„Blik 1976/Kunnir ættliðir í Eyjum og fleira Eyjafólk“: Munur á milli breytinga
Ekkert breytingarágrip |
Ekkert breytingarágrip |
||
Lína 2: | Lína 2: | ||
==ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON== | |||
==[[Þorsteinn Þ. Víglundsson|ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON]]== | |||
Lína 9: | Lína 12: | ||
''[[Mynd:blik1976_aettliðir_bls125.jpg|thumb|250px|Hjónin frú Helga Guðmundsdóttir og og Gísli Gíslason Bjarnasen „snikkari“, með börn sín. Þau eru þessi frá vinstri: Halldóra, Jórunn og Jón („Jón frá Ármótum“).]]'' | ''[[Mynd:blik1976_aettliðir_bls125.jpg|thumb|250px|Hjónin frú Helga Guðmundsdóttir og og Gísli Gíslason Bjarnasen „snikkari“, með börn sín. Þau eru þessi frá vinstri: Halldóra, Jórunn og Jón („Jón frá Ármótum“).]]'' | ||
==Kunnir ættliðir í Eyjum og fleira Eyjafólk== | |||
Ég hef jafnan sjálfur haft mesta ánægju af því að miðla Eyjabúum nokkurri fræðslu um merka einstaklinga, sem hér hafa lifað og starfað í byggðarlaginu og drýgt dáðir, ofið þátt sinn í sögu byggðarinnar á umliðnum áratugum. Það er von mín og trú, að fræðslumolar þeir megi og megni að vekja einhvern hluta uppvaxandi kynslóðar hér á hverjum tíma til forvitni um liðna tíð, glæða sögulegan áhuga og hvetja til framtaks og manndómsverka.<br> | Ég hef jafnan sjálfur haft mesta ánægju af því að miðla Eyjabúum nokkurri fræðslu um merka einstaklinga, sem hér hafa lifað og starfað í byggðarlaginu og drýgt dáðir, ofið þátt sinn í sögu byggðarinnar á umliðnum áratugum. Það er von mín og trú, að fræðslumolar þeir megi og megni að vekja einhvern hluta uppvaxandi kynslóðar hér á hverjum tíma til forvitni um liðna tíð, glæða sögulegan áhuga og hvetja til framtaks og manndómsverka.<br> | ||
Lína 17: | Lína 20: | ||
'''Jóhann Bjarnasen verzlunarstjóri''',<br> | '''Jóhann Bjarnasen verzlunarstjóri''',<br> | ||
'''„assistent í Kornhól“''' | '''„assistent í Kornhól“'''<br> | ||
Með þessum orðum var maður sá stundum einkenndur á dögum þeim, er danskt mál var áhrifaríkt í Vestmannaeyjabyggð og vald hins danska einokunarkaupmanns alls ráðandi í útveri því.<br> | Með þessum orðum var maður sá stundum einkenndur á dögum þeim, er danskt mál var áhrifaríkt í Vestmannaeyjabyggð og vald hins danska einokunarkaupmanns alls ráðandi í útveri því.<br> | ||
[[Jóhann Bjarnasen]] (Bjarnason) var fæddur að Vatnsleysu í Viðvíkurhreppi í Skagafirði árið 1810.<br> | [[Jóhann Bjarnasen]] (Bjarnason) var fæddur að Vatnsleysu í Viðvíkurhreppi í Skagafirði árið 1810.<br> | ||
Lína 41: | Lína 43: | ||
<center>II</center> | <center>II</center> | ||
'''Sigurður Gísli Gunnar Jóhannsson Bjarnasen''' | '''Sigurður Gísli Gunnar Jóhannsson Bjarnasen'''<br> | ||
[[N. N. Bryde|Niels Nikolai Bryde]] gerðist einokunarkaupmaður í Vestmannaeyjum árið 1844. Þá hafði hann fest kaup á [[Garðurinn|Danska-Garði]] í [[Kauptúnið|kauptúninu]] og einokunaraðstöðunni þar. Hjá honum var [[Jóhann Bjarnasen]] sem sé verzlunarstjóri, þegar hann féll frá. Þeir voru gamlir og góðir vinir og samstarfsmenn við verzlunarstörfin norður í Skagafirði, þar sem [[N. N. Bryde]] hafði dvalizt um árabil og unnið beykisstörf.<br> | [[N. N. Bryde|Niels Nikolai Bryde]] gerðist einokunarkaupmaður í Vestmannaeyjum árið 1844. Þá hafði hann fest kaup á [[Garðurinn|Danska-Garði]] í [[Kauptúnið|kauptúninu]] og einokunaraðstöðunni þar. Hjá honum var [[Jóhann Bjarnasen]] sem sé verzlunarstjóri, þegar hann féll frá. Þeir voru gamlir og góðir vinir og samstarfsmenn við verzlunarstörfin norður í Skagafirði, þar sem [[N. N. Bryde]] hafði dvalizt um árabil og unnið beykisstörf.<br> | ||
[[N. N. Bryde]] kaupmanni fannst honum bera siðferðileg skylda til að hjálpa hinum munaðarlausu börnum þeirra hjóna við fráfall beggja foreldranna. Hann bauðst til að kosta uppeldi þeirra að meira eða minna leyti og að öllu leyti framfærslu [[Sigurður Gísli Gunnar Jóhannsson Bjarnasen|Sigurðar Gísla Gunnars]], sem var 9 ára, þegar hann missti föður sinn. | [[N. N. Bryde]] kaupmanni fannst honum bera siðferðileg skylda til að hjálpa hinum munaðarlausu börnum þeirra hjóna við fráfall beggja foreldranna. Hann bauðst til að kosta uppeldi þeirra að meira eða minna leyti og að öllu leyti framfærslu [[Sigurður Gísli Gunnar Jóhannsson Bjarnasen|Sigurðar Gísla Gunnars]], sem var 9 ára, þegar hann missti föður sinn. | ||
Lína 75: | Lína 76: | ||
<center>III</center> | <center>III</center> | ||
'''Níels Christian Benedikt Bjarnasen''' | '''Níels Christian Benedikt Bjarnasen'''<br> | ||
