Saga Vestmannaeyja I./ XI. Tyrkjaránið, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to searchXI. Tyrkjaránið
(Fyrri hluti)


Fjórtán ár liðu frá ráninu 1614, er stóð yfir frá 14. júní til 14. júlí, og þar til Tyrkjaránið var framið í júlí 1627. Hafa eyjamenn eigi verið búnir að ná sér eftir fyrra ránið, er ennþá skelfilegri atburðir skullu yfir.
Af tyrkneskum sjóræningjum stóð öllum kristnum þjóðum mikill ótti. Ræningjar þessir fóru víða um lönd, og hvar sem þá bar að, var ekki að griðum að spyrja. Morð, rán og rupl fylgdi þeim hvar, sem þeir fóru, og oftast komu þeir af mikilli leynd, eins og þjófur á nóttu, svo að vörnum varð eigi við komið, en ræningjarnir tóku alla, er eigi gátu forðað sér undan, og hnepptu þá í þrældóm og seldu mansali, því að „til þess voru og refirnir einmitt skornir“, með ránsferðum þessum, að ræna fólki, bæði körlum og konum.
Tyrkir náðu Miklagarði undir sig 1453, og færðu sig svo norður og vestur eftir meginlandi Evrópu, unz þeir voru loks stöðvaðir við Vínarborg 1683, er þeir hugðust að taka þá borg, og urðu síðan að hörfa undan aftur.
Tyrkinn var sökum grimmdaræðis og villutrúar skoðaður sem djöfullinn sjálfur. Þannig voru í hinum kristna heimi teknar upp af prédikunarstóli í kirkjum prédikanir móti Tyrkjum og bænagerðir í bænabækur eins og gegn verstu plágum og ógnum og ortur aragrúi af skamma-, særinga- og galdrakvæðum gegn þeim.¹) Þótt Tyrkja eða tyrkneskra ræningja sé eigi getið hér við land fyrr en hið minnistæða ár 1627, svo að menn höfðu lítið til þeirra að segja fyrr, höfðu þó verið teknar upp þakkar- og bænagerðir móti Tyrkjum hér á landi áður, þótt ekki væru til líka eins mikil brögð að því eins og eftir Tyrkjaránið, enda komst óttinn við Tyrki fyrst í algleyming hér eftir þann tíma og eimdi eftir af lengi, einkum í Vestmannaeyjum og víðar hér á landi, fram á síðustu tíma. Aðalbænasöngurinn gegn Tyrkjum hér á landi var sálmurinn: Eilífi guð vort einkaráð. Fyrst prentaður í sálmabók Guðbrands biskups 1619 og var síðan tekinn upp í fyrstu útgáfu Grallarans, sem út kom eftir að Tyrkir höfðu rænt hér, og síðan í öllum útgáfum af Grallaranum til 1779. Var sálmurinn sunginn fram á 19. öld hér á landi.
Ræningjar þeir, er hingað komu árið 1627, voru frá borginni Algier á Norðurströnd Afríku, en ræningjar þessir munu hafa verið sambland af alls konar illþýði frá mörgum þjóðum. Séra Ólafur telur þar á meðal í ferðabók sinni kristna menn af Evrópuþjóðum og aðra, er gengnir voru af trúnni, og hafi þeir verið verstir og grimmastir af ræningjunum, er rændu hér í Vestmannaeyjum, og hafi misþyrmt og drepið fólkið. Borgin Algier var um margar aldir eitthvert illræmdasta ræningjabæli, sem vitað var um. Var þaðan haldið uppi ránsferðum fram á 19. öld, svo að eigi þarf að furða sig á, þótt geigur væri i fólki hér á landi, þar sem menn voru varnarlausir, en einkum treyst á viðnám Englendinga og fyrirsát á herskipum þeirra til að bægja ræningjum frá Norðurhöfum. Ránsferðir þessara ræningja náðu til ýmsra Evrópulanda fram á 18. öld.
Eins og kunnugt er höfðu rán verið framin bæði í Grindavík og í Suður-Múlasýslu, áður en ræningjarnir komu til Vestmannaeyja. Þangað hafði fregnin um komu þeirra í Grindavík borizt. Hafa eyjamenn þá farið að óttast um sig og höfðu þá ýmsan viðbúnað og skanzasmíði.
