„Blik 1965/Söfnin í Eyjum, III. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
m (Verndaði „Blik 1965/Söfnin í Eyjum, III. hluti“ [edit=sysop:move=sysop])
(Enginn munur)

Útgáfa síðunnar 20. apríl 2010 kl. 21:03

Efnisyfirlit 1965



Söfnin í Eyjum

(III. hluti)



B. Ýmsir munir í Byggðarsafninu

Þó að getið hafi verið annars staðar ýmissa muna í Byggðarsafni Vestmannaeyja, óska ég að biðja Blik að geyma sem flestar þær greinargerðir fyrir mig. Ef til vill þekkja engir það betur en við, sem reynt höfum eftir mætti að safna saman gömlum Eyjablöðum, hvað af þeim verður eftir lestur. Blik mun geymast víðast hvar síðari kynslóðum.
Eigi Blik sér framtíð, tel ég sjálfsagt, að þar birtist greinargerðir um sögulega muni í Byggðarsafninu síðari kynslóðum til fræðslu og framhvatar.
Ég vísa til ævisögu séra Brynjólfs Jónssonar, sem birtist í Bliki 1963. Þar er þess getið, að prestur hafi leikið á hljóðfæri á heimili sínu að Ofanleiti. Það hljóðfæri var harmónika og líklega langspil. Sterkan hug hafði prestur á því, að Landakirkja eignaðist orgel, þó að enginn Vestmannaeyingur þá kynni að leika á slíkt hljóðfæri. Ég hef rekizt á bréf frá séra Brynjólfi Jónssyni, sem hann skrifar landsyfirvöldunum. Í bréfi þessu sækir hann um kr. 100,00 úr landssjóði til þess að kaupa orgel í Landakirkju. Þetta var árið 1877. Prestur hafði safnað hjá almenningi í Eyjum kr. 30,00 í þessu skyni. Honum fannst sanngjarnt, að landsjóður greiddi hinn hluta andvirðisins, þar sem kirkjan með öllu og öllu var landssjóðseign. Ekki er mér kunnugt um, hvaða svar prestur fékk, en í blöðum kvað vera frá því greint frá þessum tíma, að Bryde kaupmaður (það mun þá vera N. N. Bryde, sem rak Garðsverzlun til 1879, en þá lézt hann) hafi gefið Landakirkju orgelið.

ctr

Fyrsta orgelið, sem keypt var í Landakirkju (1877)
og jafnframt hið fyrsta í Vestmannaeyjum.

Þá var eftir að „skapa“ organistan. Sigfús, sonur hjónanna á Vilborgarstöðum, Árna hreppsstjóra Einarssonar og Guðfinnu Jónsdóttur Austmanns, var sendur til Reykjavíkur til að læra að leika á hljóðfærið. Ekki hef ég fundið sannanir fyrir því, en ég ímynda mér það þó, að safnféð, kr. 30,00, hafi Sigfús fengið í styrk til námsins.
Þegar hann kom frá náminu í Reykjavík, keypti hann sér stórt orgel og hljóðmikið. Þegar farið var að nota orgelið, sem Bryde gaf, leika á það í Landakirkju, kom í ljós, að það revndist of lítið og veikhljóða. Orgelleikurinn naut sín ekki af þessum sökum. Ekki löngu seinna var afráðið að selja orgelið og leigja heldur orgel Sigfúsar Árnasonar, organista, handa kirkjunni. Sigfús Árnason lék síðan á sitt orgel í Landakirkju um árabil og bar úr býtum í leigu fyrir það kr. 20,00 árlega. Síðan var gjöf Bryde seld. Ekki veit ég, hvenær það var flutt burt úr Vestmannaeyjum, en við í Byggðarsafnsnefnd fundum það hjá konu einni suður á Grímsstaðaholti í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Konan var þá sextug og hafði átt það í 48 ár, eða fengið það að gjöf frá föður sínum, er hún var 12 ára. Segja má með sanni, að orgelið kostaði okkur töluverða upphæð. En okkur fannst Eyjafólki sómi að því að eiga hljóðfærið í Byggðarsafni Vestmannaeyja og þess vegna keyptum við það.

