Guðmundur Ingi Guðmundsson (skipstjóri)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Guðmundur Guðmundsson


Guðmundur Ingi

Guðmundur Ingi Guðmundsson var fæddur í Hafnarfirði 22. október 1932. Hann lést 14. júní 2006. Foreldrar Guðmundar Inga voru Guðmundur Þórarinn Tómasson og Steinunn Anna Sæmundsdóttir. Árið 1959 kvæntist Guðmundur Ingi Kristínu Pálsdóttur frá Þingholti í Vestmannaeyjum. Kristín og Guðmundur Ingi eignuðust fjögur börn, Guðmund Hugin, Bryndísi Önnu, Pál Þór og Gylfa Viðar. Guðmundur Ingi og Kristín eiga 13 barnabörn og 2 barnabarnabörn.

Þegar Guðmundur var 13 ára hóf hann sjómennsku, fyrst sem messagutti en síðan sem háseti á togurum meðal annars frá Reykjavík og Ísafirði. Guðmundur fluttist til Vestmannaeyja árið 1955 og hóf eigin útgerð fjórum árum síðar þegar hann keypti Huginn VE 65. Guðmundur Ingi og fjölskylda hafa síðan átt þrjú skip með sama nafni, en seinni skipin voru skráð Huginn VE 55 og voru öll nýsmíði.

Guðmundur Ingi sat í stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og kom að fleiri fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.

Guðmundur Ingi var virkur í félagsstarfi skipstjóra og útvegsbænda í Vestmannaeyjum og Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi heiðraði hann fyrir vel unnin störf. Einnig var hann félagi í Akóges og Golfklúbbi Vestmannaeyja og studdi mjög við bakið á ÍBV.

Guðmundur Ingi var alla tíð farsæll skipstjóri og útgerðarmaður og í dag er Huginn VE eitt glæsilegasta skip íslenska fiskveiðiflotans. Guðmundur Ingi var aflakóngur Vestmannaeyja 1972 og 1982-1986.


Heimildir

  • Morgunblaðið. 24. júní 2006. Minningargreinar um Guðmund Inga Guðmundsson.

Frekari umfjöllun

Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri og útgerðarmaður fæddist 22. október 1932 í Hafnarfirði og lést 14. júní 2006 á Sjúkrahúsinu.
Foreldrar hans voru Guðmundur Þórarinn Tómasson, f. 31. janúar 1903, d. 2. desember 1945, og Steinunn Anna Sæmundsdóttir húsfreyja, f. 26. nóvember 1901, d. 28. september 1980.

Guðmundur Ingi stundaði sjómennsku frá 13 ára aldri, var messagutti í strandsiglingum á Súðinni, var frá fimmtán ára aldri togarasjómaður í Reykjavík, á Ísafirði og í Neskaupstað.
Hann lauk skipstjóranámi við Stýrimannaskólann í Reykjavík 1954.
Guðmundur Ingi kom til Eyja 1955, ráðinn stýrimaður á Jötni VE 273, fór í eigin útgerð 1959, þegar hann keypti Hugin VE 65 ásamt Óskari Sigurðssyni endurskoðanda frá Bólstað, en hann keypti hlut Óskars 1968. Hann og fjölskyldan hafa síðan átt þrjú skip með sama nafni, en seinni skipin hafa verið skráð Huginn VE 55 og voru öll nýsmíði. Hann átti einnig Sleipni VE og var eigandi að Vestmannaey VE 54, sem hann lét smíða í Japan í samstarfi við útgerð Bergs VE.
Guðmundur Ingi sat í stjórn Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, FIVE, Tangans og kom að fleiri fyrirtækjum tengdum sjávarútvegi.
Guðmundur eignaðist barn með Kristjönu 1953.
Þau Kristín giftu sig 1959, eignuðust fjögur börn. Þau bjuggu á Grímsstöðum við Skólaveg 27 við fæðingu Guðmundar Hugins, Bryndísar Önnu og Páls Þórs, bjuggu á Kirkjubæjarbraut 10 við fæðingu Gylfa Viðars 1964 og við Gosið í janúar 1973. Þau bjuggu síðar við Hrauntún 48 og við Bessahraun 11b.
Guðmundur Ingi lést 2006 og Kristín 2014.

I. Barnsmóðir Guðmundar Inga var Kristjana Lilja Kristinsdóttir, f. 1. október 1929, d. 13. febrúar 2012.
Barn þeirra:
1. Kristinn Guðbjartur Guðmundsson, f. 11. nóvember 1953.

II. Kona Guðmundar Inga, (17. maí 1959), var Kristín Pálsdóttir frá Þingholti, húsfreyja, f. 5. maí 1933, d. 2. maí 2014.
Börn þeirra:
2. Guðmundur Huginn Guðmundsson skipstjóri, f. 29. maí 1960. Kona hans Þórunn Gísladóttir.
3. Bryndís Anna Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 26. maí 1961 á Grímsstöðum. Maður hennar Grímur Gíslason.
4. Páll Þór Guðmundsson útgerðarstjóri, f. 29. janúar 1963. Kona hans Rut Haraldsdóttir.
5. Gylfi Viðar Guðmundsson skipstjóri, f. 31. ágúst 1964. Sambúðarkona Sólrún Erla Gunnarsdóttir.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Bergsætt II. útgáfa. Guðni Jónsson 1966.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1972.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1979.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 24. júní 2006. Minning.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.