Saga Vestmannaeyja II./ IV. Fiskur og fiskverkun o.fl.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




IV. Fiskur og fiskverkun o.fl.


Frá fornu fari hefir fiskur (þorskur aðallega) og fiskafurðir verið aðalvarningur og gjaldmiðill í eyjunum. Afgjöld öll og opinberar greiðslur var talið í verkuðum fiski, og hefir þetta lengi verið eitt af sérkennum eyjanna. Leigur, skattar, tíundir, afgjöld og laun embættismanna var goldið í landaurum, í fiski eða fiskafurðum eða eftir fiskverði á hverjum tíma (verðlagsskrá). Fékk fiskurinn kenningarnafn eftir greiðslunum, er hann var látinn upp í: afgjalds-, landsskyldar-, leigu- eða konungsfiskur, skattfiskur, salarii- eða sýslumannsfiskur, tíundar- eða prestsfiskur, kirkjufiskur, sætafiskur, ölmusufiskur, þurfamannafiskur, skipsfiskur, gjafafiskur og burtgjafa, fátækrafiskur eða spítalafiskur.¹) Ýmisleg þóknun, er látin var í té: drykkju- og hrófölsfiskur, skriffiskur, skiphaldsfiskur.²) Fiskur táknar hér og oft beinlínis gjald, og eru framlög og greiðslur in natura, þó eigi séu borgaðar í fiski, samt oft kenndar við fisk: fuglafiskur (fuglatíund), nautsfiskur (nautshey eða heytollur), haga- eða beitarfiskur (hagatollur). Kaupmannsfiskur var fiskur kallaður, er gekk í verzlanir.
Allur þorskur var verkaður fyrrum sem skreið: harðfiskur, sölufiskur og landsskyldarfiskur. Nafnið stokkfiskur í eldri heimildum, sbr. kaupstefnur og elztu verzlunarreikninga, bendir til þess, að hér sé átt við bútungshertan fisk. Á seinni tímum var fiskurinn slægður og kviðflattur jafnskjótt og hann kom á land og verkaður síðan sem harðfiskur. Malflattur fiskur, á dönsku nefndur Platfisk. Íslenzk skreið var útflutningsvara til Björgvinjar á seinni hluta 13. aldar og skreiðarverðið fór sífellt hækkandi á 14. öld.
Harðfiskur var flokkaður eftir stærð: Vertíðarþorskur (grov Platfisk), minni (middel Platfisk), þyrsklingur (Plat Tillinger), ráskerðingur (Hænge- eða Spilefisk, grov, middel, Tillinger). Hert ýsa var og útflutningsvara (Platkuller) og hert langa (Platlanger). Hnakkaflattur fiskur (Hængefisk), er þurrkaður var á rám, var slæm verzlunarvara, sbr. Reskr. 11. apríl 1693.³) Um þessa síðastnefndu verkunaraðferð mun hafa verið lítið í Vestmannaeyjum. Á öllum einokunartímanum var harðfiskur mjög eftirsótt vara, en vanda þurfti til verkunarinnar, svo að fiskurinn stæðist mat eða gildingu, og stóðu eyjamenn framarlega í þessu efni. Góður harðfiskur skyldi, eins og áður segir, vega 2 pund, 40 fiskar í vætt.
Blautan fisk hafa kaupmenn keypt á vorin og sumrin og saltað til útflutnings. Er þessa getið bæði um Englendinga og Þjóðverja hér fyrr á öldum. Meðan Englendingar ráku hér kaupskap og útgerð hafa þeir keypt sumarfiskinn nýjan, og á einokunartímunum munu hafa verið mikil brögð að blautfisksverzluninni. Vor- og sumarfiskinn var eigi hægt að herða, og ætíð hafa mikil brögð verið að því, að fátæklingar seldu kaupmönnum fisk sinn nýveiddan. Á 17. öld og framan af 18. öldinni söltuðu kaupmenn blautfiskinn niður í tunnur. Var þessi fiskur, er Danir kölluðu Kabliau eða Labberdan, talin ágæt vara og í háu verði erlendis.⁴) Þessi verkunaraðferð, sem eigi hefir verið kunnugt um fyrr en frá umgetnum tíma, er þó eldri í Vestmannaeyjum. Í reikningum konungsverzlunarinnar sést getið um Habbardinerfisk, er mun vera sama og Labberdan. Sama er að segja um búlka- eða bunkafiskinn (Banke- eða Bunkefisk), er Danir verkuðu á einokunartímunum, að þessi aðferð er eldri, og hefir verið notuð í Vestmannaeyjum að minnsta kosti á síðari hluta 16. aldar. Er búlkafiskur í verzlunarreikningum þaðan frá nefndum tímum talinn sem útflutningsvara, ásamt „Stockfisk, Platfisk og Habbardiner“. Búlkafiskurinn var og kallaður „Bakkelav“, og er það dregið af veiðarfærum, eins konar lóð, er Danir notuðu hér við land og kölluðu „Bakke“.⁵) Þessa aðferð notuðu Danir, er höfðu sérstök fiskveiðaleyfi hér við land og söltuðu fiskinn í skip sín.
