. Ljúf menni í viðkynningu, gamansamur og ræðinn í vinahópi. Ketill kvæntist aldrei, en sonur hans er Óskar bóndi á Miðbælisbökkum, Austur-Eyjafjallasveit. Ketill lést sem fyrr segir 11. nóvember 1975, og var lagður til hvíldar í Eyvindarhólakirkjugarði.


Martin Tómasson, frá Höfn.
F. 17. júní 1915. — D. 1. jan. 1976.

Martin Tómasson, frá höfn.

Hann var fæddur í Vestmannaeyjum 17. júní 1915. Hér í Vestmannaeyjum sleit hann barnsskónum og hér átti hann heima til dauðadags. Foreldrar hans voru Tómas M. Guðjónsson í Höfn og fyrri kona hans, Hjörtrós Hannesdóttir Jónssonar hafnsögumanns á Miðhúsum.

Ungur settist hann í Laugarvatnsskólann og lauk þar námi 1933. Þá sigldi hann til Kaupmannahafnar og lauk þar verslunarskólaprófi 1934. Hann hóf snemma verslunar- og útgerðarstörf; fyrst við fyrirtæki föður síns, sem var um áratugi vel þekktur athafnamaður hér í bæ. Síðar varð hann forstjóri fyrirtækisins Tómas M. Guðjónsson, og rak það um tuttugu ára skeið. Hann var einnig umboðsmaður Olíufélagsins Skeljungs hér í Vestmannaeyjum um langt árabil.

Martin var mikill áhugamaður um íþróttir og góður íþróttamaður á yngri árum. Hann var lengi formaður Knattspyrnufélagsins Týs og var síðar kjörinn heiðursfélagi þess félags.

Haraldur Guðnason hélt minningarræðu um Martin Tómasson í Rotaryklúbbi Vestmannaeyja hinn 8. jan. sl. Þar sagði Haraldur meðal annars:
„Martin Tómasson sóttist ekki eftir áhrifastöðu, hvorki í bæjarfélaginu né öðrum vettvangi. Hann var ekki framgjarn maður. Hitt var heldur, að sótt væri á að hann tæki sér forystu í ýmiskonar samtökum og félögum. Það var vegna þess, að Martin naut óskoraðs trausts, líka þeirra sem ekki voru samherjar hans í stjórnmálum. Hann var kosinn bæjarfulltrúi árið 1970, en var nokkur ár áður varafulltrúi. Hann mun ekki hafa haft hug á setu í bæjarstjórn að kjörtímabili loknu.
Martin var kosinn í stjórn Lifrarsamlags Vestmannaeyja árið 1958, en síðar stjórnarform. og framkvæmdastjóri til æviloka, og í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja frá sama tíma. Hann var í stjórn Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja frá 1961 og formaður frá 1968. Ræðismaður fyrir Danmörku var hann hér í bæ frá 1959. Martin var ákveðinn í skoðunum og hreinskilinn, en hann var ekki neinn einstefnumaður. En aldrei eitt í dag, annað á morgun. Hann var, að mér er sagt, sanngjarn samningamaður. Hann var mikill greiðamaður; taldi ekki eftir tíma og þjónustu þegar til hans var leitað."

Jakob Ó . Ólafsson ritar til minningar um Martin í 1. tbl. Fylkis 1976. Þar segir:
,,Ekki fór Martin varhluta af þeim hörmungum, sem eldsumbrotin á Heimaey leiddu af sér, hann varð að sjá á eftir eigin húsi, húsi Rósu dóttur sinnar og manns hennar, Ársæls Lárussonar, og husinu Höfn sem faðir hasn hafði reist af stórhug nokkru fyrir árið 1930 og Óskasteini við Formannabraut, þar sem atvinnureksturinn hafði aðsetur. Ekki voru árar lagðar í bát og hafði Martin þegar með fullum krafti hafið uppbygginguna. Óbilandi kjarkur og dugnaður og trú á framtíð Eyjanna réðu þar ferðinni, enda unni hann þeim öllum stöðum fremur og vildi þar vera."

Martin var kvæntur Bertu Gísladóttur. Börn þeirra eru þrjú; sonur og tvær dætur.

