Saga Vestmannaeyja II./ VII. Reki og rekaréttindi

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
VII. Reki og rekaréttindi


Landeigandi hafði töluverðan hagnað af reka. Hefir ætíð verið nokkuð um reka hér í eyjum í víkum og klettaurðum Heimaeyjar. Líklegt er, að frá fyrstu hafi venjuleg rekaréttindi og gagnsemi af reka fylgt eyjajörðum, í samræmi við landslög. En frá þeim tímum, að kunnugt er um þessi mál, er ljóst, að gilt hafa hér aðrar reglur og venjur um reka en annars staðar á landinu. Mun þetta eiga upptök sín í valdboði umboðsmanna konungs hér.
Það er augljóst, sbr. áðurnefnt kæruskjal Vestmannaeyinga til Alþingis 1583, að landsetar á konungsjörðunum hafa haft rekaréttindi eða leiguliðagagn nokkurt af reka, en hversu þessu hefir verið háttað, verður eigi sagt um með vissu. Skipting í rekasvæði fyrir vissar jarðir og leigumála mun samt eigi hafa átt sér stað, því að þá myndi rekinn eigi hafa verið tekinn undan, heldur munu jarðarbændur, er höfðu afnotin af Heimaey að mestu sameiginlega, líkt og fyrrum átti sér stað um fuglaveiðaréttindin, hafa og haft réttinn til þess að hirða reka gegn fundarlaunum frá umboðsmanni af stærri reka. Í áðurnefndu kæruskjali segir, að Simon Surbech, forstöðumaður konungsverzlunarinnar, hafi tekið reka undan Vestmannaeyjajörðum, er þeim hafi áður fylgt. Mun hér með vera átt við venjuleg rekaréttindi jarða og leiguliðagagn. Í jarðabókinni frá 1704 segir svo um reka í Vestmannaeyjum, að umboðsmaður hafi tekið til sín allan rekann. Í jarðabókum er og hvergi talið leiguliðagagn af reka, ábúendum jarðanna til nytja. Í umboðsreikningum frá lokum 16. aldar getur eigi arðs af reka. Í máldaga Ofanleitiskirkju frá 1628, sem þó er eigi til, á að hafa staðið: „Péturskirkja á Ofanleiti á land í Höfðum og reka í Innri- og Ytri-Brimurð“. Þessi réttindi, er eftir þessu hafa átt að fylgja Ofanleitiskirkju, virðast eigi hafa lagzt til þeirrar Landakirkju, er byggð var 1631, og sést þessara réttinda hvergi getið. Á þessum fyrrgreinda máldaga frá 1628 byggði séra Jón Högnason kröfu sína, að fá viðurkenndan rétt Ofanleitiskirkju til reka „í Innri- og Ytri-Brimurð, í Vík og með Hamri inni“.¹) Kvartað er yfir réttindaleysi staðanna í Vestmannaeyjum og óskað eftir, að kirkjunni væru ákveðin rekamörk, sbr. skoðunargerð á Kirkjubæ 12. júlí 1654 og bænarskrá eyjapresta til biskups 26. júní 1689.²) Um þetta fékkst samt engu þokað og hélt konungur einn öllum rétti yfir rekanum.
Arður af vogrekum og einnig af öllum trjáreka í Vestmannaeyjum var talinn með óvissum tekjum konungs og fylgdi með öðrum tekjum, er eyjarnar voru leigðar, og fyrir þessu gerður sérstakur reikningur, sbr. t.d. rentuk.br. 25.marz l761.³) Eftir að umboðsmaður hafði tekið frá bændum leiguliðagagn af reka, höfðu þeir sama rétt og aðrir til að hirða reka og fá greidd bjarglaun. Glundroði sá og lagaleysi, er lengi átti sér stað um rekaréttindi leiguliða, hefir að mörgu leyti átt upptök sín í því, að strandlendi var eigi skipt í sérstök rekasvæði fyrir einstakar jarðir eða jarðavelli. Ábúandi jarðar gat ekki gengið á vissa rekafjöru og hirt það, er á fjöruna rak og haft af því leiguliðagagn, heldur var öllum heimilt að ganga á fjörur og bjarga trjám eða öðrum reka undan og fá fyrir það bjarglaun, jafnt jarðarbændum sem tómthúsmönnum, er ekkert tilkall áttu í jörðu. Og það voru ekki einasta eyjamenn, sem áttu réttinn til bjarglaunanna, heldur og einnig utansveitarmenn, svo að eyjarnar voru að þessu leyti skoðaðar sem almenningur og utan við venjuleg landslög og rétt.
