Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Sjómannadagurinn 1987

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Magnús Guðmundsson

Sjómannadagurinn 1987


Laugardagurinn 13. júní var runnin upp. Dagurinn sem bæði börn og fullorðnir höfðu beðið eftir. Veðrið skartaði sínu fegursta, sól og blíðu. Framundan voru tveggja daga hátíðarhöld sjómannadagsins, þar sem keppt yrði í hefðbundnum íþróttagreinum laugardagsins með tilheyrandi dansleikjahaldi um kvöldið og á sunnudeginum verðlaunaafhendingar fyrir íþróttaafrek laugardagsins, heiðranir og skemmtun. Skrúðganga, messa, minningarathöfn. Og um kvöldið aflamenn heiðraðir, skemmtun og dansleikjahald.
Dagurinn hófst með hefðbundnum hætti. Eyjapeyjar sýndu Vestmannaeyingum fimi sína í sprangi og fórst þeim það vel úr hendi eins og við var að búast. Síðan færðist fjörið inn í Friðarhöfn, þar sem fjöldi manns var saman kominn. Kappróðurinn hófst með því að Jötunsmenn sigruðu Verðandamenn í æsispennandi viðureign og endurheimtu bikarinn. Síðan tókust konurnar á og þar sigruðu FIVE-stúlkurnar með miklum glæsibrag. Piparsveinar áttu sigurinn vísan í sínum flokki eins og þeim er einum lagið. Áttu þeir líka bestan tímann þennan dag. Tanginn með Gogga í Klöpp í broddi fylkingar unnu fyrirtækjabikarinn.
Fyrirmyndarbílstjórar unnu Grohebikarinn. Rösklega réru þeir strákarnir á Halkion og unnu áhafnarbikarinn með miklum tilþrifum. Besta róðrarsveit frystihúsanna urðu svo FIVE-strákarnir, sem sigruðu sína keppinauta með yfirburðum.
Koddaslagurinn og tunnuhlaupið gengu á með sama buslugangi og darraðardansi og undanfarin ár og vöktu mikla kátínu meðal áhorfenda. Sylvía Daníelsdóttir reyndist vera jafnvíg á slánni og hún var í tunnuhlaupinu, því hún sigraði stallsystur sína í báðum greinunum og sló reyndar mörgum karlmanninum við í tunnuhlaupinu með því að fara yfir 14 tunnur. Sigurður Sigurðsson sýndi hörku þegar hann sigraði í koddaslag karla með því að slá alla sýna keppinauta út af slánni í höfnina. Gísli Gíslason sigraði í tunnuhlaupi karla er hann steig 19 tunnur og þykir það víst allgott.
Síðasta keppnisgrein laugardagsins var stakkasund og þar sigraði Sveinbjörn Guðmundsson með yfirburðum.
Kvöldið hófst með borðhaldi í fjórum húsum. Jónas Þórir, Jónas Dagbjartsson og þeir bræður Helgi og Hermann Ingi ásamt Arnfinni Friðrikssyni léku og sungu fyrir matargesti. Eftir matinn var síðan stiginn dans, sungið og spjallað fram undir morgun. Í Samkomuhúsinu lék hljómsveitin 7und. Í Hallarlundi voru Stefán P og hans menn. í Alþýðuhúsinu skemmtu Eymenn, og á Skansinum hélt hljómsveitin Bítlavinafélagið uppi fjörinu. Allar þessar hljómsveitir skiluðu sínu hlutverki vel og stóðu sig með sóma.

Það er gaman á Stakkó með pabba og mömmu.

Sunnudagurinn byrjaði með sömu blíðunni, þó ekki sæist til sólar. Hátíðarskráin hófst við minnisvarðann á Stakkó. Þar setti Ástþór Jónsson dagskrána. Síðan var skrúðganga að Landakirkju. Þar flutti séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson sjómannamessu. Eftir messu minntist Einar J. Gíslason drukknaðra sjómanna við minnisvarðann og þakkaði Guði fyrir það að enginn sjómaður hafði farist við Eyjar frá síðasta sjómannadegi.
Skemmtunin á Stakkó byrjaði með Lúðrasveit Vestmannaeyja, sem lét ljúfa tóna leika um eyru Eyjaskeggja. Síðan flutti Sigurður Einarsson ræðu dagsins. Áhöfnin á Sigurfara sýndi snarræði þegar hún bjargaði skipstjóra sínum, Benóný Færseth úr sjónum eftir að hann hafði fallið útbyrðis, þegar Sigurfari var að togveiðum vestur af Álsey. Fékk áhöfnin sérstaka viðurkenningu fyrir þetta einstæða afrek. Eins fékk Jóhannes Kristinsson (Gáma-Jói) viðurkenningu fyrir að bjarga Friðriki Benónýssyni úr Vestmannaeyjahöfn haustið 1986.


Tveir miklir sjómenn voru heiðraðir fyrir langt og gott starf í þágu sjómannastéttarinnar.
Það voru þeir Willum Andersen skipstjóri og Theódór Ólafsson vélstjóri. Verðlaunaafhending fyrir íþróttaafrek laugardagsins var næst á dagskrá. Síðan átti söngur, gleði og gaman að byrja. Ómar Ragnarsson, Raggi Bjarna ásamt Hauki Heiðari voru næstir á dagskrá. En áhorfendum var tilkynnt að þeir væru einhversstaðar ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og undirleikara á milli lands og Eyja á litlum hraðfiskibáti á leið til Eyja, því ekki viðraði til flugs. En Bítlavinafélagið ætlaði að hlaupa í skarðið. Voru það því þeir bítlavinir ásamt Helga, Hermanni Inga og Pöpum sem skemmtu Eyjabúum það sem eftir var dags. Kvöldskemmtunin var haldin í Samkomu-húsinu eins og venja er og hana setti formaður Sjómannadagsráðs, Friðsteinn Vigfússon

Einar J. Gíslason hlaut svo viðurkenningu frá Sjómannadagsráði og var það fyrsta viðurkenningin sem Einar afhenti ekki fyrir hönd ráðsins, en hann hafði þá í samfellt þrjátíu ár annast þessa athöfn og fleira á Sjómannadegi.
Breki VE aflahæstur togbáta yfir 200 tonn 1986, aflaði 4,446 tonn að aflavermæti 96,336,286 kr. Hjónin Elísabet G. Einarsdóttir og Hermann Kristjánsson, skipstjóri, fagna viðurkenningunni, fögrum vita sem er farandgripur.
Fiskikóngur 1987varð svo Sigurjón Óskarsson á Þórunni Sveinsdóttur. Var þetta í tíunda skiptið sem hann tók á móti þessu sæmdarheiti og silfurskútunni fögru til varðveislu sem eiginkona hans Sigurlaug Alfreðsdóttir fagnar með honum.
Huginn var með mest aflaverðmæti 1986 eða 56,251,272. Tóku þau hjón Kristín Pálsdóttir og Guðmundur Ingi enn einu sinni á móti þessum fagra farandgrip með innileik.
Úr karabískahafinu norðan Heimakletts.

. Þá næst tók hinn alkunni Einar J. Gíslason við. Þetta var 30. sjómannadagurinn sem Einar sá um verðlaunaafhendinguna. Í tilefni þess var honum færð vegleg viðurkenning frá sjómannadagsráði. Síðan tók Einar við að heiðra sjómenn fyrir hin ýmsu aflaafrek og byrjaði á því að afhenda Sigurjóni Óskarssyni skipstjóra á Þórunni Sveinsdóttur silfurskipið, sem veitt er fyrir mestan afla á vetrarvertíð. Var þetta 10. vertíðin sem Sigurjón á Þórunni varð aflahæstur. Fékk hann ásamt Matthíasi Sveinssyni vélstjóra og Ægi Sigurðssyni matsveini, sem verið höfðu með honum öll þessi ár, sérstaka viðurkenningu frá Sjómannadagsráði.
Guðmundur Ingi Guðmundsson og hans menn voru krýndir fiskikóngar Vestmannaeyja. En þeir voru með mesta aflaverðmæti báta árið 1986.
Logi Snædal og hans áhöfn á Smáey voru með mestan afla togbáta árið 1986.
Mestan afla togara 1986 fengu þeir á Breka, en þeim vantaði aðeins fáein tonn í 4.500 tonna markið. Var það því Hermann Kristjánsson skipstjóri sem tók við viðurkenningu fyrir hönd þeirra Brekamanna. Fyrir mestan afla og mesta aflaverðmæti togara í Vestmannaeyjum.
Þá var komið að þeim Ómari og Ragga Bjarna að kitla hláturtaugar áhorfenda mcð glensi og gamni. Ekki var að sjá að sjóferðin hafi haft slæm áhrif á skemmtikraftana, því áhorfendur skemmtu sér konunglega, bæði af þeim Ómari og Ragga. Eins var það með hana Sigrúni Hjálmtýsdóttur (Diddú) hún söng sig inn í hjörtu viðstaddra. Skemmtunin endaði síðan með þeim bráðhressu bræðrum Helga og Hermanni Inga sem sungu og spiluðu ásamt þeim Jónasi Þóri og Jónasi Dagbjartssyni.
Sjómannadagshelgin endaði síðan með því að dansað var í tveim húsum framundir morgun.
Sífellt færist það í vöxt að sjómenn haldi slútt um sjómannadagshelgina. Líklega hafa aldrei verið eins margir sem slúttuðu og núna, því vel á annað þúsund miðar seldust á borðhald og dansleiki helgarinnar og er það vel.
Og að lokum. Loksins komst það í lagabækur að sjómannadaginn skal halda fyrstu helgi í júní, skulu því kosningar og annað þvíumlíkt fara fram á öðrum tíma.
Magnús Guðmundsson, ritari