Fyrir nokkrum árum barst Byggðarsafni Vestmannaeyja bókaböggull frá Danmörku. Sendandi bókanna og gefandi var [[Niels Ch. B. Bjarnasen]], fæddur Vestmannaeyingur. | Fyrir nokkrum árum barst Byggðarsafni Vestmannaeyja bókaböggull frá Danmörku. Sendandi bókanna og gefandi var [[Niels Ch. B. Bjarnasen]], fæddur Vestmannaeyingur. | ||
Hann hafði dvalizt erlendis frá hlautu barnsbeini og fylgdi barnaprófsvottorð hans gjöfinni. Það sannar okkur, að hann hefur lokið fullnaðarprófi barnafræðslu í Hindegades Friskole hinn 4. júlí 1894 og hlotið ágætiseinkunn í öllum kennslugreinum.<br> | Hann hafði dvalizt erlendis frá hlautu barnsbeini og fylgdi barnaprófsvottorð hans gjöfinni. Það sannar okkur, að hann hefur lokið fullnaðarprófi barnafræðslu í Hindegades Friskole hinn 4. júlí 1894 og hlotið ágætiseinkunn í öllum kennslugreinum.<br> | ||
Lína 95: | Lína 95: | ||
'''Gísli Gíslason Bjarnasen og eigin-''' | '''Gísli Gíslason Bjarnasen og eigin-''' | ||
'''konan Helga Guðmundsdóttir''' | '''konan Helga Guðmundsdóttir'''<br> | ||
Haustið 1857 dvaldist í Vestmannaeyjum stúlka nokkur frá Hallgeirsey í Landeyjum. Hún hét Halla Sigurðardóttir. | Haustið 1857 dvaldist í Vestmannaeyjum stúlka nokkur frá Hallgeirsey í Landeyjum. Hún hét Halla Sigurðardóttir. | ||
Þetta haust var S. Gísli G. J. Bjarnason starfandi búðar eða verzlunarþjónn við verzlunina Júlíushaab eða Tangaverzlunina, eins og hún vai nefnd öðru nafni. Í október var efnt til ralls í Eyjum, eins og dansleikir voru þá oft nefndir þar. Þeir fóru þá oftast fram í heimahúsum hjá þeim, sem töldust búa við töluvert húsrými. Stundum voru dansleikir þessir haldnir í fiskhúsum, t. d. á haustin, þegar þau höfðu verið tæmd og fiskurinn allur fluttur út með verzlunarskipum einokunarkaupmannsins. Þannig var það, t. d. um Kumbalda, saltgeymslu og fisk | Þetta haust var S. Gísli G. J. Bjarnason starfandi búðar eða verzlunarþjónn við verzlunina Júlíushaab eða Tangaverzlunina, eins og hún vai nefnd öðru nafni. Í október var efnt til ralls í Eyjum, eins og dansleikir voru þá oft nefndir þar. Þeir fóru þá oftast fram í heimahúsum hjá þeim, sem töldust búa við töluvert húsrými. Stundum voru dansleikir þessir haldnir í fiskhúsum, t. d. á haustin, þegar þau höfðu verið tæmd og fiskurinn allur fluttur út með verzlunarskipum einokunarkaupmannsins. Þannig var það, t. d. um Kumbalda, saltgeymslu og fisk | ||
Lína 142: | Lína 141: | ||
<br><center>V</center> | <br><center>V</center> | ||
'''Jón Gíslason, Ármótum''' | '''Jón Gíslason, Ármótum'''<br> | ||
Þegar þau hjónin Helga og Gísli höfðu búið í Vestmannaeyjum tvö ár, fæddist þeim sonur, sem varð aldraður maður og kunnur athafnaog atorkumaður í fæðingarbæ sínum, þó að hann léti jafnan ekki mikið yfir sér eða á sér bera. Það var Jón heitinn Gíslason á Ármótum (nr. 14) við Skólaveg. Af mínum sjónarhóli séð var hann fyrst og fremst liðtækur aðili í félagsmálum útgerðarmanna, áhrifaríkur og skilningsgóður á gildi verzlunarsamtaka þeirra og viðleitni alla til efnalegs sjálfstæðis. Hann vann að þeim málum við Kaupfélagið Fram um árabil af trúmennsku og tryggð við málstaðinn. (Sjá grein í Bliki 1974 um Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, bls. 68). | Þegar þau hjónin Helga og Gísli höfðu búið í Vestmannaeyjum tvö ár, fæddist þeim sonur, sem varð aldraður maður og kunnur athafnaog atorkumaður í fæðingarbæ sínum, þó að hann léti jafnan ekki mikið yfir sér eða á sér bera. Það var Jón heitinn Gíslason á Ármótum (nr. 14) við Skólaveg. Af mínum sjónarhóli séð var hann fyrst og fremst liðtækur aðili í félagsmálum útgerðarmanna, áhrifaríkur og skilningsgóður á gildi verzlunarsamtaka þeirra og viðleitni alla til efnalegs sjálfstæðis. Hann vann að þeim málum við Kaupfélagið Fram um árabil af trúmennsku og tryggð við málstaðinn. (Sjá grein í Bliki 1974 um Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, bls. 68). | ||
Jón Gíslason á Ármótum var f. 4. jan. 1888. Hann lézt árið 1970, 82 ára að aldri. | Jón Gíslason á Ármótum var f. 4. jan. 1888. Hann lézt árið 1970, 82 ára að aldri. |
Útgáfa síðunnar 16. desember 2009 kl. 10:21
ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON
Kunnir ættliðir í Eyjum og fleira Eyjafólk
Ég hef jafnan sjálfur haft mesta ánægju af því að miðla Eyjabúum nokkurri fræðslu um merka einstaklinga, sem hér hafa lifað og starfað í byggðarlaginu og drýgt dáðir, ofið þátt sinn í sögu byggðarinnar á umliðnum áratugum. Það er von mín og trú, að fræðslumolar þeir megi og megni að vekja einhvern hluta uppvaxandi kynslóðar hér á hverjum tíma til forvitni um liðna tíð, glæða sögulegan áhuga og hvetja til framtaks og manndómsverka.