Martin Tómasson var að vísu aldrei sjómaður að atvinnu, en hann stóð sjómönnum nærri í flestu tilliti. Atvinnurekstur hans, svo sem vélbátaútgerð, umboðsstörf fyrir olíufélag, skipaafgreiðsla og fiskverkun, stóð í svo beinu sambandi við sjómenn og sjómennsku að naumast verður sundur skilið. Þess vegna, og ekki síður vegna hins, að allir Eyjasjómenn þekktu Martin Tómasson og hina miklu mannkosti hans, vilja þeir nú í blaði sínu votta honum virðingu sína og þakkir, og kveðja hann sem einn af allra bestu sonum Eyjanna.


Þórarinn Guðmundsson, Jaðri.
F. 13. jan. 1893. — D. 30. maí 1975.

Þórarinn Guðmundsson, Jaðri.

Þórarinn var fæddur í Frydendal, er síðar hét Bjarmi, einu hinna horfnu húsa, sem settu svip á bæinn. Foreldrar hans voru Málfríður Erlendsdóttir og Guðmundur Guðmundsson.

Þórarinn ólst upp í Mandal hjá Jóni Ingimundarsyni og Sigríði konu hans, en þar var faðir hans vinnumaður, þá orðinn ekkjumaður. Bróðir Þórarins var Guðjón, skipstjóri á togaranum Sviða frá Hafnarfirði, og fórst hann með honum á heimleið úr veiðiferð í desember 1941.j
Þórarinn fór að róa með föður sínum, sem var formaður á áraskipi nokkru fyrir fermingu. Hafið heillaði piltinn, sem varð brátt hinn liðtækasti sjómaður.

Þórarinn varð formaður á vélbátnum Gústaf vertíðina 1915, aðeins 22 ára gamall. Þegar Úndína (síðar Vinur) bættist í flotann 1921, þótti mikill bátur og gangstroka, tók Þórarinn við formennsku á henni og var með hana fimm fyrstu vertíðirnar. Þá var Þórarinn með ýmsa báta, t. d. Skíðblaðni 1929, nýjan og fallegan bát, og næstu vertíðir. Ég sá Þórarinn fyrst veturinn 1930, og ég man hvað mér þótti báturinn, sem hann var með, fallegur og vel hirtur. Ekki kynntist ég Þórarni fyrr en löngu síðar, er við urðum samstarfsmenn hjá Einari ríka.

Þórarinn var formaður í Eyjum um 30 ár. Ég kann betur við formannsnafnið frá þessum tíma gömlu mótorbátanna, enda virðingarheiti. Friðfinnur frá Oddgeirshóium hefur lýst sjómannsferli Þórarins vel í fáum orðum í minningargrein um hann (Mbl. 7. 6. '75):
„En Þórarinn reyndist sannarlega traustsins verður, því hann var skipstjóri um 30 ár við góðan orðstír, enda hafði hann alla þá kosti, sem góðan skipstjóra prýða. Þórarinn var með afbrigðum veðurglöggur, einstakur reglumaður alla ævi og snyrtimaður svo að af bar. Þórarinn var með bestu fiskimönnum Eyjanna alla tíð. Sú gifta fylgdi honum, að hann skilaði ætíð skipi og skipshöfn heilli í höfn. Mannahylli hafði hann og mikla, og hafði árum saman sömu menn á skipi sínu." —

Þórarinn var sérstæður maður um margt; fór eigin götur og ekki alltaf alfaraleið. Víðsýnn í skoðunum og vildi ræða hvert mál með rökum og íhygli, en ekki hávaða og orðaglamri úr fjölmiðlum, sem margan hendir. Þórarinn var mikill náttúruunnandi, en í huga hans bar Vestmannaeyjar hæst. Hann fór oft í gönguferðir út á eyju að loknu dagsverki. Stundum hitti ég hann er hann kom úr slíkum göngum, og brást varla að hann segði frá einhverju nýju, sem fyrir augun bar. Hann hafði hæfileika til að sjá það, sem öðrum var hulið eða kunnu ekki að meta. Fjölskrúðugt lífríki Eyjanna var annar heimur Þórarins á Jaðri.