ctr

Í neðra horninu til vinstri sést á myndastyttu af konu. Stytta þessi var á framstafni undir bugspjóti á franskri skútu, sem strandaði hér við Eyjar á síðustu öld. Styttan var tákn þess verndardýrlings, er halda skyldi verndarhendi yfir skipi og skipshöfn að katólskum hugsunarhætti. Stytta þessi var lengi geymd í Jómsborg, út við glugga þar, og hrelldi myrkfælna, er skyggja tók. Waagfjörðsfjölskyldan hér gaf Safninu styttuna.
Næst er röð af reizlum af mismunandi gerðum úr járni og eir eða kopar. Koparreizlurnar smíðaði völundurinn á Kirkjubæ, Magnús bóndi Eyjólfsson. Sumar járnreizlurnar eru af erlendri gerð.
Þá er tvöföld röð af tóbaksjárnum, sumum haglega gerðum, öðrum miður.

Í nefið skera nú er mál,
nota járn og tóbaksfjöl;
tóbaksleysi er tóbakssál
takmarkalaus sálarkvöl.

Yngri kynslóðinni til fræðslu er rétt að geta þess, að til skamms tíma áttu Íslendingar ekki þess kost að kaupa sér skorið neftóbak frá Tóbakseinkasölu ríkisins, því að hún var þá ekki til. Neftóbaksmenn keyptu rjólið, — eins og óskorna (ósaxaða) neftóbakið heitir í bitum eða lengjum og skáru það sjálfir á þar til gerðri fjöl úr harðviði, oftast eik. Tvær fjalir sjást á myndinni neðan við járnin. Önnur þeirra er merkt V.J. 1913. Hver hefur hana átt? Sumir eldri menn höfðu atvinnu af því að skera neftóbak og selja, t.d. Halldór Brynjólfsson, Guðmundur Guðmundsson í Hrísnesi (Skólavegur) og Jón sladdi, sem bjó við eða í bræðsluskúrum Tangaverzlunarinnar, neðan Strandvegar, gegnt Geithálsi.
Þegar neftóbakið hafði verið skorið, var það látið í eltan hrútspung og hann svo þæfður eða á honum hnuðlað. Tóbakspungar eru líka til sýnis á safninu okkar.
Þá kem ég að nafnspjöldunum. Þau eru af bátum, sem flestir áttu sér markverða sögu.
Röðin til vinstri að ofan:

1.—3. Dagmar, 1903, Vestmannaeyjar. Þessi spjöld eru sérlega haglega skorin af Jóni bónda Péturssyni í Þórlaugargerði. Dagmar hét vetrarvertíðarskip, sem Jón bóndi var formaður á. (Sjá Blik 1961, bls. 197).
4. Friðþjófur. Nafnspjaldið er af vorróðrabát, sem Friðrik Svipmundsson, útvegsmaður og skipstjóri á Löndum, átti fyrir og um síðustu aldamót. Síðar bar vélbátur hans sama nafn. Engilbert Gíslason, málarameistari, skar út þetta nafnspjald um aldamótin. Nokkru síðar hvarf hann til Kaupmannahafnar til þess að nema málaraiðn. Þá tók hann spjaldið með sér að ósk Friðriks og lét leggja stafina gulli í Höfn. Þannig eru þeir enn.
5. Björg. Svo hét sexæringur áttróinn, sem Ingimundur Jónsson bóndi á Gjábakka átti og var formaður á um árabil. Synir hans, Jón í Mandal og Kristján í Klöpp, erfðu Björgu, og varð Kristján formaður á bátnum. Kristján Ingimundarson var að koma að úr fyrsta útdráttarróðri sínum í löngu formannsstarfi, er hann og skipshöfn hans bjargaði fimm mönnum af sexæringnum Hannibali, er honum hlekktist á, honum hvolfdi, á Leiðinni 9. febr. 1895. Tveir menn drukknuðu. Annar þeirra var Lárus hreppstjóri Jónsson á Búastöðum.
6. Bergþóra var áraskip, sem Ágúst Gíslason í Valhöll var formaður á. Einnig var hér vélbátur, sem hét þessu nafni. Hann fórst 1908.
7. Austri var vélbátur Helga Guðmundssonar í Dalbæ.
8. og 9. Georg og 1903, var vorbátur, sem við annars biðjum lesendur þessara mola að veita okkur fræðslu um.
10. Nafnspjaldið „JÓHANN“ er þannig til komið, að Guðmundur Þórðarson á Akri, faðir Lárusar rafvirkjameistara, og Sigurður Sigurðsson í Frydendal áttu saman vorbát. Hann skyldi heita Jóhann eftir syni þeirra Sigurðar og frú Sigríðar Árnadóttur í Frydendal. Nafnspjaldið var víst aldrei sett á bátinn. Er það þess vegna ólitað.

