Blik 1969/Ruddar markverðar brautir, I. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1969


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Ruddar markverðar brautir


Fyrstu vélaverkstæðin í Vestmannaeyjum
(Fyrri hluti)


1. Þáttur Matthíasar Finnbogasonar


Þorsteinn heitinn Jónsson, útgerðarmaður og skipstjóri í Laufási, og hinir dugmiklu félagar hans um fyrstu vélbátaútgerðina í Vestmannaeyjum, fóru í fyrsta róðurinn á nýja vélbátnum, Unni VE 80, 3. febrúar 1906.

Matthías Finnbogason.
Fæddur er hann að Prestshúsum í Reynishverfi í Mýrdal 25. apríl 1882. Foreldrar: Finnbogi Einarsson (hreppstjóra í Þórisholti Jóhannssonar) og konu hans, Matthildar Pálsdóttur. Kona Matthíasar Finnbogasonar var frú Sigríður Þorsteinsdóttir frá Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum.

Illa hafði verið spáð fyrir þessu framtaki þeirra félaga að festa kaup á vélbáti til fiskveiða hér við Eyjar. En von og trú þeirra félaga lét sér ekki til skammar verða. Þessa fyrstu vertíð vélbátaútvegsins hér, ef ég mætti orða það þannig, fóru þeir á litla vélbátnum fleiri róðra en hinir djörfustu og bezt menntu formenn á áraskipunum og öfluðu jafnframt mikið meira.
Mikilvæg og markverð hugsjón rættist, og hitamagn „fór um önd“ þeirra, sem hrintu henni í framkvæmd. Allir hinir voru ásjáendur og höfðu hitann í haldinu, hefðu svo fegnir viljað þá þegar eiga vélbát, og réru brátt að því öllum árum að eignast hlut í vélknúinni fleytu eins og Þorsteinn og félagar hans áttu þá þegar.
Svo var þá knúið á og leitað til þess manns í Eyjum, sem virtist hafa lykilinn að öllu, sem laut að verzlun og viðskiptum, útgerð og bátakaupum og öllum öðrum athöfnum í hinu daglega lífi Eyjafólks, atorkusamur og víðsýnn, áhugasamur og ákafur, er því var að skipta, velviljaður og gæddur miklu og farsælu fjármálaviti, kaupmaðurinn Gísli J. Johnsen.
Hann hófst handa um að útvega útgerðarmönnum byggðarlagsins vélbáta frá Danmörku.
Vetrarvertíðina 1907 urðu vélbátar Eyjabúa 22. Hver þeirra var sameign 5—6 manna. Samtals áttu hluti í þeim 119 menn, flestir heimilisfeður í sveitarfélaginu, útgerðarstöðinni.
Ný tækni í fiskveiðum ruddi sér til rúms. Aldahvörf áttu sér stað í Vestmannaeyjum.
Flestir fyrstu vélbátarnir voru 8—9 smálestir að stærð með 8—10 hestafla vél. Helztu vélategundirnar í fyrstu bátunum voru Dan-, Möllerup-, Gideon- og Alfavélin.
Á þessum tímum brautarbrots og nýrrar tækni áttu Íslendingar mjög fáa vélfræðinga eða aðra kunnáttumenn um byggingu og meðferð bátavéla.
Þegar vélbátafloti Eyjamanna óx svo hröðum skrefum, varð þeim nauðsynlegra en flest annað, að lærðir menn í meðferð bátavélanna og viðgerðum á þeim, væru búsettir og starfandi í verstöðinni. Smíða þurfti heila vélahluti og svo inna af hendi margháttaðar viðgerðir á þeim svo að segja daglega, eftir að vetrarvertíð hófst, þó reyndust vélarnar gangvissar, en vankunnáttan var oft Þrándur í götu þess, að full not fengjust af þeim.
Þegar vélbátafloti Eyjabúa óx svo hröðum skrefum, varð atvinnulífinu þar nauðsynlegra en flest annað, að búsettir væru í verstöðinni kunnáttumenn um meðferð og viðgerðir bátavélanna og starfrækt vélaverkstæði með fullkomnum tækjum til að smíða og lagfæra vélahluti.
Ekki mun víða í landinu hafa búið almennt ríkari smíðigáfa og handlagni en með Eyjabúum, sérstaklega þeim, sem aðfluttir voru á fyrstu áratugunum eftir aldamótin. Fjölmargir þeirra, sem búsettu sig þar á fyrstu uppgangs- og vaxtarárum vélbátaflotans, fluttust úr Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu eða voru ættaðir þaðan. Í þeim sýslum hafði ávallt svo lengi sem sögur greindu búið margir hagleiksmenn, Völundar til smíða á tré og járn, oft snillingar með afbrigðum. Þeirra eiginleika naut nú vélbátaútvegur Eyjabúa í ríkum mæli, einmitt nú á þessum frumbýlings- og byltingarárum í atvinnulífinu, er hið meðfædda brjóstvit og náðargáfa þjóðhagasmiðsins varð styrkasta stoðin og uppspretta úrræðanna, þar sem tækniþekkinguna og reynsluna skorti gjörsamlega. Það er vitað, að í þessum nefndu sýslum fengu útvegsbændur í Eyjum smíðuð kunnustu og beztu opnu skipin sín um aldir, mestu happafleyturnar í verstöðinni. Síðustu dæmin í þessum efnum eru áttæringarnir Trú, Ísak og Gideon, sem smíðuð voru öll á Ljótarstöðum í Landeyjum á fyrri hluta 19. aldar.
Einn af þessum hagleiksmönnum, sem búsett hafði sig í Eyjum um eða eftir aldamótin var Matthías Finnbogason frá Prestshúsum í Mýrdal, sem enn er lífs á meðal okkar, nú á níræðisaldri. Hann hefur lengst af verið kenndur hér við íbúðarhús sitt að Hásteinsvegi 24, Litlhóla.