Snemma morguns mánud. 16. júlí 1627 sáust í landsuður af eyjunum þrjú skip, er stefndu heim undir eyjar. Vindur var á vestan-útnorðan, svo að skipin höfðu heldur andbyr og gekk þeim seint og tóku marga slagi þann dag allan til kvölds.²) Uggur og ótti greip fólk í Vestmannaeyjum, þegar sást til skipa þessara, því að það hafði, eins og áður segir, frétt til ránanna í Grindavík, og var síðan haldið uppi vöku í eyjunum og hafðar nákvæmar gætur á öllum skipum, er sást til af hafi. Var safnað saman öllum vopnfærum mönnum niður á svokallaðri Dönskueyri, þar sem virkið var, er áður getur, og fallstykkin. Gekkst kaupmaðurinn fyrir þessu og voru mönnum fengnar byssur og verjur eftir því, sem tök hafa verið á, og lét kaupmaður hreinsa fallbyssurnar. Átti þannig að verja ræningjunum aðgang að höfninni. Um kvöldið fóru menn í burtu af varnarstaðnum, því að ræningjaskipin höfðu eigi færzt mikið nær, og margir héldu nú, að þetta væru varnarskip Danakonungs, sem von var á að kæmu hingað. Segir í ferðasögu sr. Ólafs, að hinir dönsku hafi þótzt kenna skipin, að þau væru varnarskip, svo að eigi var að undra, þótt menn gerðust nú skeytingarminni. Vitjuðu menn heimila sinna, kvenna og barna, og munu sumir þegar þessa nótt hafa komið fjármunum og fólki í fylgsni, hvað sem í skærist. Tvö af skipum þessum voru ræningjaskip þau, er ræntu fyrir austan, en þriðja skipið hafði slegizt í fylgd með hinum á leiðinni suður með landi. Ræningjaskipin hittu í Fjallasjónum enska duggu, er þar var að fiski, og tóku ræningjarnir þar níu menn, er þeir lofuðu að skila aftur, ef hinir ensku vísuðu þeim til hafnar í Vestmannaeyjum. En töluverð vandkvæði hafa verið talin á að leita þar hafnar sökum varnarvirkisins við höfnina og fallbyssanna þar. Hafa ræningjarnir búist við skothríð frá höfninni og ætluðu þeir að láta eitt skipa sinna mæta skotunum, en halda hinum í hléi af því. Var svo ráð fyrir gert, að þeir legðu að höfninni um miðaftansleytið. Voru menn þá í landi búnir til varnar og hefðu hleypt af fallbyssunum móti ræningjunum, en hversu tekizt hefði með að varna þeim landgöngu er samt óvíst. En til þessa kom ekki, því að einn af hinum níu mönnum, er teknir voru af ensku duggunni, réð þeim frá að leggja að höfninni og vísaði þeim á aðra uppgöngu sunnan til á eynni. Flest handritin af Tyrkjaránssögunni nefna hann Þorstein og segja hann íslenzkan. Sum gefa í skyn og önnur segja berum orðum, að það hafi verið hann, sem drap séra Jón Þorsteinsson. Af fjórum handritunum af frásögn Kláusar Eyjólfssonar, sem prentuð eru, tekur aðeins eitt ekkert fram um það, hverrar þjóðar maður þetta hafi verið, en nefnir hann þó sama nafninu, Þorstein. Í Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá segir svo: „En það greinist, að einn af þeim níu duggurum hefði verið íslenzkur maður,“ og að hann hafi vísað ræningjunum á leynistig til að komast upp. Í þessari frásögn er manns þessa eigi getið í sambandi við líflát séra Jóns. Af frásögn séra Ólafs má ráða, að Þorsteinn, er vísaði ræningjunum leið, hefir eigi verið sami maðurinn og sá, er veitti séra Jóni banahöggið. Segist séra Ólafi svo frá: „Einn Tyrki var sá, er hvern dag þvoði sig í vatni þann allan mánuð, sem reisan yfirstóð, og var líka þveginn af öðrum, og það sagði sú fróma kvinna Margrét, kona séra Jóns, að hann hefði orðið að skaða sínum manni.“ Séra Ólafur segir ennfremur í ferðasögu sinni, að enskir duggarar hafi vísað ræningjunum þá óvenjulegu leið, er þeir fóru í land, en nefnir eigi Þorstein. Helzt virðist mega álykta við samanburð á frásögnunum, að íslenzkur maður með umgetnu nafni, einn af skipverjum, hafi verið á ensku duggunni og sökin eftir almenningsrómi svo bitnað á honum sem líklegustum til að hafa vísað á þessa óvanalegu leið, sem þó eigi þurfti að vera. Vel gat og maður með Þorsteins-nafni verið norrænn, þótt svo virðist sem maður kunnugur eyjunum, innlendur eða útlendur, hafi verið með ræningjunum og vísað þeim á landgöngustaðinn við Ræningjatanga, sem er mjög afskekktur, þá mælir hitt samt á móti, að ræningjarnir freistuðu fyrst að leita uppgöngu í Kópavík. Því að enginn, er kunnugur var í eyjunum, hefði vísað þangað til landtöku, sem kallast má ókleyft upp að komast. Í ferðasögu sinni segir séra Ólafur, að danskur maður, einn Páll að nafni, hafi vísað ræningjunum til Íslands.