Röðin til hægri að ofan:
1. Fortúna. Svo hét áttæringur Sigurðar Ólafssonar formanns frá Kirkjulandshjáleigu í Landeyjum, síðar búsettur um tugi ára í Bólstað (Heimagata 18) hér í bæ, maður Auðbjargar Jónsdóttur, Nýjabæjarbraut 1, og faðir Óskars Sigurðssonar, endurskoðanda og þeirra systkina. Sigurður Ólafsson var nafnkunnur formaður og aflamaður á áttæring þessum um 30 vertíðir frá Landeyjasandi og Eyjafjallavörum.
Árið 1906 gerði Sigurður Fortúnu út á línuvertíð hér í Eyjum. Þá hafði hann með sér á skipinu marga hagyrðinga, svo að fauk í kviðlingum á sjónum og gamanvísur stikluðu um þóftur frá einum hásetanum til annars. Þá vertíð kölluðu ýmsir Fortúnu skáldaskipið. (Sjá annars Blik 1959, bls. 152).
2. Svanur var eitt af hinum frægu opnu vertíðarskipum hér fram um aldamótin síðustu.
Eins og nafnspjaldið ber með sér, var Svanur byggður 1868. Hann mun hafa verið smíðaður hér í Eyjum. Eigendur voru þeir Guðmundur Erlendsson í London, er lengi var formaður á skipi þessu, Jón Vigfússon, bóndi í Túni, faðir Guðjóns á Oddsstöðum og þeirra systkina, og Lárus hreppstjóri Jónsson á Búastöðum. (Sjá fangamörk eigendanna á spjaldinu).
Um skeið var Jón í Túni formaður á Svan.
Erlendur var fyrri maður Unu Guðmundsdóttur, ömmu þeirra Londonarsystkina og systkinanna frá Steinum, allt vel þekkt fólk hér í bæ.
3. og 4. Nafnspjaldið „Frí“ ásamt staðarnafninu er af v/b Frí, sem keyptur var frá Danmörku 1907.
Báturinn var borðhækkaður og voru þá nafnspjöldin tekin af honum. Bátur þessi fórst með allri áhöfn 3. marz 1918, og hafði dregizt úr hömlu að setja nafnspjöldin aftur á bátinn.
5. Svalan var vélbátur, sem þeir áttu bræðurnir Sighvatur og Jónas Bjarnasynir, kunnir athafnamenn hér í bæ. Þeir keyptu bát þennan frá Færeyjum 1925. Hann var 16 smálestir. Fórst við Akranes nokkrum árum síðar, en mannbjörg varð. Nafnspjaldið var aldrei sett á bátinn.
6. Björgvin var nafn á tómthúsi við Sjómannasundið vestanvert. Það var byggt 1899. Var rifið til grunna 1. október 1958. (Sjá grein um tómthúsið Björgvin í Bliki 1959, bls. 148 152).
Fyrir ofan nafnspjöldin hanga þessir hlutir:
Sjóskór úr útlendu vatnsleðri með hrosshársþveng eins og venja var. Sjóskóinn átti Gottskálk Hreiðarsson í Hraungerði.
Handfæri með teinlausri sökku úr blýi og með öngli, sem smíðaður er hér í Eyjum.
Þá sjást nokkrar ífærur. Efsta og stærsta ífæran er hákarlaífæra af austfirzkri gerð. Hinar þrjár minni ífærurnar munu fyrst og fremst hafa verið notaðar við lúðuveiðar. Ífærur voru notaðar til að innbyrða stóra drætti, svo sem hákarla, lúður, hámerar o.s.frv.
Fyrir ofan tóbaksjárnin sjást greflar, lundaveiðitæki þau, er notuð voru hér áður en háfurinn kom til sögunnar (1875).
Einnig sést á enda svartfuglasnöru. Greflana og snöruna hefur Ólafur Ástgeirsson frá Litlabæ smíðað handa safninu. Ofan við nafnspjaldið af Fortúnu, er ræði af sexæringi — járnþollur að aftan, hvalbeinsálag og svo tréþollur að framan.

ctr

FISKGARÐARNIR

Fiskigarðar, eins og þeir litu út og voru notaðir í Vestmannaeyjum frá því á miðöldum og fram á síðustu öld. Fiskbyrgið á miðri mynd og kasar-reiturinn bak við það (Kristinn Ástgeirsson gerði líkanið).

Þetta líkan er af fiskigörðum, eins og þeir voru hér í Vestmannaeyjum um aldir. Kristinn Ástgeirsson hefur gert líkanið og Byggðarsafnið keypt af honum.
Við höfum margar heimildir fyrir því, að frá því í fornöld var skreið dagleg fæða á Íslandi og stundum etin í öll mál. Einnig varð hún snemma á öldum dýrmæt útflutningsvara.
Hér í Vestmannaeyjum var nokkur sérstæða til að herða fisk sökum hins raka sjávarlofts og tíðu hafvinda með úrkomu.
Eyjaskeggjar fundu snemma ráð til að draga úr þeim agnúum, sem hin rakafulla veðrátta hér hafði í för með sér til herzlu á fiski, svo að bærilegur yrði til átu og útflutnings. Þeir fundu upp sérstaka tilhögun um gerð fiskigarða og svo að hlaða fiskbyrgi á bjargsyllum, þar sem skýlt reyndist fyrir austanregninu t.d. Þá urðu til fiskbyrgin í Fiskhellum.
Hverri jörð á Heimaey fylgdu fiskigarðar svonefndir. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir saman) átti fiskigarð. Var hann þannig gerður, að afmarkaður reitur var varinn ferhyrndum steingarði eða torfgarði. Inni í ferhyrningnum voru lágir fiskreitir, sem þægilegt var að breiða fiskinn á frá báðum hliðum án þess að stíga upp á sjálfan reitinn.
Inni í grjótgerðinu (eða torfgerðinu) var einnig ferhyrningslagaður reitur, lagður úr hraungrýti. (Bak við fiskbyrgið á myndinni). Hann var notaður til þess að kasa fiskinn á, áður en hann var breiddur til herzlu. Þetta var norsk aðferð við fiskherzlu og þótti bæta bragð harðfisksins og mýkja hann og gera hann þannig eftirsóknarverðari útflutningsvöru.
Inni í hinu hlaðna gerði stóð einnig grjótbyrgi, sem nefnd var kró. Það var hlaðið úr hraungrýti upp í topp með opi efst. Því var hægt að loka með einum steini eða hellu.
Í byrginu geymdist skreiðin vel til heimilisnotkunar og harðnaði með því að í gegnum byrgið blés án þess að fiskurinn rigndi í votviðratíð.
Því stærri og betri, sem fiskigarðarnir voru er fylgdu bújörðinni, því hærra verði gat konungsvaldið leigt jörðina. Svo verðmætir þóttu stórir og góðir fiskigarðar.
Í sögu Vestmannaeyja segir höfundurinn, Sigfús M. Johnsen, um fiskigarðanna:
„Tóku garðarnir yfir mikið svæði vestan frá , Brimhólum innri og niður frá Agðahrauni og vestur undir Stakkagerði og sumstaðar niður undir Sand. Til skamms tíma sáust leifar yngri fiskgarðanna, greinilegast vestur af Stakkagerði og víða annars staðar, en fiskigarðarnir voru í notkun hér almennt fram um miðja næstliðna öld.
Elztu fiskigarðarnir lágu vestur undir Há og nær niður undir Skildingafjöru.
Upp í garðana var fiskurinn fluttur á hestum, nema á þá, sem næst lágu sjónum.
Yfir dyrunum á fiskbyrgjunum voru rifbein úr hval (hvíta strikið yfir dyrunum á byrginu, sjá myndina) og svo hurð á lömum fyrir.

Skotvopn

Riffilinn lengst til vinstri átti Jónatan, hafði eignazt hann fyrir Stórhöfða. Ekki vitum við, hve gamall hann er, en víst er um það, að Jónatan hafði eignazt hann fyrir aldamót. Hann átti rifilinn t.d., þegar Einar Sigurfinnsson, hinn góðkunni borgari hér á níræðis aldri, var snúningadrengur hjá Jónatan austur í Mýrdal.
Til hægri við riffilinn hangir tvíhleypa sú, er Stefán Gíslason á Sigríðarstöðum átti og notaði um margra ára skeið. Stefán var mjög slyngur veiðimaður með byssu sína, svo sem munað er með elztu kynslóðinni hér.
Þá er þriðja skotvopnið á myndinni. Það er framhlaðningur sá, er Bjarni bóndi Ólafsson í Svaðkoti átti. (Sjá greinina, Hjónin í Svaðkoti í Blik 1961).
Bjarni bóndi var í 1. deild í 4. flokki Herfylkingar Vestmannaeyja, þar sem Árni hreppstjóri Einarsson var flokksforingi.
Árið 1856 sendi Danakonungur Herfylkingunni 30 byssur úr vopnabúri sínu að beiðni stofnanda Herfylkingarinnar, Kaptein Kohl sýslumanns. Þessi byssa skal vera ein af þeim og á sér því merka sögu. Ef til vill ein af hinum 25 er síðar voru sendar.
Byssuna lengst til hægri átti Árni tómthúsmaður á Grund, við Kirkjuveg, faðir Árna heitins símritara.
Árni á Grund var mikill veiðimaður bæði með byssu og háf.
Litla byssan er úr dánarbúi Einars Magnússonar í Hvammi. Sumir halda að hann hafi ætlað henni það hlutverk að skjóta með henni línu í land við suðurströndina, þegar nota skyldi brimfleytuna, sem Einar járnsmiður smíðaði af miklu hugviti og átti að notast til að flytja vörur milli báts og lands gegnum brimgarðinn.
Til hægri við rifilinn hangir haglahylki, sem er haglega gerður smíðisgripur, er fylgdi framhlaðningnum frá Svaðkoti. Vera má, að Bjarni bóndi Ólafsson hafi sjálfur smíðað hann. Hann var hagleiksmaður mikill.
Til vinstri við framhlaðninginn hangir töng. Hún er kúlumót. Í mótið í „kjafti“ tangarinnar skal renna blýi, sem svo verður kúla í framhlaðninginn.
Til vinstri við byssu Árna á Grund hangir haglapungur.
Allar myndirnar af munum á Byggðarsafninu tók Óskar Björgvinsson, ljósmyndari.


Safnhús í Eyjum

Allir Eyjabúar eru nú á einu máli um það, að bæjarfélaginu sé mikil nauðsyn á að eignast safnhúsbyggingu, sem öðrum þræði geti fullnægt þörfum Eyjabúa um fullkomin afnot hins myndarlega bókasafns þeirra og svo náttúru- og byggðarsafns að öðru leyti. Þetta byggingarmál er meira en metnaðarmál bæjarbúa, það er menningarleg nauðsyn, sem mundi festa fólk hér í bænum og auka aðstreymi fólks að bænum. Þetta er sálfræðilegt atriði. Það er ekki einungis fjárhagsvonin, sem áhrif hefur á búsetu fólks í landinu. Það verðum við öll að skilja, ef við viljum vöxt þessa bæjarfélags og viðgang.

Til baka