„Blik 1969/Ruddar markverðar brautir, II. hluti“: Munur á milli breytinga
m (Verndaði „Blik 1969/Ruddar markverðar brautir, II. hluti“ [edit=sysop:move=sysop]) |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 117: | Lína 117: | ||
Vélsmiðjan Magni hf. hefur með sanni eignazt markverðan kafla í | Vélsmiðjan Magni hf. hefur með sanni eignazt markverðan kafla í | ||
útgerðarsögu kaupstaðarins. Að ég bezt veit, er sá kafli sögunnar óskráður enn. Þennan kafla þyrftu eigendur Vélsmiðjunnar að láta skrá sem fyrst, því að hann er þess verður.<br> | útgerðarsögu kaupstaðarins. Að ég bezt veit, er sá kafli sögunnar óskráður enn. Þennan kafla þyrftu eigendur Vélsmiðjunnar að láta skrá sem fyrst, því að hann er þess verður.<br> | ||
Þá koma fleiri slíkir kaflar til skráningar, þá tímar líða, svo sem saga [[Vélsmiðja Einars Magnússonar|Vélsmiðju Einars heitins Magnússonar]], er hann rak í húsi því, sem | Þá koma fleiri slíkir kaflar til skráningar, þá tímar líða, svo sem saga [[Vélsmiðja Einars Magnússonar|Vélsmiðju Einars heitins Magnússonar]], er hann rak í húsi því, sem stóð á mótum Strandvegar og Kirkjuvegar<nowiki>*</nowiki>. Einar vélsmiður Magnússon fluttist til Eyja árið 1916, að ég bezt veit. Þá á vélsmiðjurekstur Þorsteins Steinssonar hér í bæ flekklausa og athyglisverða sögu, sem er nátengd atvinnulífinu. Öllum þessum sögulega fróðleik þyrfti að halda til haga. | ||
<nowiki>*</nowiki></big>(leiðr. Sjá [[Blik 1971]], — [[Blik 1971|Leiðréttingar]].<big> | |||
[[Mynd: 1969 b 308.jpg|350px|thumb]] | [[Mynd: 1969 b 308.jpg|350px|thumb]] | ||
Útgáfa síðunnar 28. september 2010 kl. 21:33
Árið 1913, hinn 9. febrúar, var haldinn aðalfundur Smiðjufélags Vestmannaeyja í þinghússal sýslunnar (Heimagötu 4, Borg). Voru þar m.a. lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir næstliðið almanaksár. Sýndu þeir hagnað af rekstrinum kr. 858,01. Formaðurinn skýrði helztu atriði í rekstri
félagsins og lagði mikla áherzlu á nauðsyn félagsins og fór mörgum orðum um það, „hve verkahringur þess væri víðtækur“. Reikningarnir voru síðan samþykktir með „öllum greiddum atkvæðum“.
Arðurinn af rekstrinum skyldi ekki greiðast félagsmönnum út, heldur færast til næsta árs.
Sonur Þórunnar Gísladóttur, grasakonu, og manns hennar Filippusar Stefánssonar, var Gissur vélfræðingur. Hann sigldi til Danmerkur og starfaði þar í hinum kunnu Lysekilsverksmiðjum við vélfræðinám og vélastörf.
Fyrir aðalfundi þessum lá bréf frá Gissuri Filippussyni, þar sem hann bauð Smiðjufélaginu starfskrafta sína, bauðst til þess að gerast verkstjóri á vélaverkstæði félagsins. Bréfinu fylgdi vottorð frá Lysekilsverksmiðjunni um hæfni Gissurar. Ekki vildi þó stjórnin fallast á að ráða hann að verkstæði Smiðjufélagsins, meðan Jóhann Hansson gæfi kost á sér til verkstjórnar þar, enda þótt hann væri með annan fótinn og vel það austur á Seyðisfirði meiri hluta ársins á verkstæði sínu þar. Vélaverkstæði hans þar sinnti viðgerðum á vélum megin hluta alls vélbátaflota Austfirðinga á þeim árum.
Gjaldkeri Smiðjufélags Vestmannaeyja og innheimtumaður var Friðrik Þorsteinsson, skrifstofumaður, og hafði hann að launum kr. 150,00 um árið í þóknun frá félaginu, svo að ekki sliguðu árslaun hans fjárhag félagsins.