Á seinni hluta 18. aldar tók saltfiskverkun smám saman að færast í vöxt og verkunaraðferðin lík því, sem seinna gerðist, fiskurinn saltaður í kös, stafla, en ekki í ílát, og tekinn til verkunar á vorin, þveginn og þurrkaður. Gaf stjórnin út ýmsar fyrirskipanir um verkun á saltfiski (Klipfisk, Kliplanger og Klipkuller). Saltað heilagfiski (saltede Luder) kom og til útflutnings stundum.
Í Vestmannaeyjum var fyrr á tímum, bæði meðan Englendingar keyptu hér fisk að sumarlagi og seinna Danir, framleiddur saltfiskur, Kabliau eða Habbardiner og búlkafiskur, sbr. það, er að ofan segir, en eiginleg saltfisksverkun hefst þar eigi að neinu ráði fyrr en á öndverðri 19. öld og var orðin almenn fyrir miðja öldina, og þá að mestu notaðar venjulegar nútímaaðferðir.
Fiskur var hertur í fiskigörðum og fluttur þangað slægður og kviðflattur. Mun aðgerðin hafa farið fram niðri í fjöru, á sjávarklöppum, eða við fiskhjallana, er stóðu nærri sjó sumir, en eigi nærri allir. Fiskkrærnar, er seinna koma til sögunnar, voru allar reistar niður við sjó. Fiskurinn var fluttur í kláfum eða spyrðum upp í garðana á hestum. Á dögum konungsverzlunarinnar leigði forstöðumaður hennar tómthúsmönnum og landmönnum hesta til flutnings á fiski, en misskilningur er það, sem sums staðar gætir, að bændur hafi eigi haft eigin hesta til flutnings.
Verkunin á harðfiski var vandasöm og tók langan tíma. Hér skal lýst verkunaraðferðinni eins og hún tíðkaðist hér á seinni tímum og mun hafa verið gömul hér. Á þessi aðferð við útflutningsvöru, en eigi við fiskinn sem matfisk.
Er búið var að slægja og fletja fiskinn, var hann fluttur upp í fiskigarðana. Þar var hann fyrst kasaður, þ.e.a.s. lagður í kös, þó eigi með þeim hætti, að fiskinum væri hrúgað saman, heldur voru fiskarnir lagðir hver við hliðina á öðrum, eða að hringlagt var, á grasið í fiskigörðunum. Þeir voru grasgrónir að innan, en umhverfis hlaðið torf- eða grjótgörðum. Allmikið pláss þurfti fyrir fiskinn, meðan hann var í verkun. Þegar fiskur var kasaður var hann lagður saman og þunnildunum ýtt undir, og þetta kallað að leggja í helming. Að liðinni rúmri viku eða hálfsmánaðartíma, og stundum lengur, einkum framan af vertíð, var fiskurinn tekinn upp og skafin af honum slepjan. Varast var að þvo fiskinn upp úr vatni eða sjó, eða yfirleitt að láta nokkra vætu koma að honum. Var fiskurinn síðan þurrkaður á hliðarnar í einn—tvo daga og hlaðið í hlaða, og voru látin lög af þurrum þorskhausum í hlaðana, til þess að loftið næði betur að leika um. Úr hlöðunum var fiskurinn síðan breiddur upp á grjótgarða og harðþurrkaður. Fiskur, er ætlaður var til útflutnings, mátti helzt eigi frjósa, eftir að hann var breiddur upp. Ef fiskurinn lá of lengi í rigningatíð, var hætta á, að hann yrði maltur, en þá þótti hann óhæf útflutningsvara, sbr. alþingissamþykkt 30. júní 1545.⁶) Þegar fiskurinn var farinn að harðna nokkuð, var honum hlaðið í gisna smáhlaða, svo að hann þornaði betur. Fiskurinn var kýldur, þ.e. skorin var af þykkasta hnakkakúlan og dregin upp á bönd og hert sér. Verkunin á harðfiski tók langan tíma. Að jafnaði var vertíðarfiskurinn orðinn fullþurr í júnímánuði eða snemma í júlí. Fisk, sem veiddist seint á vorin eða á sumrin, var eigi hægt að herða á venjulegan hátt í fiskigörðum, en hér gátu fiskbyrgin komið að góðu liði.