Var einhver að tala um lönguvitleysu?

ÚRSLIT LEIKJA í FRIÐARHÖFN Á SJÓMANNADAGINN 1987
1. riðill: Verðandi .......2.13.98
Jötunn .......2.08.73
2. riðill: FIVE, konur .......2.20.61
Vinnslustöðin, konur ....2.37.80
Fiskiðjan, konur .......2.28.17
3. riðill: Piparsveinar .......2.02.49
Tanginn .......2.21.08
Fyrirmyndarbílstjórar ..2.13.07
4. riðill: Halkion ........2.12.93
FIVE. karlar ........2.13.25
Hraðfrystistöðin ........2.24.81

VERÐLAUNAAFHENDING Á STAKKAGERÐISTÚNI
Sjómannafélagsbikarinn: Sjómannafélagið Jötunn, stýrimaður Þorsteinn Guðmundsson. tími 2.08.73.
Stöðvabikar (Konur): FIVE, stýrimaður Benoný Gíslason, tími 2.20.61.
Stöðvabikarinn (Karlar): FIVE, stýrimaður Benoný Gíslason, tími 2.13.25.
Ahafnarbikarinn: Halkion. stýrimaður Sveinn Valgeirsson, tími 2.12.93.
Skútabikarinn: Piparsveinar, stýrimaður Hlöðvar Guðnason, tími 2.02.49.
Fyrirtækjabikarinn: Tanginn, stýrimaður Georg Þór Kristjánsson, tími 2.21.08.
Grohe-bikarinn: Fyrirmyndarbílstjórar, stýrimaður Björgvin Arnaldsson, tími 2.13.07.
Tímabikarinn (Karlar): Piparsveinar. stýrimaður Hlöðvar Guðnason, tími 2.02.49.
Tímabikarinn (Konur): FIVE, stýrimaður Benoný Gíslason. tími 2.20.61.

VERÐLAUN FYRIR AÐRAR GREINAR DAGSINS
Stakkasund: Sveinbjörn Guðmundsson. Koddaslagur karla: Sigurður Sigurðsson.
Koddaslagur kvenna: Sylvía Daníelsdóttir Tunnuhlaup karla: Gísli Gíslason sem hljóp 19 tunnur.
Tunnuhlaup kvenna: Sylvía Daníelsdóttir. sem hljóp 14 tunnur.
HEIÐRANIR
Aldraðir sjómenn heiðraðir. Frá Verðandi: Willum Andersen og frá Vélstjórafélaginu: Theódór Ólafsson.
VIÐURKENNING FYRIR BJÖRGUN
Ahöfnin á Sigurfara fékk viðurkenningu fyrir að bjarga skipstjóra sínum Benóný Færseth, er hann féll í sjóinn vestur af Álsey.
Einnig Jóhannes Kristinsson fyrir að bjarga Friðriki Benónýssyni úr Vestmannaeyjahöfn haustið 1986.
Sjá litmynd hér fyrir neðan.


Áhöfnin á Sigurfara