Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Um siglingu vélbáta frá útlöndum
ÞEGAR BORIN eru saman siglingatæki nútímans og þau tæki, sem skipstjórnarmenn urðu að notast við á fyrstu tugum aldarinnar, má telja það mildi, að ekki urðu oftar en raun varð á slys í þessum ferðum, er litlum mótorbátum var siglt yfir hafið á öllum árstíðum.
Siglingatækið, sem mest var treyst á, var kompásinn og svo var það sextantinn til að taka með sólarhæðina og finna nákvæma breidd skipsins. En æði oft kom það fyrir, að ekki sá til sólar dögum saman og því ekki hægt að nota sextantinn.
Vegmæli (logg) höfðu allir, og margir höfðu einnig skriðmæli (spjaldlogg), sem notaður var stöku sinnum til að bera saman við vegmælinn, ef honum var ekki að fullu treyst.
Svo var það djúplóðið til að mæla dýpið og kanna botnlagið. Djúplóðið var blýsakka, um 35 cm löng og 5 til 7 kg að þyngd. Það var sívalt. Í efri enda þess var auga, sem lóðlínunni var hnýtt í. Neðri endi djúplóðsins var nokkuð gildari, og á botni lóðsins var hola um 2-3 cm í hringmál og álíka að dýpt. Var látin þykk feiti, smjörlíki, tólg eða koppafeiti í holuna til að fá sýnishorn af botnlaginu, þegar lóðað var. Djúplóðið var eitt af skyldufargögnum vélbátanna hér, þar til dýptarmælarnir voru settir í alla báta.
Á þessum siglingum yfir hafíð voru seglin mikið notuð, því að alltaf var siglt, þegar vindur var hagstæður. Um marga skipstjórnarmenn þessara báta mátti með sanni segja í bókstaflegri og upprunalegri merkingu orðanna, að þeir kunnu að haga seglum eftir vindi. Enda höfðu margir þeirra lært sína sjómennsku á áraskipum og seglskútum.
Það telst svo til, að frá því að mb. Knörr, um 14 tonn að stærð, kom hingað til Eyja 5. september 1905 og fram til ársins 1939, hafi verið siglt hingað 46 fiskibátum á 34 árum. Frá Danmörku var 27 þessara báta siglt, 12 frá Noregi, 5 frá Færeyjum og 2 frá Svíþjóð.
Stærð bátanna var:
2 | bátanna voru undir | 11 | rúmlestum |
15 | þeirra voru | 12-25 | rúmlestir |
23 | bátanna voru | 15-25 | rúmlestir |
4 | -- || -- | 25-30 | rúmlestir |
2 | -- || -- | 38-40 | rúmlestir |
Af þessari upptalningu sést, að ekki hafa þetta verið stórir farkostir á nútíma mælikvarða, en margir þessara báta voru mjög góð sjóskip, þegar í vont var komið og flestir, sem þeim stýrðu, kunnu vel til verka að leggja bátunum til á seglum og verja þá áföllum í veðrum og stórsjó.
Um og eftir 1939 fara að koma hingað stærri bátar, því að þá hafði höfnin hér verið stórbætt með dýpkun, bryggjum til fisklöndunar og fleiri þægindum. Þá voru og siglinga- og öryggistæki orðin fullkomnari, allir bátar þá raflýstir og með talstöð.
Ég, sem þetta skrifa, man vel eftir því, þegar Sigurður Sigurfinnsson hreppstjóri kom hingað með Knörrinn frá Friðrikshöfn í Danmörku. Þá var hér austan steitingsstormur, og varð báturinn að bíða nokkuð eftir háum sjó til að komast inn Leiðina og í höfn á Stórskipaleguna. Hélt báturinn sér við á seglum hér skammt austur af
Eyjum með því að taka stutta slagi norður og suður á. Fylgdumst við „uppbæjar“ strákar og fleiri náið með ferðum bátsins. Þá er mér sérstaklega minnisstætt, þegar faðir minn las upphátt, eins og þá var venja um markverðar blaðafréttir, ferðásögu bátsins yfir hafið og heim til Eyja. Sigurður skrifaði þá ferðalýsingu sjálfur, því að hann var mjög vel ritfær maður og skrifaði margar greinar í fréttablöð og tímarit, oft undir dulnefninu „Sæfinnur á Öldu“.
Einkum var mér minnisstætt úr greininni, sem ég var heillaður af, að Sigurði þótti ekki gott eða þægilegt að vera á hnjánum á mótorhúsgólfinu til að slétta þar úr sjókortinu til að taka út stefnur og vegalengdir við olíuluktartýru í haugasjó og veltingi.
Sigurður hreppstjóri var talinn atkvæða sjómaður og þaulreyndur skipstjórnarmaður á hákarlajöktum og áraskipum. Hann hafði lesið sér til og lært nokkuð í skipstjórnarfræðum hjá hákarlajaktar skipstjórunum Jósef Valdasyni, Fagurlyst og Páli „kapteini“, sem svo var ávallt nefndur hér. Hann var föðurbróðir sr. Sigurjóns Árnasonar og fórst með hákarlajaktinni Jósefínu, sem hann var þá skipstjóri á.
Þegar Sigurður sigldi mb. Knörr hingað, var þriggja manna áhöfn á bátnum. Símon Egilsson frá Miðey var mótoristi. Í bátnum var einföld 8 hestafla Dan-vél, sem var algjörlega ónóg í svo stótan bát, sem var með mjög háu, föstu mastri. Þriðji maðurinn á bátnum var frá Noregi, Förland að nafni. Hann dvaldist hér margar vertíðir eftir þetta og var formaður 4 eða 5 vertíðir. Förland hóf hér þorskanetaveiðar með góðum árangri vertíðina 1913 á mb. Skeið VE 78, sem var 8,42 tonn að stærð. Hann gerði áfram út með þorskanet vertíðina 1914 og 1915, og var hann þá sá eini, sem gerði hér út með þorskanet. Vetrarvertíðina 1916 hófu fjórir Eyjabátar veiðar með þorskanet. Eftir þá vertíð verða þorskanetaveiðar við Vestmannaeyjar almennar. Sigurður hreppstjóri smíðaði sjálfur vélbátinn Skeið upp úr samnefndu áraskipi árið 1908, eftir að hann hafði selt Knörrinn.
Sigurður hreppstjóri var hér fyrsti maður, sem kenndi mótorbátaformönnum til skipstjórnar. Var þetta gert að kröfu Bátaábyrgðarfélagsins frá 3. janúar 1910, en kröfur hins opinbera til siglingafræðikunnáttu bátaformanna voru þá litlar sem engar. Kennsla varaðallega fólgin í að kynna formönnum hinar almennu sjóferðareglur og að þekkja og nefna heilu strik áccavicans.
Einn af þeim bátum, sem siglt var hingað til Eyja, var mældur undir 10 tonnum. Það var mb. Fálki VE 105, sem var 9,81 tonn að stærð með 10 hestafla Hoffmannsmótor. Fálkinn kom til Eyja um haustið 1906, og varð ferð hans yfir hafið allsöguleg.
Fálkanum sigldu hingað tveir Norðmenn, ásamt Tómasi Guðjónssyni í Sjólyst (síðar Höfn), sem var mótoristi og átti 1/10 hlut í bátnum. Þeir hrepptu hörð og mótdræg veður á hafinu, svo að þeir voru rúmar þrjár vikur á leiðinni til Vestmannaeyja frá Noregi.
Þeir höfðu fyrst landsýn af Suðausturlandinu og voru eftir það sex sólarhringa á siglingu til Eyja.
Það mátti víst heica, að þeir væru macarlausir síðuscu vikuna, og það hleraði Tómis af tali þeirra félaga, að ekki ætluðu þeir sér að verða hungurmorða á undan honum. Eftir að Tómas fékk grun um þetta, sofnaði hann helst ekki nema stutta stund í senn og hafði þá á sér sterkan andvara. Tómas í Höfn var merkur maður og drengur góður.
Næstminnsci báturinn, sem siglt var hingað til Eyja á þessum árum, var mb. Rán VE 190, sem smíðaður var í Færeyjum árið 1916 og var mældur 10,50 rúmtonn. Þennan bát átti Þorvaldur Guðjónsson frá Sandfelli, ásamt fleirum. Þorvaldur sigldi bátnum hingað. Með honum voru á bátnum Guðjón faðir hans, Ágúst Ingvarsson vélamaður og Eyjólfur Eyjólfsson, Eystri-Vesturhúsum, háseti.
Á leiðinni hingað hrepptu þeir aftaka veður, sem seinkaði ferð þeirra svo, að flestir töldu þá af. Þeir þóttu því úr helju heimtir, er þeir komu hér í höfn seint um kvöld og lögðust fyrir akkeri fram af Bæjarbryggjunni, því að lágsjávað var, svo að báturinn flaut ekki upp að bryggjunni. Þar stóð hópur fólks til að fagna komu þeirra. Þar á meðal séra Oddgeir sóknarprestur, sem mælti hátt og snjallt: „Heill og sæll úr hafi, Þorvaldur skipstjóri“, ásamt fleiri lofs- og þakkarorðum. Þetta mun hafa verið síðast í desember 1916.
Þeir Sandfellsfeðgar voru hér orðlagðir sjómenn á sinni tíð.
Í janúarmánuði 1934 átti kaupfélagið Bjarmi von á nýsmíðuðum báti frá Frederikssundi í Danmörku. Báturinn hér „Hjálmur“ og var 22 rúmlestir að stærð.
Þessi bátur fórst með allri áhöfn, þremur mönnum, við suðvesturströnd Noregs, skammt utan við innsiglinguna til Mandal.
Mennirnir þrír, sem fórust með bátnum, voru allir frá Frederikssundi. Þar fórst Willum, faðir Péturs Andersen á Sólbakka, ásamt yngsta syni sínum, Jörgen. Willum var afi þeirra velþekktu Andersen-bræðra hér í bæ.
Þessir sömu menn höfðu skömmu áður, í desember 1933, siglt hingað mb. Óðni VE 217. Ekki er kunnugt um, að fleiri slys hafi orðið við að sigla þessum litlu bátum frá útlöndum hingað til Vestmannaeyja. Á bátunum voru þriggja og fjögurra manna áhafnir.
Af þeim fyrrtöldu 46 bátum, sem hingað var siglt á þessum árum, munu Íslendingar hafa verið skipstjórar á 36 þeirra, Norðmenn á átta og Danir á tveimur.
Lúðvík N. Lúðvíksson skipstjóri mun hafa siglt flestum bátum hingað til Eyja, 11 alls, en tólfta og síðasta bátnum sigldi hann til Akraness. Var það mb. Hafþór, sem var 23 rúmlestir að stærð. Voru þeir 14 sólarhringa á leiðinni frá Frederikssundi á Sjálandi til Akraness, með viðdvöl í Færeyjum vegna veðurs.
Þrír ungir og góðir Eyjasjómenn voru með Lúðvík þessa ferð, þeir Jónas í Skuld, Kristinn á Sólvangi og Willum á Sólbakka. Þetta var um haustið 1930.
Fyrsti báturinn, sem Lúðvík sigldi hingað til Vestmannaeyja, var Skógafoss VE 236, sem var 13 rúmlestir að stærð. Var það um haustið 1920. En síðasti báturinn, sem hann stýrði hingað, var Mýrdælingur VE 283, sem var 16,50 rúmlestir að stærð og kom hingað haustið 1929. Það varð ein aika erfiðasta ferð Lúðvíks, þó að oft áður hefði gefið óspart á. Mýrdælingur fékk á sig brotsjó, sem braut inn stýrishúsburðina, svo að Lúðvík, sem þá stóð við stjórn, var á kafi í sjó. Hann sakaði þó ekki og slapp ómeiddur.
Hér fer á eftir stutt æviágrip þessa merka sjómanns í útgerðarsögu Vestmannaeyja.
Lúðvík Niels Lúðvíksson skipstjóri. Hann var fæddur á Djúpavogi 22. nóvember 1879, og þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum, Lúðvík Lúðvikssyni, síðar bónda á Karlsstöðum á Berufjarðarströnd og konu hans, Hansínu Jónsdóttur frá Borgarfirði.
Lúðvík hneigðist ungur að sjónum, og innan fermingaraldurs fór hann að róa með föður sínum á árabáti. Um tvítugsaldur réðst hann á kútter „Georg“ frá Reykjavík, til handfæraveiða. Frá þeim árum má lesa lofsverðan vitnisburð um sjómennsku hans og starfshæfni frá skipstjóra hans, Kolbeini Þorsteinssyni.
Lúðvík fór í Stýrimannaskólann í Reykjavík árið 1903 og lauk þaðan fiskimannaprófi árið 1904.
Að prófi loknu tók hann að sér skipstjórn á flutningaskipum og var um tíma með skip fyrir Björn Guðmundsson í Þórshöfn, en síðar, 1919, með Njál, sem var gamalt hákarlaveiðiskip og hafði allkraftmikla vél. Skipið var notað til vöru- og fólksflutninga til nærliggjandi fjarða og byggða við Ísafjarðardjúp, til Hornstranda og Húnaflóahafna.
Á Ísafirði og víðar var þá umtalað, hve sérstaklega góð umgengni og snyrtibragur væri á öllu um borð í Njáli.
Þegar Lúðvík hætti skipstjórn á Njáli, varð hann skipstjóri með vöruflutningaskipið Víola, sem var í förum milli Íslands og Englands. Víola var seglskip með hjálparvél. Eldur kom upp í skipinu við Englandsstrendur og varð óviðráðanlegur. Lúðvík tók þá það til ráðs að stýra skipinu stystu leið upp á ströndina, og þar var öllum mönnunum bjargað heitum á land í björgunarstóli með tildrætti. Síðasta spölinn að landi varð skipshöfnin að halda sig framan við formastrið, vegna eldsins, sem var aftur í skipinu.
Eftir skiptapann varð Lúðvík samskipa Gísla J. Johnsen upp til Íslands, og urðu þeirra kynni til þess, að Lúðvík flutti til Vestmannaeyja.
Lúðvík átti kost á því að verða stýrimaður á e.s. Gullfossi hjá Sigurði Péturssyni, en hafnaði því boði.
Lúðvík skipstjóri, en það var hann oftasts nefndur, flutti alkominn hingað til Eyja árið 1923, og stuttu síðar byggði hann húsið Kirkjuveg 72, sem hann bjó í til æviloka.
Árið 1929 gerðist Lúðvík útvegsmaður hér með því að kaupa VA hluta í mb. Herjólfi VE 276, en hann var 21,36 rúmlestir að stærð. Árið 1931 keypti hann ásamt fleirum mb. Ásdísi VE 144, sem var 14 rúmlestir. Ásdísi eignaðist hann einn 1939 og lét endurbyggja hana og stækka árið 1943, svo að eftir þá endursmíði var báturinn mældur 18 rúmlestir. Lúðvík seldi Asdísi til Reykjavík 1948 og hætti þar með útgerð.
Lúðvík var kvæntur Helgu Sigurðardóttur. Þeim hjónum varð ekki barna auðið, en ólu upp tvö fósturbörn, Odd Ólafsson og Dagnýju Ingimundardóttur, systurdóttur Lúðvíks, er þau tóku til sín sem ungbarn og reyndust sem ástríkir foreldrar.
Lúðvík skipstjóri var hinn mesti sómamaður á öllum sviðum.
Hann andaðist 25. ágúst 1957.