Þeir, sem aðsætnastir voru á rekafjöru, hlutu bjarglaunin. Hljóp þá oft hver í kapp við annan og urðu af uppistöður miklar og hlutust af stundum slys. 1877 drukknuðu í eyjunum tveir ungir menn við trjábjörgun. Guðlaugur Árnason frá Brekkhúsi drukknaði í Brimurð 21. jan. 1877 og Vilhjálmur Möller frá Ofanleiti í Þorlaugargerðisgrjótum 21. des. s.á.⁴) Myndi mega tilfæra lík dæmi frá fyrri tímum.
Þeir, sem fundu eða björguðu rekatrjám undan sjó, er voru 3 álnir á lengd eða voru virt á 1/3 úr dal eða þar yfir, fengu greidd bjarglaun, en smærri spýtur tók hver sem fann og hirti sem sína eign. Trjáreka, sem fannst á sjó svo langt undan landi, að óvíst þótti, hvar reka myndi, hirti finnandi sem sitt. En fyndist rekatré svo nærri landi, að líkindi voru til að þau myndu landfestast, skyldi finnandi afhenda þau umboðsmanni gegn bjarglaunum, og giltu þannig hér um venjulegar reglur. Bjarglaun af reka var 1/3 af andvirði þess bjargaða, ef það var vogrek, og 1/2 af rekatrjám, að minnsta kosti, ef þau fóru eigi yfir vissa upphæð. Af hærri upphæðum var áður greitt ákveðið gjald, sbr. rentuk.br. 28. sept. 1799, er miðar andvirði hins fundna við 3 mörk og þar yfir, og þá greitt í fundar- eða bjarglaun 1 mark.⁵) Rekafundum hefir verið lýst á manntalsþingum. Andvirði vogreks og alls annars reka, er landsdrottinn var eigandi að, sbr. augl. 4. maí 1778 og kans.br. 26. ágúst 1809, tilféll konungssjóði, jarðabókarsjóði, og hefir stundum dropið drjúgum. Um 6 ára skeið, t.d. frá 1844—1850, nam andvirði reka hér, er tilféll jarðabókarsjóði, 404 rd. 40 sk., sbr. bréf innanríkisráðun. til stiftamtm. 10. apríl 1854.⁶) Þetta mun nú samt hafa verið óvenjulega mikið.
Leiguliði mátti halda af ótilhöggnu rekatimbri 3 álna staurum og þar undir, sömuleiðis einstökum marsvínum og hvölum, en allt hvað hann fann af vogreki eða hvalakynsfiskum og rekastaurum, sem lengri eru en 3 álnir, skyldi hann tilkynna umboðsmanni innan tólf tíma. Bar finnanda 1/3 af uppboðsandvirðinu. Sama gilti, ef fleiri en 4 marsvín eða hvalfiskar fundust í senn, þótt þeir væru undir 3 álnum. Téð gildandi ákvæði um leiguliðagagn í trjáreka staðfesti umboðsmaður eyjanna, með tilvísun til opins bréfs 4. maí 1778, 4. gr., um rekatilkall, og voru þau tekin upp í leigusamninga seinna.⁷) Síðast á 19. öld tíðkaðist, að umboðsmaður skipti finnanda rekatrjáa in naturam helmingnum af trjánum, ef því varð við komið; annars fengu þeir helming andvirðis sem bjarglaun við uppboð. Á þessum tímum nam uppboðsandvirði reka stundum nokkrum hundruðum króna.⁸)
Þegar eyjajarðir voru metnar til dýrleika, voru rekaréttindin eigi talin með, og heldur eigi 1851, er jarðirnar voru metnar til peningaverðs. Um 1855 lét stjórnin loks framkvæma mat þetta.
Rekatimbur var notað til bygginga og viðgerða á jarðarhúsum og tómthúsum, er jarðabókarsjóði bar að standa straum af; mun svo hafa verið lengi, sbr. og rentuk.br. 1799. Var andvirði rekatimburs því oft eigi fært sérstaklega á umboðsreikninga.
