Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Menntun sjómanns

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Menntun sjómanna


Æfing i meðferð gúmbjörgunarbáta í sundhölinni.

Stýrimannaskólinn

Starfi skólaársins 1977-1978 lauk með skólaslitum 27. maí í fyrra. Sökum þess að Sjómannadagsblað Vestmannaeyja var farið í prentun þá, var ekki unnt að birta úrslit og einkunnir nemenda 2. stigs. Er það því gert nú. 14 nemendur gengu undir próf og stóðust þeir allir prófið.
Hæstu einkunnir fara hér á eftir:
1.Sævar Sveinsson, Ve 9.17 ágætiseink.
2.Jónas Jóhanns, Þórsh. 8.55 I eink.
3.Árni Kristinsson, Hrísey 8.36 I eink.

Þess má geta, að dúxinn Sævar Sveinsson hefur í vetur stundað nám í 3. stigi Stýrimannaskólans í Reykjavík.
Í vetur stunduðu 27 nemendur nám við skólann, 17 við 1. stig og 10 við 2. stig. Námi við 1. stig lauk 12. apríl með afhendingu prófskírteina. 16 nemendur gengu undir próf og urðu þessir hæstir:
1.Guðjón Guðjónsson Vopnaf. 9.44 Ágætiseink.
2.Sigurður Másson Rvk. 7.88 I eink.
3.Birgir Sverrisson Ve. 7.81 I eink.

Stýrimannaskólanum var svo slitið 19. maí s.l. og þá afhent prófskírteini II. stigs.
Þessir urðu efstir:
1.Róbert Guðfinnsson, Siglufirði 9,07, I. eink.
2.Magnús Kr. Sigurðsson, Vestm. 8,12, I. eink.
3.Ragnar Eyjólfsson, Vestm. 7,88, I. eink.

Nemendur skólans um borð í Ægi.

Starfið í vetur hefur verið í aðalatriðum svipað og var á síðasta vetri. Auk skólastjóra Friðriks Ásmundssonar hafa tveir fastir kennarar verið við skólann, þeir bræður Gísli og Snorri Óskarssynir. Þá hafa þessir aðilar séð um stundakennslu í vetur: Brynjólfur Jónatansson, Guðjón Magnússon, Guðný Gunnlaugsdóttir, Hallgrímur Þórðarson, Ingólfur Theódórsson, Jón Hauksson, Kristinn Sigurðsson, Kristján Jóhannesson, Ólafur Jónsson, Sævaldur Elíasson. Auk þess hafa læknar bæjarins séð um kennslu í heilsufræði og hjálp í viðlögum.
Meðal þess, sem gert var í vetur utan hins venjubundna náms má nefna, að nemendur fóru í heimsókn í Byggðarsafnið. Hin árlega heimsókn var farin í Stórhöfða. Farið var í heimsókn um borð í ný fiskiskip, m.a. í Breka, þegar hann kom úr viðgerð. Þá fóru nemendur 2. stigs að venju til Reykjavíkur og tóku próf í ratsjárútsetningu (plotti) undir handleiðslu Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar fyrrv. skólastjóra. Stóðust þeir allir prófið með prýði.
Einnig voru nemendur um borð í Ægi í hálfan annan sólarhring um miðjan mars, en slíkt er einnig árviss atburður í skólastarfinu.
Allmargir aðilar komu og héldu erindi í skólanum. Þeir Hilmar Rósmundsson og Sigurgeir Ólafsson héldu báðir erindi um störf skipstjórnarmanna og reynslu sína í þeim efnum. Þórhallur Hálfdánarson starfsmaður Rannsóknarnefndar sjóslysa hélt einnig erindi um störf nefndarinnar. Jakob Jakobsson fiskifræðingur kom og flutti fyrirlestur og svaraði spurningum nemenda. Eyjólfur Pétursson skipstjóri á Vestmannaey sýndi kvikmynd og sagði frá ferð til Simrad-verksmiðjanna í Noregi.
Þá var upptekið það nýmæli í vetur í kennslu, að hafa stutt námskeið í froskköfun fyrir nemendur og sá Vilhjálmur Sigurðsson um það. Er fyrirhugað að halda þessum þætti áfram.

Guðni Hermansen færði skólanum að gjöf mynd sína „Eftir gosið".
Fyrrverandi og núverandi skólastjóri bera saman bækur sínar á árshátíð í vetur.

Margar góðar gjafir bárust skólanum á árinu. Hannes Tómasson frá Höfn gaf skólanum oktant, sem faðir hans Tómas í Höfn keypti í Hamborg árið 1920. Hannes hefur um árabil verið skipstjóri hjá Sambandinu. Gamall nemandi skólans, Kristján B Laxfoss gaf skólanum forláta mikinn morse-lampa til notkunar við kennslu.
Guðni Hermannsen listmálari gaf skólanum mynd sína „Eftir gosið". Það skemmtilega við mynd þessa er það, að hún er máluð árið 1972 eða fyrir gos og hafa margir átt erfitt með að kyngja þeirri staðreynd. Bátábyrgðarfélagið og Lifrasamlagið gáfu á árinu kr. 200 þús. hvort félag í styrktarsjóð nemenda, sem ber nafn Áslaugar og Guðmundar í Miðbæ og var stofnaður af sonum þeirra hjóna, Birni og Tryggva árið 1964.
Þá skal getið gjafar Tryggingarmiðstöðvarinnar, sem gaf skólanum öll fiskileitar og siglingartæki úr Breka, sem í skipinu voru fyrir brunann. Er nú unnið að hreinsun og viðgerð þessara tækja. Skólinn vill þakka öllum þeim aðilum, sem sýnt hafa skólanum vinarhug með gjöfum sínum og öðru framlagi og með því hjálpað til að efla skólann og það starf sem þar er unnið.
Nemendur, utan að landi, sem stundað hafa nám við skólann hafa búið í heimavistinni í Heimi, ásamt vélskólanemendum og er öll aðstaða þar hin besta. Er það ómetanlegt fyrir skólann að geta boðið uppá slíka aðstöðu fyrir þá nemendur, sem ekki eru heimilisfastir hér.
Nemendur skólans hafa margt gert utan skólanámsins, t.d. hafa þeir farið í útskipanir á mjöli hjá F.I.V.E. og haft drjúgan skilding upp úr krafsinu. Er það mikill ávinningur hjá skólanemendum að geta haft slíka tekjumöguleika með námi sínu og hefur áreiðanlega létt undir með mörgum þeirra. Þá gengu nemendur um bæinn eina helgi og söfnuðu fé meðal bæjarbúa fyrir minnismerki um „Gamla Þór" og varð vel ágengt.
Árshátíð skólans var að vanda haldin í janúar og fór hún mjög vel fram og var fjölsótt.
Það er vissulega ánægjulegt, að aðsókn að skólanum fer vaxandi, enda gefur þessi skóli Stýrimannaskólanum í Reykjavík lítið orðið eftir með aðstöðu til að útskrifa skipstjórnarmenn. Þá er það einnig akkur fyrir byggðarlagið að hafa slíkan skóla hér, þannig að nemendur þurfi ekki að leita úr fyrir sína heimabyggð eftirmenntun. Aðsókn bæði heimamanna og einnig nemenda utan af landi sýnir það einnig og sannar, að þessi skóli á fyllilega rétt á sér.

Vélskólinn
Vélskóli Íslands, Vestmannaeyjum var að þessu sinni settur þann 12. september '78 og voru 6 nemendur innritaðir í 1. stig og 5 nemendur í 2. stig. Skólaárið skiptist í tvær annir, haustönn og vorönn. Skólaslit fóru fram 12. maí '79. Allir nemendur 2. stigs stóðust bæði haustannir og vorannapróf og öðlast því réttindi til að stjórna 1000 ha vél eftir tilskilinn reynslutíma.
Verðlaun voru veitt fyrir bestan árangur í vélfræðigreinum. Er það Magnaúrið svokallaða og er það gefið af Vélsmiðjunni Magna h/f. Þessi verðlaun hlaut Böðvar H Jónsson, sem var með 8,5 í meðaleinkunn í vélfræðigreinum.
Hæstu aðaleinkunn hlaut Jóhann Heiðmundsson 7,4. Nemendur í 1. stigi hafa verið 4 á vorönnum og náðu 3 réttindaprófi. Hæstu aðaleinkunn í 1. stigi hlaut Hermann Haraldsson 8,8. Fyrir þennan árangur hlaut hann í verðlaun pennasett gefið af Vélstjórafélaginu í Vestmannaeyjum. Þær breytingar urðu á stjórnunarhlið skólans að Lýður Brynjólfsson hætti sem skólastjóri Iðnskólans, en sem kunnugt er hefur Vélskólinn starfað undir stjórn Iðnskólans frá '75.
Vil ég fyrir hönd skólans þakka Lýð Brynjólfssyni fyrir frábært samstarf, lipurð og góðan vilja til að nám og aðstaða Vélskólans verði sem best. Í hans stað kom Kristján Þór Kristjánsson véltæknifræðingur, að vísu kallaður deildarstjóri en gegnir sömu störfum og skólastjóri. Er það mikill fengur fyrir skólann að fá mann með þessa menntun og starfsreynslu.
Kennarar við skólann í vetur voru þessir: Kristján Jóhannsson kenndi vélfræði I og II, rafmagnsfræði og efnafræði.
Snorri Óskarsson kenndi dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði II hjá I stigi. Baldur Böðvarsson kenndi rafeindafræði.
Halldór Ingi Guðmundsson kenndi verklega rafmagnsfræði.
Hrafn Steindórsson kenndi smíðar og suðu.
Vilhjálmur Sigurðsson kenndi verklega vélfræði, en varð að hætta kennslu vegna anna og tók Guðni Benediktsson við af honum.
Kristinn Sigurrðsson kenndi eldvarnir og meðferð slökkvi- og reykköfunartækja.
Enska, danska, íslenska og stærðfræði I voru kenndar 1. stigs nemendum við framhaldsdeildir Gagnfræðaskólans, en þau fög eru ekki kennd samkvæmt námsskrá Vélskólans.

Frá skólaslitum Vélskóla Vestmannaeyja 1979, Kristján Guðmundsson afhendir Magnaúrið, Böðvari H. Jónssyni sem hlaut hæstu einkunn á brottfaraprófi.

Námskeið í skyndihjálp önnuðust Daði Garðarsson og Ólafur Lárusson.
Að auki voru haldnir fyrirlestrar af sérfræðingum í nokkrum greinum. Farið var í kynnisferðir í dælustöð Fjarhitunar, Rafveituna, frystisal Fiskiðjunnar og vélarúm Herjólfs.
Á hverjum stað svöruðu fróðustu menn spurningum nemenda og kennara. Svona kynnis og námsferðir eru mjög gagnlegar og leiða til betri skilnings á því sem er að gerast. Kann skólinn þeim sem aðstoðuðu við þetta bestu þakkir fyrir. Breytingar hafa verið litlar á tækjakosti skólans í vetur. Lagt hefur verið við kælikerfi fyrir dísilvélar í vélasal, en því verki er ekki alveg lokið. Að öðru leyti hefur skólastarfið gengið með ágætum, en breytingar eru örar og hefur skólinn engan veginn við að fylgjast með þeim og eru ábendingar um það sem betur má fara vel þegnar.
Kristján Jóhannsson.
Kennari.