Skipin sigldu frá höfninni og suður með Urðum og hurfu bak við Foldirnar, en Foldir nefnast hæðirnar suður og austur af Helgafelli og suður á Flugur. Reið þá kaupmaðurinn Lauritz Bagge, er virðist hafa haft aðalforustuna á hendi, og menn með honum suður á Foldir, til að skyggnast eftir skipunum, því að undarlegt hefir þótt, að skipin skyldu taka þessa stefnu, og þá líkast sem þau leituðu burt frá eyjunum. Munu skipin hafa verið komin suður í Bót, milli Sæfjalls og Litlhöfða, er settir voru út bátar frá þeim fullmannaðir. En hér á þessu svæði er alls staðar bratt uppgöngu á land og sums staðar yfir hamrabelti að fara. Hefir kaupmaður séð, að hér mátti taka upp varnir, og sendi hann til skipstjórans á danska kaupskipinu, er fyrir nokkru var komið og lá hér á höfninni, með boðum um, að menn kæmu fjölmennir suður eftir með vopn og verjur. Leituðu ræningjar lands í Kópavík milli Sæfjalls og Kervíkurfjalls, en þar er lending góð, en eigi fært öðrum en vönum klettamönnum að komast þar upp. Sáu ræningjarnir skjótt, að þar var eigi vænlegt uppgöngu og hurfu þaðan og réru bátunum suður fyrir Litlhöfða og suður með Svörtuloftum og lentu við Tangann suður af Brimurð, sem síðan heitir Ræningjatangi, og gengu þar á land. Þarna er að jafnaði brimasamt og lítt lendandi, nema þegar ládeyður eru og blíðviðri, svo að auðsætt er, að veður hefir verið gott þennan minnisstæða dag. Vissu menn eigi til, að þarna hefði verið lent skipum. Samt var þetta eini staðurinn á þessum hluta eyjarinnar, sem líklegur var og fær til uppgöngu, unz komið var suður fyrir Stórhöfða og í Víkina. Nokkrir menn, þar á meðal kaupmaðurinn í eyjunum, höfðu fylgt bátunum frá ræningjaskipunum eftir á landi og sáu þeir hvað öllu leið. Og er ræningjarnir voru komnir á land á nefndum stað, gengu hinir fljótt úr skugga um það, að engin tök myndu á því að varna þeim uppgöngu, því að þarna er eigi erfitt upp að sækja og auðvelt að dreifa sér, en ræningjarnir fjölmennir og miklu liðfleiri en vopnfærir menn í eyjunum. Verjast hefði samt mátt þarna með steinkasti og skothríð, ef nægur mannfjöldi hefði verið þarna fyrir. Snéru nú flestir af þeim fámenna hópi, er með kaupmanni voru heimleiðis aftur, til þess að vitja kvenna sinna og barna, er heima biðu með angist, og freista, ef takast mætti að koma þeim undan. Kaupmaður hleypti samt af byssu á ræningjana, til þess að vita hvernig þeim yrði við, en þeir grenjuðu eða ráku upp sköll á móti og létu þetta eigi í neinn máta aftra sér. Reið nú kaupmaður undan sem harðast norður eftir aurunum, og mætti hann áðurnefndum skipstjóra á leiðinni. Gæti þetta hafa verið nálægt Dölum eða bæjunum fyrir ofan Hraun, eftir því hvor leiðin hefir verið farin. En þessir menn hafa gert fólkinu á efri bæjunum aðvart, en undanfæri var lítið fyrir þetta fólk, því að ræningjarnir hafa farið hratt yfir, svo að fáir hafa getað forðað sér.
Það er af þeim kaupmanni og skipstjóra að segja, að þeir riðu sem hraðast heim í kaupstað. Skipstjóri fór út í skip sitt, gat borað gat á það og hjó sundur festar þess, svo að það ræki upp eða sykki, en kaupmaður gekk svo frá fallbyssunum, að þær skyldu eigi nytjast ræningjunum, ef þær féllu í þeirra hendur. Sást nú til ræningjanna, er komu með óhljóðum sunnan að, að líkindum á öxlina austur af Helgafelli, því að sá hópurinn, er austast fór, hefir verið fljótastur og tafðist eigi þar við neina bæi, en þeir, er í miðið fóru, hafa fyrst hitt bæinn eða bæina í Dölum, þar mun hafa verið tvíbýli, og rænt þar, en þriðji og vestasti hópurinn hefir tekið Ofanleitisbæina. Kaupmaður tók þann kostinn, sem vænlegastur var, að reyna að komast á bátum til lands og sté á opinn bát, er var á floti á höfninni, með öllu sínu heimafólki og réri lífróður út að Klettsnefi, en þá voru ræningjar komnir að Dönskuhúsum. En úr því komið var inn fyrir Klettsnef var kaupmanni og hans fólki borgið, því að þá hafa þeir beygt inn með Yztakletti og komizt í hvarf. Skipstjórinn og skipshöfn hans forðuðu sér sömu leið á skipsbátnum. Farnaðist þeim vel til lands, en fengu ágjöf nokkra, því að norðankylja hafði verið, en þá er brimlaus sjór suður við eyjar. Eigi er þess getið, að aðrir hafi komizt undan með þessum hætti, en það er víst, að miklu fleiri hefðu getað forðað sér með þessu móti, ef athugað hefði verið nógu snemma, t.d. með því að manna út báta af Eiðinu, er ræningjaskipin voru snúin frá höfninni.