Eyjamenn sendu bænarskrá til Alþingis 1859 þess efnis, að engum öðrum en jarðarbændum skyldi heimilt að hirða þar leiguliðagagn eða eignast bjarglaun fyrir stærri tré, er þar reka, — rekaplássum jarðanna verði skipt niður á jarðir að réttri tiltölu við stærð þeirra, þannig að hver jörð eða torfa hafi sitt afmarkaða rekasvæði. Alþingi tók vel í mál þetta og þótti einsætt, að þessum málefnum eyjabúa yrði skipað í samræmi við landslög og venjur, og var málinu vísað til nefndar. Framsögumaður var þingmaður eyjanna, séra Brynjólfur Jónsson. Lagði nefndin einróma til, óreglu þeirri, er gilti um rekamálin í eyjunum, svo sem það, að utansveitarmenn nytu þar sömu hlunninda í þessum efnum sem bændur, yrði létt af, — þeir einir, er byggju á jörðum, yrðu aðnjótandi gagnsins af reka, — rekaplássum verði skipt milli jarðanna eftir stærð þeirra, eftir að farið hefir fram skoðunargerð, framkvæmd af óvilhöllum mönnum, — og ályktar, að máli þessu beri að vísa til amtsins til frekari aðgerða. Var málið síðan af forseta Alþingis afgreitt til stifts- og suðuramtsins með bréfi 26. maí 1860, og bent til rentuk.br. frá 1799, þótt téð rentuk.br. að vísu upplýsi eigi neitt um þau atriði, er hér skipta máli.⁹)
Málið var, eins og áður segir, sent amtinu til frekari aðgerða. Samt leið heill aldarfjórðungur, unz ný skipan var gerð hér á, þrátt fyrir mikla óánægju og endurtekin tilmæli bænda. Loks 1896, sbr. augl. umboðsmanns 26. febr. nefnt ár, var gerð skipting á rekaplássum og þangfjöru milli jarðanna, er gilda skyldi frá 1. marz það ár. Höfðu eyjabændur sent umboðsmanni áskorun í bréfi, dags. 3. jan. 1896, um að hann hlutaðist til um, að skipt yrði rekafjörum, til þess að koma í veg fyrir það mikla ólag, er hér var að tómthúsmenn og utansveitarmenn gengju á reka og nytu hlunninda af ínytjum ábúðarjarða bænda. Umboðsmaður og sýslumaður, er eigi hefir talið fært að standa lengur á móti þessari sjálfsögðu kröfu bænda, kaus nefnd til þess að gera tillögur um málið og framkvæma skiptinguna, og var tillögum nefndarinnar fylgt að öllu leyti, eins og kom fram í nefndri auglýsingu. Var Heimalandinu nú skipt í 4 rekasvæði, 3 með 14 jörðum hvert og eitt með 7. Göngum var þannig hagað, að þar, sem 14 jarðir voru í sama rekaflokki, skyldi gengið frá 2 jörðum, 1 jarðarvelli, í senn tiltekinn vikudag, en frá einni jörð, þar sem 7 voru í flokki, og var mönnum skylt að hlýða kalli til að bjarga undan reka. Leiguliðagagn átti hver sinn göngudag. Stærri reka, bjarglaunum, skyldi skipta tiltölulega milli bænda í sama flokki, eftir jarðarmagni.¹⁰)
Rekahelgilína umhverfis Heimaey var nú ákveðin, og hverjum jarðarábúanda gert heimilt innan þeirrar línu að bjarga vikarreka á floti fyrir sínu eigin landi, en fyrir utan mátti hver hirða, sem gat. Rekahelgin var talin innan þessara takmarka: Hnaus við Lögmannssæti alla leið suður á móts við Flúð. Súlnasker við Hellutána, frá Flúðinni, til þess að Sigmundarsteinn er við Litlhöfða. Svo Geldungur við Hellutána. Bein lína úr Ketilsskeri til Stafnness, þannig að háhausinn á Stafnnesi sé við Dalfjall; þessi lína frá Lat utan við Gatið, þannig að Latur sé við Faxa.
Rekasvæðin, er skipt var niður, voru: 1. Garðsendi og Víkin frá NapaBröttuskál fyrir jarðirnar Norðurgarð (Eystri og Vestri), Þorlaugargerðisjarðir báðar, Gvendarhús, Brekkhús og Steinsstaði, 7 jarðir. — 2. Brimurð, Brimurðarloft og Klaufin frá Bröttuskál að Töglum og Ofanleitishamri: Ofanleiti, Dalir, báðar jarðir, Draumbær, Svaðkot, Nýibær, Ólafshús, Búastaðajarðir báðar, báðar Oddsstaðajarðir, 14 jarðir. — 3. Gunnarsurð með svæðinu frá Litlhöfða inn að Flúð, ásamt Eiðinu, Eysteinsvík frá Lat að Gati: Stakkagerði, Vesturhús, Presthús, allt tvíbýlisjarðir, Kirkjubæjartorfan, samtals 14 jarðir. — 4. Frá Flúðinni strandlendis inn í Klettsnef, ásamt Elliðaey: Vilborgarstaðir, Niðurgirðing, Stóragerði og Yztiklettur. — 5. rekasvæðið ætlað tómthúsmönnum: Torfmýri með Blákrók, frá Halldórsskoru í Syðra-Blákrók. Tómthúsin voru þá 31 og fékk hvert vissa rekadaga. Ef tómthús yrði lagt niður, skyldi rekadagur þess tilfalla jarðarbændum. — Samtímis var gerð skipting á þangfjörum milli jarðanna, og skipt í 6 þangfjörusvæði og hið 7. fyrir tómthúsmenn. Skiptingin í þangfjöru: 1. Frá Ofanleitishamri suður að Napa jarðirnar Ofanleiti, Draumbær, Steinsstaðir, Svaðkot. — 2. Brimurð, Brimurðarloft: Norðurgarður, Brekkhús, Gvendarhús, Dalir, Þorlaugargerði, Stóragerði. — 3. Frá Litlulöngu vestur með Skönzum og að Anesarviki ásamt Elliðaey: Búastaðirnir, Nýibær, Ólafshús, Stakkagerðin, Vesturhúsin. — 4. Frá Anesarviki að Holukletti ásamt Torfmýri: 4 jarðir í Kirkjubæ, Oddsstaðirnir og Presthúsin. — 5. Frá Holukletti að Litlhöfða: Kirkjubæjarjarðir fjórar, Norðurgarðsbæir. — 6. Hörgeyri með Löngu og Löngunefjum að Litlu-Löngu: Vilborgarstaðirnir. — 7. Skerið norðan við Faxasund: Tómthúsmenn. — Þang skyldi eigi skera nema einu sinni á ári, haust eða vor, og eigi losað nema skera það með eggjárni. Þang var mikið notað til eldsneytis og þangfjara talin til hlunninda jarða.
