Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Hafnarmálin: Tekið saman handa yngri kynslóðinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þorsteinn Þ. Víglundsson


HAFNARMÁLIN


(Tekið saman handa yngri kynslóðinni).


29. júní n.k. eru 32 ár liðin síðan fyrsta hafskipið lagðist að bryggju hér í Eyjum. Það átti sér sem sé stað 29. júní 1926. Skipið var dönsk skonnorta, sem flutti timburfarm til verzlunar Gísla J. Johnsens.
Með því að á nýliðinni vertíð hefur verið meiri útgerð hér í Eyjum en nokkru sinni fyrr og undirstöður hennar og máttarstoðir eru hafnarframkvæmdirnar, þá finnst mér ekki úr vegi að skrifa nokkur orð um fortíð hafnarinnar í Sjómannadagsblaðið.
Hinn merki atburður í þróun hafnarmálanna, er fyrsta hafskipið gat lagzt hér að bryggju, og svo hin mikla útgerð hér nú, vekja mér þær hugrenningar, er ég kýs að færa í orð.
Ég veit, að eldri kynslóðin eða sú elzta kannast við flest af því, sem ég segi hér, en æskilegt er, að ungu kynslóðirnar viti einnig sem mest deili á sögu átthaga sinna og skilji sem bezt lífsbaráttu feðra sinna og mæðra og áa í heild.

Föst byggð verður ekki í Vestmannaeyjum fyrr en í lok landnámsaldar eða um 930. Í fornum ritum, þar sem rætt er um landnám í Vestmannaeyjum (Hauksbók), er fullyrt, að í Eyjunum hafi fyrstu árin engra manna veturseta verið, heldur aðeins veiðistöð.
Undir lok landnámsaldar byggir Herjólfur Bárðarson sér bæ í Eyjum og sezt þar að. Bændur og búaliðar úr sýslum Suðurlandsins, svo sem Rangárvalla-, Árness- og Skaftafellssýslu og e.t.v. víðar að, munu hafa haft útræði frá vognum sunnan við Heimaklettinn seinni hluta vetrar og á vorin. Suðurströnd landsins hefur frá örófi alda verið hafnlaus. Lending þess vegna viðsjárverð við sandana, enda jafnan miklu lengra til fiskjar að sækja þaðan en úr Eyjum.

Lending um fjöru. Um 1903.

Hafáttir á vertíð, þó að hægar væru, gátu hamlað því gjörsamlega, að nokkur uggi næðist úr sjó allan bjargræðistímann vegna brims og bú bænda yrðu þannig firrt hungurvofunni, sem alltof oft kúrði við bæjardyrnar, þegar líða tók á hinn langa íslenzka vetur. Væri hinsvegar legið við í Eyjum, var öll afkoman öruggari, þó að vogurinn væri að vísu opinn fyrir austan- og norðaustan stormum og brimum. Þó voru sker og eyrar við vogsmynnið, sem brimaldan brotnaði á. Norðan vogsins var Hörgaeyri. Nafnið er þekkt úr Kristnisögu. Þar áttu hinir heiðnu Eyjabúar hörga sína frá landnámi í Eyjum fram að kristnitöku, en það voru steinstallar, ölturu í hinni heiðnu tíð, þar sem hlautbollinn stóð á með hlautteininum í, en hlaut var nefnt blóð fórnardýrsins.
Sunnan við voginn eða höfnina var Hafnareyrin svokallaða og Hringskerið. Það sker dró nafn sitt af gildum járnhring, sem þar var festur. Í hann lágu festar úr verzlunarskipum eða kaupförum, sem komu með vörur til Eyja og tóku afurðir til útflutnings. Svo mun það t.d. hafa verið alla einokunaröldina (frá 1602—1854). Þessar eyrar vörnuðu að vísu brimsjóum inn á höfnina eða inn í voginn, því að brimaldan brotnaði á þeim, en um háflæði flæddi yfir þær að miklu leyti, og var þá brimöldunni opnari leið inn á höfnina. Þess eru dæmi, að skip færust innan hafnar eða strönduðu eftir að hafa slitnað frá festum sínum í austan veðrum og brimróti. Þannig sökk kaupfar á Vestmannaeyjahöfn sumarið 1711 sökum brims. Ef til vill eru úr því böndin og kjölurinn, sem fannst í botni hafnarinnar nú fyrir nokkrum árum og legið hafa lengi á Brimhólum.
Í byrjun vertíðar 1912 hvolfdi skjöktbát á höfninni í veðurofsa og brimi, og fórust allir mennirnir, 6 að tölu. Þeir höfðu brotizt út í vélbát sinn, sem lá við ból sitt, til þess að tryggja legu hans, svo að hann slitnaði síður upp.
Útfiri var mikið við lendingarstaðina innan hafnarinnar, t.d. fram af Læknum, sem var aðallendingin, því að sandur barst alltaf látlaust niður í höfnina með veðrum og ofanjarðarvatni, t.d. í leysingum. Einnig skolaði brimið sandi að ströndinni. Enginn tækni var til eða önnur tök á að fjarlægja þennan sand. Hann olli mjög miklum erfiðleikum við löndun og lendingu innan hafnar, þar sem engin var bryggjan. Sökum útfiris varð að seila allan fisk úr opnu skipunum og draga síðan á land. Í flæðarmálinu eða fjöruborðinu var seilin (kaðallinn) dregin úr fiskinum. Unnu síðan stúlkur eða konur að því að draga þorskinn upp fjöruna, upp fyrir Strandveg að aðgerðarkrónum, þar sem gert var að honum úti, en hann síðan saltaður inni í krónum, sem um aldir voru torfkofar, reftir sem fjárhús.
Sérstaklega urðu þessir lendingarerfiðleikar næsta ósigrandi, þegar vélbátarnir komu til sögunnar upp úr aldamótunum síðustu.
Á vetrarvertíð 1907 áttu Eyjabúar 20 vélbáta, flesta 7—10 smálesta. Þeir skiluðu góðum arði. Árið eftir urðu þeir því 40 að tölu. Þá takmörkuðu hafnarskilyrðin aukningu bátaflotans, að nokkru leyti a.m.k., svo að ekki sé of mikið sagt. Höfnin sjálf innan eyranna var grunn, svo að brátt dró að því, að stærstu vélbátarnir urðu að sæta sjávarföllum, bíða flóðs, til þess að geta athafnað sig þar. Bátarnir fóru þó sífellt stækkandi, og erfiðleikarnir uxu ár frá ári. Ef til vill olli þó innsiglingin mestum erfiðleikum. Þar var haft af stórgrýti, möl og sandi og engin tækni til umráða til að fjarlæga það. Það átti sér stað, að 8—10 bátar stóðu þar í einu og biðu flóðs og færis til þess að komast inn á höfnina, og þó voru þessir bátar að stærð eins og þeir gerast minnstir í dag, 10—13 smálestir eða þar um bil.
Salt- og kolaskip urðu stundum að bíða affermingar allt að hálfum mánuði, ef smástreymt var og því lágflæði.