Þórarinn var hlynntur framförum, sem vænta mátti um mann sem var uppi á hinum mikla umbyltingartíma í sjávarútvegi. En honum var ekki alls kostar að skapi, að iðulega er afls tæknialdar neytt án fyrirhyggju. En samt hefur það áfall orðið mest, er jörðin klofnaði og hraun rann yfir blómlega byggð. En öllu þessu, og útlegð á efri árum, tók Þórarinn sem aðrir, með einstöku æðruleysi. —

Þórarinn kvæntist árið 1915 Jónasínu Runólfsdóttur frá Stokkseyri. Þau áttu ekki börn, en fóstursynir þeirra hjóna eru Erlendur Eyjólfsson járnsmíðameistari, er lengi starfaði hér í Vélsmiðjunni Magna og síðar Völundi, og Jónas P. Dagbjartsson tónlistarmaður í Reykjavík.
H. G.


Sighvatur Bjarnason, Ási.
F. 27. okt. 1903. — D. 15. nóv. 1975.

Sighvatur Bjarnason, Ási.

Sighvatur var fæddur á Stokkseyri 27. október 1903. Foreldrar hans voru Arnlaug Sveinsdóttir og Bjarni Jónasson, formaður þar. Á Stokkseyri ólst hann upp til fullorðinsára.

Til Vestmannaeyja fluttist Sighvatur árið 1925, þá rúmlega tvítugur. Hér í Vestmannaeyjum varð hann fljótt einn af mikilhæfustu og aflasælustu skipstjórum á fiskiflotanum. Hann varð einn af kunnustu síldarskipstjórum landsins á sumarsíldveiðum norðanlands, meðan þær voru og hétu, og oftar en einu sinni aflakóngur á vetrarvertíð.

Guðlaugur Gíslason skrifar í minningargrein um Sighvat Biarnason í Morgunblaðinu 22. nóv. 1975:
„Meðfædd athafnaþrá Sighvats Bjarnasonar hlaut að leiða til þess, að hann vildi ekki una því til lengdar að vera skipstjóri fyrir aðra, heldur hlaut hann að verða útgerðarmaður og skipstjóri á eigin skipi. Fyrsta bát sinn, mb. Svöluna, eignaðist hann árið 1926 og fylgdu fleiri á eftir, eftir því sem flotinn stækkaði og tæknibúnaður við veiðarnar færðist í aukana. Mun hann hafa verið fyrsti skipstjómarmaður í Eyjum og einnig á landinu, sem tók gúmmíbjörgunarbát um borð í skip sitt og reyndist það heilladrjúgt spor, eins og síðar kom í ljós, því gúmmíbátarnir sönnuðu þegar ágæti sitt á fyrstu árum sinum á Vestmannaeyjaflotanum, þar sem með þeim björguðust fleiri mannslíf og heilar skipshafnir, áður en þeir voru lögleiddir sem björgunartæki á íslenska skipaflotanum.
Sighvatur Bjarnason var farsæll gæfumaður í starfi sínu sem skipstjórnarmaður, sem og í öðrum störfum.
Þrátt fyrir harða sjósókn og mikil aflabrögð hlekktist honum aldrei á, missti aldrei mann eða bát, en kom ávallt öllu í heila höfn og varð auk þess þeirrar gæfu aðnjótandi að standa fyrir björgun skipshafna við Eyjar og lagði eitt sinn líf sitt og skipshafnar sinnar í beina hættu við að bjarga í stórviðri vélvana bát frá að reka upp í Faxasker og hlaut hann og skipshöfn hans fyrir það afrek réttilega opinbera viðurkenningu með veitingu hinnar íslensku Fálkaorðu.

Sighvatur Bjarnason lét af skipstjórnarstarfi árið 1959, eftir þrotlaust starf á sjónum að heita má frá barnæsku, og gerðist þá framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sem þá var og er enn í dag ein af stærstu fiskvinnslustöðvum landsins. En vinnslustöðin var stofnuð og byggð upp sem sameignarfélag útgerðarmanna, og hélst það fyrirkomulag þar til fyrir nokkrum árum, að fyrirtækið var gert að hlutafélagi. Sýnir þetta, að hann skyldi vera valinn sem framkvæmdastjóri og forystumaður fyrir þetta stærsta fyrirtæki Eyjanna, hversu mikils trausts og álits hann hafði aflað sér í starfi sínu sem skipstjórnarmaður og útgerðarmaður, og hversu mikla trú menn höfðu á dugnaði hans og atorku, enda brást hann þar ekki frekar en endranær, og sýndi það og sannaði í starfi sínu, að stjórn fyrirtækisins hafði valið rétt, er hún réð hann sem framkvæmdastjóra, því fyrirtækið óx og dafnaði ár frá ári undir hans handleiðslu og var alveg óumdeilanlega orðið umsvifamesta og fjársterkasta fyrirtæki bæjarins í árslok 1972, er rekstrargrundvelli þess, eins annarra fyrirtækja í Eyjum, var skyndilega kippt burt í bili vegna náttúruhamfaranna, sem urðu í ársbyrjun 1973."