Hér óska ég að fara nokkrum orðum um merka ættliði, sem lifðu og störfuðu í þessu byggðarlagi á sínum tíma og hafa átt hér merka afkomendur og eiga enn.
Jóhann Bjarnasen verzlunarstjóri,
„assistent í Kornhól“
Með þessum orðum var maður sá stundum einkenndur á dögum þeim, er danskt mál var áhrifaríkt í Vestmannaeyjabyggð og vald hins danska einokunarkaupmanns alls ráðandi í útveri því.
Jóhann Bjarnasen (Bjarnason) var fæddur að Vatnsleysu í Viðvíkurhreppi í Skagafirði árið 1810.
Kona Jóhanns Bjarnasen var mad. Sigríður Jónsdóttir verzlunarstjóra Salomonsen í Kúvíkum á Ströndum, en þannig voru þær venjulega titlaðar, verzlunarstjórafrúrnar á tímum einokunarverzlunarinnar. Jón Salomonsen var kunnur maður á sínum tíma þar norðurfrá og þótti þar mikilhæfur verzlunarstjóri á einokunartímunum.
Mad. Sigríður J. Bjarnasen var fædd árið 1816 og var þannig sex árum yngri en eiginmaður hennar, Jóhann Bjarnasen verzlunarstjóri eða „factor“ eins og þeir voru jafnan titlaðir.
Þessi hjón fluttust til Vestmannaeyja árið 1837. Þá hafði Jóhann Bjarnasen verið verzlunarþjónn á Skagaströnd nokkur ár hjá Pétri Duus, verzlunarstjóra þar, síðar kaupmanni í Keflavík.
Nú gerðist Jóhann Bjarnasen brátt verzlunarstjóri í Vestmannaeyjum.
Áður en Jóhann Bjarnasen gerðist verzlunarþjónn hjá Duus þarna á Skagaströndinni, hafði hann verið formaður á hákarlaskipi. Þess vegna titluðu Danir hann „skipper“ fyrst eftir að hann fluttist til Eyja. Það þótti yfirmáta veglegur titill, sem nánast krafðist virðingar og undirgefni.
Hjónin Jóhann Bjarnasen og mad. Sigriður J. Bjarnasen settust að í húsinu Sjólyst í Eyjum (nr. 41 við Strandveg). Þar bjuggu þau fyrstu árin sín í kauptúninu. Síðar fluttust þau í húseign einokunarkaupmannsins austan við Danska-Garð. Það hét Kornhóll eða Kornhólsskans. Það stóð austan við sjálfan Skansinn, virkið nafnkunna.
Mad. Sigríður Jónsdóttir Bjarnasen lézt 13. apríl 1842 frá fjórum ungum börnum þeirra hjóna.
Þau voru þessi:
Pétur Jóhann Benedikt, þá 8 ára að aldri.
Sigurður Gisli Gunnar, 6 ára.
Jóhanna Sigríður Margrét, 3 ára.
Emilía Geirlaug á 1. ári.
Eftir fráfall konu sinnar, mad. Sigríðar, leitaði verzlunarstjórinn ráða hjá sóknarpresti sínum og vini, séra Jóni J. Austmann að Ofanleiti, hvernig hyggilegast yrði fyrir hann að halda saman heimilinu og veita börnunum hollasta og bezta uppeldið. Þau urðu ráðin, að prestsdóttirin á Ofanleiti og heimasætan þar, Guðfinna Jónsdóttir prests Austmanns, gerðist bústýra hjá verzlunarstjóranum. Hún var þá 19 ára að aldri.
Eftir vonum gekk þetta allt vel, því að prestsdóttirin var mesta myndarstúlka, heimilisleg og stjórnsöm. Hún hafði gengið á hússtjórnarskólann á Eyvindarstöðum á Álftanesi hjá Sveinbirni Egilssyni síðar rektor og konu hans, frú Helgu Benediktsdóttur Gröndal.
Þrjú ár liðu. Þá lézt verzlunarstjórinn Jóhann Bjarnasen frá börnunum sínum fjórum. Það var árið 1845.
Sigurður Gísli Gunnar Jóhannsson Bjarnasen
Niels Nikolai Bryde gerðist einokunarkaupmaður í Vestmannaeyjum árið 1844. Þá hafði hann fest kaup á Danska-Garði í kauptúninu og einokunaraðstöðunni þar. Hjá honum var Jóhann Bjarnasen sem sé verzlunarstjóri, þegar hann féll frá. Þeir voru gamlir og góðir vinir og samstarfsmenn við verzlunarstörfin norður í Skagafirði, þar sem N. N. Bryde hafði dvalizt um árabil og unnið beykisstörf.
N. N. Bryde kaupmanni fannst honum bera siðferðileg skylda til að hjálpa hinum munaðarlausu börnum þeirra hjóna við fráfall beggja foreldranna. Hann bauðst til að kosta uppeldi þeirra að meira eða minna leyti og að öllu leyti framfærslu Sigurðar Gísla Gunnars, sem var 9 ára, þegar hann missti föður sinn.
Drengnum var komið í fóstur hjá verzlunarstjórahjónunum við Juliushaabverzlunina, þeim C. L. Möller og konu hans frú Ingibjörgu Möller.
Árið 1851 fermdi séra Jón J. Austmann að Ofanleiti Sigurð Gísla G. J. Bjarnasen. Hann þótti hinn efnilegasti unglingur, sem Bryde batt við miklar vonir um dyggilega þjónustu við verzlunarrekstur sinn í Vestmannaeyjum, þegar hann yxi að árum og getu.
Ekki löngu eftir fermingu gerðist S. Gísli G. J. Bjarnasen verzlunarþjónn við Juliushaabverzlunina, þar sem C. L. Möller, fóstri hans var „factor“ eða verzlunarstjóri. Þá verzlun átti N. N. Bryde einnig, en rak hana með lepp, því að hver einokunarkaupmaður hafði ekki leyfi til að eiga nema eina verzlun á sama verzlunarstaðnum samkvæmt gildandi lögum, en tögl og hagldir vildi hann hafa um verðlag allt og enga samkeppni.
Þegar S. Gísli G. J. Bjarnasen hafði starfað við verzlunina um nokkurt skeið, var hann sendur til Kaupmannahafnar til þess að nema verzlunarfræði.
C. L. Möller verzlunarstjóri andaðist 7. júlí 1861. Þá var sonur N. N. Bryde orðinn þrítugur að aldri og orðinn meðstjórnandi verzlunarreksturs föður síns í Eyjum. Hann hét Johan Peter Thorkelin Bryde. Síðar einvaldur einokunarkaupmaður í Vestmannaeyjum um árabil, eða fram um aldamótin.
Eftir fráfall C. L. Möllers, verzlunarstjóra Juliushaabverzlunar, réðu feðgarnir S. Gísla G. J. Bjarnasen verzlunarstjóra Juliushaabverzlunar. Þá var bróðir hans, Pétur Benedikt J. Bjarnasen, orðinn verzlunarstjóri aðalverzlunarinnar, Garðsverzlunar. Verzlunarstjóra urðu Bryde-arnir að hafa þar einnig, þó að þeir hefðu þar öll ráð í sínum höndum, því að þeir dvöldust ekki í Eyjum að jafnaði nema ungann úr sumri hverju. Annars bjuggu þeir í Kaupmannahöfn.
Pétur Benedikt Bjarnasen, bróðir S. Gísla G. J. Bjarnasen, lézt ungur að árum. Gerðist þá S. Gísli G. J. Bjarnasen verzlunarstjóri við Garðsverzlun um sinn, þar til nýr verzlunarstjóri tók við þeim störfum. Það var Vilhelm Thomsen, danskur maður.
Og árin liðu. - Árið 1873 strauk Vilhelm Thomsen, verzlunarstjóri, til Ameríku frá störfum sínum í Eyjum sökum sjóðþurrðar við Garðsverzlunina. Hann vissi sig við sjóðþurrðina riðinn. Tók þá S. Gísli G. J. Bjarnasen aftur við verzlunarstjórastörfum þar og var nú aftur verzlunarstjóri beggja verzlananna um átta ára skeið. En árið 1881 varð mikil breyting á högum þessa vel gefna og ötula verzlunarstjóra. Áfengisnautnin varð honum og fjölskyldu hans að falli.
Hinn 21. nóv. 1862 gekk S. Gísli G. J. Bjarnasen verzlunarstjóri að eiga eina af heimasætunum í Eystra-Stakkagerði. Hún hét Dorthea Maria og var dóttir hjónanna frú Ásdísar Jónsdóttur Núpshjáleigu í Berufirði og Anders skipstjóra Asmundsen, sem var Norðmaður. Frú Dorthea Maria var fædd 3. júní 1839 að Kornhól í Eyjum, en foreldrar hennar bjuggu þar þá nýflutt í kauptúnið austan frá Djúpavogi. Síðan bjuggu þau í Eystra-Stakkagerði til ársins 1851, en það ár fórst Anders Asmundsen á skútu sinni með allri áhöfn.
S. Gísli G. J. Bjarnasen, verzlunarstjóri, var talinn hæfileikamaður, hæglátur daglega og hugljúfi hvers manns. Þar gætti ekki hins kunna hroka margra „factoranna“ gagnvart snauðum almúganum í byggðarlaginu. Almenningur harmaði þau örlög hans að verða áfengisnautninni að bráð og tortíma þannig gæfu og gengi sjálfs sín og fjölskyldu sinnar. Hann var sviptur verzlunarstjórastöðunni árið 1881.
Þá höfðu hjónin eignazt fimm börn. Auk þess höfðu þau tekið í fóstur og alið upp son C. L. Möllers og konu hans, frú Ingibjargar Möller, þegar C. L. Möller féll frá árið 1862 eða sama árið og þau giftu sig, Gísli og María.
Þannig vildi verzlunarstjórinn launa þeim góðu hjónum það, sem þau höfðu fyrir hann gert og verið honum, eftir að hann missti föður sinn árið 1845, þá níu ára. Eftir stöðumissinn fluttu hjónin úr Danska-Garði og settust að með barnahópinn sinn í kofaræksni, sem stóð skammt vestur af Ottahúsi (áður Beykishúsi (Sig. Breiðfjörð) og síðast Jómsborg. Þarna var löngu síðar mótað torg og kallað Heimatorg. Það var svæðið sunnan og suð-vestan við Nýju rafstöðina í Eyjum, sem fór undir hraun í marzmánuði 1973. Kofaræksni þetta hét Pétursborg og var læknissetur Vestmannaeyja um miðja 19. öldina. Hús þetta fauk í austan stórviðri árið 1896.
Eftir skamma dvöl í Pétursborg fluttu hjónin að Vilborgarstöðum og settust að á einni Vilborgarstaðajörðinni og fengu einhver afnot hennar. En landbúnaður var heimilisföðurnum ekki tamur, svo að þau sáu sitt óvænna um að framfleyta sér og sínum þarna á Vilborgarstöðum.
Vorið 1883 tóku þessi hjón sig upp með barnahópinn sinn og fluttu til Kaupmannahafnar. Eftir það dvöldust þau í Danmörku til dauðadags, og börn þeirra ílentust þar eða annars staðar erlendis.