Eftir þennan aðalfund (9. febr. 1913) réð Jóhann Hansson Gissur Filippusson verkstjóra á verkstæði Smiðjufélagsins og fulltrúa sinn, er hann sjálfur var fjarverandi.
Allt lék í lyndi fyrir Smiðjufélagi Vestmannaeyja. Á aðalfundi þess 12. júlí 1914 gáfu reikningar þess hluthöfunum til kynna, að félagið hafði grætt kr. 2.551,17 umliðið ár (1913). Það var býsna góð útkoma á rekstrinum þá og sannaði ótvírætt, að dagleg stjórn á verkstæði félagsins var í bezta lagi. Reyndi þar mest á Gissur Filippusson. Samþykkt var þá að greiða hluthöfunum 6% arð. Sama stjórn var endurkosin.
Fyrir fundi þessum lá vissa fyrir því, að Gissur Filippusson, sá ötuli og hagsýni verkstjóri, vildi gjarnan starfa áfram hjá Smiðjufélaginu að því tilskyldu, að félagsstjórnin gæti fallizt á að greiða honum sunnudaga- og næturvinnu frá fyrra ári, er hann hafði neyðzt til að vinna að viðgerð véla fyrir sjómenn og formenn, sem gátu ekki komizt á sjó vegna vélabilunar til þess að afla eða bjarga veiðarfærum sínum í tæka tíð. Á þessa málaleitan Gissurar
verkstjóra og fulltrúa gat stjórn Smiðjufélagsins ekki fallizt og sagði þá Gissur Filippusson upp starfi sínu hjá Smiðjufélaginu. Um leið má með sanni segja, að dagar þess séu taldir. Þannig kom óbilgirni og þröngsýni stjórnarinnar félaginu á kné. Einn var þar öllu ráðandi, og ráðin þau urðu banabiti félagsins. Enginn veit, hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Það mátti með sanni segja, eftir að Smiðjufélagið flæmdi frá sér Gissur vélfræðing Filippusson.
Vorið 1915 sá loks stjórn Smiðjufélagsins hvert stefndi fyrir því og rekstri þess.
Hinn 30. maí um vorið hélt stjórn Smiðjufélagsins fund í skrifstofu hins allsráðandi formanns. Þann fund sat Jóhann Hansson, „montör“, nýkominn í bæinn austan af fjörðum. Á fundi þessum afréð stjórnin „fyrir sitt leyti“ að selja verkstæði Smiðjufélagsins. Hún fól jafnframt „montörnum“ að leita fyrir sér um kaupanda að því.
Hinn 27. okt. sama ár (1915) hélt stjórnin fund með sér í skrifstofu formannsins. Þar ræddi hún hin miklu töp félagsins og vandræðin við að reka það sökum fjárskorts, þar sem félagið hefði fram að þeim tíma ársins tapað sem svaraði öllu hlutafé félagsmanna. Væru því engin tök á því að reka verkstæði félagsins framvegis, — „það hefði enga tiltrú og gæti ekkert með öðru móti en ef hlutaféð vœri aukið, sem alls ekki mundi þó tiltök.“ (Leturbr. greinarhöf.). Jafnframt lét stjórnin í ljós þá ósk sína, að Jóhann Hansson vildi kaupa verkstæði Smiðjufélagsins með því einu að greiða þær skuldir, sem á því hvíldu.
Loks var haldinn aðalfundur í Smiðjufélagi Vestmannaeyja 25. sept. 1917. Lagðir voru þar fram reikningar félagsins árið 1914 til 20. okt. 1915. Hafði þá Smiðjufélag Vestmannaeyja legið í rúst undir stjórn „herranna“, eins og stjórnarmennirnir eru skráðir í fundargerðum þess, undanfarin tvö ár sökum taps á rekstrinum.
Kunnugir tjá mér, að megin orsök tapanna hafi verið stjórnleysi á verkstæði félagsins, — hirðuleysi um hag þess. Síðustu tilverumánuði þess gekk hver og einn, sem þess þurfti með, á verkstæði þess og notaði vélarnar þar og verkfærin eftirlitslaust og efni, eftir því sem það var til og fannst. Þeir, sem kynnu að vita betur, mótmæli þessu og færi rök að. Gat hin ógreidda sunnudaga- og næturvinna Gissurar verkstjóra ein valdið allri þessari ógæfu?
