Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Beðið eftir pabba

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Kristinn V. Pálsson


Beðið eftir pabba


Þetta var skömmu fyrir páska. Það hafði legið lengi í hægri sunnanátt og bátar róið dag hvern og aflast vel. En nú voru veðrabreytingar í aðsigi.
Á austurloftinu voru að hrannast upp gráir, þykkir skýjabakkar og það var byrjað að hvessa. Síðla dags voru bátar byrjaðir að koma að landi. Einn af öðrum renndu þeir að, ýmist að Básaskers- eða Bæjarbryggju. Sumir voru fljótir að landa og fóru með báta sína út á ból og áhafnirnar síðan sóttar á árabátum sem oftast voru geymdir í Skildingafjöru.
Austan undir Tangahúsunum hímdi lítill drengur. Augu hans fylgdust með hverjum bát, sem að landi bar, en svipbrigðalaust. Þó var að sjá eftirvæntingu í svipnum. Stórar öldur brutust yfir hafnargarðana og vindurinn hreif frussið með sér og andlit drengsins varð vott af seltunni. En hann tók ekki eftir því. Það var byrjað að húma að kveldi og ljós bátanna virtust lítil og vanmegnug í slíkum sjávargangi.
Eftir hverjum ert þú að bíða, ljúfurinn? var sagt við hlið drengsins. Eldri maður stóð þar og horfði á drenginn.
Ég er að bíða eftir pabba mínum.
Jæja, vinur. Á hvaða bát er hann? spurði maðurinn.
Höfrungi, var svarað.
Nú, já, með honum Lauga. Hann hlýtur að fara að koma að landi, það eru svo fáir bátar ókomnir að.
Svo horfði maðurinn út á Víkina. Veðurbarið andlitið bar þess merki að hann hafði stundað sjómennsku. Eftir drykklanga stund sagði hann: Ég held að hann sé að hvessa. Svo fór hann.
Drengnum var orðið hrollkalt, og eins og hann hafði séð pabba sinn gera barði hann sér til hita. Nú var komið myrkur og ekkert ljós að sjá á Víkinni, nema blikk vitanna.
Hann rölti, því austur fjörukantinn. Undir norðurhlið Geirseyrar, gamals timburhúss, hímdu nokkrir karlar, sem sögðu honum að Höfrungur væri eini báturinn sem ókominn væri að landi.
Hjarta drengsins herptist saman og kökkur í hálsi gerði honum erfitt um mál.
Tárin runnu niður vangana og hann sagði með grátstaf í kverkum: Góði guð, hjálpaðu bátnum heim. Hann hljóp við fót. Nú veitti hann ekki neina athygli skuggalegu sundinu framhjá Kornhól. Nú var hann kominn austur á Skans, og undir hleðslu gamla virkisins rýndi hann út í sortann.
Hafrót. Hvergi ljós að sjá. Hafsins þungi niður nísti huga drengsins, er öldurnar skullu á Ystakletti. Einhverstaðar úti í hafi var bátur að berjast heim. Menn, sem áttu konur og böm, sem biðu í von og ótta.
En hvað var þetta? Var ekki ljós að sjá vestur undir Bjarnarey?
Dauft ljós nálgaðist, hvarf og birtist aftur og svo skýrðist það. Bátur kom í ljós. Fagnaðarbylgja leið um hjarta litla drengsins. Það var ekki um að villast, þetta var Höfrungur. Pabbi var að koma.

Kristinn V. Pálsson