Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Að fortíð skal hyggja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


JÓHANN GUNNAR ÓLAFSSON:


Að fortíð skal hyggja


Þegar ég fékk tilmæli um að skrifa nokkur orð í Sjómannadagsblaðið, hvarflaði strax að mér að rifja upp gamlar minningar um hafnarskilyrðin og sjávarútveginn í Eyjum á fyrstu dvalarárum mínum þar, enda þótt margt og mikið hafi áður verið um þau efni ritað og rætt. Fannst mér það vel við eiga á þessum vettvangi, og skáka ég mér bak við hið fornkveðna, að aldrei sé góð vísa of oft kveðin. Þessi málefni eru mér bæði hugstæð, enda hafði ég lengi mikil afskipti af hafnarmálefnunum og var þegar frá bernsku viðriðinn fiskveiðarnar á ýmsa lund. Væri ég sennilega ennþá formaður og útvegsmaður í Eyjum, ef forlögin og sjósóttin hefðu viljað unna mér þess hlutskiptis, sem mig dreymdi um í æsku og hugurinn stóð þá helzt til.
Foreldrar mínir fluttust til Vestmannaeyja árið 1911, eitthvert hið mesta aflaár, sem fram til þess hafði gengið yfir Eyjarnar. Aflaði aflakóngurinn þá, sem mig minnir að væri Friðrik Svipmundsson á Löndum, 32000 af þorski og löngu, og þótti geysilega vel að verið. Þá var vélaöldin í Eyjum enn í bernsku, aðeins fimm ára gömul, en samt svo vel á legg komin, að vélbátarnir voru þá orðnir rúmlega 50 talsins. Allt voru þetta litlir súðbyrðingar, stýrishúslausir, að Ásdísi undanskilinni, og var stærðin aðeins frá 7 lestum upp undir 10. Þó að þetta væru í raun og veru engin hafskip, sem leggjandi væri í stórsævi Atlantshafsins, var sjórinn sóttur á þeim af undraverðu kappi og ofurhug. Í dagbókum frá þeim tímum má sjá setningar eins og þessar (Þorláksmessa 1911): Austan stormur. Friðrik Svipmundsson á sjó í ofsa og stórsjó. Nær allri línunni og fiskar mjög vel. (18. 1. 1912): Gísli Magnússon fór einn til fiskjar. Var þó yfirleitt álitið ófært. Fékk 300.
Þetta var þá algengur atburður, sem hvarf í önn hins virka dags.
Á þessum árum voru góð aflabrögð og afkoma útvegsins í heild með ágætum. Þó voru Vestmannaeyingar ekki einir um hituna, fremur en nú á tímum. Á miðum þeirra var sægur erlendra veiðiskipa, sem stunduðu veiðarnar af kappi og ærið oft með fullkomnum yfirgangi. Þó landhelgin væri aðeins þrjár sjómílur, létu þeir sér sóma að vaða um hana með veiðarfæri sín bæði á nótt og degi. Landhelgisgæzlan var þá í molum. Dönsk herskip áttu að sinna henni, en þau reyndust misjafnlega til starfs fallin. Vestmannaeyingar tóku þá vörzluna í sínar hendur og reyndu að stugga landhelgisbrjótunum út fyrir mörkin á sínum litlu fleytum. Varð allmikill árangur af þessu, og nokkur skip handsömuðu þeir á eigin spýtur undir forustu Sigurðar hreppstjóra. Gerðust á þeim árum margar sögur, sem lítt hafa verið sagðar ennþá. Togaramergðin var svo mikil, að iðulega lágu í landvari af Heimaey á annað hundrað skip, ef gekk upp í óveður, og á síðustu árunum fyrir heimsstyrjöldina fyrri (1914—1918) kom fyrir, að á Víkinni og í Flóanum voru upp undir 200 skip af mörgum þjóðernum.
Þrátt fyrir þær búsifjar, sem Vestmannaeyingar urðu fyrir í veiðarfæratjóni og aflatjóni af völdum þessara yfirgangsmanna, blómgaðist útvegurinn, svo að tök urðu á því að stækka skipin og búa betur að flotanum. Þá var að því komið að ráðast í hafnargerð við einhver hin erfiðustu skilyrði.
Hafnarskilyrðin voru svo erfið lengi vel, að menn áttu í vök að verjast með báta sína. Lágu þeir undir stórskemmdum og jafnvel algerri eyðileggingu, ef mikil veður gerði. Engir varnargarðar höfðu þá verið gerðir, svo að sjógangur var geysilega mikill í höfninni í öllum austlægum áttum. Það kom oft fyrir, ef flutningaskip lágu í höfninni í aftökum, að eina bjargráðið var að hleypa bátunum upp í Botn, eins og við bar 8. janúar 1912. Þá var Norðurljósið inni í Botni. Gekk upp í austanrok og svo mikinn sjógang, að menn mundu varla annað eins. Norðurljósið tók að reka ofan á vélbátana, sem lágu við festar sínar. Urðu menn þá að brjótast út í bátana og hleypa þeim upp í fjörur. Bryggjukostur var þá enn lélegur við höfnina, aðeins tvær stuttar og lágar bryggjur, Edinborgar- og Bæjarbryggjan. Var Bæjarbryggjan ekki hærri en svo, að fyrir kom að vélbátur fleyttist yfir hana í stórsjó um stórstraumsflæði. Það var vélb. Baldur, en hann stóð að vísu við á bryggjunni yfir eitt sjávarfall.
Þá var innsiglingin, eða Leiðin, iðulega mjög aðgæzluverð, og fengu bátar oft slæma sjói á henni á leið inn. Var erfitt að halda þeim í horfinu, þegar þeir hlupu á bárufaldinum með geysihraða. Annarsvegar var Eyrarhálsinn, en hins vegar brotin af Steininum og hraungrýtið við Holuklett, ef stjórnin geigaði eða stýrissveifin bilaði.
Ósjaldan skall hurð nærri hælum, er bátar lentu inni í brotsjóunum við eyrina, eða þeir hlupu suður á bóginn, og ekki var hægt að sveigja þá í rétta stefnu fyrri en rétt uppi við klettana. Mikil átök þurfti til að halda þeim réttum, og var það ekki á allra færi, ef báturinn kom ekki hárréttur í fallið. Því varð líka að gæta þess að fara ekki inn miðja Leiðina, því að innan við hana tók við grynningin og brotsjóirnir á Hnyklinum. Meðan svo var ástatt um innsiglinguna, var oft mikil tvísýna á því, hver yrðu endalok hverrar sjóferðar. Var slíkt ástand með öllu óviðunandi, enda var ráðizt í byggingu Hringskersgarðsins undir fyrri heimsstyrjöldina.

Flotinn í höfn 1911.


Öll afgreiðsla stærri skipa, sem önnuðust aðflutning á nauðsynjum til eyjamanna og burtflutning afurða, var miklum erfiðleikum bundin lengi vel. Engar bryggjur voru til fyrir slík skip, og raunar ekki heldur fyrir vélbátana nema að litlu leyti, og fór því afferming þeirra og hleðsla fram með uppskipunarbátum, annaðhvort utan af Botni eða Vík, eftir því, hvort hægt var að taka skipin inn vegna stærðar. Var alltaf mjög erfitt að hemja slík skip á höfninni, jafnvel eftir það, að búið var að treysta legufærin. Fyrir kom oftar en einu sinni, að þessi skip slitnuðu upp og ollu miklu tjóni. Héldu þeim engin legufæri, þegar miklir stormar gengu yfir og stórbrim komu af stað æsilegum sogadrætti í höfninni. Slitnuðu þá keðjur og sverir vírar, eins og tvinni væri. Þess voru dæmi, að upp undir mánuð tók að ná í land saltfarmi. Þannig var það með saltskipið Hafnia árið 1912. Það var ekki tekið inn á innri höfnina, heldur losað úti á Vík, eða norðan undir Eiðinu. Meðan það dvaldist við Eyjar gengu miklir umhleypingar, svo að ekki varð komizt í skipið nema með höppum og glöppum, og stundum urðu vélbátarnir að skreppa inn fyrir Klett til þess að ná í salt úr því, þegar þeir komu af sjó. Þannig náði Kaupfélagið Herjólfur sínu salti úr því. Eftir 25 daga dvöl við Eyjar, ýmist á Víkinni eða fyrir Eiðinu, fór Hafnia, og voru þá enn 20 smálestir eftir í skipinu, sem ekki náðust í land. Þetta var ekki ótítt. Varð af þessu mikið óhagræði og kostnaður fyrir eyjabúa. Skipunum þurfti að greiða biðpeninga, og uppskipunin varð óhóflega dýr. Lagðist það allt á saltið. Í þessu tilfelli, sem hér var nefnt, þurfti einnig að fá verkamenn úr Reykjavík til þess að vinna í skipinu, og fylgdu þeir því mestan tímann.
Höfnin var ákaflega grunn víðast hvar. Það var Þrándur í Götu þess, að hægt væri að stækka bátana að marki. Um skeið var það algeng sjón, eftir að menn höfðu fengið sér 20—30 smálesta báta, að margt báta stóð í innsiglingunni eða innan við hana, ef þá bar að landi um fjörur. Varð þetta til þess að valda miklum töfum við alla afgreiðslu og miklum erfiðleikum fyrir skipshafnirnar á bátunum. Sökum hinna miklu fjárhagsörðugleika, sem skemmdirnar á hafnargörðunum höfðu í för með sér, varð því ekki við komið að láta fylgjast að aukningu bátaflotans og bryggjugerð og dýpkun í höfninni, sem fullnægði líðandi stund. Áður en Básaskersbryggjan kom til sögunnar um og eftir 1930, var ástandið orðið svo ískyggilegt, að iðulega kom fyrir, er mikill afli barst á land, að bátarnir urðu að bíða afgreiðslu klukkustundum saman, áður en þeir kæmust að bryggjunum, ef illa stóð á sjó, þegar þeir komu að. Var stundum talað um, að biðin hefði orðið 3—4 klst. og jafnvel allt að sex klst. Menn misstu þá oft þolinmæðina, eins og von var til, því lítið varð um svefn hjá sjómönnunum fyrir bragðið, og voru þá hafnarnefnd og bæjarstjórn ekki valdar kveðjurnar. En þetta lagaðist, og er svo oftast, ef menn eru einhuga, að þá tekst að lokum að ná marki og lyfta Grettistökum. Það er mikill sannleikur í því, sem haft er eftir Ólafi í London, einum hinna gömlu og góðu formanna. „Verið þið rólegir, piltar, einhvern tíma deyr hann, sjóskrattinn.“ Bak við þessi orð er svipuð hugsun og í hinu gamla orðtaki, að þolinmæðin vinni allar þrautir.
Eitthvert mesta þarfaverk, sem unnið var í sambandi við hafnargerðina, voru kaupin á dýpkunarskipinu Heimaey. Ef það tæki hefði ekki komið til, væri nú öðruvísi umhorfs í Vestmannaeyjahöfn. Það voru síðustu forvöð fyrir styrjöldina, er það var keypt. Höfuðhvatamaður að því, að skipið var keypt, var Finnbogi R. Þorvaldsson verkfræðingur, en Haraldur Guðmundsson, nú sendiherra í Osló, veitti leyfi til kaupanna, en hann var þá nýlega orðinn atvinnumálaráðherra.
Heimaey kom til Vestmannaeyja árið 1935, og á því bráðlega 25 ára starfsafmæli. Hefur nær því látlaust verið unnið með skipinu síðan að dýpkun hafnarinnar, samfara annarri mannvirkjagerð, enda er höfnin óþekkjanleg frá því sem áður var, svo hefur árangurinn orðið mikill. Það má alveg furðulegt kalla, hversu til hefur tekizt. Eitt með öðru sýnir það, hve vel hefur á unnizt, að engar skemmdir urðu á bátum í Vestmannaeyjahöfn í vetur í hinum miklu aftökum og veðurofsa, sem þá gekk yfir, og var veðurhæð þó talin hafa komizt yfir 12 vindstig. Eftir slík aftök hefði fyrrum mátt sjá bátana eins og hráviði inn um allan Botn og inni á Eiði.
Þó að mönnum hætti stundum til að gera lítið úr fortíðinni, af því að hún er horfin í rökkurmóðu liðinna ára, má aldrei gleyma því, að nútíðin er á henni byggð, og fyrir hennar tilstilli stöndum vér í þessum sporum, sem vér stöndum í dag.
Sjósókn og fiskveiðar stunda ekki aðrir en þeir, sem búnir eru þreki og dirfsku samfara hyggindum. Sjómennirnir verða að vaxa við hverja raun, ef vel á að fara, því að þeir standa oft, á landamerkjum lífs og dauða, og er undir því komið, hvernig þeir bregðast við vandanum, hvorum megin landamæranna þeir lenda. Mér eru minnisstæð tvö dæmi um þetta úr Eyjum. Í bæði skiptin var sami maðurinn að verki. Það var Sighvatur Bjarnason skipstjóri. Í bæði skiptin urðu vélbilanir hjá bátum, og hefðu þeir rekið upp í sker og brimgarð, ef örskjót aðstoð hefði ekki komið til. Sighvatur átti í bæði skiptin leið fram hjá, og hann brá svo skjótt við í bæði skiptin, að slysi varð afstýrt. Í annað skiptið var bát að bera upp í brimgarðinn á Hörgaeyri, en í hitt skiptið að reka upp í Faxasker í misjöfnu veðri.
Hér áður fyrr stóð maður oft á Skanzinum og horfði út á ólgandi Flóann í óveðrum og beið þess, að bátarnir kæmu fyrir klettinn. Það voru spennandi stundir, er maður fylgdist með því, hvernig þeim reiddi af hættulegasta spölinn í höfn, inn Víkina og Leiðina. Oft var sjórinn svo mikill, að bátarnir hurfu manni sjónum ofan í öldudalina, þar sem maður stóð uppi á Skanzinum, og að sjóinn þverbraut yfir alla Leiðina.
Það er eitthvert minnisstæðasta atvik, sem mig rekur minni til, er Þorsteinn í Laufási fór á Unni II austur fyrir Elliðaey í uppgangsveðri undir myrkur, til þess að reyna að bjarga vb. Farsæl. Það var 27. des. 1911 að vb. Farsæll fór til landsins til þess að sækja vermenn. Á leið til Eyja bilaði vélin austur af Elliðaey. Var þá kominn austanstrekkingur, en uppgangsveður. Reyndu þeir, sem á bátnum voru, að draga vélbátinn á róðrarbát, sem þeir höfðu meðferðis, en það var þeim um megn. Einnig misheppnaðist að koma vélinni aftur í gang. Vildu nú þeir, sem á róðrarbátnum voru, halda heim á honum og leita þannig aðstoðar, en formaðurinn vildi ekki yfirgefa bát sinn, og varð hann einn eftir í honum. Reru hinir síðan til lands, en það sáu þeir síðast til Farsæls, að hann lagðist fyrir akkeri skammt undan Búrunum austan á Elliðaey. Róðrarbáturinn kom heim undir myrkur. Var þá við brugðið og farið á tveimur vélbátum, Sæfara, sem sneri við í Flóanum, og Unni, sem hélt á alla leið austur fyrir Elliðaey, en fékk ekkert að gert, sökum þess hve Farsæll var þá kominn nærri berginu og veður orðið ofsalegt og sjór mikill. Þorsteinn í Laufási hefur í Formannsævi lýst þessari svaðilför og vonbrigðum sínum yfir því, að hann gat ekki bjargað manninum frá bráðum bana.
Þeir, sem á Skanzinum stóðu þessa óveðursnótt, biðu þessi milli vonar og ótta að Unnur kæmi aftur. Þetta var hin mesta háskaferð, og gat brugðið til beggja vona um endalokin. Var sem steini væri létt af öllum, er þeir sáu ljósin á Unni hoppa og skoppa úti á Flóanum. Með birtingu fór Unnur aftur, en þá var Farsæll horfinn.
Þannig urðu Vestmannaeyingar að annast björgunarstörfin sjálfir á litlum fleytum, sem stundum fórust við björgunarstarfið. Það var orsök þess, að Vestmannaeyingar urðu brautryðjendur í björgunarmálum landsins, er þeir keyptu Þór árið 1921.
Þegar maður lítur yfir liðin ár og skoðar þráð Eyjasögunnar, sér maður að Eyjamenn eru á réttri leið framfara og betri afkomu og aðstöðu til lands og sjávar.
Gifturíkri vertíð er nú lokið. Engin slys hafa orðið á mönnum og aflabrögð yfirleitt hin ágætustu.
Það er ósk mín til sjómanna í Vestmannaeyjum á þessum hátíðisdegi þeirra, að jafn farsælar megi allar vertíðir framtíðarinnar verða þeim.