Enn lifði stjórn Smiðjufélagsins í þeirri von, að Jóhann Hansson „montör“ vildi láta verða af því að hirða rústir félagsskaparins fyrir andvirði, er næmi áhvílandi skuldum.
Á aðalfundi þessum bar formaður stjórnarinnar fram þessa tillögu: „Fundurinn ákveður að selja allar eignir Smiðjufélags Vestmannaeyja, ef kaupandi fæst, sem vill starfrækja smiðjuna og um leið að slíta félagsskapnum.“
... Samkvæmt framhaldi tillögunnar skyldi svo fundurinn veita „herrunum“, svo eru stjórnarmennirnir taldir upp, „fullt og ótakmarkað umboð til þess að selja allar eignir félagsins, gefa út afsalsbréf, taka við borgun, sem kann að verða umfram skuldir, skipta henni milli hluthafa eftir réttri tiltölu, og yfir höfuð til alls, er að þessu lýtur undantekningarlaust. Skal allt, sem nefndir herrar gera í þessu efni, vera fullkomlega gilt og bindandi fyrir félagið og einstaka meðlimi þess.
Fleira féll ekki fyrir, fundi slitið.“
Næsti fundur stjórnar Smiðjufélags Vestmannaeyja átti sér síðan stað 22. okt. 1920. Hann var haldinn í Vík, á heimili formannsins, Gunnars kaupmanns Ólafssonar.
Á fundi þessum var lagt fram bréf frá Guðjóni Jónssyni á Sólnesi, dagsett 20. s.m., þar sem hann býðst til þess að kaupa „Smiðjuna í Skildingafjöru“ með lóðarréttindum og vatnsgeymi þeim, sem fylgir húsinu, ásamt öllu föstu og lausu, sem
í húsinu er og Smiðjufélagið á, svo sem vélum, verkfærum og öllu óunnu efni, stáli og járni, allt fyrir kr. 30.000,00.
Stjórninni þótti tilboð Guðjóns Jónssonar óaðgengilegt, verðið of lágt og greiðsluskilmálar, sem þó eru ekki greindir í heimildum, óhagstæðir.
Þá minntist stjórnin þess, að hún hafði heitið Einari járnsmið Magnússyni í Hvammi við Kirkjuveg að selja engum öðrum „Smiðjuna“ fyrr en hann hefði afsalað sér
kaupum á henni. Einar hafði gefið stjórninni það í skyn, að kr. 40.000,00 væri ekki ofhátt verð fyrir allar eignir Smiðjufélagsins.
Jafnframt lét stjórn Smiðjufélagsins í ljós þá ósk sína, að þessir tveir menn, Guðjón Jónsson og Einar Magnússon, vildu kaupa vélaverkstæði Smiðjufélagsins í sameiningu og reka það í félagi. „Þá mundi nefndin fús að selja, en þó ekki
undir 40 þúsund krónum.“
Svo liðu 7 mánuðir. Þá barst „sölunefnd“ Smiðjufélagsins símskeyti frá Fiskveiðasjóði Íslands, þar sem félagið er krafið um greiðslu á eftirstöðvum af láni þess hjá Fiskveiðasjóðnum, og námu þær þá kr. 5.869,05 auk vaxta. Sjóðurinn býðst jafnframt til að kaupa veðdeildarbréf Smiðjufélagsins, sem lágu hjá sjóðsstjórninni, og námu þau kr. 5.000,00. Bauðst sjóðsstjórnin til að kaupa þau á 75% af nafnverði eða fyrir kr. 3.750,00. Andvirði bréfanna skyldi sem sé dragast frá eftirstöðvum skuldarinnar, en það sem þá yrði eftir, skyldi greiðast á tveim árum.
„Sölunefnd“ Smiðjufélagsins samþykkti að taka þessu tilboði
Fiskveiðasjóðsstjórnarinnar.
Einn fund átti stjórn hins gjaldþrota Smiðjufélags Vestmannaeyja eftir að halda enn, áður en „fullkominni greftrun“ lyki. Sá fundur var haldinn að Vík 27. júní 1921. „Tilefni fundarins er það, að Guðjón Jónsson, mótorsmiður, hefur farið þess á leit að fá smiðjuna leigða með verkfærum í eitt ár til að byrja með.“
Stjórnarfundurinn samþykkti samhljóða að leigja Guðjóni Jónssyni „Smiðjuna“ með verkfærum fyrir kr. 200,00 á mánuði frá 1. ágúst 1921 til 31. júlí 1922. Eignin leigðist í því ástandi, sem hún þá var í að öðru leyti en því, að leigusali, Smiðjufélagið, skyldi láta rúður í bygginguna í stað hinna brotnu. Leigutakinn, Guðjón Jónsson, kaupi smám saman smíðaefni Smiðjufélagsins eftir því sem hann þarf þess með.