Hjallar fylgdu jörðum frá fornu fari. Í þeim var harðfiskur geymdur. Hjallarnir mynduðu hverfi í Skipasandi. Sumum jörðum fylgdu tveir hjallar, annar þá oftast nálægt bænum. Nokkrar stórar steinkrær, er harðfiskur og annað harðmeti var geymt í, voru hér, sumar topphlaðnar. Leyfi umboðsmanns þurfti til þess að reisa hjall af velli og það á eigin kostnað. Þessir hjallar gengu kaupum og sölum og voru mjög eftirsóttir. Sumar jarðir voru hjallalausar, og þótti það ætíð slæmt.⁷) Þess er getið hér annars staðar, að íbúðarhús voru stundum reist upp úr hjöllum. Gömlu fiskhjallarnir hurfu eftir að hætt var að verka harðfisk.
Fiskkrær eða saltfiskkrær, hér kallaðar krær, komu í stað hjallanna eftir að saltfisksverkunin hófst, og voru margar byggðar úr gömlu hjöllunum. Hver jörð hafði nú sína jarðakró. Fiskkrærnar voru í Skipasandi ofan við núverandi Strandveg, og seinna, þegar útvegurinn óx, voru fiskhús, salthús og fiskkrær reist á stöplum úti í sjónum utan við Strandveginn. Hver, sem á land sté við bæjarbryggjuna, varð fyrst að fara gegnum króar- og fiskhúsahverfið, svo að fljótt var gengið úr skugga um, hver var aðalatvinnuvegur þessa héraðs. Margar þessar fiskkrær eru mjög hrörlegar og til lítillar prýði fyrir bæinn, enda fækkar þeim nú óðum. Fiskhúsin, beitu- og króarhúsin, sem áður voru nauðsynleg og samtvinnuð útgerðinni, eru að verða að sumu leyti óþörf og samsvara ekki kröfum nútímans. Ný fiskhús af steinsteypu eru reist upp af Skildingafjöru. Fiskhús og krær, sem ennþá eru skráðar hjá umboðinu, eru yfir 130 að tölu og goldin af þeim árleg leiga í ríkissjóð. Saltfiskkrærnar fara sennilega bráðum að verða úr sögunni eins og hjallarnir. Þungamiðja fiskiðnaðarins á landi er bundin nú við íshús og hraðfrystistöðvar.
Við krærnar fór fiskaðgerðin fram áður. Aðgerðarstúlkur, hvort sem voru heimastúlkur eða hlutakonur, þ.e. stúlkur ráðnar yfir vetrar- eða vorvertíð og gengu í hlutum, hirtu fiskinn við skipti á lendingarstað og drógu fiskinn eins og sagt var með fiskkrókum að fiskkrónum, þar sem aðgerðin fór fram á steinstéttum, seinna pöllum, við krærnar. Þessir fiskkrókar voru þannig gerðir, að í eikarhöldu, er lét vel í hendi, voru festir járnkrókar sinn í hvorn enda. Karlmannakrókar voru bugstærri en þeir, er kvenfólkið notaði, hinir síðarnefndu oft fagurlega renndir og jafnvel útskornir. Kvenfólki var ætlað að bera, hér sagt að draga, fisk á hvorum krók og þannig tvo fiska í hendi, en körlum tíðast helmingi meira. Kvenfólk afhausaði og slægði fisk, en karlar flöttu og söltuðu. Eftir að fiskútgerðin óx mjög varð öll aðgerð á fiski smám saman karlaverk. Fiskþvott önnuðust karlmenn alltaf fyrrum. Var fiskurinn þá þveginn úr sjávarlónum og borinn þangað og frá upp á stakkstæðin. Seinna var sjór fluttur í stór ker við fiskhúsin og fiskurinn þveginn þar. Eftir að stórútgerðin hófst annaðist kvenfólk fiskþvott, einkum fyrir verzlanirnar. Á stakkstæðunum, en svo voru þerrireitirnir ætíð nefndir hér, var fiskinum stakkað í stakka, venjulega kúlustakkað, en eigi sporðstakkað. Þegar búið var að þurrka fiskinn nokkuð, voru fiskstakkarnir fergðir og hlaðið á þá miklu grjótfargi. Þótti það erfitt verk. Undir grjótfarginu var fiskurinn látinn vera nokkra daga og síðan fullþurrkaður. Þessu var hætt seinna. Grjótvinnsla var hér mikil til stakkstæðisgerðar og garðalagna um matjurtagarða. Fiskurinn var borinn fyrrum á börum upp á stakkstæðin, og var það oft verk kvenna og unglinga, er og störfuðu mest að fiskbreiðslu og öðru og höfðu atvinnu af þessu yfir sumarmánuðina. Nú er fiskvinnan að mestu með öðrum hætti og komin í hendur fiskflökunarfólksins og aðgerðarmanna. Fiskurinn fer í ísfiskflutningaskipin og hraðfrystihúsin. Ísfisksamlagið er félag útvegsmanna, hliðstætt Lifrarsamlaginu. Það annast útflutning á þeim fiski, sem hér aflast.