Ræningjarnir báru alvæpni, byssur, spjót og hnífa. Þeir dreifðu sér í þrem aðalhópum um Heimalandið. Vestasti hópurinn hefir farið um byggðina fyrir ofan Hraun, en sá austasti um Kirkjubæ og Vilborgarstaði. Ræningjarnir réðust heim að bæjunum, en þaðan var fólk flúið, er undan hafði getað komizt. Á efstu bæjunum hefir fólkið orðið verst úti, er ræningjana bar svo fljótt að og óvænt, því að enginn bjóst við því, að ræningjarnir kæmu sunnan að. Hvar sem ræningjarnir fundu fólk á vegi sínum, tóku þeir það og bundu og ráku á undan sér niður í kaupstaðinn og jafnvel líka búpening, er á vegi þeirra varð, en þá menn og konur, er eigi gátu gengið nógu hart og fylgt eftir, drápu þeir og hjuggu einatt lík þeirra í sundur. Stærsti hópurinn stefndi að verzlunarstaðnum og fór með mikilli skyndingu. Hafa þeir haft fregnir af virkinu og fallbyssunum, er þar voru, og gátu búist þar við vígbúnaði og vörnum, svo að þeir hafa eigi þótzt öruggir fyrr en þeir höfðu virkið á valdi sínu. Ræningjarnir, sem á land komu, voru um þrjú hundruð, líklega talið í stórum hundruðum. Þeir voru búnir að dreifa sér og fara fram og aftur um alla eyna þegar að kvöldi þess sama dags og þeir stigu á land eða 16. júlí. Leitinni héldu þeir áfram aðfaranótt hins 17., þann dag allan og 18. júlídag allan til kvölds. Segir frá því, að þeir hafi gengið fjöllin og leitað um hella og skúta, svo að enginn kæmist undan. Þeir klifruðu upp á hillurnar í Fiskhellum, sem er hátt, þverhnýpt bjarg, og leituðu þar í fiskbyrgjunum, sem standa á syllum í bjarginu, og tóku þaðan nokkrar konur og börn, er þangað hafði verið komið upp með miklum erfiðismunum, til þess að forða þeim undan. En þangað hefir mönnum sízt dottið í hug að ræningjarnir myndu leita. Upp á svokallaða Þorlaugargerðishillu hafa ræningjarnir eigi komizt, og það fólk, er þangað komst og eigi var skotið niður, hefir komizt af. Prestinn séra Jón Þorsteinsson fundu ræningjarnir í helli einum austur af bænum Kirkjubæ. Í þessum helli hafði séra Jón falið sig með fólki sínu og drápu ræningjarnir hann þar. Ræningjarnir brenndu Landakirkju til ösku og rændu skrúða hennar og öðru fémætu, er kirkjan hefir eignazt eftir fyrra ránið 1614, þó eigi kirkjuklukkunum, að því er virðist, og mun hafa verið búið að koma þeim undan í fylgsni í fjallaskúta. Þeir lögðu eld í bæinn á Ofanleiti og fluttu prestshjónin, séra Ólaf Egilsson og konu hans og börn ásamt öðru heimilisfólki þeirra niður að Dönskuhúsum. Var prestskonan þunguð og nær komin að falli, en samt var henni ekki hlíft. Hún fæddi barn sitt um borð í ræningjaskipinu á 11. degi eftir burtför ræningjanna frá eyjunum.
Í Dönskuhúsum, er hafa verið nægilega rammbyggileg, geymdu ræningjarnir fólkið, er komið var með úr leitunum, og héldu því þar, unz það var flutt út í skip ræningjanna, er nú höfðu leitað aftur að höfninni, er þar var eigi lengur neitt að óttast. Sigldu tvö skipin inn á höfnina og hafa lagzt þar, en eitt lá fyrir utan á svonefndum Grunnum. Það var stærsta skipið og út í það var flutt fólkið úr Dönskuhúsum á tveim tenæringum, og fyrst valið það skársta úr, eins og fé í rétt. Voru fangarnir sjálfir látnir róa bátunum út í skipið móti allsnörpum austanvindi. Á þessu skipi var fólkið, er ræningjarnir höfðu tekið fyrir austan. Á miðvikudagskvöld, þ. 18. júlí, var allt fólkið, er rænt var á eyjunum og ræningjarnir vildu flytja með sér, komið út í skipin. Í Dönskuhúsum var þó enn eftir nokkuð af gömlu fólki, er ræningjunum hefir eigi þótt þess virði að flytja með sér til að selja mansali. Þetta fólk skildu þeir eftir inni í húsunum, og kveiktu síðan í þeim, og brann fólkið þar inni, eftir því sem sjónarvottur lýsti síðan, piltur einn, er komst af með þeim hætti, að hann skreið eftir gólfinu í mannþrönginni og komst út um leynidyr, er eigi hafa verið lokaðar.³)
Um miðjan morgun fimmtudaginn 19. júlí voru ræningjarnir búnir að koma hinu hertekna fólki og góssi öllu, er rænt var, fyrir í skipum sínum og einnig á danska kaupfarinu, er þeir tóku í höfninni og eigi hefir verið sokkið, þrátt fyrir tilraunir skipstjóra þess til að sökkva því, sbr. áðursagt. Undu ræningjarnir nú upp segl og drógu upp akkeri, og sigldu á braut með herfang sitt. Skutu þeir um leið mörgum fallbyssuskotum eins og til að kveðja eyjarnar, sem þeir höfðu leikið svo grátt. Sigldu skipin svo inn fyrir Elliðaey og tóku síðan stefnu á haf, í hádegisstað. Harmur mikill og kvein setti nú að fólkinu, er það sá eyjarnar og landið hverfa sýnum. „Reyndi þó hver, sem bezt hann kunni,“ segir séra Ólafur, „að hugga annan með guðsorði, svo vel karlar sem konur, ungir sem gamlir, því fólkið var vel að sér og frótt í orði drottins og sínum sáluhjálparefnum.“ Má geta nærri, hversu fólkinu hefir verið innanbrjósts eftir allar þjáningar þess, margt af því fráskilið ektamaka og öðrum ástvinum, og tekið með hervaldi og flutt á brottu til fjarlægra landa, sem fæstir hafa vitað nokkra grein á, til þess að ganga undir ævilanga þrælkun.
