Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Þorsteinn í Laufási og íslenzk sjókort
Um ofangreind efni mætti skrifa langt mál, en hér skal aðeins stiklað á stóru.
Skerfur Þorsteins í Laufási til íslenzkra korta og öryggis sjófarenda við Vestmannaeyjar fram á þennan dag var bæði mikill að vöxtum og merkilegur. Að mínu áliti verður það starf aldrlei ofmetið því að áreiðanlega er það hið merkilegasta, sem sjálfmenntaður sjómaður hefur lagt til kortagerðar á Íslandi. Grunn þau sem fundust við Vestmannaeyjar eftir tilvísun Þorsteins hafa verið á sjókortum síðan. Hafa mælingar þær, sem þá voru gerðar, staðizt fram á þennan dag og verið í sjókortum, sæfarendum til leiðbeiningar á hættulegum siglingaleiðum.
Af 12 boðum, sem settir höfðu verið í sjókort, var aðeins einn rétt settur í kortið, en hinir skakkt settir eða þá alls ekki merktir, og reyndist hnattstaða Stórhöfðavitans vitlaus, þegar betur var að gáð.
Skipherrann á Hvítbirninum, Ackermann, setti mikið traust á Þorstein og fór hann alveg eftir leiðsögn Þorsteins og mældi þau grunn, sem hann benti þeim á.
Sumarið 1961 og 1964 voru gerðar rækilegar mælingar við Vestmannaeyjar og mun árangur þessa starfs brátt koma í ljós, en í ráði er að gefa út sjókort yfir svæðið: Selvogur að Bjarnarey (verður Bjarnarey í kanti og kemst ekki öll inn á kortið). Verður þetta kort í mælikvarðanum 1:100.000.
Koma þá öll þessi grunn, sem Þorsteinn nefnir inn í kortið og auðvitað meiri upplýsingar um þau og fleiri grunn en áður, því að ólík eru tækin og allar aðstæður við mælingar nú og árið 1928, þegar þetta var mælt. Verður fróðlegt að sjá þetta kort.
Á þessu korti munu koma fram ýmsar upplýsingar, sem reyndari formenn hafa að vísu vitað um, t. d. er Hvítbjarnarboðinn tvískiptur: á syðri klakknum er 29 m dýpi, á þeim nyrðri 12 m dýpi, en nyrzt á hryggnum er 18 m dýpi. Milli klakkanna á Hvítbjarnarboðanum er 76 m dýpi.
Þorsteinsboðinn, sem heitir eftir Þorsteini í Laufási, er þriskiptur, liggur í NA—SV stefnu, austur af honum eru svo margir klakkar. Dýpi á grynnstu klökkunum á Þorsteinsboða er 26 m og 23 m., en 80 m dýpi er á milli þessara klakka.
Þokuklakkarnir eru 4: sá grynnsti er til SA. Dýpi á þessum klökkum er 21 m. 22 m á þeim til vesturs, þá 26 m. og 36 m. Á milli klakkanna er 70 m dýpi.
Á þessu korti koma Ebenezarklakkar, en dýpi á þeim er 21 m á norðurklakknum og 27 metrar á suðurklakknum með 65 m dýpi á milli. Mið á Ebenezarklökkum er: Stóridrangur í Litla-Klif, geil (sýling) í Súlnasker og Geldung.
Ekki væri að ófyrirsynju að merkja á þetta kort hraun og botnlag og er það mjög vel framkvæmanlegt eftir dýptarmælisrúllum. Mætti lita það eða merkja greinilega á annan hátt. Væri þá kominn vísir að fiskikorti. Nauðsynlegt væri vegna veiðarfæra að fá sem flest flök merkt inn á sjókortin og hefur það dregizt alltof lengi. Togbátar eru að rífa vörpur sínar í sömu flökunum allt sumarið og skiptir tjónið af þessum völdum hundruðum þúsunda. Síðast í vetur kom það í blöðunum að einn nótabátur hefði tapað nót, sem kostaði milljón krónur í gamalt skipsflak.