Var svo formanni hins gjaldþrota smiðjufélags, Gunnari Ólafssyni, falið að gera leigusamning við leigutaka og undirrita hann fyrir félagsins hönd. „Skal það allt gilt og bindandi, er hann gerir í þessu efni.“
Samkvæmt samþykkt félagsfundar tók síðan Guðjón Jónsson frá Seljavöllum undir Eyjafjöllum, þá til heimilis að Sólnesi (nr. 5 við Landagötu) hér í bæ, „Smiðjuna“ á leigu hjá Smiðjufélagi Vestmannaeyja. Leigutíminn var eitt ár frá 1. ágúst 1921 að telja til jafnlengdar næsta ár. Leigan fyrir „Smiðjuna“ með vélum og verkfærum var afráðin kr. 200,00 (tvö hundruð krónur) á mánuði eða kr. 2.400,00 yfir árið.
Guðjón Jónsson hafði verið nemandi Thomas Thomsen í 4 ár, frá 1914, að hann hóf vélfræði- og járnsmíðanám hjá honum, til 1918. (Sjá næsta þátt í frásögn þessari).
Guðjón Jónsson rak „Smiðjuna“ í 10 mánuði. Á þeim tíma gaf reksturinn svo góða raun, að hann afréð að kaupa fyrirtækið. Vestmannaeyingar kunnu að meta þá þjónustu, sem Guðjón Jónsson veitti þeim, vakinn og sofinn við þau störf, svo að útgerðarmenn og sjómenn hrifust af og studdu og styrktu eftir föngum. Þessi Eyfellingur hefur síðan verið einn af þörfustu þjónum atvinnulífsins í þessu bæjarfélagi.
Fyrst fyrirtækið gekk svona vel og leigjandinn fann, hversu vel Eyjamenn kunnu að meta vilja hans og störf, afréð Guðjón Jónsson að kaupa „Smiðjuna“, gæti hann fengið hana keypta á viðráðanlegu verði.
Ekki þarf að orðlengja þetta. Kaupsamningurinn var undirritaður 1. júní 1922, og var kaupverðið kr. 19.500,00.
Húseign Smiðjufélags Vestmannaeyja, „Smiðjunni“, fylgdi 2000 fermetra lóð, þar sem húsið stóð í Skildingafjöru. Allar vélar og öll verkfæri fylgdu með í kaupum þessum. „Mótor“ var þar til nota í Smiðjunni. Hann var ekki með í kaupunum, enda eign Jóhanns Hanssonar á Seyðisfirði. Til stóð, að Smiðjufélagið keypti hann, en aldrei þótti það hafa efni á því.
Kaupverð Smiðjunnar greiddi Guðjón þannig:
1. Greiddi í peningum stuttu eftir samningsgjörð kr. 6.566,04.
2. Greiddi eftirstöðvar af láni frá Veðdeild Landsbanka Íslands með ábyrgð Vestmannaeyjakaupstaðar kr. 2.933,96.
3. Tók á sig að endurgreiða hluthöfum hlutaféð kr. 5.000,00.
4. Eftirstöðvarnar skuldbatt kaupandi sig til að greiða á næstu 5 árum eða kr. 1.000,00 á ári, kr. 5.000,00.
Samtals kr. 19.500,00.
Vaxtastofn af skuldunum var áskilinn 5%.
Hlutaféð greiddi kaupandi samkvæmt framanskráðri hluthafaskrá.