—————

Eins og ég drap á, reyndust vélarnar í fyrstu bátunum vissulega gangvissar, en þekkingarskorturinn hamlaði, hindraði full not af þeim og þeirri tækni til aukinna veiða, sem vélbátarnir í heild voru svo sannarlega. Margt þurfti að lagfæra, því að mörgu var ábótavant og margt gekk úr skorðum, ekki sízt í veðrabrigðum vetrarins og veðraham.
Sjaldnast var vélgæzlumaðurinn því vaxinn að lagfæra sjálfur það, sem aflaga fór í vélarrúminu, hvort sem það var olíuleiðsla, smurolíukerfið, gangráðurinn eða olíugjöfin, svo að eitthvað sé nefnt. Þá þurfti handlaginn útsjónarmann til að ráða bót á biluninni, og það sem allra fyrst, svo að veiðar heftust ekki eða tepptust nema sem allra styztan tíma af þeim sökum. Þá var snillingurinn Matthías Finnbogason jafnan kvaddur til hjálpar, enda boðinn og búinn til aðstoðar við vélarnar, eftir því sem brjóstvit hans og handlagni hrökk til, þó án allrar tæknikunnáttu og nauðsynlegra verkfæra eða smíðavéla á þessu sviði. Enginn í Eyjum fann því betur og skildi, hvar skórinn kreppti mest að um þekkingu og skilning á gerð vélanna og gangi, lagi og lögmáli en bóndasonur þessi frá Prestshúsum í Mýrdal.
Sumarið 1906 var mjög til Gísla J. Johnsen leitað um kaup á vélbátum til handa Eyjabúum. Hann brást vel við og festi kaup á þeim frá Danmörku, ég held eingöngu frá Friðrikssundi. Jafnframt festi P. T. Bryde, kaupmaður í Austurbúðinni, kaup á vélbátum fyrir nokkra Eyjabúa. Þá voru einnig búsettir þeir menn í Eyjum, sem þegar réðust í að láta smiði í kauptúninu byggja vélbáta undir Skiphellum. Þeir pöntuðu síðan vélar í þá frá Danmörku, flestir.
Smátt var um gjaldmiðilinn hjá mörgum þeim, sem báðu Gísla J. Johnsen að panta fyrir sig bát frá Danmörku. Gerðist hann þá gjarnan sjálfur meðeigandi til þess að létta mönnum válbátakaupin. Þannig gerðist hann meðeigandi í 8 vélbátum árið 1908, af 17, sem hann festi kaup á fyrir Eyjabúa það ár. Ekki er mér kunnugt um, að Bryde kaupmaður gerðist meðeigandi í neinum þeim báti, sem hann stóð að kaupum á fyrir Eyjabúa, - eða hluthafi.
Í flestum bátunum, sem Gísli J. Johnsen hafði milligöngu um kaup á, greiddi hann 1/6 úr eigin pyngju, gerðist eigandi að 1/6 hluta bátsins. Svo að hér var ekki um sókn eftir valdi að ræða. Valdið hlutu 5/6 hlutarnir að hafa yfir bát og útgerð. Hinu er ekki að leyna, að hinn hyggni og glöggi fjármálamaður sá sér hagnaðarvon í því og fyrirtæki sínu, að útgerð, sem hann átti hlut í, mundi líklegri til þess að láta hann njóta viðskipta umfram aðra.
Glögglega sá Gísli J. Johnsen, hvar skórinn hlaut að kreppa að vélbátaútgerðinni sökum skorts á hæfum kunnáttumönnum um meðferð og viðgerð vélanna. Sumarið 1906 kom hann því að máli við Matthías Finnbogason og hvatti hann til að sigla til Danmerkur og dveljast þar á vélaverkstæði svo sem eitt ár til þess að auka hæfni sína í vélaviðgerðum, festa kaup á fullkomnum verkfærum til þeirrar iðju og stefna að því að koma á laggirnar sem allra fullkomnustu vélaverkstæði í Vestmannaeyjum.
Þetta var auðsótt mál við Matthías Finnbogason, og fór allt að áætlun, eins og við manninn var mælt.
