Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Upphaf og endir mb. Goðafoss

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓN SIGURÐSSON


Upphaf og endir mb. Goðafoss


M/b Goðafoss VE 189, 11,22 rúmlestir.
Jóhann Reyndal útgerðarmaður.

Árið 1913 kom danskur maður, Jóhann Sörensen að nafni, til Vestmannaeyja, og var erindi hans að setja upp brauðgerðarhús. Hann byggði stórt og vandað hús við Heimagötu, sem hann skýrði Tungu. Hann byrjaði þegar baksturinn, og dafnaði verzlunin ágætlega, en ekkert brauðgerðarhús var hér fyrir. Ekki hafði Jóhann verið lengi í Eyjum, þegar hann tók sér íslenzkt nafn og kallaði sig Jóhann Reyndal. Hið sama ár byrjaði norskur maður, Hans Förland að nafni, á netaútgerð hér. Jóhann Reyndal kom fljótt auga á, að þetta myndi verða arðvænlegur atvinnurekstur.
Um þessar mundir, eða árið 1912, kom hingað Jens Andersen frá Friðrikssundi í Danmörku. Hann var bátasmiður að iðn og hafði smíðað hér 5 báta, sem reyndust mjög traustir og góðir á allan hátt. Ákvað Reyndal nú að hefjast handa um smíði á nýjum bát, og skyldi Jens smíða bátinn. Jens var bróðir Péturs á Sólbakka hér í bæ. Þetta skyldi vera 12 tonna bátur, og hafði Jens þá tvo báta í smíðum; hinn var fyrir Gísla Magnússon í Skálholti. Bátarnir voru báðir kantsettir, og voru smíðaðir þar, sem nú liggur vegurinn niður á Básaskersbryggju. Þetta gerðist vorið 1916. Smíðin gekk vel, og voru bátarnir tilbúnir í vertíðarbyrjun 1917. Bátur Gísla hafði lunningu, en bátur Reyndals var með skjólborði og rekkverki. Þeir voru búnir 22ja ha. vélum. Bát sinn skírði Reyndal Goðafoss, en Gísli kallaði sinn bát Óskar II, og voru þetta stærstu bátar í Eyjum á þessum tíma. Einnig voru þeir bezt útbúnir allra báta og með fyrsta flokks veiðarfæri, sem munu hafa verið þrjár 14-neta trossur, og þótti það mikið í þá daga.

Nú vantaði Reyndal formann á þennan nýja bát. Var honum vísað á Árna Þórarinsson á Oddsstöðum. Hann var aðeins 21 árs gamall og hafði aðeins róið tvær vertíðir á m/b Gideon með Eyvindi bróður sínum. Þótti mörgum Reyndal ráðast í mikið að smíða svona stóran bát, og þá ekki síður að taka lítt reyndan sjómann fyrir formann á bátinn; og svo ungan sem Árni var.

M/b Gunnar Hámundarson.

Nú hefst vertíðin 1917, og byrjar Goðafoss róðra í janúar eins og aðrir. Goðafoss reri með línu í byrjun vertíðar og frá byrjun marz með net. Gengu aflabrögðin mjög vel, og á netavertíð kom hann með hlaðfermi daglega. Í lokin varð Goðafoss annar með afla, en aflakóngur þessa vertíð varð Gísli Magnússon. Vertíðina 1918 varð Goðafoss aflahæstur og aftur vertíðina 1920. Fyrir þá vertíð lét Reyndal setja nýja vél í bátinn, 30 ha. Alfa-vél. Einnig var sett lunning á Goðafoss.
Í árslok 1922 seldi Reyndal Goðafoss, en þá mátti segja, að Reyndal væri orðinn auðmaður á þessum árum. Keypti formaðurinn, Árni, bátinn ásamt þremur öðrum. Oddgeir bróðir Árna var einn af eigendunum, en hann hafði verið vélamaður á bátnum frá 1920. Hinir eigendurnir voru Ólafur Gunnarsson í Vík og Sigurjón Högnason í Borg. Árni fiskaði að sama skapi og áður, en ekki vildi útgerðin bera sig vel hjá hinum nýju eigendum, og eftir tvær vertíðir seldu þeir bátinn. Keypti Gunnar Ólafsson hann fyrir Tangaverzlun. Árni hélt formennsku áfram á Goðafossi fyrir Gunnar og var með bátinn til ársloka 1925. Þessar vertíðir var Goðafoss með aflahæstu bátum eins og fyrr. Hafði Árni þá verið formaður með Goðafoss í 9 vertíðir í farsælu starfi, og lét hann svo um mælt við þann sem þessar línur ritar, að allt hafi gengið að óskum á allan hátt og hafi hann aldrei fengið slettu í bátinn öll þessi ár.

Árni Þórarinsson frá Oddstöðum, formaður á Goðafossi.

Árni sagði mér, að ekki hafi það verið sársaukalaust að segja upp formennsku á Goðafossi, en svo hafi orðið að vera. Ekki gat hann um, hverju þessu hafi valdið, en vélin í Goðafossi var farin að gefa sig, og hefur það getað verið ástæðan. Árni hélt áfram formennsku með ýmsa báta, og fylgdi honum jafnan sama heppnin og fiskisældin. Varð hann aflakóngur á Geir goða vertíðina 1926.

Hallvarður Kristófersson frá Stóradal undir EyjafjöIIum var aðgerðarmaður á Goðafossi síðustu vertíðina, sem Árni var með hann. Hann dreymdi draum þann, sem hér fer á eftir:
Hann sér, að Goðafoss kemur inn höfnina og leggst að Tangabryggjunni. - Hallvarður fer þangað og sér, að sjórinn í kringum bátinn er litaður blóði, og þegar hann fer og aðgætir betur, sér hann, að Goðafoss er orðinn að líkkistu. Hallvarður sagði Árna drauminn, þegar hann hafði sagt upp formennsku á bátnum.

Haraldur Ólafsson.
Guðmundur Ólafsson.

Guðbjörgu Þórðardóttur, konu Árna, dreymdi annan draum þennan sama vetur, 1925. Sá hún Goðafoss koma upp Kirkjuveg og fara beint upp í kirkjugarð. Ekki sagði Guðbjörg manni sínum drauminn, fyrr en hann hafði sagt upp bátnum.
Vantaði nú Gunnar Ólafsson formann á bátinn. Vertíðina 1925 var hér sjómaður á Guðrúnu, hjá Stefáni Ingvarssyni, maður að nafni Haraldur Ólafsson og var frá Breiðuvík í Rauðasandshreppi, vanur formaður þaðan, aflasæll og mikils metinn í sinni heimabyggð. Réðst hann formaður á Goðafoss um vorið. Hann dvaldist vestur í Breiðuvík yfir sumarið, en í september fluttist Haraldur alfarið til Vestmannaeyja og kvæntist Sigurlaugu Einarsdóttur frá Nýabæ undan Eyjafjöllum, og settust þau að á Goðalandi hér í bæ. Haraldur byrjaði þegar á smíðum, því hann var smiður góður, enda flest til lista lagt. Vann Haraldur við smíðarnar fram í desember, en fór þá að standsetja Goðafoss fyrir væntanlega vertíð.
Haraldur hafði ráðið sér þrjá háseta úr heimabyggð sinni, en vélamaður var ráðinn undan Eyjafjöllum. Líður nú óðum að vertíð, og er kominn janúar, og hásetar á Goðafossi komnir til Eyja. Rennur upp 9. janúar.
Kvöldið áður er norðan andvari og stirndur himinn. Við, eigendur að m/b Gammi vorum að sjósetja bátinn í Skildingafjöru þetta kvöld, en flóð var svo lítið, að báturinn flaut ekki. Jón Benónýsson var þá formaður á m/b Gammi og segir okkur að koma heldur tímanlega með morgninum, því að ekki verði sama veður á morgun. Reyndist það svo verða, því að við fórum snemma um morguninn inn í fjöru, og var þá kominn austan stormur. Við náðum bátnum út og lögðum honum við ból úti á höfn. Þessa nótt reru 7 bátar, og voru flestir í útdrætti, þar á meðal Goðafoss.
Um nóttina fóru einnig tveir bátar til Stokkseyrar að sækja vertíðarfólk. Þessir bátar voru Gunnar Hámundarson (síðar Guðbjörg VE 271), formaður Vigfús Sigurðsson frá Pétursborg og m/b Svala, formaður Sighvatur Bjarnason í Ási.
Eftir því sem á daginn leið, fór veðrið harðnandi, og um miðjan dag var komið ofsaveður. Bátarnir, sem fóru á sjó, byrjuðu að tínast að landi á þriðja tímanum. Voru þeir allir á sjó austur frá eða á landsuður. Komu þeir allir að um líkt leyti nema Goðafoss. Hann kom ekki að landi. Það vissu þeir, sem fóru til sjós um nóttina, að Goðafoss fór suður með Urðum og hefur sennilega byrjað að leggja við Helliseyjarhraunið og lagt suður með Súlnaskeri.
Um kvöldið harðnaði enn veðrið, og var þá kominn stórsjór og veðurhæð að sama skapi. Hélzt þetta veður alla nóttina og fram á morgun, og aldrei kom Goðafoss. Mikil leit var gerð að bátnum daginn eftir, en án árangurs. Endaði þar með ævi 5 hraustra manna. Þeir voru:
Haraldur Ólafsson formaður, sem var fæddur í Breiðuvík í Rauðasandshreppi 29. apríl 1893 og uppalinn þar. Foreldrar hans voru Ólafur Ólafsson og kona hans, Sigríður Traustadóttir, er þar bjuggu. Ólafur faðir Haraldar lézt frá öllum börnum sínum ungum, og urðu bræðurnir að taka við búsforráðum með móður sinni. Haraldur reri fyrstu vertíð sína í Breiðuvík og var þá kornungur. Hann tók við formennsku þar 18 ára gamall og var þar formaður í 10 ár. Hann tók síðar próf í siglingafræði og gerðist formaður með vélbát fyrir Ólaf Jóhannesson á Patreksfirði í 5 ár. Var hann þar ætíð með fremstu aflamönnum.
Í 6. tbl. Ægis 1926 lýsir héraðslæknirinn á Patreksfirði framgöngu þeirra bræðra, Haralds og Guðmundar við brimlendingu í Breiðuvík, er þeir ösluðu í land með sína tvo hveitisekki hvor í hverri ferð, enda var Haraldur hið mesta hraustmenni. Hann var þrjár álnir á hæð, að sama skapi þrekinn og bar af flestum mönnum fyrir glæsileik.

Friðrik Jóhannsesson.

Guðmundur Ólafsson var bróðir Haralds. Hann var fæddur í Breiðuvík 23. desember 1889. Hann fór í búnaðarskólann á Hvanneyri 18 ára gamall og var þar tvo vetur. Að því loknu tók hann við búskapnum í Breiðuvík og ræktaði jörðina og reisti þar tvílyft steinhús, en Haraldur stundaði sjóinn. Bjuggu þeir þannig saman í nokkur ár ásamt móður sinni. Er Guðmundi lýst sem sérstökum myndarmanni.
Haraldur og Guðmundur voru bræður Trausta Ólafssonar prófessors og frændur Trausta Einarssonar prófessors.
Friðrik Jóhannesson var fæddur í Litla Laugardal í Tálknafirði 28. desember 1906. Voru foreldrar hans Jóhannes Friðriksson og Guðbjörg Vagnsdóttir, er þar bjuggu. Ólst Friðrik upp hjá þeim og var í foreldrahúsum til dauðadags, en þau voru flutt til Patreksfjarðar.
Sigurður Gunnar Guðmundsson var fæddur á Sveinseyri í Tálknafirði 18. júní 1906. Foreldrar hans voru Guðmundur bóndi Hallsson og kona hans, Margrét Einarsdóttir, búandi þar. Var Sigurður til heimilis hjá þeim.
Presturinn á Patreksfirði lýsir þessum tveim ungu mönnum svo, að mjög sé sjaldgæft að finna jafnprúðan og vinsælan æskumann sem Friðrik. Sigurður hafi verið bæði líkamlega og andlega óvenjulega vel gefinn piltur og hafi notið almennara trausts hjá eldri og yngri en venjulegt sé um æskumann á hans reki. Hafi hann haft til að bera einurð og festu samfara drenglyndi.

Björn Guðmundsson.
Sighvatur Bjarnason formaður á m/b Svölu.
Vigfús Sigurðsson formaður á m/b Gunnari Hámundarsyni.

Björn Guðmundsson, Gíslakoti undir Eyjafjöllum, var fæddur að Leirum þar í sveit 30. júní 1895.
Foreldrar hans voru Guðmundur Vigfússon bóndi þar og kona hans, Anna Jónsdóttir, og ólst Björn upp hjá þeim, fyrst á Leirum, síðar í Gíslakoti. Björn lagði á unga aldri leið sína til Vestmannaeyja og byrjaði þar sjómennsku. Hann var vélamaður á Nansen hjá Jóhanni á Brekku í nokkur úthöld og síðar á Elliða hjá [[Þórður Stefánsson |Þórði Stefánssyni]], þá á Gammi, sem hann átti hluta í. Björn seldi hluta sinn í Gammi árið 1924 og keypti þá m/b Snyg VE 247 og var á honum fyrstu vertíðina, sem hann var gerður út frá Eyjum, árið 1925. Ekki vildi hann vera lengur á Snyg og réð sig á Goðafoss.
Björn var dugnaðarmaður að hverju sem hann gekk. Einnig var hann hið mesta prúðmenni, og dáðu hann allir, sem hann þekktu, fyrir mannkosti hans.
Um afdrif Goðafoss varð aldrei kunnugt, en gizkað var á, að vélarbilun hefði orðið hjá bátnum og hafi orðið erfitt að bjarga sér í þvílíku veðri og stórsjó sem þá var.

Nú er að segja frá bátunum, sem fóru til Stokkseyrar þessa umræddu nótt. Þeir lögðu af stað héðan frá Eyjum kl. 12 um nóttina. Var þá bezta veður og heiðskírt, og kaldaði aðeins við norður.
Ferðin gekk vel til Stokkseyrar, og tóku þeir fólkið í bátana. Um tvöleytið eftir hádegi 9. janúar fóru þeir frá Stokkseyri, og var þá gott veður þar, en þegar austar dró, fór að hvessa af suðaustri með vonzku veðri. Þeir Vigfús og Sighvatur voru með báta sína fulla af fólki, og komu þeir fólkinu undir þiljur, í lúkar, vélarhús og stýrishús.
Gunnar Hámundarson komst undir Hamarinn kl. 3 um nóttina og Svala nokkru síðar. Þar lágu þeir fram á morgun og komust þá til hafnar. Má segja, að betur hafi tekizt en á horfðist, því að margir biðu með ótta um afdrif bátanna.
Þennan sama dag og Goðafoss fórst, lá norskt flutningaskip hér á Víkinni austur af Miðhúsakletti. Skipinu gekk illa að létta akkerum, og var þá komið slíkt afspyrnuveður, að enginn treysti sér út í skipið því til hjálpar. Rak skipið upp að Urðunum og kenndi þar grunns og kom að því leki. Þeir höfðu þó að ná upp akkerunum og flöskuðu suður með Urðum og suður í Sund. Þar settu þeir út léttbát, og fóru fjórir af áhöfninni í bátinn. Hvolfdi bátnum á svipstundu og voru þar með dagar þeirra taldir. Skipið hrakti inn með Eyjum og lenti vestur fyrir Þrídranga. Um morguninn kom enskur togari þeim til hjálpar og bjargaði þeim, sem eftir voru af áhöfninni. Var þá kominn óstöðvandi leki að skipinu.
Þessi nótt var með þeim ömurlegustu, sem verið hafa hér í Vestmannaeyjum, þó að segja megi, að þær hafi verið margar á þessum árum, svo mikið sem þá var um slys og útilegur báta á hverri vertíð.

























Myndir frá gamalli tíð. Til vinstri 2 snurpunótabátar í eftir dragi, til hægri m/b Gullveig, drekkhlaðin við bryggju á Siglufyrði

Jón Sigurðsson