Sighvatur Bjarnason átti sæti í Bæjarstjórn Vestmannaeyja um langt árabil. Hann átti sæti í hafnarnefnd um áratuga skeið, enda hafnarmálin honum hjartfólgin sem sjómanni og útgerðarmanni. Mörg fleiri framfaramál byggðarlagsins lét Sighvatur til sín taka, og ævinlega af atorku og framsýni. Málflutningur Sighvats var byggður á málefnalegum grunni og gróinni lífsreynslu.

Sighvatur Bjarnason var kvæntur Guðmundu Torfadóttur, ættaðri úr Hnífsdal. Guðmunda lifir mann sinn. Þau eignuðust 8 börn, 6 syni og tvær dætur.

Gosárið 1973 verður Eyjabúum öllum minnisstætt. Ekki síst þeim, sem dvöldu hér heima að störfum, meðan á ósköpunum stðð. Í þeim myndum, sem í minni geymast frá þessum tíma, bera þau hátt bæði tvö, Guðmunda og Sighvatur. Hafi Sighvatur Bjarnason ekki reist sér óbrotgjarnan minnisvarða meðal bæjarbúa fyrir störf sín í áratugi að skipstjórn og útgerð, framkvæmdastjórn stórfyrirtækja og störf að framfaramálum byggðarlagsins á hinum ýmsu sviðum, þá gerði hann það með störfum sínum og staðfestu, þegar allt sýndist vera að láta undan ofurafli náttúruhamfaranna. Sá minnisvarði er ekki reistur á sandi.
Sighvatur varð bráðkaddur 15. nóvember 1975.


Guðni Ingvarsson.
F. 17. júlí 1901. — D. 5. okt 1975.

Guðni Ingvarsson.

Hann var fæddur í Skarðshlíð í Austur-Eyjafjallasveit 17. júlí 1901. Faðir hans var Ingvar Einarsson frá Hellnahóli og Ragnhildur Þórðardóttir. Ragnhildur var Skaftfellskrar ættar.
Guðni ólst upp með móður sinni, fyrstu árin í Skarðshlíð. En þegar Guðni er á 7. ári, flytja þau mæðgin þaðan til Vestmannaeyja, til systur Ragnhildar, Guðrúnar Þórðardóttur og manns hennar Magnúsar Magnússonar, formanns og útgerðarmanns á Felli. Þar átti Guðni heimili til 12 ára aldurs.

Einar J. Gíslason, safnaðarstjóri, skrifar í minningargrein um Guðna í Morgunblaðinu 11. okt. 1975:
„Hjónin á Felli voru miklar gæða-og mannkostamanneskjur. Heimili þeirra stóð um þjóðbraut þvera. Þar réðu kærleikur og vinsemd. Þarna mótaðist Guðni og fékk gott atlæti og veganesti, sem hann mat ávallt. Þarna lágu leiðir Guðbjargar Magnúsdóttur og Guðna saman. Urðu þau systrabörn sem alsystkini upp frá því og hélst það ævina út. Það vekur því ekki furðu, að löngum var Guðni kenndur við Fell.
Þegar Guðni var 13 ára eignaðist hann stjúpföður. Bjarni Sveinsson frá Melhól í Meðallandi giftist þá Ragnhildi Þórðardóttur. Stóð heimili þeirra fyrst hjá Guðbjörgu og Kristjáni á Hvanneyri í Vestmannaeyjum, en síðar hjá Ingveldi og Ágústi í Árnesi. Eftir það byggðu þau Vesturveg 21 og stóð heimilið þar ávallt síðan."

Strax á fermingaraldri var Guðni orðinn beitningarmaður á útvegi stjúpföður síns, en hann stundaði útgerð og formennsku um skeið. En sjóróðra mun Guðni hafa byrjað á Austurlandi; réri þá með Seyðfirðingum tvö sumur. Hið fyrra frá Skálum á Langanesi, þá vart meira en 16 ára, en síðara sumarið frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Þar á eftir fer hann á síld á Maí með Sigfúsi Scheving. Á Maí mun Guðni hafa verið matsveinn í fyrsta sinn.

Síðar lærði Guðni matreiðslu í Kaupmannahöfn, á „Vivex", sem um það leyti þótti einhver fínasti veitingastaðurinn þar í borg. Og enn skrifar Einar J. Gíslason: „Þegar flaggskip Eyjamanna, „Fylkir", kom nýtt frá Sviþjóð árið 1929, undir stjórn valmennisins og aflakóngsins Sigurðar Bjarnasonar frá Hlaðbæ, þá var Guðni yfir í eldhúsi. Þaðan lá leið Guðna á Skaftfelling, með Kristjáni Kristjánssyni, skipstjóra. Þegar Slysavarnafélag íslands eignaðist „Sæbjörgu", varð Guðni bryti þar um borð. Síðar lá leiðin á Arctic, varðskipið Ægi og Esju. Þegar Eyjamenn hófu bæjarútgerð sína, þá var Guðni um borð í Elliðaey, undir skipstjórn Ásmundar Friðrikssonar frá Löndum. Þaðan fór Guðni á matstofu Einars Sigurðssonar við Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og stjórnaði þar störfum um meira en fimmtung aldar.
Um þessa starfssögu Guðna, sem er bæði löng og merk, mætti rita langt mál. Stiklað er á stóru. Öllum var ljóst að Guðni var mjög fær í starfi sínu. Heiðarlegur, trúr og stundvís. Einstaklega tryggur og mikill vinur vina sinna."

Einar J. Gíslason heldur áfram: „Guðni var með hærri mönnum, vel limaður og karlmannlega vaxinn. Bragðnæmur á andlega fæðu var hann með eindæmum. Hljómlistareyra hafði hann nákvæmt og gott, enda lék hann á mörg hljóðfæri og var organleikari Betelsafnaðarins í Eyjum um tugi ára. Þegar norski trúboðinn Erik Asbö kom til Eyja í júlímánuði 1921 stóð Guðni á tvítugu. Þá var Guðni meðal fyrstu manna, sem tóku jákvæða af¬stöðu til boðskapar hvítasunnumanna. Er hann andaðist var hann einn af þremur brautryðjendum er upp úr stóðu. Hin eru Halldóra Þórólfsdóttir og Kristín J. Þorsteinsdóttir.
Þrátt fyrir útilegur og oft örðug lífsskilyrði átti Guðni einlæga trú á endurlausn Jesú Krists. Þar komst ekkert fram yfir. Í því stóð hann lífið í gegn og kvaddi lífið sem kristinn maður. Slíkra er gott að minnast."

Það verður öllum Vestmannaeyingum minnisstætt, þeim er til þekktu, hve Guðni Ingvarsson var alla tíð góður við móður sína. Einkum varð það augljóst og áhrifaríkt eftir að hún varð öldruð kona og sjúk.
Þannig var Guðni.

Þegar eldgosið braust út 1973 var Eggert Jónsson borgarhagfræðingur og Sigurlaug kona hans meðal þeirra Reykvíkinga, sem buðust til að skjóta skjólshúsi yfir vegalausa Eyjabúa. Guðni lenti hjá þessu góða fóiki og dvaldi með því nokkurn tíma. Eftir þá samveru og kynni létu þau hjón einkason sinn hljóta nafn hans.

Guðni kvæntist aldrei.
Hann andaðist á Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík 5. október 1975 og var jarðsettur í Landakirkjugarði.


Ágúst Ólafsson, Vélstjóri.
F. 14. ágúst 1899. — D. 13. maí 1976.

Ágúst Ólafsson, vélstjóri.

Ágúst var Austfirðingur að uppruna, frá Berufirði. Foreldrar hans voru Friðbjörg Einarsdóttir og Ólafur Finnbogason. Ágúst ólst upp með móður sinni á Eskifirði. Tólf ára gamall fór Ágúst að róa við annan mann á skektu innfjarðar og ári seinna varð hann mótoristi á fjögra tonna bát á sumrin. Er ekki að orðlengja það, að nokkur næstu ár var Ágúst vélstjóri fyrir austan. En 1925 fór Ágúst á vertíð til Eyja og flutti hingað 1928. Ekki löngu seinna keypti hann Brekastíg 24 og stækkaði húsið að mun. Þar átti hann heima síðan fram að gosi, en fluttist þá til Erlings og Ingibjargar í Ytri-Njarðvík.

Kona Ágústs var Elínborg Björnsdóttir, ættuð úr Skagafirði. Börn þeirra eru tvö: Erling, rafvirkjameistari í Njarðvíkum, og Ágústa, búsett í Reykjavík. — Elínborg andaðist 10. desember 1969.
Ágúst var meðal þeirra, er áttu manna lengstan starfsaldur sem vélstjóri hér í bæ. Árið 1964 heiðraði Sjómannadagsráð hann í tíunda sinn sem fulltrúa vélgæslumanna; hafði þá verið vélstjóri meira en hálfa öld.

Þá var Ágúst útgerðarmaður rúman áratug. Hann keypti 1/3 í m.b. Blátindi 1947, en átti bátinn að hálfu síðustu árin. Hann var sjálfur vélstjóri á Blátindi þessi ár. Tvö sumurin var báturinn við landhelgisgæslu, aðallega á Faxaflóa. Tóku þeir á Blátindi nokkur fiskiskip að ólöglegum veiðum.
Ágúst var með mörgum formönnum á sínum langa sjómannsferli, og hefur þá oft siglt krappan sjó, en sagði fátt frásagnarvert úr sinni sjómannsævi. En svo væri fyrir að þakka, að aldrei hefði drukknað maður af bát, sem hann var á. Hættast mun hann sjálfur hafa verið kominn, er Hrafnkell goði varð fyrir ásiglingu í námunda við Ystaklett í marsmánuði 1947. Ágúst lokaðist niðri í vélarrúminu, en braust út við illan leik í þriðju atrennu, kastaði sér í sjóinn og náðist í sama mund og Hrafnkell seig í djúpið.
Ágúst þótti ágætur vélstjóri, þó mest hafi hann líklega lært af reynslunni og meðfæddum áhuga, eins og margir hinna gömlu mótorista. Hann var röskleikamaður og snyrtimenni; umgengni í vélarrúmi var því hin besta og hver hlutur á sínum stað.

Gústi, eins og hann var kallaður í kunningjahóp, var léttur og hress í máli, og gat oft ef svo bar undir, sagt skoðanir sínar á hlutunum tæpitungulaust. Við Ágúst vorum nágrannar í mörg herrans ár. Við hittumst því oft á gömlu góðu götunni okkar, og fór jafnan vel á með okkur. En minnisstæðast er mér, þá er fundum okkar bar saman síðast, enda með nokkuð óvæntum og óvenjulegum hætti. Klukkan hálfsex að morgni var hringt dyrabjöllunni og Ágúst var kominn.
— Þið afsakið, að ég kem á þessum tíma, en ég sá ljós hjá ykkur og þótti gott að sjá lífsmark hérna í nágrenninu, sagði Ágúst.
— Þú kemur eins og kallaður, það er verið að hella upp á könnuna.
Þetta var að morgni 23. janúar 1973. Við hjónin nýkomin neðan frá höfn; þar höfðum við horft á eftir mörgum bátum, sem fluttu samborgara okkar á brott hundruðum saman. Það hressti skapið ótrúlega að fá einmitt nú þessa óvæntu heimsókn nágranna okkar.
Ágúst var í engu brugðið og hress í máli að vanda. — Ég er nú einn eftir í kotinu, sagði hann, en líklega verð ég að fara eins og hinir. En mér liggur ekkert á.
Og Ágúst hlaut að yfirgefa sína heimabyggð eins og flestir aðrir. Það mátti líka varla seinna vera. Einhvern næstu daga var húsið hans rústir einar. —

Hann flutti til Suðurnesja, eins og fyrr segir. En ekki lagði hann árar í bát, þó aldraður væri. Hann fékk starf sem vaktmaður í skipum, ýmist í Keflavík eða Hafnarfirði. Og eina nóttina féll þessi gamli sjómaður á verðinum.
H.G.

Það fræga síldveiðiskip, Dagný SI 7.- Myndin er tekin á Grímseyjarsundi sumarið 1940. Þá er með Dagnýju einn þekktasti síldveiðiskipstjóri flotans fyrr og síðar, Arnþór Jóhannsson frá Selá við Eyjafjörð og stýrimaður Gísli Jónsson frá Siglufirði.- Þeir fórust báðir með v/s Helga við Faxasker 7. janúar 1950.-