Eftir að stjórn Smiðjufélags Vestmannaeyja hafði keypt vélaverkstæði Matthíasar Finnbogasonar og sameinað það vélaverkstæði Smiðjufélagsins, sá útgerðarmaðurinn, kaupmaðurinn og konsúllinn Gísli J. Johnsen sitt óvænna um viðgerðir allra sinna bátavéla. Fúlasti andstæðingur hans, útgerðarmaðurinn,
kaupmaðurinn og konsúllinn Gunnar Ólafsson, var valdamesti aðili í þeim félagsskap, sem einráður var orðinn um alla vélaiðju í verstöðinni. Þar með afréð Gísli J. Johnsen að vinna að stofnun nýrrar „vélaverksmiðju“ í Vestmannaeyjum. Verkefnið var feikinóg handa tveim vélaverkstæðum, þar sem vélbátafloti Eyjabúa fór ört vaxandi. Árið 1912 áttu Eyjamenn orðið 38 vélbáta minni og stærri eða frá 4—12 smálesta.
Hér var ekkert hik á framkvæmdum, þegar Gísli J. Johnsen var annars vegar, þó var allt framkvæmt af fyrirhyggju, ráðum og dáð. Hann réði hingað danskan „montör“ til samvinnu við sig um stofnun nýju
vélsmiðjunnar í Vestmannaeyjum. Þessi danski kunnáttumaður um byggingu bátavéla og viðgerðir á þeim var Thomas Thomsen, sem þá átti eftir að skrá nafn sitt með nokkrum glæsibrag inn í útgerðarsögu Vestmannaeyja, góður og gegn maður í starfi sínu, heiðarlegur kunnáttumaður um allt, er laut að þjónustustarfi hans við útgerðarmenn í Eyjum og atvinnurekstur þeirra. Þegar hann settist að í Vestmannaeyjum, fór á kreik sagan um hann austan af fjörðum, er Vestmannaeyjaformaður á Seyðisfirði kom inn með bilaða bátavél, sem Thomsen gat ekki gert við sökum skorts á verkfærum. Gerði hann sér þá lítið fyrir, fékk sér vélbát og fór suður til Mjóafjarðar með hinn bilaða vélarhluta og gerði við hann þar á vélaverkstæði hvalveiðistöðvarinnar á Asknesi,
Ellefsensstöðvarinnar. Ekki fældi þessi manndómssaga útgerðarmenn eða vélamenn í Eyjum frá þessum samstarfs- og sameignarmanni Gísla J. Johnsen um rekstur vélaverkstæðisins nýja.
Thomas Thomsen var fæddur í Skagen á Jótlandi 11. apríl 1883. Hann lærði vélsmíði í Esbjerg og vann síðan í þjónustu Möllerupsverksmiðjunnar nafnkunnu.
Árið 1907 sendi Möllerupsverksmiðjan (C. Möllerupsmaskinfabrik) Th. Thomsen til Seyðisfjarðar á Austur-Íslandi til þess að gera þar við Möllerupsvél, sem brotnað hafði. Þá var mikið í munni að ferðast alla leið til Íslands. Löng var sú leið og torsótt oft, þarna norður á hjara veraldar. Aðeins annað ferðamark var nokkru stórkostlegra og ennþá meira hrollvekjandi í dönskum huga: Grænland.
Brátt aðlaðaðist Th. Thomsen íslenzkum staðháttum, og þjóðin féll honum vel í geð. Honum leizt býsna vel á sig í hinu gróandi íslenzka þjóðfélagi, þar sem vélvæðing fór vaxandi ár frá ári við sjávarsíðuna.
Fyrstu árin hér á landi starfaði Th. Thomsen vestur í Bolungarvík.
Haustið 1911 kom Th. Thomsen til Vestmannaeyja fyrir orð Gísla J. Johnsen. Hann vildi kynnast öllum staðháttum þar. Næsta ár (1912) fluttist hann búferlum til Eyja. Var þá hafizt handa um að byggja vélsmiðju við Urðaveginn. Því verki var að mestu lokið haustið 1912. Þá brutust þeir í því félagarnir um
vélaverkstæðið nýja að festa kaup á vélum og verkfærum til starfrækslunnar. Öll bréf eða flest, sem Th. Thomsen skrifaði til Danmerkur og fjölluðu um kaup á vélum og verkfærum, voru skrifuð á skrifstofu Gísla J. Johnsen og í samráði við hann, enda annaðist hann flestar fjármálafyrirgreiðslur um verkfæra- og vélakaup í nýju vélsmiðjuna, og var hún sameign Gísla J. Johnsen og Th. Thomsen fyrstu árin. Ekki er mér um það kunnugt, hvenær Th. Thomsen varð einn eigandi smiðjunnar.
Svo hófst þá rekstur „Thomsenssmiðjunnar“ við Urðaveg og samkeppnin við Smiðjuna í Skildingafjöru, þegar svo bar undir.
Brátt kom þar berlega í ljós í því starfi öllu, að veldur hver á heldur, líka um rekstur vélsmiðju.
Þegar Gissur Filippusson var horfinn úr þjónustu Smiðjufélags
Vestmannaeyja sökum þess, að hann vildi ekki kauplaust inna af hendi
helgidaga- og næturvinnu í þágu „Smiðjunnar“, var þar sem við manninn mælt.
Vélsmiðja Thomsens varð brátt sem ein væri um allar vélaviðgerðir í bænum og smíði vélahluta. Ágætt þótti í hvívetna að skipta við Th. Thomsen eða fyrirtæki hans. Það dafnaði líka og óx öllum Eyjabúum til hagnaðar, ekki sízt útgerðarmönnunum sjálfum og sjómönnum öllum í Eyjum.
Th. Thomsen rak vélsmiðju sína til ársins 1929. Þá leigði hann hana Þorsteini Steinssyni, vélsmið. Hann leigði hana síðan í 3—4 ár, og keypti hana árið 1933. Síðan hefur Þorsteinn Steinsson rekið þessa smiðju við Urðaveg.
Th. Thomsen fluttist burt úr Eyjum árið 1934. Þá hafði hann rekið beinamjölsverksmiðjuna Heklu hér um nokkurt tímabil. En það er önnur saga og verður ekki sögð hér að sinni.
Árið 1910, 11. maí, kvæntist Th. Thomsen íslenzkri konu, Sigurlaugu Jónsdóttur frá Hofi í Svarfaðardal, systur Þorsteins Eyfirðings, skipstjóra og útgerðarmanns, og þeirra systkina. Frú Sigurlaug var fædd að Hofi 2. júní 1885.
Þau hjón eignuðust eina dóttur barna, Ellý, sem búsett er í Reykjavík.
Hjónin ólu upp bróðurson frú Sigurlaugar, Aðalstein Jóhannsson, sem var nemandi minn í Unglingaskóla Vestmannaeyja veturinn 1927—1928 eða fyrsta starfsveturinn minn hér í Eyjum.
Aðalsteinn Jóhannsson stundaði vélsmíði eitt ár hér hjá fóstra sínum.
Síðan hélt hann áfram vélsmíðanáminu í Hamri í Reykjavík og lauk því þar. Hann hefur um árabil verið aðaleigandi og forstjóri fyrirtækisins A. Jóhannsson og Smith hf. í Reykjavík.
Fyrst eftir að Thomsenshjónin settust hér að, leigðu þau í Laufási. Síðar keyptu þau húseignina Hnausa við Landagötu. Eigandinn var Þorlákur Guðmundsson. Húseignina Hnausa skírðu hinir nýju eigendur um og kölluðu Sólnes. Því nafni hefur húsið haldið síðan (Landagata 5 A).
Heimili Thomsenshjónanna þótti fyrirmyndarheimili hér um alla reglusemi og fágun. Það bar þessum mætu hjónum fagurt vitni og þá ekki sízt húsmóðurinni.
Eins og ég drap á, þá hafði Guðjón Jónsson frá Seljavöllum lokið vélsmíðanámi í Vélsmiðju Th. Thomsens 1918. Tveir menn luku sama námi við vélsmiðju þessa árið 1926. Þeir voru Ólafur St. Ólafsson frá Vopnafirði og Óskar Sigurhansson frá Stóru-Mörk undir Vestur-Eyjafjöllum. Um leið og þessir ágætu menn luku námi saman, ákvörðuðu þeir að stofna til sjálfstæðs atvinnureksturs í Vestmannaeyjum, stofna vélsmiðju. Vélsmiðju sína kölluðu þeir Vélsmiðju Ólafs og Óskars og byggðu hús yfir hana að Strandvegi 75 í bænum. Hús þetta stendur enn og er sunnanvert við Strandveginn, bakhús við
verzlunar- og skrifstofuhús Vélsmiðjunnar Magna hf. að Strandvegi 75. Vélsmiðju sína ráku þeir félagar í 7 ár eða til ársins 1933.