Börn þeirra voru þessi:
Maria D. A. Bjarnasen.
Jóhann C. A. Bjarnasen, 10 ára.
Rósa J. P. Bjarnasen, 8 ára.
Jóhanna C. A. Bjarnasen, 6 ára.
Niels Ch. B. Bjarnasen, 4 ára í f. 23. febr. 1879).
Pétur Anders Bjarnasen.
Þannig eru börn þeirra hjóna skráð í kirkjubók Landakirkju við burtförina 1883.
Mér hefur verið tjáð, að S. Gísli G. J. Bjarnasen hafi stundað bóksölu í Danmörku, eftir að fjölskyldan settist þar að. Hann lézt 13. marz 1888.
Frú Dorthea Maria Andersdóttir mun hafa lifað ekkja í 28 ár og látizt árið 1916.
Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeti, getur þess í einni bók sinni, að Rósa Bjarnasen hafi starfað nokkur ár símastúlka í Kaupmannahöfn. Síðan hafi hún gifzt skrifstofustjóra Sameinaða gufuskipafélagsins í Höfn. Sami höfundur segir, að Pétur Bjarnasen hafi verið verzlunarstjóri fyrir stóru fyrirtæki i Danmörku. Og síðast getur hann þess, að Niels Bjarnasen, sem hér verður rætt um á eftir, hafi stundað verzlunarstörf í París.
Níels Christian Benedikt Bjarnasen
Fyrir nokkrum árum barst Byggðarsafni Vestmannaeyja bókaböggull frá Danmörku. Sendandi bókanna og gefandi var Niels Ch. B. Bjarnasen, fæddur Vestmannaeyingur.
Hann hafði dvalizt erlendis frá hlautu barnsbeini og fylgdi barnaprófsvottorð hans gjöfinni. Það sannar okkur, að hann hefur lokið fullnaðarprófi barnafræðslu í Hindegades Friskole hinn 4. júlí 1894 og hlotið ágætiseinkunn í öllum kennslugreinum.
Í böggli þessum reyndust vera þessar bækur:
Fyrra bindi af Vídalínspostillu, sem gefið var út 1828, en þá var postillan gefin út í tveim bindum. Það var 11. útgáfa af þessu kunnasta ræðusafni íslenzku þjóðarinnar og húslestrarbók.
Upprunalega hefur bókin verið bundin í skinn. En bókin er illa farin. Fyrstu blaðsíður bókarinnar eru ræksni, sem þyrfti að skrifa upp og endurbæta.
Önnur bókin, sem úr bögglinum kom, er markverð. Þetta er ,,Sú gamla vísnabók“ Guðbrands biskups Þorlákssonar prentuð á Hólum í Hjaltadal árið 1746. Prentarinn var Halldór Eiríksson hinn lærði prentmeistari á biskupssetrinu.
Fróðir menn segja mér, að aðeins sex aðrar Vísnabækur biskupsins séu til i allri veröldinni. Þá er bara töluvert sagt. Byggðarsafn Vestmannaeyja á sem sé sjöundu bókina.
Þriðja bókin í bögglinum voru Passíusálmarnir, 28. útgáfa. sem kom út árið 1855. Þessi bók er fögur svo að af ber. Hún er bundin í gyllt skinnband og sérstaklega vel með farin.
Fjórða bókin í bögglinum var dönsk: Kvindelig Dannelse, en Gave for unge Piger, eftir Therese Huber ved V. Visby, prentuð í Kaupmannahöfn 1840. Þarna voru dönskum stúlkum veittar ráðleggingar um að halda fegurð sinni og auka hana eilítið, ef skaparanum hefði að einhverju leyti verið mislagðar hendur, þegar hann mótaði andlit þeirra og annað útlit! Ég hef lesið ýmislegt i þessari bók mér til nokkurrar ánægju. Sumt hefur vakið kátínu mína og aukið skilning minn á allri þeirri snyrtingu, sem danskar stúlkur og frúr báru utan á sér á Austurlandi á uppvaxtarárum mínum þar.
Og nú veiztu það, lesari minn góður, hver gefandinn var. Hann var, eins og ég hef hér greint þér frá, annað yngsta barn þeirra hjónanna frú Dortheu Maríu Andersdóttur frá Stakkagerði og S. Gísla G. J. Bjarnasen.
Niels Ch. B. Bjarnasen mun hafa gerzt verzlunarmaður eins og faðir hans og verið kaupmaður nokkurn hluta ævinnar.Námsvottorð hans frá Hindegadens Friskole bendir til þess, að hann hafi verið mikill námsmaður, bæði gáfaður og iðinn.
Og bókaböggullinn hans, sem hann sendi til bernskubyggðar sinnar, er hann nálgaðist áttatíu ára aldurinn, gefur ótvírætt í ljós tryggð hans við hana og ættland sitt.
Niels Ch. B. Bjarnasen var föðurbróðir eins okkar kunnasta samborgara á sinni tíð hér í Eyjum, Jóns heitins Gíslasonar að Ármótum við Skólaveg. Sá mæti maður á hér merka afkomendur í bænum og hefur átt um árabil. Ég óska að skrifa og biðja Blik mitt að geyma stutta grein um uppruna hans og ævistarf.
Gísli Gíslason Bjarnasen og eigin-
konan Helga Guðmundsdóttir
Haustið 1857 dvaldist í Vestmannaeyjum stúlka nokkur frá Hallgeirsey í Landeyjum. Hún hét Halla Sigurðardóttir.
Þetta haust var S. Gísli G. J. Bjarnason starfandi búðar eða verzlunarþjónn við verzlunina Júlíushaab eða Tangaverzlunina, eins og hún vai nefnd öðru nafni. Í október var efnt til ralls í Eyjum, eins og dansleikir voru þá oft nefndir þar. Þeir fóru þá oftast fram í heimahúsum hjá þeim, sem töldust búa við töluvert húsrými. Stundum voru dansleikir þessir haldnir í fiskhúsum, t. d. á haustin, þegar þau höfðu verið tæmd og fiskurinn allur fluttur út með verzlunarskipum einokunarkaupmannsins. Þannig var það, t. d. um Kumbalda, saltgeymslu og fisk
geymsluhúsið á Skansinum, sem brann til kaldra kola aðfaranótt 8. janúar 1950. Það var byggt á seinni hluta 19. aldar og varð frægt fyrir það hlutskipti að vera leikhús og rallhús um árabil á haustin, eftir að verzlunarskipin voru farin fullfermd fiski og öðrum afurðum þar í Eyjum. Þannig stuðluðu verzlunarstjórarnir að því eftir mætti, að Eyjabúar gætu á stundum „lyft sér eilítið up“ og elskast „á laun“, sérstaklega þá unga fólkið. Þá voru „kavilerarnir“ flestir undir áhrifum áfengis, sem var selt eftir vild i einokunarverzluninni. Þar stóð tunna á stokkum. Og svo einkenndust „röllin“ af háttum þeirra og hæfni til að dansa og dilla sér og deila ástum við „hið veikara kyn“, sem þá gerði lítið að því að neyta hinna sterku drykkja. Þá mátu þær meira sóma sinn og kvenlegan yndisþokka.
Það getur hafa verið að loknum dansleik í einu af „pakkhúsum“ einokunarkaupmannsins í október 1857, að Halla Sigurðardóttir frá Hallgeirsey í Landeyjum lét „fallerast“, lét undan ásækni verzlunarþjónsins í Julíusarhaabverzlun, Sigurðar Gísla Gunnars Jóhannssonar Bjarnasen, og veitti honum meira en hún sjálf hafði gott af, þar sem hún átti allt á hættu. Enda gerði hann henni barn í þessum ástarleik. Veturinn allan (1857-1858) dvaldist Halla frá Hallgeirsey síðan við störf í verstóðinni, en hvarf heim að vertíð lokinni, enda þá komin langt á leið. Hún ól barnið í júlí um sumarið (1858).
Halla Sigurðardóttir ól sveinharn, sem var skírt nafni föður síns, þó að hann vildi lítið við það kannast. Gísli Gíslason Bjarnasen var nafnið á sveinbarni þessu. Litli drengurinn naut ástar og umhyggju móður sinnar og aðhlynningar hins góða fólks í Hallgeirsey næstu tvö árin. En árið 1860, þá tæpra tveggja ára, var hann fluttur út til Vestmannaeyja. Hafði honum þá verið komið í fóstur hjá bjónunum í Ottahúsi, frú Jórunni Jónsdóttur prests Austmanns og Jóni Salomonsen hafnsögumanni, en hann var sonur Jóns Salomonsen verzlunarstjóra í Kúvíkum á Ströndum og þannig ömmubróðir litla drengsins.
Það var Gísla litla Gíslasyni (Bjarnasen) frá Hallgeirsey mikil gæfa að hljóta fóstur hjá frú Jórunni húsfreyju í Ottahúsi. Svo viðurkennd var kona sú fyrir manngæzku, myndarskap og mennilega hætti. Sjálfri varð henni ekki barna auðið í tveim hjónaböndum. En hún var barngóð með afbrigðum og ól upp fleiri börn en Gísla G. Bjarnasen. Hún fóstraði t. d. Kristínu Árnadóttur, systur Ágústs Árnasonar, kennara í Baldurshaga (nr.. 5A við Vesturveg). K. Á. giftist Jóhanni Jónssyni frá Júní. trésmíðameistara á Brekku (nr. 4) við Faxastíg. Þau voru foreldrar Engilberts trésmíðameistara Jóhannssonar „í Smið“, eins og hann var oft nefndur, og frú Þorsteinu Jóhannsdóttur i Þingholti og þeirra mörgu systkina.
Engilbert Jóhannsson heitir nafni síðari manns frú Jórunnar, Engilberts Engilbertssonar, bróður Gísla verzlunarstjóra föður Engilberts sálaða Gíslasonar málarameistara.
Einnig ól frú Jórunn upp Maríu Tranberg, umkomulitla og fátæka stúlku, sem e. t. v. hefði lent á vonarvöl, ef „gæðakonan góða“ hefði ekki gert á henni miskunnarverkið.
Séra Brynjólfur Jónsson, sóknarprestur að Ofanleiti. fermdi Gísla Gíslason, fóstursoninn í Ottahúsi, vorið 1872. Þá var hann tæpra fjórtán ára að aldri, um haustið 5. nóvember lézt fósturfaðir hans, Jón hafnsögumaður Salomonsen.
Áfram dvöldust þau saman í Ottahúsi, fósturmóðirin og fóstursonurinn, og vann hann henni eftir megni. Helzt hafði hann á hendi ýmsa snúninga við Garðsverzlun, þar sem faðirinn, S. G. G. J. Bj., var þá verzlunarstjóri.
Snemma bar Gísli Gíslason (Bjarnasen) í Ottahúsi gæfu til að meta að verðleikum manngæzku og fórnarlund fósturmóður sinnar og móðurlega umhyggju hennar. Þeir eiginleikar hans og sálarþroski urðu honum sjálfum síðar til hinnar mestu gæfu og heilla og hamingju á lífsleiðinni.
Lítillar fræðslu mun Gísli Gíslason hafa notið í uppvexti sínum umfram það að læra að lesa hjá fóstru sinni og draga til stafs, því að barnaskóli var þá enginn í Vestm.eyjum. Þó er rétt að geta þess hér, að Bjarni E. Magnússon, sýslumaður þeirra Eyjamanna, sá sem stofnaði Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja 1862 og svo bókasafn byggðarinnar sama ár, kenndi þá og síðar börnum og unglingum skrift og reikning heima hjá sér á vetrum, þegar honum vannst tími til þess frá embættisönnum. Ekki er mér um það kunnugt, hvort Gísli Gíslason í Ottahúsi naut kennslu sýslumannsins, en ekki þætti mér það ólíklegt, svo mikill hlýhugur og jafnvel vinátta var jafnan ríkjandi á milli frúnna Jórunnar J. Austmann og Hildar Thorarensen, konu sýslumannsins. En hvort svo hefur verið eða ekki um æskunám Gísla Gíslasonar (Bjarnasen), þá átti hann þó eftir að njóta góðrar kennslu einn vetur, þegar hann var á sextánda árinu. Kennsla þessi barst honum svo að segja upp í fangið haustið 1874, þegar Páll Pálsson, síðar nefndur Jökulfari. (Sjá Blik 1972), fluttist til Eyja til þess að stunda þar kennslu barna og unglinga á eigin spýtur.
Páll kennari fékk einmitt inni með sjálfan sig og kennslustörf sín hjá fósturmóður Gísla Gíslasonar, og naut hann þá kennslu þar með fleiri börnum og unglingum þann vetur í Eyjum, t. d. Gísla Lárussyni frá Búastöðum, sem var sjö árum yngri en Gísli Gíslason. Á efri árum sínum mundi Gísli Lárusson vel samnám þeirra nafnanna hjá Páli kennara Pálssyni veturinn 1874-1875.
Árið 1876 giftist frú Jórunn J. Austmann öðru sinni. Seinni maður hennar var Engilbert Engilbertsson frá Syðri-Mörk undir Eyjafjöllum. albróðir Gísla Engilbertssonar verzlunarstjóra við Júlíushaabverzlunina.
Árið eftir giftingu þeirra frú Jórunnar og Engilberts flytur Gísli Gíslason um set og gerðist þá „búðarloka" hjá föður sínum við Garðsverzlunina, einokunarverzlunina í Danska-Garði „á Kornhólsskansi“.
Ekki undi Gísli lengi búðarstörfunum. Hugur hans leitaði annað og hærra.
Snemma á uppvaxtarárum sínum vakti Gísli Gíslason athygli á sér fyrir meðfædda listfengi á vissum sviðum: Hann var fæddur smiður, sagði fólk. Og hann vildi verða lærður trésmiður.
Þessi vilji hans og þrá leiddi til þess, að hann hvarf úr Eyjum árið 1877, þá 19 ára að aldri, og fluttist til Eyrarbakka. Þar hóf hann smíðanám. En brátt varð útþráin og hugur hans til fullkomnara smíðanáms öllu öðru öflugra.
Hann sigldi til Kaupmannahafnar líklega árið 1878 eða eftir eins árs dvöl á Eyrarbakka. Í Höfn réðst hann til smíðanáms. Hann vildi öðlast dönsk „snikkararéttindi“. Það var hámarkið. Það var titill álits og mikillar virðingar. Jafnframt trésmíðanáminu stundaði Gísli Gíslason Bjarnasen beykisiðn og lærði það handverk til hlítar. Hann lauk námi sínu á tilskyldum tíma og hlaut mikið lof fyrir störf sín þar með Dönum og svo námsafrek.
Frá Kaupmannahöfn leitaði hann svo aftur heim til föðurtúnanna. Þá fékk hann atvinnu við smíðar suður á Reykjanesi, en þar voru þá miklar byggingar víða í framkvæmdum, því að „Suðurnesjamenn“ juku útgerð sína þá ár frá ári svo að sögur tóku að berast um mikil afrek á því sviði og þjóðnytja framtak „berserkjanna“ þar.
Þarna á Reykjanesinu spunnust svo hinir örlagaríkustu þræðir í ævi hans.
Eins og ég drap á, þá voru á síðasta fjórðungi 19. aldarinnar miklir atorkumenn lifið og sálin í atvinnulífinu á Suðurnesjum, mótuðu það og byggðu upp. Allt var undir þeim komið, dugnaði þeirra og kjarki. Skyldum við ekki þekkja þetta bezt í okkar byggðarlagi, Vestmannaevingar?
Sum heimilin á Suðurnesjum urðu brátt landskunn fyrir atorku og framtak, myndarskap og mennilega hætti í atvinnulífinu. Sjómenn af Suðurnesjum leituðu sér atvinnu á Austfjörðum við sjósókn að sumrinu. Þeir státuðu drjúgum af forustumönnum sínum, og fiskisagan flaug.
Eitt af þessum atorku og myndarheimilum var Kotvogsheimilið í Höfnum á Reykjanesi. Sama árið og Gísli fæddist í þennan heim (1858) kvæntist Ketill Ketilsson, óðalsbóndasonurinn í Kotvogi, Vilborgu Eiriksdóttur heimasætu að Litla-Landi í Ölfusi.
Systir frú Vilborgar húsfreyju í Kotvogi var frú Guðrún Eiríksdóttir, kona Guðmundar Halldórssonar sjómanns í Selvogi og síðar á Hvalnesi. Guðmundur Halldórsson drukknaði skammt undan strönd Hvalness 23. maí 1868, þá 36 ára að aldri. Helga hét dóttir þeirra, þá fimm ára, er faðir hennar drukknaði.
Eftir fráfall Guðmundar eiginmanns síns kom Guðrún Eiríksdóttir húsfreyja Helgu dóttur sinni í fóstur til Vilborgar systur sinnar, húsfreyju í Kotvogi. Þar ólst Helga Guðmundsdóttir upp. Hjónin í Kotvogi komu henni til nokkurra mennta og fékk hún að lesa og læra ljósmóðurfræði. þegar hún öðlaðist aldur og þroska til þess.
Heima hjá fóstru sinni og frænku í Kotvogi dvaldist hún síðan, þar til hún trúlofaðist hinum kunna „snikkara“ frá Vestmannaeyjum, Gísla Gíslasyni Bjarnasen og hóf þá brátt hjúskap og búskap með honum. Þau fluttu brátt til Reykjavíkur, þar sem Helga Guðmundsdóttir fékk að stunda ljósmóðurstörf um sinn.