Undir umboðinu eru talin nokkuð yfir hundrað stakkstæði eða þerrireitir, sem goldið er af. Hefir þeim fækkað allmikið seinni árin.
Fiskþurrkunarhús reistu þeir útgerðarmennirnir Þorsteinn Jónsson í Laufási og Stefán Guðlaugsson í Gerði hér. Firmað skrásett 1933.
Sjóveitu hefir verið komið upp.
Saltfiskverkun var venjulegast lokið fyrir fýlaferðir fyrrum, en tros- og úrgangsfiskur var þurrkaður á haustin. Harðfiskverkun var oftast lokið í júnílok. Kaupskipin fluttu fisk héðan í júlí og ágúst og stundum í september til Kaupmannahafnar og þaðan til ýmsra landa: Spánar, Ítalíu, Frakklands, Þýzkalands, Englands o.fl. landa, sbr. tilsk. 1787. Á seinni hluta 16. aldar var fiskur héðan fluttur til Englands og Hamborgar í Þýzkalandi.⁸) Fiskflutningaskipin, kaupskipin, fóru 1—2 ferðir á sumri. Undir miðja síðastliðna öld fóru skipin oftast tvær ferðir á sumri til Spánar (Bilbao). Í fyrstu Spánarferðina var venjulega farið í miðjum júní.
Eftir að stórútgerðin hófst var vinnu á stakkstæðum eigi lokið fyrr en í september eða október. Venjulegast náðist að þurrka allan vertíðarfiskinn yfir sumarið, þótt mikill væri aflinn, en gat þó brugðið út af í rigningasumrum. Fiskurinn var fluttur út eftir því sem hentaði með fiskflutningaskipum.⁹)
Lýsi. Það hefir jafnan verið mjög eftirsótt verzlunarvara. Framan af lengi var það unnið sem hrálýsi og það lagt inn í verzlanir á vorin. En snemma hefir orðið algengt, að lifur væri lögð inn í verzlanir eftir hvern róður. Var hún mæld í pottum og kútum. Lifrinni var safnað í stór ker, hér kölluð lifrarkör, er tóku margar tunnur. Stóðu þau úti undir berum himni. Upp úr þeim var brædd lifrin eða grúturinn í lifrarbræðsluhúsum. Lifrarbræðsluna önnuðust kvenmenn, bræðslukerlingar. Þótti það hið versta verk og vökur langar yfir grútarpottunum. — Gömlu grútarbræðsluhúsin við Garðsverzlun stóðu við sjóinn vestan undir nyrðri Skanzálmunni.
Upp úr aldamótunum voru gerðar miklar umbætur á lýsisvinnslunni smátt og smátt og komið upp gufubræðslu, og var þar fyrstur kaupmaðurinn við Miðbúðar- eða Godthaabsverzlun, er mjög lét til sín taka um margs konar framkvæmdir hér á þessum tímum.
Lifrarsamlag Vestmannaeyja var stofnað 1932, dags. samþykkta er 7. des. nefnt ár. Það annast alla lýsisvinnslu fyrir útgerðarmenn og starfar með fullkomnustu nútímatækjum. Samlagið er mikið fyrirtæki og veltir milljónum króna. Er lýsi mikill liður í útflutningi frá Vestmannaeyjum.