Árið 1933 varð það samkomulag þremenninganna, fyrrverandi nemenda Th. Thomsens, Guðjóns Jónssonar, Ólafs St. Ólafssonar og Óskars Sigurhanssonar, að sameina vélsmiðjur sínar í eitt fyrirtæki, steypa þeim saman í eina vélsmiðju. Þannig varð Vélsmiðjan Magni hf. til, sem hefur verið aðalvélsmiðjan í bænum undanfarin 36 ár. Mér er tjáð, að stofndagur Magna hf. sé 5. sept. 1933.
Vélsmiðjan Magni hf. hefur með sanni eignazt markverðan kafla í
útgerðarsögu kaupstaðarins. Að ég bezt veit, er sá kafli sögunnar óskráður enn. Þennan kafla þyrftu eigendur Vélsmiðjunnar að láta skrá sem fyrst, því að hann er þess verður.
Þá koma fleiri slíkir kaflar til skráningar, þá tímar líða, svo sem saga Vélsmiðju Einars heitins Magnússonar, er hann rak í húsi því, sem stóð á mótum Strandvegar og Kirkjuvegar*. Einar vélsmiður Magnússon fluttist til Eyja árið 1916, að ég bezt veit. Þá á vélsmiðjurekstur Þorsteins Steinssonar hér í bæ flekklausa og athyglisverða sögu, sem er nátengd atvinnulífinu. Öllum þessum sögulega fróðleik þyrfti að halda til haga.
*(leiðr. Sjá Blik 1971, — Leiðréttingar.
Óskar Sigurhansson vélsmiður er fæddur 29. apríl 1902 að Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum.
Foreldrar hans voru: Sigurhans Ólafsson bóndi í Stóru-Mörk og kona hans Dórothea Sveinsdóttir frá Ytri-Sólheimum.
Óskar Sigurhansson hóf vélfrœðinám í Smiðju Th. Thomsen árið 1917 og lauk námi 1921. Eftir það var hann starfsmaður Th. Thomsen til 1927, er hann stofnaði Vélsmiðju Ólafs og Óskars, sem um getur hér í greininni. Síðan Vélsmiðjan Magni var stofnuð, hefur vélsmiðurinn verið þar starfandi og er það enn.
————————————————
Byggðarsafn Vestmannaeyja geymir marga markverða og fagra hluti, sögulega gripi. Einn af þeim er báturinn Hrönn, líkan af ísfirzkum útilegubáti, að mér er tjáð, sem Ólafur St. Ólafsson heitinn, einn af þrem stofnendum Vélsmiðjunnar Magna hf. og forstjóri hennar frá stofnun til dánardægurs, smíðaði á Ísafirði, er hann var þar við vélsmíðanám á árunum 1916—1919. Eftir fráfall Ólafs forstjóra lét ekkja hans, Dagmar Erlendsdóttir, syni þeirra hjóna, Erlend og Gunnar, færa Byggðarsafninu að gjöf þetta fagra og velgerða bátslíkan. Þar geymist það sem nokkur minnisvarði um hagleiksmanninn og drengskaparmanninn, sem stjórnaði hér um langt árabil stærstu vélsmiðju í Vestmannaeyjakaupstað.
Ólafur St. Ólafsson var fæddur austur á Vopnafirði 24. júní árið 1900. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Valdimar Davíðsson, verzlunarstjóri, og Sigríður Þ. St. Þorvarðardóttir.
Ólafur St. Ólafsson nam vélsmíðanám á Ísafirði um þriggja ára skeið. Síðan nam hann í Vélskóla Íslands og lauk þaðan prófi árið 1922. Hann var síðan vélstjóri á ýmsum skipum næstu tvö árin. Árið 1924 fluttist hann til Vestmannaeyja til þess að ljúka vélsmíðanámi í Vélsmiðju Th. Thomsen. Þar lauk hann námi árið 1926. Það ár stofnuðu þeir námsfélagarnir frá Thomsen, Ólafur St. Ólafsson og Óskar Sigurhanssson vélsmiðju sína að Strandvegi 75. Árið 1927 (24. júní) kvæntist ÓIafur St. Ólafsson, forstjóri, eftirlifandi konu sinni, frú Dagmar
Erlendsdóttur frá Gilsbakka við Heimagötu. Hún er dóttir hjónanna Erlendar trésmíðameistara Árnasonar frá Neðra-Dal undir Eyjafjöllum og Bjargar Sighvatsdóttur frá Vilborgarstöðum. Ólafur St. Ólafsson lézt 5. marz 1962.