Báðum var þeim það ljóst, þessum mætu Eyjamönnum, að markverð og sögurík aldahvörf voru að hefjast í atvinnulífi Eyjafólks og allrar íslenzku þjóðarinnar, og kunnáttu, leikni og meðfædda hæfni þurfti til, ef hin nýju og stórfelldu atvinnu- og framleiðslutæki áttu að geta blessazt byggðarlaginu í heild og þeim býsna mörgu, sem hingað leituðu lífsbjargar sér og sínum á vetrarvertíðum a.m.k.
Haustið 1906 sigldi Matthías Finnbogason til Kaupmannahafnar og tók þá til starfa og náms í vélaverksmiðju Danvélanna í Danmörku. Þarna dvaldist hann veturinn 1906—1907 og kom heim um sumarið.
Tveir Danir reyndust Matthíasi Finnbogasyni betri en flestir aðrir. Þeir lánuðu honum fé úr eigin vasa til kaupa á verkfærum og ýmsum öðrum stærri tækjum til vélaverkstæðisins, sem hann stofnaði til í Eyjum. Matthías hafði sem vonlegt var lítið fjármagn til áhaldakaupa og lánsfé lá þá ekki á lausu, en án fullkominna verkfæra, eftir því sem þau gerðust þá, var gagnslaust að stofna til verkstæðisins, enda þótt kunnáttan væri fengin.
Eftir heimkomuna stofnsetti Matthías Finnbogason verkstæðið sitt og fékk inni fyrir það í Dvergasteini við Heimagötu, sem barnaskóli þorpsins hafði flutt úr fyrir þrem árum eftir 21 árs starf þar. Það hús var þá orðið eign Sigurðar Ísleifssonar, trésmíðameistara. Jafnframt hófst Matthías handa um að byggja sér íbúðarhús, þar sem hann vildi hafa verkstæði sitt í kjallara. Allt gekk þetta eftir ætlan og áætlan. Hús þetta er húseignin Jaðar við Vestmannabraut (nr. 6), timburhús á steyptum kjallara.
Eins og áður er drepið á, þá gerðu Vestmannaeyingar út 22 vélbáta vertíðina 1907 og voru eigendur þeirra samtals 119 heimilisfeður í Eyjum eða 5—6 um hvern bát. Vélbátarnir voru því sameign þeirra manna, sem að þeim stóðu og við þá unnu að örfáum undantekningum, og höfðu lífsframfæri sitt og sinna af útgerðinni.
Matthías Finnbogason gat byrjað rekstur vélaverkstæðisins í hinu nýja húsi sínu um áramótin 1908/1909. Um sama leyti tók til starfa í Vestmannaeyjum fyrsta frystihúsið í eigu Íslendinga, er var knúið vélum, — frystihús Ísfélags Vestmannaeyja á Nýjabæjarklöpp. Aðeins þetta tvennt sannar okkur þann kraft og dugnað, viljastyrk og fyrirhyggju, sem þá var alls ráðandi í athafnalífi Eyjabúa á þessum umbreytinga- og aldahvarfaárum, þegar þessi nýja tækni var að ryðja sér til rúms. Á engan skal eða er hallað, þó að drepið sé á þá staðreynd, að Gísli J. Johnsen var „potturinn og pannan“ í öllum þessum stórstígu framförum. En fullyrða má, að Eyjamenn í heild fylgdu hér dyggilega á eftir dugmikilli og víðsýnni forustu.
Á hinum tíðu ferðalögum sínum erlendis kynntist Gísli J. Johnsen mörgum markverðum nýjungum, tæknilegum framförum, sem hann sá að áttu brýnt erindi til hinnar íslenzku þjóðar, sem var að rísa úr kút undirokunar og úrræðaleysis.
Þrjú ár liðu og rúmlega það. Matthías Finnbogason gat ekki orðið annað öllu því, sem á hann kallaði til hjálpar og starfa í hinum örtvaxandi vélbátaútvegi Eyjabúa. Snillingurinn frá Jaðri átti þar í vök að verjast, ef svo andstætt mætti að orði komast í þessum efnum, því að hann varðist hvergi, en veitti alla þá þjónustu, er hann gat frekast í té látið hinum vaxandi útvegi. En geta hans hrökk ekki til, — eina vélaverkstæðið í Vestmannaeyjum. Hinn örtvaxandi vélbátaútvegur krafðist hraðari vélaviðgerða en einn maður gat innt af hendi.


2. Smiðjufélag Vestmannaeyja


Haustið 1911 tóku ýmsir útgerðarmenn í Vestmannaeyjum að ræða nauðsyn þess að stofna vélaverkstæði, sem fullnægt gæti sem allra mest og bezt hinum miklu þörfum vélbátaútvegsins um viðgerðir og smíði hluta í bátavélarnar. Þessar bollaleggingar leiddu til þess, að umburðarbréf var sent um byggðina til útgerðarmanna fyrst og fremst og boðið að skrifa sig fyrir fjárframlagi, — hlutafé, til þessa nýja fyrirtækis.
Aðalforgöngumaður þessa máls var Karl sýslumaður Einarsson, sem þá hafði verið sýslumaður í Eyjum á annað ár.


Umburðarbréfið:


Undirritaðir, sem hafa komið sér saman um að reyna að stofna hlutafélag, er setji á stofn mótorverksmiðju hér undir forustu herra Jóhanns Hanssonar frá Seyðisfirði og kaupi verksmiðju herra Matthíasar Finnbogasonar, ef um semst, leyfa sér hér með að biðja þá, sem leggja vilja fram fé í þessu skyni, að rita fjárhæðina og nöfn sín á eftirfarandi lista. Ætlazt er til, að hlutaféð greiðist fyrir mitt næsta sumar.
Fáist nægilegt fé til þess að félagið verði stofnað, verða hluthafar (þeir sem hafa ritað sig fyrir fjárframlagi) kallaðir á fund til þess að kjósa stjórn og ræða um nánara fyrirkomulag.

Hús Smiðjufélags Vestmannaeyja, byggt sumarið 1912.

Karl Einarsson, Jón Einarsson (Gjábakka), Jóel Eyjólfsson, Þorsteinn Jónsson, Anton Bjarnasen, Símon Egilsson

Vestmannaeyjum, 3. desember 1911.

Karl Einarsson
Jón Einarsson, Gjábakka
Jóel Eyjólfsson
Þorsteinn Jónsson
Anton Bjarnasen
Símon Egilsson
Gunnar Ólafsson
Jón Einarsson, Hrauni
Friðrik Þorsteinsson
Ágúst Gíslason
Geir Guðmundsson
Árni Filippusson

Svo var þá hafizt handa um að safna hlutafé. Samtals fengust loforð um hartnær 6 þúsundir króna. En einhverjir gengu úr skaftinu, svo að hlulaféð varð að lokum sem hér segir:

Skrá
yfir hluthafa í Smiðjufélagi
Vestmannaeyja
Nr. Nafn Heimili Hlutafé í kr.
1 Geir Guðmundsson Geirlandi 100,00
2 Árni Filippusson Ásgarði 50,00
3 Karl Einarsson Hofi 500,00
4 Ritverk Árna Árnasonar/Helgi Guðmundsson (Dalbæ) Dalbæ 25,00
5 Jón Einarsson Hvammi 100,00
6 Sigurður Oddsson Skuld 25,00
7 Lárus Halldórsson Velli 50,00
8 Jón Ingileifsson Reykholti 25,00
9 Jónas Jónsson Múla 50,00
10 Guðmundur Þórðarson Akri 25,00
11 Magnús Þórðarson Dal 25,00
12 Sigurður Ólafsson Bólstað 50,00
13 Bernótus Sigurðsson Stakkagerði 25,00
14 Einar Sveinsson Geithálsi 25,00
15 Símon Egilsson Miðey 50,00
16 Benedikt Friðriksson Þingvöllum 25,00
17 Vigfús P. Scheving Vilborgarstöðum 100,00
18 Þorsteinn Jónsson Laufási 100,00
19 Sveinn P. Scheving Hjalla 25,00
20 Helgi Jónsson Steinum 50,00
21 Þorsteinn Ólafsson Kirkjubæ 25,00
22 Guðjón Þórðarson Heklu 25,00
23 Gunnlaugur Sigurðsson Gjábakka 12,50
24 Friðrik Benónýsson Gröf 12,50
25 Jón Guðmundsson Svaðkoti, síðar Suðurgarði 25,00
26 Sveinn Jónsson Landamótum 25,00
27 Snorri Þórðarson Steini 25,00
28 Magnús Guðmundsson Vesturhúsum 50,00
29 Jón Einarsson Gjábakka 500,00
30 Þorsteinn Sigurðsson Laugardal 25,00
31 Árni Jónsson Görðum 25,00
32 Vigfús Jónsson Holti 25,00
33 Magnús Ísleifsson London 50,00
34 Friðrik Svipmundsson Löndum 50,00
35 Friðrik Þorsteinsson Lundi 100,00
36 Gunnar Ólafsson Vík 200,00
37 Jóhann Þ. Jósefsson Fagurlyst 100,00
38 Kristinn Jónsson Breiðholti 25,00
39 Þórarinn Gíslason Lundi 50,00
40 Brandur Sigurðsson Strandbergi 25,00
41 Jónatan Snorrason Breiðholti 25,00
42 Jóel Eyjólfsson Sælundi 25,00
43 Sigurjón Jónsson Víðidal 25,00
44 Jón Eyjólfsson Grund 25,00
45 Anton Bjarnasen Dagsbrún 50,00
46 Bjarni Einarsson Hlaðbæ 50,00
47 Stefán Guðlaugsson Gerði 50,00
48 Ólafur Auðunsson Þinghól 50,00
49 Jón Gíslason Sandprýði 50,00
50 Einar Símonarson London 25,00
51 Árni Gíslason Frydendal 100,00
52 Sigurður Ingimundarson Skjaldbreið 50,00
53 Bjarni Bjarnason Hoffelli 50,00
54 Þórður Jónsson Bergi 25,00
55 Halldór Gunnlaugsson Kirkjuhvoli (læknir) 200,00
56 Kristján Ingimundarson Klöpp 50,00
57 Sigríður Eyþórsdóttir Reyni 100,00
58 Guðmundur Benediktsson Grafarholti 25,00
59 Sigfús Scheving Heiðarhvammi 25,00
60 Ólafur Jónsson Garðhúsum 25,00
61 Stefán Björnsson Skuld 25,00
62 Guðmundur Magnússon 25,00
63 Jón Einarsson frá Fjalli, Höfðabrekku 25,00
64 Sigurlaug Guðmundsdóttir Miðgarði 25,00
65 Högni Sigurðsson Baldurshaga 75,00
66 Gísli Magnússon Skálholti 50,00
67 Ágúst Gíslason Valhöll 100,00
68 Jóhann Hansson Seyðisfirði 500,00
69 Einar Jónsson Garðhúsum 25,00
70 Gissur Filipusson 200,00
71 Ágúst Guðmundsson Birtingarholti 50,00
72 Gísli Lárusson Stakkagerði 50,00
Samtals 5.000,00

Hinn 6. desember 1911, eða eftir þrjá daga, var svo haldinn stofnfundur þessa nýja hlutafélags. Sá fundur var haldinn í Þinghúsi Vestmannaeyja, þ.e. Borg við Heimagötu, sem þá var bæði þinghús byggðarinnar og barnaskólahús. Stofnfundinn sat rúmur helmingur þeirra manna, sem skrifað höfðu sig fyrir hlutum í hinu fyrirhugaða félagi. Fundarstjóri var kosinn Þorsteinn Jónsson í Laufási og ritari fundarins Jón Einarsson á Gjábakka.
Gunnar Ólafsson tók fyrstur til máls og skýrði frá undirtektum manna um stofnun félagsins. Safnazt höfðu loforð um hlutafé, sem námu hátt á 6. þúsund krónur.
Jóhann Hansson, „montör“, frá Seyðisfirði, sat fundinn. Hann gerði fundarmönnum nokkra grein fyrir því, hvað kosta mundi nauðsynlegar vélar og annað, sem til þurfti til þess að geta gert við flestallar vanalegar bilanir. Sjálfar vélarnar til þess mundu kosta 9—10 þúsund krónur. Þá taldi hann nauðsynlegt, að félagið byggði hús yfir starfsemi sína. Það yrði að byggja úr steini, og verð þess yrði minnst kr. 3.000,00. Þar að auki myndu verkfæri og smíðaefni til að byrja með ekki kosta undir kr. 3.000,00. Stofnkostnaður fyrirtækisins yrði því tæpast minni en kr. 16.000,00 samtals.
Þá taldi Jóhann Hansson eðlilegast, að á fundi þessum yrði kosin stjórn félagsins, sem svo semdi við hann um ýmsar framkvæmdir, svo sem kaup á vélum og efni. Að öðru leyti taldi hann heppilegast, að fyrirtæki þetta yrði sem allra mest óháð og sjálfstæðast í öllum greinum.
Orð og tillögur J.H. fengu góðan byr á fundinum. Gengið var til stjórnarkjörs. Í þessa fyrstu (og síðustu) stjórn félagsins voru kosnir:

Gunnar Ólafsson, kaupm.....41 atkv.
Þorsteinn Jónsson, Laufási 30 —
Ágúst Gíslason, Landlyst .. 19 —
Árni Filippusson, Ásgarði . 17 —
Jón Einarsson, Gjábakka ... 12 —

Jafnframt því að semja við Jóhann Hansson um hinar nauðsynlegustu framkvæmdir í upphafi starfrækslunnar, skyldi stjórnin semja lög fyrir félagið og útvega fjármagn til byggingarinnar og vélakaupa umfram það, sem hlutaféð hrykki til.
Á stofnfundinum kom Halldór héraðslæknir Gunnlaugsson með markverða tillögu. Hann lagði það til, að félagið kæmi á stofn verknámsskóla, sem veitti ungum mönnum tilsögn í öllu því, sem lyti að vélgæzlu. Skyldi skólinn starfræktur í sambandi við vélaverkstæði þessa nýja smiðjufélags.
Tillaga þessi var „söltuð“, — skyldi bíða seinni tíma.
Daginn eftir stofnfundinn hélt hin nýkjörna stjórn „Mótorverksmiðjufélagsins“ fund með sér heima í Vík hjá Gunnari Ólafssyni. Þann fund sátu einnig Matthías Finnbogason og Jóhann Hansson. Á fundi þessum var farið þess á flot við Matthías, að hann gæfi „verksmiðjunni“ kost á að kaupa verkfærin hans að Jaðri. Matthías kvað sig fúsan að selja. Kvað hann samkvæmt lauslegri áætlun, að söluverð véla hans og verkfæra mundi verða um kr. 4.000,00. Jafnframt var Matthías spurður þess, hvort hann væri fús til að vinna á verkstæði „verksmiðjunnar“, og taldi hann sig fúsan til þess, og mundi hann gera sig ánægðan með 45 aura fyrir hverja unna klukkustund á venjulegum vinnutíma. Ráðningin skyldi vera til eins árs.
Á fundi þessum var stærð hins væntanlega „verksmiðjuhúss“ afráðin. Skyldi það vera 24 álnir (15,12 m) á lengd og 12 álnir (7,55 m) á breidd, — vegghæð 5 álnir (3,15 m) og port 1 1/2 alin (95 sm). Risið skyldi vera fremur lágt. Stærð hússins var afráðin samkvæmt tillögu Jóhanns Hanssonar, og lofaðist hann til að láta gera teikningu af byggingunni og senda stjórninni lista yfir vélar þær og verkfæri, sem nauðsynlegt var að festa kaup á þá þegar.
Þetta gerði hann fljótt og vel.
Jóhann Hansson áskildi sér kr. 1.200,00 í laun yfir árið fyrir það að kaupa inn vélar og verkfæri handa verkstæði félagsins og sjá um uppsetningu á vélunum. Auk þess hét hann því að vinna á verkstæði Smiðjufélagsins ekki skemur en 3 mánuði á vertíð næsta vetrar (1913) eftir því sem tíminn henti honum. Öll voru þessi ákvæði gjörð með fyllsta samkomulagi beggja aðila.
Að lokum var Jóhanni „montör“ Hanssyni falið á þessum fundi stjórnarinnar að ráða starfsmann til smiðjunnar og forstöðumann, þegar hann sjálfur hefði ekki verkstjórnina á hendi.
Hinn 15. marz 1912 boðaði stjórn „Verksmiðjufélagsins“, eins og það var kallað fyrst í stað, til fundar með félagsmönnum í þinghúsi sveitarinnar. Þar fullyrti formaður félagsins, Gunnar Ólafsson, konsúll, að eitthvað þyrfti að fara að huga til að koma upp hinni fyrirhuguðu byggingu „verksmiðjunnar“ og „hugsa fyrir kaupum á vélum“, eins og það er orðað í gildri heimild. Formaður gat þess í ræðu, að líkindi væru til, að Fiskiveiðasjóður Íslands lánaði eitthvert fé til fyrirtækisins, því að mikið fé skorti enn til þess að standa straum af öllum stofnkostnaði félagsins. Jafnframt gat formaður þess að greitt hlutafé næmi kr. 6.000,00.
Á félagsfundi þessum var borið upp til samþykktar frumvarp í 20 greinum til laga fyrir félagið. Voru greinarnar allar samþykktar með samhljóða atkvæðum.
Með lögunum hlaut félagið nafnið „Smiðjufélag Vestmannaeyja“.
Því næst var félaginu kosin stjórn samkvæmt lögum þess. Þessir menn hlutu kosningu:

