Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/39 vertíðir við sama keipinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
EYJÓLFUR GÍSLASON:


39 vertíðir við sama keipinn


Mér þykir vel við eiga, að þessi mynd, sem er af Ögmundi heitnum Ögmundssyni í Landakoti, geymist í sjómannadagsblaðinu okkar, og langar mig að minnast hans með nokkrum línum.
Ögmundur var fæddur að Reynisholti í Mýrdal 2. ágúst 1849.
Árið 1872 fluttist hann hingað til Eyja og fór þá vinnumaður að Stakkagerði til Árna Diðrikssonar, bónda þar og formanns, með áttæringinn Gídeon, og á því skipi reri Ögmundur í 39 vetrarvertíðar. Hann mun því hafa byrjað að róa með Árna vertíðina 1867, þá á 18. ári. Síðustu vertíðina á Gídeon var hann 1905, með Hannesi lóðs. Það bendir til, að Ögmundur hafi verið bráðþroska og efnilegur, að hann svo ungur skyldi fá skiprúm hjá Árna í Stakkagerði, því að hann hefur þá verið hér með mestu fiskimönnum og því getað valið úr mönnum á sitt góða og fengsæla skip.
Flestar eða allar vertíðarnar var Ögmundur í krúsinni (þ. e. fremsti maður) og átti hann að sjá um klýfirinn og gæta hans, er siglt var. Allar vertíðarnar hvíldi (reri) hann við sama keipinn, andófskeipinn á bakborða.

Ögmundur Ögmundsson í Landakoti

Andófsárarnar á Gídeon voru ekkert barnameðfæri, um 9 álnir á lengd og sverar eftir því. Þó skeði það, þriðju vertíð Ögmundar á Gídeon, að þær fuku upp úr keipunum og var lengi í minnum haft. Það var í útilegunni miklu 25. febrúar 1869, þegar 13 skip náðu ekki lendingu og lágu sum úti í tvær nætur, eða á fimmta dægur. Eitt skipið lá í Bóndabót, austan undir Yztakletti, en hin 12 urðu að lensa á áruni austur fyrir Bjarnarey. Veður þetta kom mjög snöggt, og varð við ekkert ráðið fyrir veðurofsa. Gídeon var kominn inn á móts við Miðhúsaklett, þegar veðrið skall á, en dró ekki inn Leiðina, þó kappmenntur væri og varð að lensa á árunum, austur fyrir Bjarnarey, eins og hin skipin. Þeir á Gídeon náðu lendingu undir kvöld daginn eftir ásamt nokkrum öðrum skipum.
Þess má geta um veðurofsann, að kindur, sem voru í Akrinum (austan við Gjábakkatún), fuku eða hrakti í sjóinn.
Ögmundur og Arnbjörn bróðir hans, er lengi bjó hér í Presthúsum, fram um 1920, voru báðir taldir miklir og góðir ræðarar, enda hinir mestu þrekmenn og kraftakarlar.

"Gideon"

Báðir voru þeir bræður hér samtíða í vinnumennsku, Ögmundur í Stakkagerði sem fyrr segir, en Arnbjörn, er flutti hingað 1873, á Hólnum hjá Gísla Stefánssyni. Þeir bræður höfðu þá, hvor um sig, 40 krónur í árskaup, sem þótti óheyrilega hátt kaup og því mikið um talað, og víst ekki öfundarlaust af öllum, þó þeir reru í erfiðum og aflamiklum skiprúmum og færu á hverju sumri í kaupavinnu austur í Skaftafellssýslu og hefðu þar hæstu kjör, sem borguð voru með búsafurðum, smjöri og fullorðnum sauðum, og færðu það í bú húsbænda sinna. Báðir voru þeir bræður afburða miklir sláttumenn og því eftirsóttir kaupamenn.
Þeir bræður reru mörg sumur á sexæringnum „Hannibal“, með Magnúsi Guðmundssyni á Vesturhúsum, ásamt þeim Ólafi D. Sigurðssyni, Strönd, og Guðjóni Eyjólfssyni á Kirkjubæ. Á þjóðhátíð Vestmannaeyja 1901 vann þessi skipshöfn kappróðurinn, á „Hannibal“. Í þeim róðri braut Ögmundur ár sína, en var fljótur að grípa til varaárarinnar, svo að þetta óhapp varð þeim ekki að falli.
Eina smásögu ætla ég að láta fylgja hér með frá vinnumannstíð Ögmundar, sem sýnir árvekni hans í starfi. Stakkagerðið átti reka norðan á Eiðinu, einn dag í hverri viku, og var hans vandlega gætt. Eitt sinn var Ögmundur kominn inn á Eiði fyrir birtu, og þá aðallega til að leita að reknum smokkfiski, sem var þá og alla tíð eftirsótt beita á handfærakrókana. Engan fann hann þó smokkfiskinn að þessu sinni, en þess í stað mjög stórt kantað tré, um 20 álnir að lengd.
Sneri hann þá hið bráðasta heim aftur og sagði húsbónda sínum fréttirnar. Árni bjóst í flýti að heiman með vinnufólki sínu, með reipi og fýlatrossu, til að velta trénu undan sjó á öruggan stað. Ekki lét Árni bóndi þakklæti sitt í ljós með mörgum orðum, en er hann leit hið stóra tré, mælti hann: „A — ég hef alltaf sagt, að það borgaði sig að ganga með sjónum.“
Mundi í Landakoti, eins og hann var kallaður af sínu samtíðarfólki, hefur róið hér yfir 40 vertíðar, en hætti er mótorbátarnir tóku við af áraskipunum. Tvær síðustu vertíðarnar, 1906 og 1907, reri hann með föður sínum á áttæringnum Elliða, er var með færeysku lagi og átti Ögmundur 1/5 hluta í honum.
Kona Ögmundar var Vigdís Árnadóttir, úr Þykkvabæ. Þau hjón bjuggu allan sinn búskap í Landakoti og voru þar til dauðadags. Þau áttu eina dóttur barna, Þórunni, sem einnig bjó í Landakoti. Hennar synir eru Sigurjón bílstjóri og Ögmundur skipstjóri, báðir vel þekktir gæðadrengir í þessum bæ.

Hannibal

Þau Ögmundur og Vigdís ólu upp tvo fóstursyni, þá Þorbjörn Arnbjörnsson, Reynifelli. bróðurson Ögmundar og Hannes Hansson frá Hvoli.
Ögmundur andaðist hér 8. okt. 1932, 83 ára gamall. Hann var drengur góður og sómi sinnar stéttar.