Flestum ber saman um, að hernumdar hafi verið í eyjunum 242 manneskjur í þessu ráni. Séra Ólafur segir 36 drepna hér af ræningjunum. Svo er almennt talið, að 30 manns hafi fundizt drepnir og verið jarðaðir hér, sumir segja að fundizt hafi 34 drepnir. Um það, hversu margt fólk hafi komizt undan í ráninu, verður eigi sagt um með fullri vissu. Um fólkstöluna í Vestmannaeyjum á þessum tímum er eigi kunnugt, en víst er, að á þessu tímabili hefir verið hér allfólksmargt, t.d. töluvert fleira fólk en um aldamótin 1700. Góð fiskiár voru í eyjum undir lok 16. aldar og framan af 17. öld. Í góðum fiskiárum streymdi fólkið til eyjanna. Eftir tölu tómthúsanna, eins og jarðabækur sýna þau frá ári til árs, má áætla með töluverðri nákvæmni um fólksfjöldann. Tala jarðarábúenda er oftast hin sama. Tala heimilisfeðra, tómthúsmanna og bænda var árið 1601, en til þessa árs ná yngstu umboðsskrárnar fyrir Tyrkjaránið, var 79, þar af 35 tómthúsmenn. Við manntalið hér 1703 var fólksfjöldinn 339, þar af 11, er heima áttu annars staðar. 1887 er tala búandi manna hér 86, tómthúsin þá rúm 40. Fólksfjöldinn er þá 561. Í Vestmannaeyjum höfðu verið góðæri á undan Tyrkjaráninu, svo að með vissu má gera ráð fyrir, að tómthúsin hafi eigi verið færri þá en 1601 og líklega þó heldur fleiri. Í góðærum var og meira um vinnufólk hjá bændum. Á öndverðri 17. öld voru meiri góðæri hér og fiskisæld en á síðari hluta 19. aldar. Af fyrrnefndu kvæði séra Jóns Þorsteinssonar má sjá, að mikil velsæld hefir verið hér á þeim tímum. Fyrir aldamótin 1700 höfðu verið hér slæm ár og fólkið miklu færra þá en verið hafði um miðja 17. öld. Við samanburð á ofangreindum tölum um búendatölu og fólksfjölda 1887 og búendatöluna 1601 virðist með fullum rétti mega áætla mannfjöldann hér, er Tyrkjaránið var framið, allt að 500 manns. Þess sést og getið, án þess að nokkur rök séu færð fyrir, að 500 manns hafi verið í Vestmannaeyjum, er Tyrkir komu þar 1627.⁴) Samkvæmt framansögðu má því gera ráð fyrir, að um 200 manns hafi komizt undan hér í Tyrkjaráninu. Af þeim, er undan komust, eru taldir 4 eða 5 hraustir menn, er komust í fylgsni í Ofanleitishamri. Er sennilegra, að þeir hafi farið niður Hamarinn og falið sig í hellum í urðinni undir Hamrinum. Þessir menn munu hafa verið einhleypir menn af bæjunum fyrir ofan Hraun. Getur séra Ólafur þess, að einhleypingar hafi orðið fyrstir til að forða sér. Menn þessa höfðu ræningjarnir handtekið áður í felustað þeirra í Ofanleitishamri og látið þá liggja í fjötrum meðan þeir eltu tvær stúlkur. Höfðu sumir þessara manna tekið upp varnir, en verið ofurliði bornir. Annarri stúlkunni, er áður um getur, tókst að komast í hvarf til mannanna, og leysti hún einn þeirra, en hann aftur félaga sína. Eftir lýsingunni mun þetta hafa gerzt í hraunlautunum vestur á Hamri. Mennirnir snöruðu sér síðan niður fyrir Hamarinn, en hann er snarbrattur og eigi fær nema fjallamönnum, en samt veigruðu ræningjarnir sér eigi að fara utan í Hamarinn, sbr. er þeir tóku þessa menn þar, en nú tókst þeim að komast í öruggt fylgsni, svo að ræningjarnir höfðu þeirra ekki. Mun minnsta kosti önnur stúlkan hafa komizt til mannanna og bjargazt. Tvær konur fólu sig í afhelli eða í skúta í hellismunnanum. Úr Dönskuhúsum tókst dreng að komast undan með því að skríða í fólksþrönginni eftir gólfinu og slapp út um dyr einar. Getur verið, að þetta hafi einmitt verið Jón sá Ormsson úr Vestmannaeyjum, er seinna komst í þjófnaðarmál fyrir norðan og var hengdur norður í Langadal 1634, en um hann var sagt, að hann hefði komizt undan Tyrkjum hér í ráninu með því að fleygja sér niður meðal þeirra, er drepnir höfðu verið. Komst svo niður fyrir björg og faldi sig þar.
Í ferðasögu sinni segir séra Ólafur Egilsson, að nokkrir af nágrönnum hans hafi komizt með mesta flýti undan í hella og ofan fyrir hamra til að bjarga lífi sínu, en fátt hafi annars komizt undan af efri bæjunum, því að þangað áttu ræningjarnir stytzt til að fara, og eigi nema það, sem hraust var og ei hafði eftir að draga, né gáfu sig við öðrum. Séra Ólafur nefnir „af þeim frómu mönnum, sem eftir urðu,“ „öðrum framar“ Odd Pétursson, Bjarna Valdason, Jón Snorrason og Magnús Egilsson. Þrír hinir síðasttöldu fóru með konur sínar og börn upp í hella eða skúta í berginu í Fiskhellum. Hefir þetta líklega verið á Þorlaugargerðishillu, en þar hafa Þorlaugargerðisbændur haft fiskbyrgi sín. Hafa og gengið sagnir um það í eyjunum, að á Þorlaugargerðishillu hafi fólk komizt undan í Tyrkjaráninu. Er það í munnmælum, að pils sumra kvennanna á Hillunni hafi lafað fram af berginu og hafi 18 kúlugöt verið á pilsi einnar konunnar, en hana hafi eigi sakað. Á Þorlaugargerðishillu, sem er efst í Fiskhellabergi, hefir orðið að gefa fólkinu niður í böndum. Af neðri syllunum í berginu hefir fólkið verið skotið niður. Jón Snorrason, er hér getur, er sennilegt að sé sonur Snorra Jónssonar, er um 1600 bjó á Ofanleitishjáleigu og var formaður á konungsbátnum Morgunstjarnan. Bjarni Valdason var lengi formaður hér. Hann drukknaði 1636.⁵) Hann og Magnús, sem nefndur er Egilsson, en réttara mun Eyjólfsson, munu hafa verið bændur fyrir ofan Hraun. Þeirra getur sem gefenda til Landakirkju síðar.
Oddur Pétursson faldi sig uppi á , líklega á Háhánni, og var þar til þriðjudagsins 17. júlí, er Landakirkja var brennd. Flýði hann þá burtu af Hánni og á annan stað. Hefir það verið almenn sögn hér, að hann hafi látið reykjarmökkinn frá Landakirkju hlífa sér, er hann leitaði í annan stað, og að hann hafi fyrst falizt á Lághánni. Oddur var síðan kenndur við Hána og kallaður Oddur á Hánni. Var hann jafnan talinn merkismaður. Hann var sonur Péturs List eða Lister, er var norskur eða suðurjózkur að ætt. Pétur List bjó í Stakkagerði og var bæði kóngssmiður og formaður fyrir konungsskipum. 1587 er hann með tólfæringinn Morgunstjörnuna og árið 1600 er hann formaður á tenæringnum Gideon. Pétur List hefir verið á lífi 1606. Er hann einn meðal undirskrifenda að kirkjusamþykktinni, en hann mun hafa verið dáinn 1627. Oddur Pétursson sonur hans var mjög lengi formaður í eyjunum. 1600 var hann með konungsskipið Nýja Salómon, tenæring. Oddur drukknaði 1636 eða sama árið og Bjarni Valdason. Var Oddur þá með skipið Björninn, er var einn af innstæðubátunum, tólfæringur og gamall, byggður um 1590. Oddur hafði verið mjög heppinn og aflasæll formaður. Við hann er kennd Oddsfjara undir Reynisfjalli í Mýrdal. Þangað hrakti Odd eitt sinn á skipi sínu frá Vestmannaeyjum og komust þeir lífs af. Þeir feðgar Pétur List og Oddur sonur hans hafa verið hinir mestu dugnaðarmenn. Sonur Odds var Jón Oddsson, er lengi hefir búið í Stakkagerði eftir föður sinn. Hann var maður Önnu Jasparsdóttur, sem efalaust er kona sú, er sögnin um drottninguna í Algiersborg var tengd við. Af Oddi Péturssyni er komin merk ætt hér á landi.⁶)
Lauritz Bagge kaupmaður komst undan með sínu húsfólki, er hefir verið allmargt. Fleira mun hafa komizt þar með. Báturinn hefir verið mannaður hinum duglegustu og beztu sjómönnum, er þannig hafa komizt af. Þeir, sem konur áttu, hafa ef til vill verið búnir að koma þeim og börnum í fylgsni áður, er þeir þóttust geta treyst að fyndust eigi, en það er kunnugt af frásögnunum, að ræningjarnir leituðu uppi hvern felustaðinn eftir annan. Í þessum frásögnum getur eigi Hundraðsmannahellis, en sú sögn hefir lifað í munnmælum hér, að þar hafi eitt hundrað manns komizt af í ránum og beri hellirinn nafn af því. Ekkert verður sagt um það, hvort sögnin á við Tyrkjaránið eða við fyrri rán, t.d. ránið 1614, en þá fól fólk sig í hellum. Alkunn er sögnin um Sængurkonustein og konuna, er þar ól barn sitt. Segir sagan, að þetta hafi skeð í Tyrkjaráninu. Hafi ræningjarnir hlíft bæði barninu og móður þess, og einn þeirra hafi sniðið af skikkju sinni til að reifa barnið í. Sængurkonusteinn er í norðvestur af Helgafelli. Sennilegt er, að þessi sögn eigi við fyrra ránið. Í Tyrkjaránssögunni segir frá því, að ræningjarnir hafi fundið konu, er hljóp sem hraðast hún kunni, en þeir á eftir, þar til hún fæddi sitt fóstur, og datt þar dautt niður bæði hún og fóstrið. Gömul sögn er það og, að tvö börn hafi komizt af undir svonefndum Bræðrasteini við götuna sunnan undir Fiskhellum. Gera má ráð fyrir því eftir venjum og staðháttum hér, að eitthvað af mönnum hafi verið í úteyjum til lundaveiða á þeim tíma, er ránið var framið, sem einmitt var um hálundatímann, svo framarlega sem menn hafa þá legið við í úteyjum til lunda. Einnig gat og hafa verið legið þar yfir heyi. Þó má eins gera ráð fyrir því, að minnsta kosti hafi giftir menn eigi árætt það að vera fjarri heimilum sínum eftir að frétt var um ránin í Grindavík, og virtist jafnvel hættumeira að vera í úteyjum, ef ræningjar kæmu að eyjum. En þess er hvergi getið, að ræningjarnir hafi í þessu ráni leitað um úteyjar. Benda má á, að góðir felustaðir hafa verið hvannstóðin miklu í Dufþekju og sums staðar í Klifinu, og gott að leynast þar, ef fólk hefði haft svigrúm til að komast á þessa staði, en landtaka ræningjanna varð með svo óvenjulegum hætti, að fáir vöruðust. Gera má ráð fyrir, að nokkuð af eyjafólki hafi verið á landi, er ránið varð, t.d. í kaupavinnu.