Gunnar Ólafsson ........... 21 atkv..
Þorsteinn Jónsson ..........20 —
Ágúst Gíslason .............. 11 —
Jón Einarsson, Gjábakka .20 —
Árni Filippusson ..............20 —

Varamenn í stjórn Smiðjufélagsins voru kosnir þeir Halldór Gunnlaugsson, héraðslæknir, og Sveinn P. Scheving, útgerðarmaður og bóndi á Steinsstöðum.
Daginn eftir fund þennan skrifaði stjórn Smiðjufélagsins stjórnarráði Íslands og beiddist láns, kr. 10 þúsund úr Fiskveiðasjóði til handa félaginu.
Svo liðu 4 mánuðir. Þá boðaði stjórn Smiðjufélagsins til almenns fundar í félaginu. Á fundi þessum lýsti formaður félagsins, Gunnar Ólafsson, yfir því, að stjórn félagsins hefði þann dag borizt símskeyti frá stjórnarráði Íslands svohljóðandi: „Gegn áreiðanlegri tryggingu veitist yður allt að 10 þúsund króna lán úr Fiskveiðasjóði til mótorsmiðju.“ Þannig hljóðaði þetta svar, sem stjórnarráðinu þóknaðist að senda eftir 4 mánuði. Ekkert lá á! Það var þó bót í máli, að svarið var jákvætt, þá loksins það barst stjórninni.
Þá las fundarstjórinn, Þorsteinn Jónsson, upp skrá yfir þá menn, sem heitið höfðu fé (hlutafé) fyrirtækinu næstliðinn vetur, og nam upphæðin samtals kr. 5.675,00. Þetta þótti of lítið fé frá útgerðarmönnum. Var því stjórninni falið að hlutast til um, að meira fé fengist til þess að byggja upp félagið og reka það, og stjórninni falið jafnframt að „innheimta hin lofuðu tillög“.
Næsti almenni fundur Smiðjufélags Vestmannaeyja var haldinn 15. nóv. 1912. Þá hafði félagið látið byggja smiðjuhúsið, verkstæðið, og festa kaup á vélum og verkfærum.
Á fundi þessum var neðanskráð tillaga borin upp og samþykkt í einu hljóði:
„Fundurinn veitir formanni Smiðjufélags Vestmannaeyja, Gunnari Ólafssyni, kaupmanni í Vestmannaeyjum, fullt og ótakmarkað umboð til þess að taka fyrir félagsins hönd allt að 10 þúsund króna lán úr Fiskveiðasjóði Íslands, og jafnframt umboð til þess að veðsetja eignir félagsins til tryggingar láninu, bæði húseign með tilheyrandi lóð, vélar og önnur verkfæri, svo og aðrar tryggingar, ef krafizt verður. Nær umboðið til þess að undirrita skuldabréf fyrir láninu og til alls annars, er að lántöku þessari lýtur. Heimilt er nefndum umboðsmanni félagsins að fela öðrum manni umboð þetta á hendur, og skal allt, sem gjörir eða lætur gjöra viðvíkjandi þessari lántöku, vera fullkomlega gilt og bindandi fyrir Smiðjufélag Vestmannaeyja.“

II. hluti