Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1985/ Endurminningar frá öðrum og þriðja tug aldarinnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum:


Endurminningar frá öðrum og þriðja tug aldarinnar


Friðfinnur Finnsson.
Endurminningin merlar æ
í mánasilfri hvað sem var.
Yfir hið liðna bregður blæ
blikandi fjarlægðar.
- Grímur Thomsen.

Mig langar að byrja þessar línur á því að lýsa andrúmsloftinu sem var fyrir ofan Hraun á þessum árum. Þá voru tíu bæir í byggð, en nú eru þar aðeins sex, fjórir komnir í eyði.
Á þessum bæjum var mikið og gott samfélag. Fólkið var einstaklega samrýnt á allan hátt, enda átti það margt sameiginlegt. Allir bændurnir áttu ítök í úteyjunum Bjarnarey og Elliðaey. Sumur voru notuð til fuglatekju, sem var mikið búsílag. Fýll og súla voru tekin um 20. ágúst. Súlan var sótt í Súlnasker.
Bændurnir fyrir ofan Hraun áttu fjögur róðrarskip í Klaufinni, norðan Stórhöfða. Sóknarpresturinn, séra Oddgeir Gudmundssen, átti róðrarskip, og sótti hann sjóinn með sonum sínum og fleiri. Þessir róðrar gáfu oft mikla björg í bú.
Samvinna og vinátta var í einu og öllu og bjartar minningar á ég frá þessum árum, sem bera birtu yfir það, sem gat valdið sársauka. Ekki er að óttast sársaukann, ef hann skilur ekki eftir lífsgremju. Það er ég sannarlega laus við.
Unglingar, sem ólust upp í svona litlu hverfi, eins og á Ofanbyggjarabæjunum, tengjast vináttuböndum, sem vara alla ævi. Tengsl mín voru mest við þrjá drengi, æskuvini og félaga. Það voru þeir Sigurgeir Jónsson í Suðurgarði, Jón Guðjónsson í Þorlaugargerði og Páll Scheving Sveinsson á Steinsstöðum. Jón var mikið lipurmenni, bátasmiður um áratugi og hafði búskap og skepnur, drengur góður í hvívetna. Páll er einn kunnasti borgari Eyjanna og stóð framarlega í félagsmálum þeirra, sat lengi í bæjarstjórn og lagði góðum málum lið svo um munaði. Mest vorum við saman við Sigurgeir. Fóstri minn, Sigurður í Brekkuhúsi, Jón í Suðurgarði og Sigurður í Vestra-Norðurgarði, áttu róðrarskip saman í Klaufinni. Tólf sumur rérum við saman á bátnum, Sigurgeir og ég. Önnur tólf sumur vorum við saman við fuglaveiðar og eggjatöku í Bjarnarey. Einnig fórum við mikið í aðrar eyjar.

Sigurgeir Jónsson Suðurgarði, talinn mesti fjallamaður Eyjanna.

Æskuheimili Sigurgeirs mótaði hann við þjóðlegar lífsvenjur og kristna trú, helgihald og trúarsiði. Þetta voru honum allt helgir dómar. Hann söng í kirkjukór Landakirkju. Segja mátti að í Suðurgarði væri miðstöð fyrir okkur unglingana, sem vorum að alast upp á þessum árum. Jón og Ingibjörg, húsbóndinn og húsfreyjan, sýndu okkur góðvild, og eins systkinin fjögur, Jóhann, Margrét. Sigurgeir og Guðrún sem voru einstaklega félagslynd og góð við okkur hin leiksystkini sín. Í Suðurgarði var orgel, og lék húsfaðirinn á það, svo og Sigurgeir og Margrét. Í stofunni var mikið sungið og stundum rúmaði hún ekki alla. Þá voru opnaðir gluggar og þeir sem úti voru sungu með af hjartans list. Þjóðrækni, og það sem þjóð okkar kom að gagni, var okkur innrætt og að sjá sjálfum okkur farborða. Það var nauðsyn fyrir þjóðarheildina að flestir einstaklingar væru efnalega sjálfstæðir. Þegar við krakkarnir vorum komin vel á legg, stunduðum við ýmsa leiki og þá sérlega langbolta. Hann var leikinn í Ofanleitistúninu, vesturtúninu þar við hól. Vorum við í þessum leik allt fram yfir tvítugt. Stundum kom presturinn, séra Oddgeir, til okkar, og settist neðan til við hólinn og horfði á leik okkar. Oft endaði heimsóknin með því að allur strákahópurinn settist í kringum prestinn. Vanalega talaði hann þá og fræddi okkur um það sem að gagni mætti verða. Öll ættum við skuld að gjalda við fósturjörð okkar og stefnumiðið skyldi vera að bæta hana, hver um sig á sínu afmarkaða svæði, hlýða lögum lands okkar og vinna að heill til betri vegar, tilbúin að verða til hjálpar, þar sem við sæjum ólæknað mein, skilja hver við þann reit er okkur var trúað fyrir betur ræktaðan en þá er við tókum við honum.
Flest er skammt á veg komið hjá íslenskri þjóð. Skyldur hvíla því á hverjum Íslendingi að standa sig. Menning okkar er það eina sem veitir þjóð okkar virðingu meðal annarra þjóða. Eitt sinn sagði Oddgeir prestur við okkur drengina: „Munið það að svo er Guði fyrir að þakka, að okkur verður ekki skipað að ganga út í styrjaldir og deyja. En við megum aldrei gleyma því að lifa fyrir föðurlandið.“
Séra Oddgeir var fermingarfaðir okkar drengjanna, sem þarna vorum að leik. Fátt mun honum hafa verið jafn hugleikið sem að leiðbeina æskufólki. Við fermingarbörnin fundum vel að við áttum í honum kærleiksríkan vin er allt vildi fyrir okkur gera.
Ég hef oft hugsað um hvort æskunni væri nokkuð betra, en að alast upp á sveitaheimili, þar sem enginn er óvirkur áhorfandi, en allir í náinni snertingu við landið, gróðurinn, dýrin og lífið sjálft.

Prestssetrið Ofanleiti.

Aðsókn í Súlnasker árið 1922
Ég var að hugsa um þessa ferð mína í fyrra, þegar ég flaug til Eyja í maímánuði á 22 mínútum. Síðan til baka með Herjólfi til Þorlákshafnar á 3½ klukkustund. Mikill er munurinn. Ferð þessi var farin seint í ágúst og tengist ferð til Reykjavíkur sama haust.
Við vorum margir æskufélagar og leikbræður í þessari ferð. Sigurgeir Jónsson frá Suðurgarði var þarna með, og var honum treyst af öllum. Veiða átti súlu og fýl. Átta menn fóru upp bjargið og upp á eyjuna. Fjórir voru í árabátnum til að hirða fuglinn og fjórir voru í mótorbátnum, og tíndu einnig upp fugla. Þessar ferðir voru árvissar. Allt gekk vel fram eftir degi, en þá fór að hvessa á austan og leiðið búið um leið við steðjann sem við lögðum að upp í eyna. Við lukum verki okkar við veiðina, fleygðum henni fram af bjargbrúninni og í sjóinn. Síðan fórum við suður á eynna, þar er 30 faðma hátt berg. Vanir menn fóru ofan á lærvað, en aðrir voru bundnir. Þegar niður á flána var komið, var orðinn mikill áhlaðningur af sjó og vindi. Þaðan varð að koma sér í skjögtbátinn. Mikið af fugli var hafður í skut bátsins, svo mýkra væri fyrir fjallamennina að stökkva þar niður. Allt gekk vel, enda þrautþjálfaðir og hugaðir menn. Nú var Sigurgeir einn eftir og bandlaus. Hann klifraði niður flána bandlaus, og tók af sér skóna. Við lag stökk hann niður í bátinn og lánaðist honum það mjög vel. Sigurgeir Jónsson var einn af fræknustu bjargmönnum Eyjanna, fyrr og síðar. Um borð í mótorbátnum beið okkar heitt kaffi, sem var vel þegið og gerð góð skil. Undir borðum var talað um að setja þyrfti bolta á flána, svo allir gætu stuðst við band. Þetta var nánast neyðarvegur.
Sumarið eftir útveguðum við Sigurgeir okkur bolta, grjótbor og slaghamar. Tilgangurinn var, þegar góðar aðstæður leyfðu, að setja boltann á flána í Súlnaskeri. Best var að gera þetta um leið og við rerum úr Klaufinni í suðursjóinn, og það gerðum við. Við fiskuðum vel þann dag. Aflann fengum við við Súlnaskersklakkinn. Settum í tvær flakandi stórlúður. Það var nú aldeilis búsílag.

Sjóferð til Reykjavíkur 1922
Þetta var í októbermánuði. Við Sigurgeir höfðum ákveðið að fara til Reykjavíkur. Seinni part dags fórum við með uppskipunarbátnum út á Vík. Þar lá farkosturinn, Botnía, skip frá Sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn. Ferðir þess voru þaðan til Reykjavíkur, með viðkomu í Eyjum í báðum ferðum. Þetta skip var mikið notað af Eyjamönnum. Þá var minna ferðast en nú til dags. Í þessari ferð voru nokkrir Eyjamenn og túristar sem komu erlendis frá til Íslands. Man ég eftir tveim mönnum er þarna voru um borð. Jóni Hinrikssyni kaupfélagsstjóra í Fram í Eyjum og Gísla Magnússyni útgerðarmanni, en Jón Hinriksson gekk í það að búið væri um Eyjamenn í borðsal skipsins. Það fór vel um okkur um nóttina og allir voru innilega þakklátir Jóni fyrir að hafa komið þessu í kring. Jón var einstakur dugnaðar- og heiðursmaður og allt hans fólk. Hann gerði það ekki endasleppt við okkur Sigurgeir, því þegar við vorum komnir í land og vorum að líta í kringum okkur á bryggjukantinum, vissum við ekki fyrr en Jón kemur til okkar og spyr hvort við séum ekki að fara upp í bæ. Við svöruðum því játandi: „Komið þá með mér, ég fæ bíl.“ Lét hann keyra okkur þangað sem við ætluðum að gista. Ég ætlaði að gista á Hverfisgötu 70, en þar bjó vinafólk móður minnar. Okkur var þar vel tekið og boðið að dveljast þar þá daga, sem við ætluðum að vera i bænum. Við heimsóttum kunningja Sigurgeirs, sem bjuggu á Grettisgötu. Þar var okkur einnig sýnd gestrisni og boðið að koma þar þegar við vildum. Þetta fólk bauð okkur til Hafnarfjarðar og sýndi okkur einstaka góðvild.

Friðfinnur. Myndin tekin 1922 í Bjarnarey.

Hvorugur okkar Sigurgeirs hafði áður komið í höfuðstaðinn og fannst okkur margt nýstárlegt, eins og við var að búast úr fámenninu í Eyjum. Við vorum fimm daga í Reykjavík og fórum víða um. Þá var öðruvísi um að litast en nú. Þótti okkur gaman að skoða í búðarglugga, en þar var allt stærra í sniðum en heima. Við gengum fram með höfninni og þótti okkur stórkostlegt að sjá úthafsskip leggjast að uppfyllingunni. Brutum við heilann um hvort ekki væri hægt að gera svona höfn í Eyjum. Í Hafnarfirði átti ég móðurbróður og heimsóttum við hann og tók hann okkur mjög vel. Mamma mín hafði ekki séð hann í 40 ár.
Fórum við nú að hugsa til heimferðar og keyptum okkur farmiða með Goðafossi. Farið var af stað um kvöld frá Reykjavík. Við Sigurgeir vorum í sama klefa, og vorum við syngjandi sælir og glaðir og sofnuðum fljótlega.
Við vöknuðum um nóttina við ferlegan velting á skipinu. Komið var fyrir Reykjanes og austan stórviðri beint á móti. Á þessu gekk alla nóttina og um morguninn sást hvergi land, en stórviðrið hélst. Um miðjan dag sáum við loks Súlnasker á bakborða. Skipstjóri hafði farið djúpleiðina. Veðrið gekk niður og tók skipið stefnu á Heimaey og inn á Vík. Mikil alda var þar og sýndist okkur ekki mundu vera hægt að afgreiða skipið í þessum ólátum. Kom þá mótorbátur út á Víkina. Þetta var Þór. skipstjóri Sigurjón í Brekkuhúsi, uppeldisbróðir minn og veiðifélagi okkar Sigurgeirs úr Bjarnarey. Við vorum sammála um það, að lítið verra væri að stökkva niður í Þór, en úr Súlnaskeri þá um sumarið. Þór nálgaðist Goðafoss og bentum við Sigurjóni að koma að skipinu. Opnuðum við hurð á lunningu skipsins og þegar Þór kom að henti Sigurgeir sér niður og fór það vel. Kastaði ég til hans töskunum og hoppaði svo á eftir, en Sigurgeir tók á móti mér með mikilli ánægju. „Þetta tókst ágætlega,“ sagði hann. Í því að ég hoppaði niður heyrði ég feitan karl hrópa: „Eru þetta vitlausir menn?“ Sáum við að Gísli Magnússon fór að tala við hann, en Sigurjón setti á fulla ferð til lands. „Ekki hefði ég lagt að skipinu fyrir nokkurn mann nema ykkur. Ég vissi að þið voruð öruggir.“ Þetta gat verið stórhættulegt, eins og allir geta skilið, en allt fór vel. Skin var aðeins milli skúra. Rokhvessti hann aftur á austan og fór Goðafoss inn fyrir Eiðið. Fékk hann afgreiðslu um miðjan dag daginn eftir. Við þökkuðum Sigurjóni og félögum hans fyrir stóran greiða. Héldum við heim á tveim jafnfljótum, þá var ekki mikið um bíla í Eyjum. Þegar við komum að Landakirkju fórum við að dyrum hennar. Þökkuðum við skaparanum fyrir giftusamlega ferð. Hún fór vel frá byrjun til enda.
Síðast heimsótti Sigurgeir mig að Oddgeirshólum 30. maí 1935. Þá var hann að fara í Bjarnarey til eggjatöku. Þegar við kvöddumst á stéttinni sagði hann: „Það er verst að þú getur ekki komið með okkur í eggin núna“. Það var mér ómögulegt. Ég var kafari og var bundinn við skyldustörf. Sama dag hrapaði Sigurgeir í Bjarnarey. Þá varð myrkur um miðjan dag í Eyjum. Sigurgeir var með afbrigðum vinsæll maður. Hann var einn af ágætustu mönnum er ég hef kynnst um dagana. Ekki er ofmælt að þá hafi Eyjarnar misst einn af sínum fremstu og bestu sonum.