Hrófin. Frá síðustu árum róðrabátaútvegsins.

Hinn ört vaxandi bátafloti og útvegur þrýsti mjög á að hefjast handa um lendingarbætur og hafnarframkvæmdir í Eyjum. Árið 1907 var byggður fyrsti vísir að steinbryggju hér. Áður hafði Gísli J. Johnsen byggt tvær bryggjur, fyrst bryggju á trébúkkum, sem gekk á ská norður og vestur í Lækinn frá Strandvegi. Búkkarnir voru fylltir grjóti. Slíkar bryggjur voru algengar um allt Austurland allan fyrsta fjórðung aldarinnar, og mátti segja, að hver útgerðarmaður ætti sér slíka bryggju þar. Síðan byggði Gísli J. Johnsen aðra bryggju, þar sem stólparnir undir bryggjutrjánum voru steyptir. Og á árunum 1926—30 byggði hann hina svo kölluðu Edinborgarbryggju, sem við munum svo vel eftir og hvarf inn í Nausthamarsbryggjuna í hittiðfyrra (1956). Svo langt var sem sé þessari bryggjugerð hins stórhuga athafnamanns, Gísla J. Johnsens, komið 1926, að fyrsta hafskipið gat lagzt þar að og fermt af farm sinn. Eins og ég drap á, þá hófst bæjarfélagið handa um bryggjugerð hér árið 1907. Það var upphaf hinnar gömlu bæjarbryggju, sem var byggð á Stokkhellu. Sökum fjárskorts varð hún í fyrstu ekki lengri en svo, að hún varð aðeins notuð um háflæði. Mun hafa náð 50—60 metra norður frá Strandvegi eða ríflega móts við norðurhlið á byggingum Fiskiðjunnar.
Árið 1911 var svo þessi steinbryggja lengd og endurbætt. Þá mótaði stauraröð vesturbrún hennar, og var hún þannig að nokkru leyti úr timbri. Árið 1927 var sú bryggja aukin og endurbætt þriðja sinni og varð þá mótuð og gerð eins og hún er enn í dag og ýmist nefnd Bæjarbryggjan eða Steinbryggjan.

Undirbúningur að sjálfri hafnargerðinni hér hefst ekki fyrr en 1912. Þá er hafnarverkfræðingurinn Bech fenginn til þess að gera áætlun um hafnargarðana hér og byggingarkostnað við þá. Samkvæmt þeim áætlunum var svo hafizt handa sumarið 1914. Heita má, að unnið hafi verið að hafnarbótum hér stanzlaust og sleitulaust síðan eða í 44 ár.
Bech verkfræðingur afréð, að hafnargarðarnir skyldu byggðir á fyrrnefndum eyrum. Gerði hann teikningu af gildleika þeirra og stöðu. Síðan tók danskur verkfræðingur, Monberg að nafni, að sér að framkvæma verkið samkvæmt teikningum og áætlunum Bechs verkfræðings. Byggingu hafnargarðsins á Hafnareyri (syðri garðsins) miðaði vel áfram sumarið 1914. En þegar Ægir gamli tók að þjarma að bænum um haustið þoldi hann ekki fangbrögð hans, sundraðist og molnaði niður, svo að stórtjón hlauzt af. Næsta vor var hafizt handa aftur við garðinn, hann styrktur og efldur og unnið að honum næstu tvö árin. Gekk á ýmsu um sigra og ósigra Eyjabúa í þeirri glímu við náttúruöflin. Skemmst er frá að segja, að sú barátta stóð í 16 ár. Það 16 ára stríð skyldi frægt vera. Alltaf braut Ægir garðinn öðru hvoru eða gróf hluta úr honum eða undan yfirhleðslum hans. Strax 1930 er garðurinn orðinn það öflugur, að hann virðist veita ógnarafli úthafsöldunnar nægilega mótstöðu.

Vestmannaeyjahöfn um 1910.

Árið 1930 skrifaði vitamálastjórinn, Thorvald Krabbe, grein í Tímarit Verkfræðingafélags Íslands um hafnarmálin á Íslandi. Þar segir um hafnargarðana í Vestmannaeyjum: „Þegar farið var að byggja garðana, kom í ljós, að sjávaraflið á þessum stað var miklu meira en hægt var að ímynda sér fyrirfram.“
Bygging Hörgaeyrargarðsins hófst sumarið 1915. Sá garður fékk heldur ekki staðizt þunga brimsins. Hann varð einnig að endurbyggja og styrkja hvað eftir annað. Þó hefur alltaf mætt minna á honum en Hafnareyrargarðinum. Þar var einnig grynnra á undirstöðu, og þess vegna öll aðstaða betri.
Monberg verkfræðingur hafði upphaflega tekið að sér að byggja báða hafnargarðana fyrir kr. 135.000.00. Árið 1924 nam kostnaðarverð þeirra kr. 1.240.000. Þessar tölur eru þó ekki að öllu leyti sambærilegar athugasemda- og hugsunarlaust, því að fyrri heimsstyrjöldin (1914—1918) jók stórum dýrtíð og rýrði um leið kaupmátt peninganna að miklum mun.
Þegar loks var séð fyrir endann á byggingu hafnargarðanna, var þegar hafizt handa um bryggjugerðir. Innarlega í höfninni, norður af Skildingafjöru, voru tvö sker, Básasker kölluð. Verkfræðingur vitamálaskrifstofunnar afréð í samráði við forustumenn hafnarmálanna hér í Eyjum, að byggja skyldi stóra bryggju á þessum skerjum að megin undirstöðu. Þessi bryggjugerð hófst 1929, þ.e. Básaskersbryggjan. Hún er eitt mesta mannvirki sinnar tegundar hérlendis og vitnar um kjark og stórhug forustumannanna og óbilandi trú á aukinn útveg í Eyjum og gjöful fiskimið.
Bryggjan er 176 m. löng og 60 m. breið.
Eftir 13 ár mátti segja, að Básaskersbryggjan væri fullgerð. Þá kom hún fyrst að fullum notum. Hún olli því, að kleift varð að ferma og afferma öll flutningaskip við bryggju í Vestmannaeyjum. Þá loks tók fyrir gamla háttinn að flytja allar vörur til og frá á uppskipunarbátum milli skipa og lands. Vísirinn merki í athöfnum Gísla J. Johnsens sumarið 1926 var nú orðinn að fullþroskuðum ávexti til ómetanlegs hagræðis atvinnulífi Eyjabúa.

Árið 1935 réðust forustumenn hafnarmálanna hér í það að festa kaup á sanddæluskipi handa höfninni. Það skip hefur reynzt Eyjabúum hjálparhellan mikla við allar hafnarframkvæmdirnar. Með skipi þessu tókst að dýpka höfnina og gera hana genga, ekki aðeins fiskibátaflotanum heldur og stærri skipum íslenzka hafskipaflotans.
Eitt allra erfiðasta hlutverkið við hafnarframkvæmdirnar hér var að dýpka innsiglinguna, sjálfa Leiðina, sem svo er kölluð. Þar var stórgrýti í botni, möl og sandur. Þar var líka annars vegar geysistórt bjarg, sem borizt hafði að hafnarmynninu í óhemju sjávarofsa árið 1836 og valdið hættum og grandi s.l. 100 ár. Brotsjóar af því höfðu fyllt skip á innleið og valdið manntjóni. Klettur þessi varð nú fjarlægður. Með nútíma tækni reyndist það kleift. Stórgrýtið í hafnarmynninu var fjarlægt með aðstoð kafara. Hann sló töng á steinana og voru þeir síðan dregnir upp á fleka. Flekinn var síðan dreginn með stórgrýtisfarminn langt út fyrir hafnarmynnið og affermdur þar. Þegar stórgrýtið hafði verið fjarlægt, var dýpkunarskipið Grettir fengið leigt til þess að moka upp úr Leiðinni og dýpka hana þannig.
Læt svo staðar numið að sinni.