Lengi hafði Gísli þráð að flytjast heim til Eyja, setjast að í fæðingar og æskubyggð sinni og bera gæfu til að leggja þar hönd á plóginn um byggingar og aðrar framkvæmdir. En allt var þar í fjötrum einokunar og ásælni. Þar var þá vissulega ekki að miklu að hverfa. En þráin sú varð öllu öðru yfirsterkari og ekki vildi hin góða eiginkona hans og fórnfúsa verða þess valdandi, að hann nyti ekki starfskrafta sinna ánægður í umhverfi sínu.
Árið 1886 fluttu hjónin til Vestmannaeyja. Þar fengu þau inni í Uppsölum (nr. 51) við Vestmannabraut, gömlu sýslumannsíbúðinni, sem þá var orðið eitthvert aumasta hreysi í byggðarlaginu.
Nokkrum mánuðum áður en þau hjónin fluttust til Eyja, fæddust þeim tvíburar. Þetta voru meybörn. og voru systurnar skírðar Halldóra og Gíslína. Þær fæddust 12. des. 1885.
Alls eignuðust hjónin Gísli og Helga átta börn og létust fimm þeirra á unga aldri.
Árið 1897 andaðist Gísli Gíslason Bjarnasen ,snikkari“ aðeins 39 ára að aldri. Eftir lifði ekkjan, Helga Guðmundsdóttir frá Kotvogi, bláfátæk með þrjú börn á framfæri.
Gísli Engilbertsson verzlunarstjóri við Julíushaabverzlun orti minningarljóð eftir G. G. Bj. eins og svo marga aðra samdvalarmenn sína í Vestmannaeyjum á síðustu öldinni. Þar er þetta erindi:
- Hann bar létta lundu
- lífs um æviskeið;
- glaður hér á grundu
- gekk ráðvandra leið;
- trúr sem ætíð áður var,
- yfir meir er settur þar,
- sem ást til manna aldrei dvín
- og eilíf náðarsólin skín.
- Hann bar létta lundu
Jón Gíslason, Ármótum
Þegar þau hjónin Helga og Gísli höfðu búið í Vestmannaeyjum tvö ár, fæddist þeim sonur, sem varð aldraður maður og kunnur athafnaog atorkumaður í fæðingarbæ sínum, þó að hann léti jafnan ekki mikið yfir sér eða á sér bera. Það var Jón heitinn Gíslason á Ármótum (nr. 14) við Skólaveg. Af mínum sjónarhóli séð var hann fyrst og fremst liðtækur aðili í félagsmálum útgerðarmanna, áhrifaríkur og skilningsgóður á gildi verzlunarsamtaka þeirra og viðleitni alla til efnalegs sjálfstæðis. Hann vann að þeim málum við Kaupfélagið Fram um árabil af trúmennsku og tryggð við málstaðinn. (Sjá grein í Bliki 1974 um Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, bls. 68).
Jón Gíslason á Ármótum var f. 4. jan. 1888. Hann lézt árið 1970, 82 ára að aldri.
VI
Hjónin Helga og Einar
Árið 1902 (5. jan.) giftist Helga Guðmundsdóttir öðru sinni. Seinni maður hennar var Einar Halldórsson bónda á Raufarfelli undir Eyjafjöllum.
Hjónin Einar Halldórsson og Helga Guðmundsdóttir hófu búskap í Hvammi við Kirkjuveg (nr. 41). húsinu, sem síðar varð læknisbústaður í kauptúninu, nú kallaður Langi-Hvammur til aðgreiningar frá hinum þrem, sem bera enn Hvammsnafnið. (Í þessu húsi settust þau að héraðslæknishjónin, Halldór Gunnlaugsson og Anna kona hans árið 1906, er Halldór gerðist héraðslæknir Eyjabúa og sjúkrahússlæknir Frakka, sem þá byggðu sjúkrahús í Eyjum).
Brátt hófu hjónin Einar og Helga að byggja sér íbúðarhús. Þau byggðu húsið Sandprýði í Þykkvabænum vestan Bárustígs (nr. 16 B).
Einar Halldórsson var á sínum tíma kunnur sjómaður og útgerðarmaður í kauptúninu. Hann réri síðast með Sigurði Sigurðssyni formanni og aðaleigenda vélbátsins Íslands V E 118, Sigurði í Frydendal. Þeir áttu bát þennan saman og var Einar háseti hjá Sigurði.
Hinn 10. janúar 1912 átti sér stað hið mikla og átakanlega slys í Vestmannaeyjahöfn. Óskaplegt austanveður dundi yfir og vélbátarnir á hinni óvörðu höfn voru í mikilli hættu. Þar lá vélbáturinn Ísland undir áföllum. Skipshöfnin sá sig knúða til að ýta skjöktbát sínum frá landi í Læknum (uppsátrinu fræga) til þess að komast út í vélbátinn, ræsa vélina og vaka yfir bátnum, meðan óveðrið geisaði. En hinn litli árabátur afbar ekki öldurnar og rokið. Honum hvolfdi rétt utan við uppsátrið og allir mennirnir drukknuðu þarna skammt frá landi. Myrkur var á og þess vegna erfitt að fylgjast með eða sjá, hvað þarna gerðist.
Þarna drukknaði m. a. Einar Halldórsson, útgerðarmaður í Sandprýði. Frú Helga Guðmundsdóttir frá Litla Landi í Ölfusi eða Kotvogi í Höfnum var orðin ekkja í annað sinn. Börn þeirra hjóna voru þessi:
- 1. Frú Vilmunda Einarsdóttir, eiginkona Hinriks Gíslasonar vélstjóra hjá Rafveitu Vestmannaeyja um langt árabil.
- 2. Gunnar Árni Einarsson.
- Frú Helga Guðmundsdóttir andaðist 18. marz 1931.