Sveinn Hjörleifsson (Skálholti)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Sveinn

Sveinn Hjörleifsson fæddist 1. ágúst 1927 og lést 4. janúar 2004.
Foreldrar hans voru Hjörleifur Sveinsson og Þóra Arnheiður Þorbjarnardóttir í Skálholti. Hann bjó lengst af að Höfðavegi 2 en var ávallt kenndur við æskuheimili sitt, Skálholt sem og bát sinn Kristbjörgu VE. Sveinn var kvæntur Aðalheiði Maggý Pétursdóttur.

Sveinn var skipstjóri og útgerðarmaður, auk þess sem hann var hrossabóndi.

Sveinn hugar að hrossunum á fyrstu dögum eldgossins.

Óskar Kárason samdi formannavísu um hann:

Svein Hjörleifs glöggt ég greini,
graminn ungan og framan.
Kristbjörgu verinn vistar
víða á sjónum stríða.
Orku með öldum storkar,
uggling þá bana bruggar.
Klettana klifar nettur
kappinn lítt hjarta-slappi.

Frekari umfjöllun

Sveinn Hjörleifsson frá Skálholti við Landagötu 22, skipstjóri, útgerðarmaður fæddist þar 1. ágúst 1927 og lést 4. janúar 2004 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Hjörleifur Sveinsson frá Selkoti u. Eyjafjöllum, f. 23. janúar 1901, d. 29. september 1997, og kona hans Þóra Arnheiður Þorbjarnardóttir frá Eskifirði, húsfreyja, f. 18. október 1903, d. 6. júlí 1970.

Börn Þóru og Hjörleifs:
1. Sveinn Hjörleifsson skipstjóri og útgerðarmaður, f. 1. ágúst 1927 í Skálholti, d. 4. janúar 2004.
2. Anna Hjörleifsdóttir húsfreyja, f. 31. mars 1929 í Skálholti, d. 21. febrúar 2018.
3. Friðrik Ágúst Hjörleifsson sjómaður, útgerðarmaður, bifreiðastjóri, f. 16. nóvember 1930 í Skálholti, d. 7. október 2014.
4. Guðbjörg Marta Hjörleifsdóttir húsfreyja, f. 20. júlí 1932 í Skálholti, d. 15. ágúst 2021.
5. Drengur, f. 7. mars 1940, d. sama dag.

Sveinn var með foreldrum sínum í æsku, en var í sveit á sumrum í Skarðshlíð undir Austur-Eyjafjöllum.
Hann vann snemma við að lesta fiskflutningaskip, sem fluttu fisk til Bretlands á stríðsárunum, og sautján ára fór hann að róa á vetrarvertíð á Leó VE með Júlíusi Hallgrímssyni og var á ýmsum bátum, fyrst háseti og síðar stýrimaður til 1954.
Frá 1947 átti Sveinn trilluna Bláskjá, sem hann reri á milli vertíða í allmörg ár. Bláskjá notaði hann líka í fýla- og svartfuglaferðir og úteyjasnatt.
Þá varð hann skipstjóri og einn af útgerðarmönnum bátsins Kristbjargar og frá 1958 átti hann bátinn einn. Fyrsta Kristbjörgin VE 70 var 15 tonn, næstu keyptu þeir frá Danmörku 1955, hún var 40 tonn. Þriðju Kristbjörgina 120 tonn lét hann smíða í Noregi 1960 og þá fjórðu, VE 71 270 tonn, keypti hann frá Ísafirði 1973. Hann gerði tvo síðustu bátana út einn.
Vetrarvertíðina 1965 leigði hann Jón Stefánsson af Einari Sigurðssyni og var sjálfur með hann og gerði að auki Kristbjörgina út. Á síðustu útgerðarárunum og lengur átti hann Kristbjörgu Sveinsdóttur VE 71, 11 tonna dekkbát. Frá 1996 reri hann með Hjörleifi syni sínum á trillunni Gými á línu hvert haust fram á vetur að loðnan gekk.
Sveinn rak fjár og hestabúskap árum saman.
Á sjómannadaginn 2002 heiðraði Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi Svein fyrir farsæl störf á sjónum.
Þau Aðalheiður Maggý giftu sig 1948, eignuðust fimm börn. Þau bjuggu í Skálholti eldra í fyrstu, voru komin að Hólagötu 36 við fæðingu Ólafs Péturs 1958, en bjuggu síðar á Höfðavegi 2 og þar bjuggu þau við Gos og síðan.
Sveinn lést 2004 og Aðalheiður Maggý 2007.

I. Kona Sveins, (25. desember 1948), var Aðalheiður Maggý Pétursdóttir frá Ólafsfirði, húsfreyja, f. 27. september 1930, d. 26. september 2007.
Börn þeirra:
1. Þóra Sigríður Sveinsdóttir húsfreyja, f. 27. september 1948. Maður hennar Henry Ágúst Erlendsson, látinn.
2. Þórey Sveinsdóttir húsfreyja, f. 1. september 1951. Maður hennar Einar Sveinbjörnsson, látinn.
3. Hjörleifur Sveinsson yngri, sjómaður, f. 27. desember 1954, d. 18. ágúst 2019. Fyrri konur hans Sigríður Lovísa Sigurðardóttir og Dagný Björt Konráðsdóttir.
4. Ólafur Pétur Sveinsson verkamaður, f. 30. maí 1958, d. 12. febrúar 2004, ókv.
5. Kristbjörg Sveinsdóttir húsfreyja, f. 21. maí 1965. Maður hennar Pétur Fannar Hreinsson.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 10. janúar 2004. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.Myndir


Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.