Fiskimjöl. Framleiðsla á fiskimjöli, unnið úr fiskúrgangi, hófst í Vestmannaeyjum. Reisti Gísli J. Johnsen kaupmaður hér fiskimjölsverksmiðju 1913, hina fyrstu hér á landi, og starfar hún enn, nú eign Ástþórs Matthíassonar. Þetta sama ár fékk Brillouin & Co. leigða lóð á Eiðinu til þess að koma þar upp fiskimjöls- og áburðarverksmiðju, en þetta komst eigi til framkvæmda. Fiskimjölsverksmiðjan Hekla var stofnsett 1924, en starfaði aðeins nokkur ár.
Hrogn voru notuð hér ætíð mikið til matar, en voru eigi útflutningsvara fyrr en eftir miðja 17. öld. Var mikil eftirspurn eftir hrognum oft á seinni tímum frá síðari hluta 18. aldar. Hrognin voru lögð inn í verzlanir ný, enda var það fyrirskipað lengi.
Sundmagi var verkaður til útflutnings frá því um aldamótin 1800. Fyrr var hann eigi orðinn útflutningsvara.
Fiskigarðar og fiskbyrgi voru útgerðarmanninum nauðsynleg fyrr á öldum. Hverri jörð hér fylgdu fiskigarðar frá fornu. Tóku garðarnir yfir mikið svæði vestan frá , Brimhólum innri og niður frá Agðahrauni og vestur undir Stakkagerði og sums staðar niður undir Sand. Til skamms tíma sáust leifar yngri fiskigarðanna, greinilegast vestur af Stakkagerði og víða annars staðar, en fiskigarðarnir voru í notkun hér almennt fram um miðja næstliðna öld. Garðarnir voru girtir lágum grjótveggjum og stundum torfi, eins og sjá má af rentuk.br. 11. maí 1745 og 16. apríl 1746.¹⁰) Sandflög mynduðust víða við fiskigarðana vestur á eyjum, og lagði stjórnin blátt bann við að stinga upp jörð til garðahleðslu, og lét sá melgresi í sandflög við fiskigarðana 1746. Fiskigarðarnir voru eigi minni en tveir reitir fyrir einn jarðarvöll sameiginlega. Elztu fiskigarðarnir lágu vestur undir Há og nær niður undir Skildingafjöru. Á þessu svæði áttu Vilborgarstaðajarðir og Kirkjubæjar sína garða, þá einnig Presthús, Oddsstaðir og Búastaðir, Vesturhúsin, Dalir og Steinsstaðir. Vestar, nær niður undir Skildingafjöru, höfðu bæirnir í Niðurgirðingu, sem og Ólafshús, Nýibær og Stakkagerði sína garða. Gerðisgarðar voru fyrir vestan Landakirkju. Nálægt Brimhólum voru fiskigarðar Ofanbyggjara og efst við Hraunið Ofanleitisgarðar. Nærri sjónum vestur af Bratta voru fiskigarðar landmanna, en tómthúsmannagarðarnir voru austar, um Bratta, Fögruvelli og Kastala. Þegar Tangaverzlunin var stofnuð fyrir 1850 var mikið af landmannareitum tekið undir verzlunarlóðina. Upp í garðana var fiskurinn fluttur á hestum, nema í þá, sem næst lágu sjónum. Fyrir jarðagarðana var ekki goldin sérstök leiga. Samkvæmt umboðsreikningum frá lokum 16. aldar var leiga goldin eftir hértalda fiskigarða: Á Fögruvöllum (Forgervoldt), Norðurgarðsreiti (Norre- eða Darregaardt), Hólsgarð (Hollegaardt), Stíggarð (Stigaard), Sandhúsagarð (Sandhusgaardt), Fjárgötugarð (Faarestigaardt), Sandgarð (Sandingsgaardt), Strandargarð (Strandingsgaardt), Lággarð (Laugaardt), Sjógarð (Söegaardt), Tindadalsgarð (Thinderdalsgaardt), sennilega kenndur við Blátind, Skólahúsgarð (Skolehusgaardt) og Steinshólsgarð, þó líklega réttara Steinsstaðagarð (Steenstolsgaardt).
Steinbyrgin, er jörðunum fylgdu, voru uppi í hömrum. Í þeim var geymdur matfiskur, fiskharðæti alls konar, einkum smáfiskur, skata og riklingur. Birgin voru hlaðin uppi á syllum í standberginu í Fiskhellum, einnig í Skiphellum og á nokkrum stöðum öðrum. Byrgin standa mörg enn þann dag í dag, uppi á hillum og blásnösum í berginu, og bera af við móbergið sjálft. Mega mörg þeirra eflaust teljast með elztu fornmenjum hér á landi. Er undravert, hversu þau hafa staðizt jarðskjálfta, er hér hafa gengið, oft harðir. Sums staðar hafa tré verið lögð á milli bergsnasa og við byrgin. Þau eru hlaðin upp af blágrýtishnullungum, er fluttir hafa verið úr Herjólfsdal og dregnir í böndum, sums staðar í kláfum upp á stallana. Byrgin eru sum nær manngeng, topphlaðin sum og hurð fyrir dyrum með læsingu. Þessi steinbyrgi hátt uppi í hömrum, þangað sem ekki virðist fært nema fuglinum fljúgandi, er greinilegur vottur og alveg einstæður, um harðfylgi það og ötulleik, er menn beittu, ekki einasta við það að afla lífsnauðsynjanna, heldur og til varðveizlu þeirra. Uppi í hömrunum var geymsla góð og örugg. Bergið slútir, svo að væta kemst lítt að. Til sumargeymslu voru þau ágæt, því að þar var lítið um flugur. Eigi var mikil hætta á, að stolið væri úr byrgjunum, því að í flest þeirra þurfti að síga í böndum. Í Fiskhellabergi og víðar sjást á stöllum og syllum ryðgaðir, gamlir naglahausar og för eftir nagla, er festir hafa verið í bergið og þar sett upp stög og fiskur hertur þar fyrrum, með þeim hætti, að kaðall var bundinn upp við naglana með snærisspotta og kallað „pakkabönd“. Milli snasa í berginu voru og festar rær og á þeim þurrkaður fiskur, ráskerðingur, spíldur fiskur.¹¹)
Í byrgjunum var geymdur matfiskur, eins og áður segir. Í dómi héðan, dæmdum á Hvítingum 16. apríl 1635, er matfiskur talinn: ýsa, skata, steinbítur, flyðra, karfi, keila, koli, ufsi o.fl.
Fiskigarðarnir fylgdu gömlu vallarskiptingunni, hver völlur eða 2 jarðir höfðu saman fiskigarða. Vallarskiptingin forna: 1. völlur: Kornhóll (Höfn) og Miðhús. 2. völlur: Gjábakkajarðir báðar. 3. völlur: 2 Vilborgarstaðajarðir, og þannig áfram. Kirkjubæjarjarðir og allar jarðirnar í Uppgirðingu. Svo Gerði og Steinsstaðir, er voru 1 völlur. Dalajarðir 1 völlur. Ofanleitisjarðir, Kotajarðir, Þórlaugargerðin, Norðurgarðsbæir og loks Stakkagerðin síðasti völlur.

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
1) Umboðsskjöl og sýslureikningar V.E., Þjóðskj.s., og víðar.
2) Sjá Hvítingadóm 16. júní 1685.
3) Lovs. I, 507. — Tíu hertar ýsur voru lagðar til jafns við einn hertan vertíðarþorsk. Sbr. Lýsing Gullbringu- og Kjósarsýslu 1785 eftir Skúla Magnússon, J.S. 10, fol.; J. Aðils: Einokunarsagan, bls. 484.
4) J. Aðils: Einokunarsagan, bls. 484.
5) Lovs. I, 268 og 336.
6) Lovs. I, 60.
7) Af gömlu hjöllunum hélzt Nýjabæjarhjallur við Nýjabæjarhellu og Nýjabæjarlón einna lengst við. Nokkrir allgamlir hjallar, þó ekki af hinni eiginlegu hjallagerð, voru lengi við líði.
8) Lýsing Þorláks Markússonar, Lbs. 291, fol., o.fl.
9) Wardfiskur, labri: hálfþurrkaður undirmálsfiskur; verkaður lítilsháttar.
10) Isl. og Færöe Copieb. 2007, Litra, Nr. 344 og 469.
11) Þess má geta, að í Tyrkjaráninu voru byrgin notuð fyrir felustaði fyrir konur og börn, er þangað voru dregin upp í böndum, en að litlu gagni kom þetta, því að Tyrkir höfðu leitað víða um byrgin. Á efstu sylluna komust þeir þó aldrei, og komst fólkið af, er þar var.



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit