Ragnhildur Stefánsdóttir (Kastala)
Ragnhildur Stefánsdóttir húsfreyja fæddist 24. okt. 1817 á Hofi í Öræfum og lést 15. apríl 1874 í Salt Lake City í Utah.
Faðir hennar var Stefán Ólafsson vinnumaður á Vilborgarstöðum, f. 1791, d. 3. apríl 1847.
Móðir Ragnhildar var Ragnhildur Þorsteinsdóttir frá Hofi, fædd í Hraunkoti í Landbroti, skírð 17. ágúst 1791, d. 8. ágúst 1847 á Grímsstöðum í Meðallandi. Faðir hennar var Þorsteinn „tól” bóndi, smiður og skáld á Hofi í Öræfum, en áður í Kálfafellskoti í Fljótshverfi og á Söndum í Meðallandi, f. 24. marz 1768, d. 23. febrúar 1844, Gissurar bónda á Breiðabólstað og Hvoli í Fljótshverfi, f. 1737, d. 13. júlí 1816, Hallssonar, Þórólfssonar og konu Gissurar Ingibjargar Sigurðardóttur húsfreyju, f. 1737, d. 31. janúar 1796.
Móðir Ragnhildar á Hofi og kona Þorsteins „tóls” var Sigríður frá Breiðabólsstað á Síðu, húsmóðir á Hofi, f. 1755, Snjólfsdóttir, talin afkomandi Snjólfs sterka, sem bar hest sinn, er hann gafst upp á vatnavolkinu á Söndunum, Finnssonar og konu Snjólfs, Margrétar Þorgeirsdóttur.
Ragnhildur var á Grímsstöðum í Meðallandi um fermingu, kom fyrst til Eyja skamma stund, fór að Bakka í Landeyjum nokkrum árum síðar og var þar í 2 ár. Þar bjuggu foreldrar Lofts Jónssonar í Þorlaugargerði. Um skeið var hún í Norður-Búðarhólshjáleigu.
Ragnhildur fluttist til Eyja 1841, var vinnukona í Godthaab 1842, var ógift verkakona í Götu 1845. Þar var einnig Benedikt Hannesson sjómaður og barn þeirra María.
Síðan bjuggu þau í Hólshúsi og í húsmennsku í Kastala (Gamla-Kastala).
Þau Benedikt voru þau fyrstu, sem skírð voru til mormónatrúar á Íslandi og skírði Þórarinn Hafliðason þau í Beinasundi, líklega sjávarlóni niðri í Sandi.
Þau fóru til Kaupmannahafnar 1852, eignuðust þar 3 börn, misstu tvö þeirra, töfðust þar, líklega vegna barneignar Ragnhildar, og fóru síðar þaðan til Utah.
Benedikt lézt 1860 á leiðinni í fylkinu Nebraska.
Ragnhildur ól stúlkubarn 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska og var því gefið nafnið María. Það barn varð langlíft í Utah og talin merk kona. Mary Hanna Sara Hanson Sherwood hét hún þar í borginni Levan. Hún kom fram við hátíðahöld í Spanish Fork 1. ágúst 1938, þegar minnisvarði var afhjúpaður um íslenzku landnemana og var þá eini Íslendingurinn, sem var lifandi af þeim 16, sem áttu nöfn sín skráð á minnuisvarðann. Nafnið Hanson var nafn, sem Benedikt hafði líklega tekið upp í Danmörku.
Ragnhildur og börnin komust til Salt Lake City eftir mikla erfiðleika. Ein af konum Brigham Young, sem var forseti mormóna eftir að Jóseph Smith var myrtur, á að hafa fundið þau úti á víðavangi og fór með þau til hans og tók hann hana að sér (sjá líkinguna við frásögn í Paradísarheimti Halldórs Kiljans Laxness). Ragnhildur nefndi sig Ragnhilda Steffens vestra.
Ragnhildur var þrígift.
I. Fyrsti maður hennar, (6. nóv. 1846), var Benedikt Hannesson sjómaður, kallaði sig Hanson, f. 13. júli 1818 að Hellishólum í Fljótshlíð, d. í september 1860 í Omaha í Nebraska í Bandaríkjunum.
Börn þeirra Benedikts:
1. María Kristín Benediktsdóttir, f. 7. ágúst 1845 í Götu, d. 25. júlí 1851 „af Barnaveikleika“.
2. Benedikt Benediktsson, f. 25. sept. 1847 í Hólshúsi, dó úr barnaveiki 25. júlí 1851.
3. Jóhanna Benediktsdóttir, f. 31. okt. 1849 í Hólshúsi, d. 13. nóv. 1849 „af Barnaveikin“.
4. Andvana fætt sveinbarn í Kastala 26. marz 1852.
5. Ephriam Christen Benedikt Benediktsson Hanson, f. 6. nóv. 1853 í Kaupmannahöfn, d. 21. sept. 1878.
6. Barn, f. í Höfn á bilinu 1853-1858, dó.
7. Barn, f. í Höfn á bilinu 1853-1858, dó.
8. María Benediktsdóttir Hanson, f. 1. júlí 1859 í Omaha í Nebraska, Bandaríkjunum, dó undir nafninu Mary Hanna Sara Hanson Sherwood 23. nóv. 1945 í Salt Lake City, Utah. Maður hennar, (16. nóv. 1879), var William Sherwood, f. 12. jan. 1852, d. 21. marz 1923. Þau eignuðust 10 börn.
II. Annar maður Ragnhildar, (um 1862), var Luren M. Vad.
Barn þeirra var
Alma Vad, f. um 1863, d. um 1864.
III. Þriðji maður hennar, (21. apríl 1875), var Samuel Trunkey Smith, f. 13. september 1817, d. 1898.
Þau voru barnlaus.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Blik 1961 Fyrstu mormónarnir, sem skírðir voru á Íslandi. Sigfús M. Johnsen.
- FamilySearch - Community Tree.
- Manntöl.
- Our Pioneer Heritage Vol. 7. Kate B. Carter. Daughters of Utah Pioneers. Salt Lake City 1964.
- Prestþjónustubækur.
- Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.
- Ættir Austfirðinga. Einar Jónsson og fleiri. Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953-1968.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.