Í byggingarbréfum fyrir jörðum eftir 1896 var um reka vitnað til téðrar auglýsingar. Í eldri byggingarbréfum var vísað um reka til reglna, er áður hefðu gilt hér um. Sala á reka fór stundum fram á manntalsþingi.
Sem dæmi um rekafundi á síðasta hluta 19. aldar, — en svipað þessu mun hafa verið lengi, og sama sýna skýrslur frá miðri öldinni, — má tilfæra, að 1894 eru tilkynntir 34 rekafundir og 1899 50 rekafundir. Arður landeiganda fyrra árið var kr. 25,07 og hið síðara kr. 32,68. Meira en helmingur af tilkynntum trjávið er þó 6—13 álna tré. En virðingin er mjög lág, frá 30 aurum og upp í rúmar 6 krónur fyrir stærstu trén. Bjarglaun voru 1/3 af andvirði ótelgdra trjáa, en 1/2 af andvirði planka og annars reka. Árið 1903 er mikið rekaár. Þá eru tilkynntir 180—190 rekafundir. 16 álna tré eru virt á 5 kr. og 12 álna á 3 kr.
Hvalreki. Af hvalrekum hafði landeigandi og arð. Hvali rak hér endrum og sinnum eða fundust á floti og voru rónir í land, stundum af fleiri bátum í senn. Sjónarvætti fékk sá eftir gamalli venju, er fyrst tilkynnti valdsmanni um hvalreka. Var það sporðurinn með þrem liðum. Festarhlutur var sex vættir, jafnt af hvoru, spiki og rengi. Hvalsaga flaug um eyjarnar á svipstundu. Landmenn komu og hingað, ef þeir fréttu um hvalreka. Hvalskurðinn önnuðust bændur og búaliðar. Hvalur var seldur á uppboðum. Spikvættin var lengi seld hér á 1 rd., vættin af rengi nokkuð lægra. Um aldamótin var spikvættin seld um l½ kr., rengi 60—100 aura, hvalkjöt á 30 aura vættin, en hvalskíði, gómfylla, uggar, kjálkar, hvalrif og hvalliðir var selt fyrir lítilræði. Uppboðsandvirði tveggja reyðarhvala, er hér ráku 1902 frá hvalveiðaskipi, nam samanlagt 250 kr. að frádregnum öllum kostnaði.
Á hvalveiðaskipum frá norsku hvalveiðastöðvunum hér á landi var veitt mikið af hval kringum Vestmannaeyjar, svo að lokum sást hér varla hvalur. Hvalveiðaskipin festu hvali sína við akkeri á ytri höfninni og flutningaskip sóttu síðan. Eyjamenn keyptu töluvert af hvalrengi af hvalveiðamönnum.
Andarnefju rak stundum.

Heimildir neðanmáls í þessum kafla:
1) Sjá bréf stiftamtmanns 17. jan. 1829, sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
2) Bréfabók biskups.
3) Rentek. Isl. og Færö. Kopieb., Litra N., nr. 519; Lovs. III, 432.
4) Kirkjubækur Ofanleitisprestakalls, Þjóðskjs.
5) Kopieb., Litra Z., nr. 1067; Isl. Journ. 10, 822; Lovs. VI, 398.
6) Kopieb. 1854; Lovs. XV, 602.
7) Sýsluskjöl V.E. 1824—1833, Þjóðskjs.
8) Sjá þó amtsbréf 4. okt. 1837.
9) Tíð. frá Alþ. 1859, 72, 136—141, 460—463, 1922—1923.
10) Sjá og auglýsingu 9. febr. 1897.Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit