Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Beitumenn á Helgu fyrir 52 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Beitumenn á Helgu fyrir 52 árum

Það var um haustið 1942 að Þórarinn Guðmundsson, eða Tóti á Jaðri eins og hann var nefndur daglega, hitti okkur bræður, Sigurð og undirritaðan, og bauð okkur beitumannspláss á komandi vertíð. Það var ekki laust við að við mikluðumst af slíku bæði þar sem þekktur formaður og góður aflamaður átti hér hlut að máli, en við bræður óharðnaðir unglingar. Að vísu kunnum við handtökin, þau lærðum við er við færðum föður okkar kaffi í beituskúrinn á Lagarfossi, en við gripum í beitninguna meðan sá gamli sötraði kaffið. Farkosturinn var Helga VE 180, 10 brl. með 25 hk Tuxham glóðarhausvél. Helga var smíðuð í Eyjum 1915 og hafði lengst af verið dráttarbátur þegar afgreiðsla vöruflutninga fór fram á ytri höfninni, eða innan við Eiðið ef svo háttaði til með veður. Þegar svo hafnarskilyrði bötnuðu var ekki lengur þörf fyrir dráttarbát. Eigendur Helgu, þeir Martin og Tómas Guðjónsson, urðu því að finna annað verkefni fyrir bátinn. Því var það að þeir réðu Þórarin fyrir bátinn og skyldi róið með línu. Ekki voru hefðbundin hlutaskipti því mannskapurinn átti að taka þátt í útgerðarkostnaði, en síðan var afla skipt til helminga við útgerð. Það kom sér því vel að Tóti var manna kunnugastur á fiskimiðum kringum Eyjar og sjaldgæft var að lína tapaðist, svo útgerðarkostnaður var í lágmarki.
Fyrir áramót var svo farið að undirbúa væntanlegt úthald. Þegar línan var fengin komum við saman til að „draga af.“ Línan kom í þéttum rúllum og þurfti að rekja upp úr rúllunum. Þegar búið var að rekja upp var endanum brugðið yfir öxlina og teygt hraustlega á línunni. Þegar endanum var svo sleppt vast svo snúðurinn ofan af. Þetta var nauðsynlegt því annars vildi línan flókna þegar farið var að beita. Að þessu loknu skiptum við með okkur að setja upp línuna.
Helga hafði verið tekin í slipp hjá Gunnari Marel fyrir áramótin, bátur og vél yfirfarið og báturinn tilbúinn til sjósetningar fljótlega upp úr áramótum. Þessir fjórir voru ráðnir á sjóinn: Þórarinn formaður, Guðmundur Ketilsson vélstjóri, Kristmundur Jóhannsson og Magnús Guðmundsson í Sjólyst hásetar. Síðan, eins og áður er sagt, áttum við tveir óharðnaðir „peyjar“ að beita 20 bjóð daglega. Að auki þurftum við að keyra bjóðunum á handvagni af bæjarbryggju og upp í beituskúr. Beituskúrinn stóð fyrir enda Bárugötu gegnt Ísfélaginu eins og það er nú. Það var því strembið að aka vagninum í snjó og ófærð, en margur vegfarandinn varð til að ýta á vagninn þegar við áttum í erfiðleikum. Róðrar hófust í janúar í rysjóttu veðurfari og aflabrögðin voru í samræmi við það, 3-4 tonn, en þótti gott hvað meira aflaðist. Ég held að það teljist heppni að hefja störf hjá manni eins og Þórarni. Þórarinn var góður aflamaður og einstakt snyrtimenni, fór vel með bát og veiðarfæri. Þegar stutt var róið kom það fyrir þegar við komum úr mat að þá stóð Tóti við að rekja upp úr bjóðunum, saug upp í nefið og sagði: „Sko, þessi er eins og skörungur“ og otaði að okkur öngli sem var uppréttur. Eða ef hann fann taum sem var vafinn um ásinn: „Við fiskum á taumana, ekki ásinn“ sagði Tóti.
Það fór mikið orð af Tóta hve miðaglöggur hann var. Eitt sinn er þeir voru að leggja línuna á Helgu stakk Tóti höfðinu út um gluggann og kallaði til þess sem var í færunum: „Hentu ekki færunum svona langt maður, þú hendir upp í hraunið.“ Það mun hafa verið komið fram í apríl þegar gerði langvinnan ótíðarkafla svo ekki var róið hjá okkur í heila viku. Svo spáir norðanátt og þá biður Tóti okkur að afskeina (afbeita) því beitan væri ónýt og ekkert myndi fást á slíkan óþverra. Við færðumst undan því og var okkur vorkunn, það var ekki svo lítið fyrirtæki fyrir tvo strákpjakka að bæta þessu á sig. Við vissum þó að það var alvörumál að óhlýðnast formanninum og því höfðum við nokkrar áhyggjur af tiltækinu. Næsti dagur rann upp með hægri norðanátt, eins og lofað hafði verið, og allir á sjó. Búast mátti við góðum afladegi. Okkur var ekki rótt. Við vorum komnir austur á Skans upp úr hádegi. Bátarnir fóru að tínast að landi um kl. þrjú enda flestir komnir á net. Ekki bólaði á Helgu og klukkan var orðin fjögur. En þá sjáum við lítinn bát bera milli Elliða- og Bjarnareyjar. Hann nálgaðist afar hægt, þess vegna gat þetta verið Helga því ekki var hún hraðskreið. Þar kom að bátur þessi skreið inn á milli garða og víst var það Helga. Og það sem meira var: Þrauthlaðin. Það lyftist á okkur brúnin er við hlupum vestur á Bæjarbryggju að taka á móti spottanum. Lestin var full og nokkuð á dekki af fallegum blönduðum fiski. Þó bar mest á stórýsu. Nú var sektarkenndin rokin út í veður og vind svo við spurðum Tóta: „Hvernig var beitan?“ Hann svaraði: „Við hefðum fengið helmingi meira ef þið hefðuð nennt að afskeina.“ Þá vaknaði önnur spurning, hvar átti að láta þann afla? Ekki bar Helga meira. Mig minnir að dagsaflinn hafi náð 9 lestum.
Aflabrögðin gengu vel þessa vertíð og vegna hlutskiptanna hjá okkur vorum við með hlutahæstu bátum í lok vertíðar. Ég held að allur aflinn hafi farið beint til útflutnings því stríðið stóð sem hæst. Ísfisksamlagið greiddi mánaðarlega fyrir aflann. Því var það að við vorum boðaðir einu sinni í mánuði heim að Jaðri til Tóta en þá var gert upp. Ég man það að allir röðuðu sér umhverfis eldhúsborðið og Tóti með digran sjóð fyrir framan sig. Við vorum sex og mig minnir að skipt hafi verið jafnt. Einfaldast hefði verið að deila með sex í summuna. Nei, þannig gerðist það ekki. Fyrst tók Tóti stærsta seðilinn (sem ég held að hafi verið 500 kr.). Síðan hófst leikurinn: „Siggi, Maggi, Gvendur“ o.s.frv. Svona var peningunum deilt, fyrst verðmestu seðlunum, síðan var farið í smápeningana þar til allt var gengið út. Því næst sagði Tóti: „Gerið svo vel, taki nú hver sitt.“ Af stráksskap lögðum við beitustrákarnir lúkuna yfir seðlahrúguna og tróðum í vasann. Það mátti nú aldeilis ekki og Tóti hrópaði: „Hvernig farið þið með peningana?“ Þetta gerðum við af prakkaraskap.
Þórarinn var afar glöggur á allt sem viðkom sjómennsku. Er ég var að koma að landi úr línuróðrum síðar sagði Tóti gjarnan, er hann leit yfir aflann: „Jæja, karlinn, þú hefur verið austur við Holtshraun,“ eða „Þú hefur verið inn af Þrídröngum“ og alltaf reyndist það rétt. Það er gott fyrir unglinga að hefja sinn starfsferil hjá slíkum myndarformanni sem Þórarinn var.
Oft reyndist okkur erfitt að skila fullri línulengd þegar við fengum helminginn af línunni í flækju. Eitt sinn um miðnætti vorum við að greiða flækjur, þá urðum við varir við að Tóti var á leið í skúrinn, en hann hafði þá gleymt einhverju er fara átti í róður. Slíkt mátti ekki ske að hann kæmi að okkur í skúrnum. Svo við slökktum ljósið og földum okkur uppi á lofti meðan Tóti stansaði.
Við beittum svo næstu vertíð á Helgu hjá Tóta og reyndist sú vertíð okkur léttari þar sem okkur hafði „vaxið fiskur um hrygg“ á einu ári. Þá vertíð beittum við í kró Þorsteins í Laufási sem stóð á stöplum vestan við Bæjarbryggjuna. Það var mikill léttir að sleppa við að keyra handvagni með 20 línustömpum vestur allan Strandveg eins og við máttum gera vertíðina á undan.
Ég læt þessum hugrenningum lokið. Margt hefur breyst á þessum rúmlega 50 árum. Eítt er víst að vertíðarstemmningin er ekki sú sama og var í þá daga.
Til hamingju með daginn, sjómenn.
Árni frá Eiðum