Fyrsta flug til Eyja

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Flugvél Loftleiða á flugi yfir Vestmannaeyjabæ um miðja síðustu öld.

Sumarið 1919 var gerð tilraun til að fljúga til Vestmannaeyja í fyrsta sinn. Var það Flugfélag Íslands, sem þá var nýstofnað, sem stóð að tilrauninni. Svokölluð „vatna-vél“ var notuð til flugsins og var áætlað að lenda vélinni inni í Botni, þar sem nú er Friðarhöfn. Ekki vildi betur til en svo að tilraunin misheppnaðist, þar sem ókyrrð var í lofti undir Stóra-Klifi og munaði minnstu að flugmaðurinn missti stjórn á vélinni. Í þessari fyrstu tilraun varð að lenda vélinni í Kaldaðarnesi. Halldór Jónasson, einn stjórnarmaður í flugfélaginu var í vélinni. Halldór lýsir þessari sögulegu ferð: „Við lækkum flugið og beygjum suður fyrir Klifið. Þar sjáum við strax afmarkaðan völl inni undir klettunum. Hafði Sigurður lyfsali látið merkja hann með hvítu lérefti, sem lagt var á jörðina í hring. En jafnskjótt og við erum komnir í hlé við fjallið, fer að bera á megnum óróleika í loftinu, sem eykst er neðar dregur. Vélin tekur snögga kippi og það hriktir og brestur í henni ... Allt í einu dettur vélin og lá nærri að hún færu um og hrapaði niður á jörð. En á næsta augnabliki tekur hún snöggt viðbragð upp á við og út á hlið og mátti nú ekki tæpara standa að við værum kollsigldir. Faver setur mótorinn á með fullum krafti og við skrúfum okkur út úr hvirfilbyljunum og erum á næsta augnabragði komir yfir bæinn.“ Segir Halldór að þetta hafi verið sár vonbrigði við fjöldi fólks hafði safnast saman til að sjá fyrstu lendingu flugvélar í Eyjum.

Ári síðar, 16. júlí 1920, var önnur tilraun gerð til að lenda flugvél í Vestmannaeyjum. Var þar að verki Frank Fredrickson, sem starfaði þá hjá Flugfélagi Íslands. Ekki vildi betur til en í fyrra skiptið og varð að snúa vélinni frá Vestmannaeyjum, þar sem sviptivindar voru yfir Eyjunum. Að eigin sögn komst flugmaðurinn með naumindum heill frá þeirri flugferð. (Til gamans má geta þess að Frank Frederickson var Winnipegbúi og Vestur-Íslendingur og varð Olympíu- og heimsmeistari með kanadíska íshokkíliðinu Fálkunum í Antwerpen fyrr þetta sama ár. Fálkarnir voru allir Íslendingar utan einn og er saga þeirra mjög merkileg).

Það var ekki fyrr en tæpum átta árum síðar að fyrsta flugvélin lenti í Eyjum. Þann 9. júní 1928 lenti Walter flugstjóri hjá Flugfélagi Íslands flugvél sinni, Súlunni, heilu og höldnu í höfninni í Vestmannaeyjum. Vélin, sem var „vatna-flugvél“, var af gerðinni Junkers, F 13. Farið milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur kostaði þá 32 krónur.


Heimildir

  • Blik
  • Munnleg heimild. Atli Ásmundsson, Winnipeg.