Stefán Ólafsson (Vilborgarstöðum)
Stefán Ólafsson vinnumaður á Vilborgarstöðum fæddist 16. maí 1791 á Undirhrauni í Meðallandi og lést 3. apríl 1847 í Hjalli.
Foreldrar hans voru Ólafur Jónsson bóndi á Undirhrauni, f. 1764 á Undirhrauni, d. 30. september 1802 þar, og kona hans Kristín Jónsdóttir húsfreyja, f. 1762 á Þykkvabæjarklaustri, d. 29. maí 1829 á Hruna á Brunasandi.
Stefán var með foreldrum sínum á fyrsta ári ævinnar, í fóstri hjá ömmu sinni á Leiðvelli í Meðallandi 1792-1795, hjá foreldrum sínum aftur til 1797, í fóstri þar 1797-1803, var síðan á Slýjum þar og Undirhrauni til 1810. Hann var kvæntur húsmaður í Rofabæ þar 1810-1812, kvæntist 1810, skildi 1817, var síðan í lausamennsku og vinnumennsku til 1822.
Hann fluttist til Eyja 1822, var vinnumaður á Vilborgarstöðum hjá Jóni Pálssyni og Jóhönnu Jónsdóttur 1828. Þar var þá barnið Sigríður Stefánsdóttir þriggja ára, barn hans og húsfreyjunnar.
Þau Jóhanna og Jón Pálsson skildu og 1832 var Jóhanna búandi á einni Vilborgarstaðajörðinni með Stefán sem „fyrirvinnu“ og börnin Sigríði Stefánsdóttur 7 ára og Jóhann Jóhansen 3 ára, en hann var síðan skráður Stefánsson. Á sömu jörðinni var Jón Pálsson húsbóndi með Katrínu Þorsteinsdóttur bústýru. Þar var einnig Þuríður Jónsdóttir, eina barn Jóns og Jóhönnu, sem lifað hafði af 8 börnum þeirra. Hún var þarna á milli, 16 ára. Samsetningin var sú sama 1834, 1835 var við sama, en barnið Sigríður var fjarverandi. 1836 var Jón og Katrín komin á aðra jörð á Vilborgarstaðatorfunni með barn sitt Katrínu Jónsdóttur, en Jóhanna var við hliðina með Stefáni vinnumanni, börnum þeirra og Árna Jónssyni vinnumanni. Þuríður dóttir Jóhönnu og Jóns hafði hleypt heimdraganum.
1837 gekk Árni vinnumaður næst Jóhönnu, en Stefán var „sjálfs sín“ neðstur á listanum yfir heimilisfólkið.
Þau Jóhanna og Árni giftu sig 1838 og þá var Árni titlaður bóndi og Jóhanna „hans kona“ og Stefán var farinn, var „sjálfs sín“ á Löndum. Þar var hann einnig 1839, en 1840 var hann skráður ekkjumaður í Beykishúsi. 1841-1843 var hann húsmaður í Steinmóðshúsi, 1844 var hann húsmaður í Elínarhúsi, 1845 ekkill og sjómaður í Kastala. 1846 var hann aftur kominn „sjálfs sín“ í Steinmóðshús.
Stefán lést „sjálfs sín“ í Hjalli 1847.
I. Kona Stefáns, ( 29. desember 1810, skildu 1817), var Helga Gísladóttir, f.1776.
Börn þeirra hér:
1. Helga Stefánsdóttir vinnukona í V-Skaft., f. 1809, d. 12. september 1862.
2. Ólafur Stefánsson bóndi víða í V-Skaft., f. 1811, d. 25. júlí 1875.
II. Barnsmóðir hans var Ragnhildur Þorsteinsdóttir vinnukona frá Hofi í Öræfum, f. 1791, d. 8. ágúst 1847.
Barn þeirra var
3. Ragnhildur Stefánsdóttir húsfreyja, kona Benedikts Hannessonar sjómanns, f. 1817, d. 1860. Þau fóru til Vesturheims.
III. Barnsmóðir hans var Jóhanna Jónsdóttir húsfreyja á Vilborgarstöðum.
Börnin voru
4. Sigríður Stefánsdóttir húsfreyja á Vilborgarstöðum, f. 24. september 1825, d. 30. maí 1874, kona Guðmundar Ólafssonar bónda, f. 1. janúar 1825, d. 22. maí 1866.
5. Jóhann Stefánsson, f. 29. maí 1829. Við fæðingu var skráð óvíst faðerni. Hann var hjá móður sinni 1835, skráður Stefánsson og 1840 undir nafninu Johan Johansen, þá 11 ára, fermdur 1843 frá Godthaab undir nafninu Jóhannsson. Hann var hjá móður sinni 1845, 16 ára, en finnst ekki síðan.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.