Séra Jón Jónsson prestur í Kirkjubæ segir í bréfi til Odds biskups Einarssonar í maí 1630,⁷) að alls hafi verið í eyjunum 24 konur, er hafi misst menn sína á ræningjaárinu, en 16 karlmenn, er misstu konur. Björguðust 8 giftum konum fleira en kvæntir karlar. Með þessu fólki hafa og bjargazt börn. Ber og frásögnunum saman um, að menn hafi reynt af fremsta megni að koma undan konum og börnum. Allmargir menn misstu konur sínar. Voru konur drepnar af ræningjunum, og sumar skotnar niður af syllunum í Fiskhellabergi, þangað sem búið var að koma þeim á vöðum. Eiginmenn sumra kvennanna, er herteknar voru, geta hafa verið á landi, er ránið var framið, eða utan Heimaeyjar. Víst er, að allmargt hefir komizt undan af einhleypu fólki, enda segir svo, að það hafi orðið fyrst til að forða sér. Á tæplega þrem árum eftir ránið, frá því í júlí 1627 til maí 1630, fæddust 37 börn eða þar um. Sýnir það, að allmargt hefir fólkið verið þá þegar hér og ný hjónabönd stofnuð. Á næstu árunum eftir ránið var kvartað mjög undan hneykslanlegri sambúð fólks í eyjunum, einkum þeirra, sem skildir voru frá eiginkonum sínum eða eiginmönnum, sem herteknir voru. Virtist prestunum til vandræða horfa, helzt um það fólk, sem ungt var og hraust, en mátti eftir landslögum ekki gifta sig fyrr en 7 ár voru liðin frá herleiðingunni eða brottför hins ektamakans. Margir sóttu fast á um giftingarleyfi að nýju, en þau var eigi hægt að veita. Prestunum var ætlað að stía þeim í sundur, er lifðu í óleyfilegri sambúð, og í dómi frá 1630 segir, að slíkar persónur skuli flytja sundur, og var eigi talið nóg, að hver flytti til heimilis síns í Vestmannaeyjum, heldur skyldi flytja annað úr eyjum og til lands.
Bæði veraldlegir valdsmenn og prestar töldu nauðsyn bera til að skipa þessum málum í viðunarlegra horf og útvega linun á hinum harða lagabókstaf, því að auðsætt þótti, að margt af hinu hertekna fólki myndi aldrei hingað koma aftur til þess að taka saman við eiginmann eða eiginkonu hér, enda vitað, að margt af herleidda fólkinu vildi alls eigi koma aftur. Spurst hafði til ýmsra hinna herleiddu kvenna, er gifzt höfðu suður í löndum, á Spáni og jafnvel í Gyðingalandi.
Biskupinn í Skálholti, Gísli Oddsson, segir í bréfi 1631, að yfirvaldsmenn séu í mikilli óvissu um það, hvernig eigi að fara með þessi hjúskaparmál, hvort beita skuli fullnaðarhegningu, lífláti samkvæmt Stóradómi, fyrir hórdómsbrotin eða taka skuli hér vægara á. En um þetta geti biskup eða hið andlega vald engu um þokað, það væri á valdi konungs eins að náða. Gísli biskup barðist lengi fyrir lausn þessara mála, en í sama þófi stóð um málin 1635. Tjáir biskup þá, að hann hafi borið giftingarmál eyjamanna undir nálæga kennimenn, biskupinn á Hólum og umboðsmann konungs á Bessastöðum, en ekkert hafi skipazt. Eina leiðin sé, að Alþingi sjálft geri samþykkt um að leita konungsnáðar. Árið 1634 var í bréfi Kristjáns konungs IV., er lesið var upp á Alþingi, einnig minnzt á málefni eyjamanna. Hafði þar verið lýst linun á hegningunni fyrir hórdómsbrotin, með því að eigi mætti taka eins hart á hrösun þessa fólks, er misst hafði ektamaka sinn með þeim hætti, er áður segir, sem annarra. En ekkert var nánar sagt um, hvaða hegningu skyldi beita eða í hverju linunin skyldi vera fólgin.
Ýms þessara mála komu fyrir dóm í Vestmannaeyjum. Fyrsta málið út af frillulífisbrotunum kom fyrir prófastinn í Rangárvallasýslu 1630. Var það mál Guðrúnar nokkurrar Brandsdóttur. En það upplýstist, að maður þessarar konu, er kærð var fyrir hórdómsbrot, hafði verið drepinn í Algier áður en barn hennar var getið, svo að konunni var leyft að ganga á ný í hjónaband að fenginni kvittun og aflausn. — Hér verður getið máls Eyjólfs Sölmundarsonar í Stakkagerði, manns Guðríðar Símonardóttur (Tyrkja-Guddu). Eyjólfur var einn af þeim, er undan komst í ráninu. Seinna hafði hann tekið sér bústýru og eignazt barn með henni mörgum árum eftir að kona hans Guðríður var hertekin. Var Eyjólfur fallinn til líflátshegningar fyrir hórdómsbrot eftir lögum. En samkvæmt áðurnefndu konungsbréfi frá 1634 var þó talið, að lífi hans mætti eftir atvikum hlífa. Eyjólfur andaðist skömmu síðar eða l636. Mun hann hafa drukknað, er mannskaðinn mikli varð umgetið ár, og var mál hans þar með úr sögunni. En kynning þeirra séra Hallgríms Péturssonar og Guðríðar hófst fyrst í Kaupmannahöfn eftir útkomu hennar þangað 1637, og var þá maður hennar dáinn fyrir ári síðan. — Á Hvítingaþingi hér var í júní 1636 dæmt í hórdómsmáli Jóns Oddssonar, er einnig hefir búið í Stakkagerði og þeir Eyjólfur verið sambýlismenn, en tvíbýli hefir snemma verið í Stakkagerði. Mætti geta til þess, að báðir þessir menn hafi verið fjarverandi frá eyjum, er ránið varð, eða þeir hafa verið meðal þeirra, sem réru kaupmanninn til lands. Kona Jóns Oddssonar, Anna Jasparsdóttir, drottningin í Algiersborg, var hernumin og komst í upphefð ytra. Báru vitni fyrir Hvítingadómi hér, Hallur Þorsteinsson og Þorsteinn Ormsson, í málinu gegn Jóni Oddssyni, um hagi Önnu konu hans í Algier, er þar bjó með tyrkneskum höfðingja og átti með honum börn. Var nú Jón sýknaður af hórdómsbroti og honum leyft að kvænast konu þeirri, er hann bjó með.
