Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2002/ Siggi í Engey
Siggi í Engey
Sigurður Jónsson í Engey er fæddur í Sperðli í Vestur-Landeyjum 9. júlí 1919. Foreldrar hans voru Sigríður Sigurðardóttir og Jón Jónsson. Hún úr Landeyjunum, hann úr Hvolhreppnum. Alls voru börnin þeirra sjö og var Siggi næst elstur, Helga var eldri. Þau fluttu til Eyja þegar hann var á þriðja ári. Fyrst áttu þau heima hér á Ofanleiti hjá séra Oddgeiri Gudmundsen og fjölskyldu hans. Síðan í Viðey, þar til Jón og Sigríður höfðu byggt hús við Faxastíg 23. Það fékk nafnið Engey en Jón hafði róið í Þorlakshöfn á róðrarskipi, sem bar þetta nafn.
Siggi fór fimm ára í sveit til móðursystur sinnar, Þórunnar og manns hennar, Lofts Þorvarðarson, sem bjuggu í Klauf í Vestur-Landeyjum og var þar í nokkur sumur. Einnig var hann í Vatnshól í
Austur-Landeyjum hjá Guðbjörgu Sigurðardóttur og Þórði Erlendssyni. Ógleymanlegur er Sigga einn góðviðrisdagur þar. Hann var úti á túni fyrir sunnan bæinn og sá þá flugvél í fyrsta skipti. Hún kom úr suðri í átt frá Vestmannaeyjum og þegar hún var nánast yfir Sigga, var hent úr henni böggli með ýmsu góðgæti o.fl. til hans frá foreldrunum úti í Eyjum. Hann átti ekki til eitt einasta orð, svo undrandi varð hann. Þetta mun hafa verið sjóflugvélin Súlan, sem settist hér við Eiðið 1929. Eftir sumrin í Vatnshól var Siggi í fjögur sumur á Norður-Hvoli í Mýrdal hjá Kristínu Friðriksdóttur og Kristjáni Bjarnasyni. Þangað fór hann snemma á vorin og ekki heim fyrr en eftir áfamót hverju sinni. Þá kom bátur í sandinn að sækja menn í verið til Eyja og fékk hann að fljóta með. Venjulegast var þetta bátur frá Tanganum, Gunnari Ólafssyni & co. Þegar hann fór heim í síðasta skiptið gáfu þau Kristín og Kristján honum átta ær með sér sem varð mikil búbót fyrir heimilið í Engey. Fyrst vann Siggi hér í Lifrarsamlaginu á þurrkara 17 ára gamall. Á vetrarvertíðunum var unnið allan sólarhringinn á vöktum og voru þar nokkrir strákar á svipuðu reki og hann.
Siggi fór fyrst á sjó á Vininum sem var 14 tonn. Einar Hannesson (Einar á Brekku), mágur hans var skipstjóri. Hann var maður Helgu. Þeir voru á snur-voð allt árið. Næst var hann á Ingólfi (Tanga Ingólfi), 12 tonn báti hjá Einari Runólfssyni á línu og netum og reri hann á línunni. Þar lentu þeir í útilegu sem flestir sjómenn hér kynntust á árum áður. Þeir náðu upp undir Eiðið við sæmilegustu aðstæður en þá var komið suðaustan foráttu veður. Lagst var við akkeri grunnt undir Kambinum ásamt mörgum öðmm bátum sem lögðu ekki í að fara austur fyrir Klett og til hafnar. Daginn eftir lygndi og þeir komust inn.
Næst var Siggi á Haföldunni með Ögmundi Hannessyni á Hvoli á línu, netum og snurvoð. Einu sinni á stríðsárunum á línunni voru þeir að koma að land í góðu veðri. Skömmu eftir að þeir voru komnir vestur úr sundinu milli Bjarnareyjar og Elliðaeyjar birtist bátur frá hernum við síðuna og hermenn sem staðsettir voru hér komu um borð. Þeir fullyrtu að sést hefði til kafbáts í kjölfari þeirra. Enginn á Haföldunni kannaðist við það og eftir talsvert stímabrak fengu þeir að fara frjálsir til hafnar. Ekkert sást af kafbátnum meðan á þessu stóð.
Sumarið eftir voru þeir nýbúnir að kasta snurvoðinni vestur í Forum í fallegu og góðu veðri. Kom þá lítil norsk korvetta að þeim og vildu Norðmennirnir fá keypta soðningu sem var auðsótt. Reyndar tóku þeir á Haföldunni enga greiðslu fyrir körfuna sem Norðmennirnir fengu. Þeir sögðu Haföldumönnum að þeir hefðu þá nýlega, ásamt fleiri, hrakið þýskan kafbát á land við Þorlákshöfn. Þangað hefðu svo breskir hermenn komið og tekið áhöfn kafbátsins til fanga. Norðmennirnir voru mikið ánægðir með þetta. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi, eftir Guðmund Kristinsson 2. útgáfa 2001, er sagt frá þessum atburði. Þar kemur m.a. fram að 29. ágúst 1941 hafi breski herinn dregið þýskan kafbát með 44 manna áhöfn inn Eyrarbakkabugt og rennt upp í sand á Hafnarskeiði. Á þessu snurvoðarúthaldi var Siggi nálægt því að lenda í sjónum með ófyrirséðum afleiðingum. Einar, mágur hans, var þá nýtekinn við bátnum. Hann var bróðir Ögmundar og faðir þeirra, Hannes á Hvoli, var eigandinn. Þeir voru að kasta þegar annar fótur Sigga flæktist í tóginu. Það var nálægt voðinni. Um leið og hann dróst aftur ganginn og hekkið náði hann taki á því og hékk þar meðan enn strekktist á tóginu. Einar bakkaði á fullu og ásamt því telur Siggi að of stórt stígvél hafi bjargað sér því það dróst af honum og hann lenti aldrei í sjónum. Hann var líka hætt kominn þegar hann var á Hrafnkeli goða á trolli í mars 1947. Þeir voru á útleið í góðu og björtu veðri. Fyrir austan Klett, austur af Drengjum, lentu þeir í árekstri við Jökul sem var að koma að. Jökull lenti með stefnið inn í síðu Hrafnkels goða sem sökk mjög fljótt. Ágúst Ólafsson vélstjóri var mjög hætt kominn niðri í vélarúmi því hlerakarmur fyrir uppgöngunni skekktist. Honum tókst þó að opna hann með barefli. Allir komust þeir um borð í Jökul án þess að lenda í sjónum.
Siggi var líka með Binna í Gröf (Benóný Friðrikssyni) á tvílembingunum Gulltoppi og Haföldu á síld fyrir norðan. Alltaf var byrjað á að fylla Gulltopp sem tók 300 tunnur. Þegar hann var fullur, fór vélstjórinn Artúr Aanes, einn með hann í land. Þá var tekið við að fiska í Hafölduna sem tók 400 tunnur af síld. Fóru þeir í land á henni og lönduðu úr báðum bátunum. Veiðarfærið var snurpunót höfð í tveimur nótabátum og áhöfn beggja bátanna var samtals sextán menn. Á Víkingi, sem var 15 tonn að stærð, var Siggi í tvö ár með Óskari Gíslasyni á Arnarhóli á línu, netum og snurvoð sumarið og haustið. Á þessum árum var enginn matur eldaður um borð á þessum veiðiskap heldur hafður með á sjóinn bitakassi, sem kvenfólkið heima hafði fundið í ýmiss konar mat. Helst smurt brauð og oft kalt kjöt. Á sjónum var lagað kaffi. Sigga er það minnisstætt hvað Júlli á Hlíðarenda (Júlíus Snorrason), sem var vélstjóri og sameignarmaður þeirra Arnarhólsfeðga að Víkingi, lagaði gott ketilkaffi. Segist aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa fengið eins gott kaffi og þarna hjá Júlla. Hann var nokkur sumur á síld með Binna á Gullborginni. Alltaf man hann áhugann um borð að renna færi ef legið var undir vegna veðurs. Eftir eitt sumarið lönduðu þeir rúmum þremur tonnum af fullstöðnum saltfiski.
Siggi var sjö vetrarvertíðir með Oddi í Dal (Oddi Sigurðssyni) á línu og netum á Jötni. Einnig með Júlla í Skjaldbreið (Júlíusi Sigurðssyni) á Þorgeiri goða. Um tíma var hann háseti og smyrjari (það voru kyndarar nýsköpunartogaranna kallaðir) á Bjarnarey VE 11. Fyrsta túrinn hans fylltu þeir skipið á sjö dögum þétt við ísröndina á Halanum.
Sjonni í Engey (Sigurjón Jónsson), skipstjóri, bróðir Sigga, átti 27 tonna bát, Björgvin VE 72, með Ögmundi í Landakoti. Þar var Siggi lengi. Þeir voru á línu og netum og á sumrin á humri. Þá var farið út á kvöldin og komið að á morgnana með allan aflann á dekkinu, óísaðan og óslitinn, venjulega hálffullt eða fullt dekk. Þegar þessi bátur var dæmdur ónýtur 1967 keyptu þeir bræður saman 39 tonna Landsmiðjubát sem fékk nafnið Björgvin VE 72. Hann áttu þeir og voru saman þar til Sjonni veiktist langt um aldur fram. Þá var selt eftir 5 ár 1972. Sjonni var skipstjóri á báðum bátunum og Siggi vélstjóri. Hann hafði aflað sér þeirra réttinda hér áður á vélstjóranámskeiði. Alltaf gekk mjög vel á þessa báta og eru minningar um þann tíma góðar. Síðast var Siggi á sjó 1973 á Sigurfaranum hjá Gísla Val Einarssyni. Hann er systursonur Sigga, sonur Helgu og Einars. Hann byrjaði því sjómennsku sína hjá föðurnum á Vininum og endaði hana hjá syninum á Sigurfaranum. Þeir voru á trolli hér við Eyjarnar gosárið og fiskuðu mikið. Öllu var landað í Þorlákshöfn. Eftir það, árið 1975, fór hann í land og vann hjá Vinnslustöðinni til 75 ára aldurs 1994. Þar var gott að vera undir verkstjórn Guðmundar Ásbjörnssonar í Húsadal. Á betra varð ekki kosið.
Kona Sigga er Kristborg Jónsdóttir. Þau eignuðust 6 börn. Fyrsta barnið, dreng, misstu þau nýfæddan og annan dreng misstu þau 7 ára af slysförum. Á sjötta áratugnum byggðu þau sér myndarlegt hús að Hásteinsvegi 53 og fluttu í það 1957. Þau búa þar enn og líður vel. Gömlu skipsfélögunum ber saman um að á sjónum hafi ekki verið hægt að hugsa sér betri félaga. Duglegur, klár og skapið alltaf svo ljúft. Vinnufélagarnir í Vinnslustöðinni segja það sama, alltaf harðduglegur, og féll aldrei verk úr hendi. Einstaklega duglegur að létta félagsskapinn ef einhver drungi var á ferð. Alltaf léttur. Núna, 82 ára, lifir hann öll systkini sín. Eldhress í sundi alla daga og núna á vordögum tekur garðyrkjan við en kartöfluræktin er í hávegum höfð hjá þessum síunga sjóara.