Ég held að það hlyti að borga sig fyrir þjóðina að búa betur að íslenzku sjómælingunum, en gert hefur verið. Þær ætti að gera að sérstakri stofnun, en hafa ekki þetta óskiljanlega samkrull, sem nú er á milli Vitamálaskrifstofunnar og Landhelgisgæzlunnar.
Einnig skyldi ekki búa þannig að launakjörum þeirra ágætu manna, sem þar vinna, að þeir skuli vera 2 launaflokkum neðar, en t. d. stýrimannaskólakennarar, þó að sömu kröfur verði að gera til kunnáttu þessara manna. Enn síður ætti að búa þannig að stúdentum, sem fara erlendis að nema þessi fræði, að þeir að loknu 4 ára námi lendi 2 launaflokkum neðar, en ef þeir hefðu setið heima og engrar framhaldsmenntunar aflað sér, en í stað þess gerzt t. d. gagnfræðaskólakennarar. Að sjálfsögðu er höfuðnauðsyn fyrir þessa stofnun að hafa sérstaklega byggt og útbúið skip til sjómælinga.
Alltof hljótt er um ágætt starf íslenzku sjómælinganna og ég vil hér benda sjómönnum á ágætt kort, sem er nýlega komið út yfir svæðið: Eldeyjardrangur að Selvogi í mælikvarðanum 1:100.000. Þetta kort er sérstaklega gott fyrir öll skip, sem sigla fyrir Reykjanes, og sýnir ágætlega grunn og boða. t. d. er Vestra- og Syðrahraun merkt inn með bláum lit. Það væri og nauðsyn á verstu grunnunum hér í kringum Eyjar, þegar það kort kemur út.
Mér finnst eins og áhugi sjómanna á sjókortunum hafi minnkað; það er kannski af því að kortin eru orðin tiltölulega fullkomin. Þó er svo mikið starf óunnið á þessu sviði, að það mun taka mjög langan tíma með þeim tækjum og mannafla, sem nú eru fyrir hendi. Gætu sjómenn með almennum áhuga sínum og upplýsingum um óþekkt grunn og flök flýtt fyrir þessu mikla starfi og gert það auðveldara, og hvað er betra öryggistæki en góð sjókært? Ætti að takast upp sem bezt samvinna milli starfandi sjómanna og þeirra, sem sjókortin gera.
Veturinn 1929 kom vitamálastjóri, Th. Krabbe, hingað til Eyja og ræddi við Þorstein í Laufási og fleiri formenn um stærð og lögun korta hér við Eyjar. Fengu sjómenn hér í Eyjum því til leiðar komið, að aðalfiskimið þeirra voru tekin með á sjókortin. Var svo mál með vexti, að yrði strandlengjan tekin með á kortinu tapaðist 6 sjómílna breið spilda vestur af Geirfuglaskeri, þar sem bátar héðar, eru oftast á veiðum.
Nú, þegar í ráði er að gera ný sjókort eftir nýjum og góðum mælingum, væri þá ekki rétt að taka aftur upp svona samvinnu á milli þeirra, sem eiga að nota kortin og þeirra, sem gera kortin.
Ég vil svo enda þessi fáu orð um mikið efni með að gefa upp mið á flaki, sem bátar héðan hafa oft fest veiðarfæri sín í. Flak þetta mun vera danskur dragnótabátur og er suðaustur af Eyjum:
„Súlnasker og Geldungur sem V (geil). Blátindur í slakka á Suðurey að vestan.“
Leiðréttingar Þorsteins í Laufási ætti að minna alla sjómenn á hvað það getur haft að segja að fylgjast vel með öllu á sjónum. Um ábendingar Þorsteins skrifaði Sveinbjörn Egilsson í Ægi árið 1929: „Mun hann vera sá fyrsti, sem rennur á vaðið með nákvæmar bendingar um galla sjókorta og gefur um leið þær bendingar, sem í bráð geta úr þeim bætt og það er hin rétta aðferð.“