Alllengi beið, unz skorið var til fulls úr giftingarmálum eyjamanna, og eigi fyrr en 10 eða 11 árum eftir herleiðinguna, er fólkið, sem leyst var út, var aftur heim komið. Þá fyrst hefir skýrzt margt í þessum málum til fulls, er vitnisburðir fengust um það fólk, sem eftir var úti í Tyrkjalöndum, og nú var vitað um, að aldrei framar kæmi heim til ættjarðarinnar. Í Hvítingadómi Vigfúsar sýslumanns Gíslasonar, er lesinn var upp á Alþingi 1636 og staðfestur þar að mestu, og hljóðaði um brotlegar psrsónur í Vestmannaeyjum, er misst höfðu maka sinn í herleiðingunni, var boðuð mikil linun í umræddum sökum á sektargjaldi eftir Stóradómi, þannig: Til þriðjunga, ef vitað var, að maðurinn eða konan var lifandi úti í löndum heiðinna manna, „Barbería“. Til helminga, ef ekkert var kunnugt um hinn herleidda. Loks í þriðja lagi, ef kunnugt var, að hinn herleiddi eiginmaður eða eiginkona var gengin af trúnni, þá skyldi aðeins greiða einn þriðja sektar. Með breytingu Alþingis var ákveðið, að í þessu síðastnefnda tilfelli skyldi aðeins greiða sem fyrir einfalt frillulífisbrot.⁸)
Mörg önnur viðhorf, er sköpuðust hér við Tyrkjaránið, kröfðust aðgerða með dómsathöfnum. Svo var um umboðstökur yfir fjármunum hinna hernumdu og arfatökur eftir þá. Var þegar í nóvembermánuði 1627 kveðinn upp dómur á Lambeyjarþingi í Rangárvallasýslu um arf eftir þá og umboðstökur, er líflátnir voru í Vestmannaeyjum eða burtu ræntir af Tyrkjum. Með þessum dómi var með lagajöfnuði við gildandi landslög ákveðin varzla fjármuna hinna herleiddu og dánu, fasteigna þeirra og lausafjár í kviku og dauðu. Árið 1636 var gerð Alþingissamþykkt um vörzlu fjármuna þeirra manna, sem Tyrkir hertóku, og ákveðið, að erfingjar skyldu taka við eignunum til æfinlegrar eignar, ef eigi spyrðist með skipum þá um sumarið til eigendanna úti í Tyrkjalöndum. Loks var á Alþingi 1642 gerð sú ályktun með tilvitnun til konungsboðskapar 1615, að þeir af hinum herleiddu, sem sannanlega höfðu kastað kristinni trú og voru orðnir tyrkneskrar trúar, mættu eigi taka arf eftir sína frændur. Þetta sama ár, 1642, var kveðinn upp dómur að Kirkjulæk í Fljótshlíð 1. júní um arfatöku hertekinna barna. Eftir bræðurna Eyjólf Sölmundarson, mann Guðríðar Símonardóttur, og Jón Sölmundarson, er báðir munu hafa drukknað hér 1636, áttu að taka arf sonur Eyjólfs og Guðríðar, Sölmundur, og dóttir Jóns, en þessi börn voru bæði hernumin með mæðrum sínum 1627. Í bréfi Guðríðar Símonardóttur frá Algier 1635 til Eyjólfs manns hennar minnist Guðríður barns þeirra og mun það vera Sölmundur litli, en hann hafði tyrkneskur maður keypt. Í Lambeyjardómnum 1636 voru bæði þessi umgetnu börn dæmd frá arfi, af því að þau myndu vera gengin af kristinni trú, „turneruð“, eins og segir í dómnum. Var dómurinn staðfestur á Alþingi af lögmanni og dómsmönnum, með tilvísun til konungsúrskurðar 1615, og að börn þessi sem villutrúarmenn skyldu eigi taka arf eftir feður sína.⁹)

Heimildir og umfjöllun í þessum hluta:
1) Tyrkjaránssagan, útg. í Reykjavik 1906—1909, II, X-XII.
2) Tyrkjaránssaga, frás. Kláusar Eyjólfss., ferðas. sr. Ólafs Egilss.
3) Tyrkjaránssaga, bls. 31, 53, 72, 87.
4) Blanda II, bls. 351.
5) Skarðsárannáll.
6) Sonur Jóns Oddssonar á Hánni Péturssonar List var Jón faðir Björns ríka á Sólheimum í Mýrdal föður Jóns í Drangshlíð föður Kjartans prests í Ytri-Skógum, Hjörleifs í Drangshlíð og þeirra systkina (Smævir IV, 491).
7) Minnisbók Odds biskups 1630.
8) Alþingisbækur V, 1620—1639, 430—431.
9) Minnisbók Odds biskups 1630, Alþingisbækur VI, 1.

Síðari hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit