Saga Vestmannaeyja I./ XI. Tyrkjaránið, síðari hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


XI. Tyrkjaránið
(Síðari hluti)


Á fyrstu árunum eftir Tyrkjaránið var reiðuleysi mikið á í flestu hér. Var því ærið starf fyrir sýslumann og umboðsmann ásamt sveitarstjórninni hér að skipa innanhéraðsmálum í horf, er eyjarnar tóku að byggjast aftur af nýju fólki. Hingað sótti hálfgerður landshornalýður og jafnvel sekir menn. Var þá gefið út bann gegn umrenningum í Vestmannaeyjum, og var Kláusi Eyjólfssyni lögsagnara á Hólmum, er mest og bezt stóð að hinum nýju skipulagsmálum í eyjunum og sem hafði Vestmannaeyjasýslu á eigin ábyrgð 1634—1635, boðið að vísa aðkomumönnum í burtu, sem eigi hafi góðra manna vitnisburði, svo að eyjarnar verði eigi lengur slíkt skálkaskjól, sem þær hafi verið.¹⁰)
Gísli lögmaður Hákonarson hafði haldið bæði Árness- og Rangárvallasýslu ásamt Vestmannaeyjum, en eftir dauða hans 1631 tóku við synir hans, Vigfús og Hákon. Létu þessir feðgar umboðsmenn sína annast dómsmálin í Vestmannaeyjum. Koma hér mest við sögu á árunum eftir Tyrkjaránið Erlendur Ásmundsson lögréttumaður, er og um tíma er talið að hafi haldið Árnessýslu, og Kláus Eyjólfsson lögsagnari á Hólmum. Erlendur Ásmundsson bjó á Stórólfshvoli. Var Ásmundur faðir hans launsonur Þorleifs lögmanns Pálssonar á Skarði. Erlendur var auðmaður. Dóttir hans var Katrín ríka á Stórólfshvoli, er Vigfús sýslumaður Gíslason átti. Katrín var talin harðráð og peningaskyggn. Hún bjó eftir mann sinn látinn á Stórólfshvoli. Þar brann bærinn l648. Hefir myndazt um bruna þennan þjóðsaga.¹¹)
Kláus Eyjólfsson var sonur Eyjólfs Egilssonar Einarssonar prófasts Ólafssonar í Görðum. Kona Egils og amma Kláusar var Katrín Sigmundsdóttir Eyjólfssonar, er kjörinn var til biskups 1537. Móðir Sigmundar biskups var Ásdís Pálsdóttir á Hjalla í Ölvesi, systir Ögmundar biskups Pálssonar. Frá Katrínu Sigmundsdóttur móður sinni hafði séra Jón Egilsson annálaritari í Hrepphólum, föðurbróðir Kláusar Eyjólfssonar, ýmsan fróðleik, svo sem um það, er Danir tóku Ögmund biskup á Hjalla hjá Ásdísi systur hans og rændu kvenskrauti hennar. Katrín var þá mjög ung og var hjá ömmu sinni á Hjalla, er þetta skeði, og mundi þessa atburði. Móðir Kláusar Eyjólfssonar var Guðríður föðursystir séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts. Kona Kláusar var Ingibjörg Þorleifsdóttir Ásmundssonar, bróðurdóttir Erlendar Ásmundssonar á Stórólfshvoli.¹²)
Eyjamenn, er ættingja áttu meðal herleidda fólksins, hafa reynt að fá fregnir um hagi þess, og það sést, að bréf hafa farið á milli og þau falin síðasta áfangann skipstjórunum á kaupskipunum hingað. Oft hafði verið kvartað undan því, að bréf að heiman til hinna herleiddu í Algier kæmu eigi til skila, og er það engin furða, því að lítt hefir verið kunnugt oft um verustaði fólksins. Af því fólki, sem tekið var úr Vestmannaeyjum og Grindavík, er talið, að „turnerazt“ hafi eða kastað trú sinni 26 fullorðnir og 64 börn og unglingar og 3 börn, er fæddust á leiðinni út. Þetta er ekki fullur þriðjungur af fólki því, er hertekið var á nefndum stöðum að meðtaldri skipshöfninni á dönsku kaupskipi, er tekið var við Grindavík. Af þessum tölum verður eigi ráðið neitt með vissu um þessi efni, en auðsætt er, að eigi hefir fengizt vitneskja um málefni og hagi margra af fólkinu. Samkvæmt skrá um hertekna menn, er ennþá lifðu í „Tyrkeríinu“ 1635, eru taldar 27 konur og 16 karlmenn frá Vestmannaeyjum, sem „drottinn varðveitti við trú og góða samvizku“, og er það rúmur fimmti hluti af hertekna fólkinu. Kunnugt er og um nokkra, sem voru dánir. Byrjað hefir verið á fjársöfnun til útlausnar hinum herleiddu þegar eftir ránið, meðal ættingja og vina, og mun það lítinn árangur hafa borið, aðstandendur fátækir og lausnareyririnn hár. Má nokkuð hér um ráða af því, hve erfitt gekk séra Ólafi Egilssyni að fá leysta út sína ágætu konu, er heimtað var mjög hátt lausnargjald fyrir. Þó er svo að sjá samt sem nokkrir hafi komið hingað út fyrir fjárstyrk frá ættingjum heima, eða þeir hafa unnið sér sjálfir fyrir fullu lausnargjaldi. Almenn fjársöfnun til útlausnar hinum herleiddu hefir eigi hafizt verulega fyrr en 1632 eða 5 árum eftir ránið.¹³) Fé var safnað bæði hér heima og í Danmörku til útlausnar herleidda fólkinu. En fjársöfnunin hafði gengið seint og óreglulega, og menn þeir, kaupmenn í Algier eða skiparar af evrópiskum þjóðum, er peningar höfðu verið sendir til og áttu að sjá um útlausn á föngunum, höfðu orðið uppvísir að svikum og notað féð í eigin þarfir til kaupskapar.
Útlausnin fór ekki fram fyrr en á árunum 1635—1636, eins og sjá má af reikningum frá Amsterdam í Hollandi frá 1637, sem enn eru til, um lausnargjald 28 íslenzkra kvenna og 22 íslenzkra, danskra og norskra karlmanna, sem keyptir voru í Algier á fyrrnefndum árum. Fólkið, er keypt var út, hefir komið til Hollands 1636 og þaðan til Kaupmannahafnar, en til Íslands kom það eigi fyrr en vorið 1637. Af þessum 28 konum, sem keyptar voru út, eru með vissu 20 úr Vestmannaeyjum, og eru það: Ásta Þorsteinsdóttir kona séra Ólafs Egilssonar að Ofanleiti. Var lausnargjald prestskonunnar mjög hátt — 500 ríkisdalir. Með henni og á sama lausnargjaldi var Gunnhildur Hermannsdóttir - Gundele Hermansen. Á fyrrnefndri skrá frá 1635 getur hvorugrar þessara kvenna. Guðrún Þórðardóttir - Godrun Thordersdochter, Guðrún Eysteinsdóttir - Gouron Distensdochter, Ragnhildur eða Ragnheiður Þórarinsdóttir - Rancke Toraupsdochter, Guðný Jónsdóttir - Gune Jonnsdochter, Ingibjörg Ásgrímsdóttir - Ingebur Hacheschremersdochter, Ragnhildur eða Ragnheiður Gottsveinsdóttir - Rancke Godtsvoyns, Hallný Jónsdóttir - Hellenie Jonsdochter, Þorbjörg Eyjólfsdóttir - Thiorbiorck Yolsdochter [Þorbjörg þessi var komin til Livorno á Italíu með Armeníumanni, er hana hafði keypt], Halldóra Jónsdóttir - Heldura Jonnsdochter [hún deyði á leiðinni heim], Guðrún Magnúsdóttir - Gouron Magnusdochter, Hallfríður Eyjólfsdóttir - Hellefrit Tyallsdochter, Guðrún Magnúsdóttir önnur - Gouron Magnusdochter, Arnbjörg Jónsdóttir - Arenberck Jonsdochter, Sesselja Jónsdóttir - Cecelia Jonnsdochter, Margrét Árnadóttir - Margureta Arnadochter, Guðrún Andrésdóttir - Gouron Andrissdochter, Halla Magnúsdóttir - Halla Magnusdochter, Guðríður Símonardóttir - Gudrid Simonsdochter. — Af karlmönnum, sem taldir eru á útlausnarskránni, eru aðeins þrír frá Vestmannaeyjum: Bótólfur Oddsson - Botell Otsenn, Einar Loptsson - Inar Lopson, Nikulás Konráðsson - Nielaus Kodransson. Eru þeir allir tilfærðir á skránni frá 1635. Útlausnargjald kvennanna er frá 60 ríkisdölum — langhæst 500 rd. fyrir prestskonuna með annari. Um sumar konurnar er tekið fram, að þær hafi sjálfar greitt upp í útlausnargjald sitt, og meðal þeirra er Guðríður Símonardóttir. Lausnargjald hennar var hátt, 262 ríkisdalir að meðtöldum farareyri, er var 62 rd. Lausnargjald karlmannanna, sem til reiknings er fært, er tiltölulega lágt, og er sennilegt, að þeir hafi sjálfir greitt fyrir sig. Lausnargjald Einars Loptssonar er samkvæmt skránni aðeins talið 60 rd., en í sögunni, sem tekin er eftir riti Einars sjálfs, sem fyrir löngu er glatað, segir, að Einar hafi sjálfur keypt sér frelsi undan þrældómsoki Tyrkja árið 1632 fyrir 132 rd. — Um sumt hið herleidda fólk er sagt, að eigi hafi verið hægt að leysa það út fyrir dýrleika sakir, og sumt var komið svo langt brottu til fjarlægra landa, að til þess náðist eigi.
Fólkið, sem keypt var út, var flutt á hollenzku skipi, og var lagt af stað frá Algier 14. júní 1636 og siglt þaðan til Ítalíu og síðan til Frakklands og komið þar við í mörgum borgum, til Hollands og Þýzkalands og loks komið til Kaupmannahafnar 19. ágúst 1636. Í Kaupmannahöfn dvaldist fólkið til næsta vors og komst síðan heim með kaupskipum þaðan til Íslands, líklega í maí- eða júnímánuði.
Það hefir verið hátíðleg stund hér í Vestmannaeyjum, þegar fólkið, sem útleyst var úr herleiðingunni, sté hér aftur á land. Allir eyjabúar með séra Ólaf Egilsson, er nú heimti loks aftur eiginkonu sína, í broddi fylkingar hafa komið niður á Eyrina til þess að taka á móti þessum marghrjáðu meðbræðrum sínum og systrum. Hjá mörgum hafa verið fagnaðarfundir, en margur hefir og mátt sakna vinar í stað, því að þessi endurheimti litli hópur var ekki nema brot af þeim fjölda, sem horfinn var með öllu. Margt hafði drifið á daga þessa fólks og frá mörgu hefir það kunnað að segja og lengi hefir minningin um þessa atburði lifað hér.
Fólkið, sem útleyst var, hafði beðið þess með mikilli óþreyju að fá að komast aftur heim til föðurlands síns. Það hafði sýnt mikla fastheldni og stöðugleik í trú sinni og vegna hennar þolað illa meðferð og jafnvel pyndingar, og eigi látið freistast til að kasta trúnni, þótt vitað væri að þá beið þess betri meðferð hjá húsbændum þess. Veturinn, sem fólkið á heimferðinni dvaldi í Kaupmannahöfn, var því fenginn andlegur fræðari, og varð fyrir valinu Hallgrímur Pétursson, sálmaskáldið góða, er þá var útskrifaður guðfræðikandídat í Kaupmannahöfn. Átti hann að fræða og endurreisa fólkið í trúarlegum efnum, því að haldið var, að sízt væri þess vanþörf eftir níu ára dvöl þess meðal Múhameðstrúarmanna. En samkvæmt því, er að ofan segir og mjög styrktist við lestur bréfa frá hinum herleiddu, sem prentuð eru, virðist eigi hafa þurft að óttast svo mjög um trú fólksins, sem þvert á móti virðist hafa styrkzt í gegnum mótlætið. En lengi hefir eimt eftir af þessu vantrausti á herleidda fólkinu, eins og sjá má af hinum þjóðsagnakenndu munnmælum um Guðríði Símonardóttur, er verið hefir trúarsterk kona, eins og kemur fram í bréfi því, er henni er eignað, til Eyjólfs manns hennar. Hún myndi og eigi heldur hafa komið hingað út aftur og unnið sjálf baki brotnu fyrir lausnargjaldinu, ef þessu hefði eigi verið þannig farið, og í Algier varð hún að skilja eftir drenginn sinn, Sölmund litla, hafi hann verið á lífi, en lífs er hann 1634.
Minnisstætt hefir það hlotið að vera þessu herleidda fólki og því bending guðlegrar handleiðslu, að það skyldi verða lærisveinar og meðlimir í fyrsta söfnuði Hallgríms Péturssonar. Og hver hafa hin trúarlegu áhrif af kynningunni við þetta ofsótta og margreynda fólk, er sumt hefir verið reiðubúið til að líða píslarvættisdauða, ef til vill orðið á sjálft trúarskáldið? Því verður ósvarað.
Frásagnir eru um það, hversu fólk það sumt var leikið, er eigi vildi kasta kristinni trú. Um Einar Loptsson áðurnefndan segir svo, að hann hafi eigi viljað ganga af trú sinni, hversu sem honum hafi verið ógnað og hótað. Loks gengu böðlarnir að Einari, ristu í andlit hans með hnífi, skáru framan af eyrum hans og af nefi, og dróu sneplana upp á band, er þeir settu um háls hans, og leiddu hann síðan þannig á sig kominn um stræti borgarinnar. Féll hann síðar í ómegin og lá þar, sem hann var kominn, unz maður einn fann hann og kom honum til bartskera (læknis), sem batt sár hans. Þetta gerðist 1628. Fjórum árum síðar keypti hann sér frelsi. Lagði hann fyrir sig sem atvinnu að brenna brennivín og gera prjónahúfur. Er sagt, að hann gerði kristnum mönnum mjög gott, þar á meðal móðursystur sinni, er hann að síðustu tók til sín og ól önn fyrir, þá er húsbóndi hennar eða patrón, er hana hafði keypt, hrakti hana burtu sem örvasa gamalmenni, er lengur var eigi fær um að vinna. Það sést af frásögnunum og bréfum frá föngunum í Tyrkjalöndum, að íslenzka fólkið, er fast hélt við feðratrú sína og eigi snérist til Múhameðstrúar, hefir reynt að halda hópinn, það sem var í borginni Algier, og hjálpaði hvert öðru og styrkti í útlegðinni. Íslendingar sáu um að hinir dánu landar þeirra fengu leg í kirkjugörðum kristinna manna, og stóðu sjálfir að greftrun landa sinna. Sumir íslenzku karlmannanna hafa allfljótt getað keypt sig úr ánauðinni og hafa síðan stundað atvinnu í borginni og haldið uppi heimilum. Móðursystur sinni segist Einar Loptsson hafa komið fyrir í húsnæði hjá Tyrkja, en fæði hafi hún fengið hjá Íslendingum þar í borginni. Einar Loptsson kom út aftur, eins og áður segir, og kvæntist hér aftur Oddnýju Þorsteinsdóttur, ekkju Jóns Jónssonar á Búastöðum, er ræningjarnir drápu við bæ hans, er hann ætlaði að verjast þeim. Oddný er talin hernumin, en ekkert verður um það sagt, hvenær hún hefir komið út aftur. Hún er eigi nefnd á skránni frá 1635, og hennar heldur eigi getið á reikningunum um lausnargjald útleystu fanganna.
Um stúlku eina, Björgu að nafni, er getið, og mun það vera Björg sú Einarsdóttir úr Vestmannaeyjum, sem tilfærð er á skránni frá 1635. Þessi stúlka var hjá Mára einum, er hélt hana mjög hart sökum staðfestu við trú sína. Ef til vill er þetta sama stúlkan, sem svo segir frá, að eldur hafi verið kveiktur undir henni bundinni og húðflettri, til þess að fá hana til að ganga af trú sinni, en árangurslaust. Björgu þessa keypti enskur maður og kom hún eigi út aftur.
Minnisstæð hefir orðið sögnin um píslarvættisdauða séra Jóns Þorsteinssonar hjá hellinum fyrir austan Kirkjubæ, þar sem hann hafði ásamt fólki sínu leitað sér hælis. Las hann í hellinum fyrir fólki sínu og reyndi að hugga það. Meðal fólksins var próventumaður séra Jóns, Snorri Eyjólfsson, þá orðinn mjög aldraður maður. Snorri hafði lengi búið í Kirkjubæ og verið í röð helztu bænda. Hann er lengi að finna meðal skattbændanna og formaður hafði hann verið á stærstu konungsskipunum. Nafn Snorra er undir kirkjusamþykktinni frá 1607. Nú var hann á elliárunum kominn með próventu sína til séra Jóns sambýlismanns síns í Kirkjubæ. Um Snorra er sagt, að hann hafi sífelldlega verið úti fyrir hellisdyrunum, þótt séra Jón bannaði það. Mun Snorri hafa ætlað sér að hafa sem bezta gát á ræningjunum. Nokkru síðar sást, hvar blóðlækir runnu inn um hellisþakið. Gekk þá prestur út og fann Snorra dauðan, höggvinn á háls úti fyrir hellismunnanum. Höfðu ræningjarnir nú fundið hellinn og komu að hellisdyrunum. Gekk þá séra Jón út á móti ræningjunum, eftir að hafa skipzt á nokkrum orðum við þá. Síðan hjó einn þeirra í höfuð presti, er breiddi út hendurnar og sagði: „Ég befala mig mínum guði“. Þá hjó ræninginn hann annað höfuðhögg og mælti þá séra Jón: „Ég befala mig mínum herra Jesú Christó.“ Og er prestur fékk þriðja höggið sagði hann: „Það er nóg, herra Jesú, meðtak þú minn anda.“ Um þetta ber frásögnunum öllum saman. Varð séra Jón guðrækilega og karlmannlega við dauða sínum. Margrét Jónsdóttir, kona séra Jóns, tók trafið af höfði sér og batt um höfuð síns framliðna manns, en ræningjarnir hröktu hana og Margréti dóttur þeirra hjóna og Jón son þeirra frá líkamanum og fluttu ásamt hinu fólkinu niður í Dönskuhús. Þetta gerðist 17. júlí, eins og sést á legsteini séra Jóns. Líkama séra Jóns munu ræningjarnir að líkindum hafa skilið eftir þarna við hellirinn. Þangað hafa eyjamenn, er komu fram úr fylgsnum sínum, er ræningjarnir voru á brottu, sótt líkið, sennilega eftir tilvísun kvennanna, er komust af í skútanum við helli þennan. Var líkið síðan greftrað í bænhúsinu í Kirkjubæ, fyrir framan kór undir kirkjugólfi. Mun líkið fyrst hafa verið staursett, en síðar sungið yfir því af presti af landi. Í bænhússtóttinni fannst eins og áður segir, legsteinninn nær 300 árum síðar. Landakirkju höfðu ræningjarnir brennt til ösku og saurgað kirkjugarðinn. Því hefir líkið eigi verið jarðsett þar. Það er auðsætt af frásögnunum, að hellir sá, er séra Jón fól sig í, var austur af Kirkjubæ. Allstór hellisgapi sést ennþá suðaustur af Kirkjubæ, nyrzt í Flugnaberginu, þar sem það er lægst. En mjög hefir grjót hrunið þarna niður, svo að nú er hellirinn eigi gott fylgsni framar. Gæti þetta verið hellir sá, er séra Jón faldi sig í. Hellisskútar, nú mjög samanfallnir, eru og í urðinni beint austur af Kirkjubæ.
Ræningjarnir drápu hér allmargt fólk, eins og getið hefir verið, og flesta, er nokkra mótstöðu sýndu eða reyndu að koma fyrir sig vörnum, sem þó var vonlaust gegn því ofurefli, sem við var að etja. Bóndann á Búastöðum, Jón að nafni Jónsson, drápu þeir og drógu konu hans og barn þeirra hálfdauð til Dönskuhúsa og rifu klæðnað hennar og hár. Ýmsum veittu þeir áverka og sár. Séra Ólafur segir, að hann og fólk hans, er það streittist á móti, hafi mátt liða „högg og slög og margan steit af þeirra spjótum.“ Marga deyddu illvirkjarnir af hreinni morðfíkn og limlestu líkin. Erlend nokkurn Runólfsson settu þeir til skotmarks, sjálfsagt í hefndarskyni, en hann mun hafa verið þeim eitthvað óþjáll, fram á bjargsbrún, svo að hann féll niður um hundrað faðma. Þetta gæti hafa verið sá Erlendur Runólfsson, er bjó í Vesturhúsum um 1600, og hefir hann verið gamall, er hér var komið. Ásmund, Asmus, nokkurn fundu ræningjarnir, þar sem hann lá á sóttarsæng. Hann stungu þeir í sundur, svo að sæng hans varð rauð af blóði. Bjarna nokkurn Valdason hjuggu þeir þvert yfir höfuðið fyrir ofan augun. Konur fundust dauðar við sínar bæjardyr, sumar stungnar með spjótum, aðrar höggnar, svo svívirðilega við skilið, að fötunum var flett upp yfir hnakkann og þær naktar. Tvær konur voru með börn og urðu þær seinfærar, en börnin æptu mjög. Þau tóku ræningjarnir og hálsbrutu og mölvuðu í hvert bein við kletta og köstuðu síðan út á sjó. Hljóðaði þá móðirin gríðarlega, en þeir tóku hana með hinni og lágu þær í þeim hörmungum, er þær höfðu. Þannig segir frá í Tyrkjaránssögunni. Veiku fólki og börnum stjökuðu ræningjarnir á brennandi bál. Þeir brenndu til kaldra kola kirkjuna og Dönskuhúsin og þar inni gamla fólkið, er þeir eigi vildu flytja utan. Sumum var og kastað fyrir borð á skipinu, og sáust fljótandi við skipið dauðir líkamir, er skipin lögðu frá eyjunum. Séra Ólafur segir, að þeir, sem mest hryðjuverkin frömdu, hafi eigi verið Tyrkir, heldur trúníðingar af Evrópuþjóðum. Þetta fólk var verst og þeir hinir sömu bundu fólkið og börðu og særðu, segir sami. Þá, sem gerðu fyrir sér krossmark eða nefndu Jesúnafn, drápu ræningjarnir vægðarlaust. Þannig segir sagan, að þeir hafi misþyrmt mjög gamalli konu, er þeir fundu uppi á eldiviðarhlaða í Ofanleitishjáleigu, en hún streittist á móti, í sífellu hrópandi Jesúnafn. Víst er, að fólkið hefir mátt þola misþyrmingar og þjáningar miklar, en taka verður frásögnunum hér um með varfærni, því að sennilegt er, að þær hafi aukizt heldur en minnkað í meðförunum.¹⁴)
Auk þeirra 19 kvenna og 3 karla, er út voru leystir og til eyjanna komu aftur úr herleiðingunni, er kunnugt um 4—5 manns, er og komu aftur út. Skal þar fyrstan telja séra Ólaf Egilsson. Hann létu Tyrkir lausan með því að hann var gamall og eigi heilsuhraustur. En tilgangurinn með því að láta hann lausan mun þó aðallega hafa verið sá, að hann útvegaði lausnargjald fyrir fangana. Kvaddi séra Ólafur konu sína og börn í Algier 8. sept. 1627 og tók sér fari með ítölsku skipi frá Algier. Fór hann að heita mátti félaus og klæðlítill. Segir hann svo sjálfur frá, að hann hafi eigi getað farið af fötum í 16 vikur. Ferð hans varð mjög æfintýraleg, og komst hann loks til Kaupmannahafnar 28. marz 1628. Er ferðinni og því, er fyrir augun bar, fróðlega lýst í hinni merkilegu ferðasögu séra Ólafs. Ýmsir urðu til að greiða götu séra Ólafs áður en til Kaupmannahafnar kom, og þar á meðal mest og bezt hollenzkur skipstjóri einn, er Charitz Harspenner er nefndur. Í Kaupmannahöfn dvaldi séra Ólafur í góðu yfirlæti. Hitti hann þar bæði kaupmenn og fógeta konungs, er verið hafði í Vestmannaeyjum, og veittu þeir honum góðar móttökur. Hann nefnir og Bjarna nokkurn Ormsson, er verið hafi áður ráðandi maður í eyjunum, svo og mann einn íslenzkan uppalinn í eyjunum, er honum hafi góðu vikið. Loks einnig heiðurskvinnu eina, er hér hafi áður haft ráð. Séra Ólafur gekk fyrir konunginn, Kristján fjórða. — Um sumarið 1628 kom séra Ólafur aftur til eyjanna með kaupskipi, og settist hann að á Ofanleiti hjá tengdasyni sínum, séra Gísla Þorvarðarsyni. Ástu konu sinnar mátti hann bíða heilan áratug, eins og áður segir.
Jaspar Kristjánsson. Hann hefir verið meðal heldri bænda og virðingarmanna í eyjunum, og er getið þar við gerninga. Þannig er hann meðal dómsmanna í Hvítingadómi 18. apríl 1635.¹⁵) Hans er og oft getið sem gefanda til Landakirkju, eftir að hann var kominn heim aftur. Jaspar, sem og er nefndur Caspar, hefir verið af dönskum eða norskum ættum. Hefir hann lengi verið búsettur í eyjunum og átt íslenzka konu og með henni börn. Dóttir Jaspars var Anna, er gift var Jóni Oddssyni í Stakkagerði og hertekin var. En maður sá, er hana keypti, lét henni í té lausnargjald handa föður hennar, og kom hann hingað til eyjanna aftur sumarið 1628 skömmu eftir útkomu séra Ólafs, og hafa þeir ekki komið með sama skipi. Vitnisburðar Jaspars Kristjánssonar var oft leitað viðvíkjandi herleiddum mönnum, sbr. bréfabækur biskupa. Jaspar mun hafa búið síðan í Vestmannaeyjum og líklega andazt þar. Þar bjó og dóttir hans Þóra, er gift var Jóni nokkrum Sturlusyni, ættuðum að norðan.
Með vissu má og telja tvo menn, er komnir voru heim til Vestmannaeyja á undan aðalhópnum. Útkomu þessara manna er hvergi getið, en með vissu eru þeir komnir út, annar, er Þorsteinn hét Ormsson, 1634, og hinn, Hallur Þorsteinsson, 1636. Komu þeir báðir fram sem vitni í dómsmáli hér 1636. Þessir menn hljóta að hafa unnið fyrir lausnargjaldi sínu sjálfir eða þeim hefir verið sent það að heiman og þeir útvegað sér sjálfir farkost. Eftir þessu mætti ætla, að fleiri hefðu ef til vill komið út aftur en hingað til hefir verið vitað um. Vísast og til þess, er að framan segir um konuna Oddnýju Þorsteinsdóttur. Hallur Þorsteinsson mun vera sami maður og nefndur er með því nafni á skránni um hertekna menn í Tyrkeríinu, er heimfærð er til ársins 1635, og er hann þá talinn eiga heima í borginni Tunis. Þorsteinn Ormsson vitnar um lát og greftrun Vigfúsar Hannessonar. Höfðu þeir verið fjórir samlandar Vigfúsar, er stóðu að greftrun hans.
Um afdrif þeirra mörgu, sem eftir urðu úti í Tyrkjalöndum, vita menn fátt. Sumt af fólkinu hafði komizt langt út í lönd frá Algier, án þess vitað sé um, í hvaða lönd það fór. Margir voru þeir, er eigi vildu hverfa heim aftur til ættlands síns. Prestshjónin á Ofanleiti máttu sjá á bak þrem sonum. Þeir hafa allir ílenzt syðra. Um tvo þá yngstu segir að minnsta kosti, að þeir hafi verið aldir upp í Múhameðstrú. Þann elzta, er var 11 ára, er hann var tekinn, valdi yfirforingi Tyrkjanna þar í landi í sinn hlut, en honum bar hver áttundi maður af föngunum. Segir séra Ólafur svo frá viðskilnaðinum við þennan son sinn, að pilturinn hafi mælt af miklum harmi, er faðir hans brýndi fyrir honum að halda trú sinni í guðs nafni, að þeir hlytu að fara með kroppinn sem þeir vildu, en sálina skyldi hann geyma þeim góða guði. Það hefir verið sagt, að móðirin Ásta Þorsteinsdóttir hafi eftir heimkomu sína aftur að Ofanleiti látið gera altari, sennilega í bænhúsinu á Ofanleiti, og haft þar daglegar bænagerðir fyrir sálum þessara barna sinna.
Getið er um stúlku, er var hjá prestshjónunum á Ofanleiti og hertekin var með þeim, að hún var seld á torginu í Algier fyrir 600 rd. Hún hafði verið fríð sýnum. Síðar keypti hana ríkur kaupmaður frá Jerúsalem fyrir 1000 rd., og flutti hana heim með sér og lofaði henni í Jerúsalem kristnum manni til eignar.
Margrét dóttir séra Jóns Þorsteinssonar, er alizt hafði upp í Kirkjubæ, var ung hertekin með móður sinni. Um hana var vitað, að hún ílentist á Spáni og hafði þar lén. En hana hafði keypt hollenzkur eða spánskur aðalsmaður að nafni Franciskus van Iberscheel. Höfðu þau eignazt saman tvær dætur. Önnur sögn er, að hún hafi átt heima í Marseille á Frakklandi.
Jón yngri sonur séra Jóns Þorsteinssonar var 15 ára, er hann var hertekinn. Tyrkir lögðu mikla rækt við að kenna honum, og komst hann til metorða hjá þeim. Hann þótti harðfengur maður, listrænn og vel að sér. Hann nefndi sig Westmann eftir Vestmannaeyjum, þar sem hann var fæddur og uppalinn. Jón Westmann var gerður að skipherra og yfirforingja. Er mikil saga af honum og fór hann víða um lönd. Eitt haust hafði Jón heim með sér til Algier tuttugu skip, er hann hafði hertekið. Var margt kristinna skipverja á skipum hans. Vegna ógætilegra umræðna kristinna skipverja Jóns við öldrykkju eitthvert sinn, er voru þannig, að þær gátu vakið grunsemdir hjá Tyrkjum um að Jón Westmann væri þeim eigi trúr, tók hann það ráð að flýja af skipinu. Komst hann þá til Gyðingalands og fór eigi aftur til Algier, fyrr en tryggt var, að þeir grunuðu hann eigi um svik. Var Jón lengi síðan kapteinn í víkingaferðum. Beið hann og menn hans ósigur á eynni Malta, og skyldu þeir allir brennast á báli. En Jón Westmann var keyptur frá dauða af Spánverja einum. Var hann síðan í góðu yfirlæti á Malta, að sögn vegna taflkænsku sinnar. Síðan komst Jón til Kaupmannahafnar. Þangað er hann með vissu kominn 1646. Var hann skipaður af konungi 1647 til að gera sjókort. Hann deyði fáum árum seinna, 29. marz 1651. Hann er nefndur Sömaaler. Jón Westmann var gefinn saman við stúlku, Margrete Pedersdatter af Femern, þrem dögum áður en hann dó. Þau eignuðust eitt barn, er hét Margrete. Jón Westmann var harmaður mjög af öllum, jafnt æðri sem lægri, því að hann þótti hinn ágætasti maður. Í bréfi frá prófessor Ole Worm í Kaupmannahöfn til Brynjólfs biskups Sveinssonar 1649 segir um Jón Westmann, að hann væri ágætum gáfum gæddur og frábærri þekkingu á mörgum sviðum. Sagt er, að Jón Westmann hafi staðið fyrir verkfræðilegum framkvæmdum í Kaupmannahöfn, svo sem hafnargerð fyrstur manna. Var talið, að frami hans myndi hafa orðið mikill hefði honum auðnazt aldur.¹⁶) Jón Grunnvíkingur gefur í skyn, að Jón, er átti marga öfundarmenn, hafi verið drepinn viljandi á eitri af lækni. En þetta er rangt með öllu.
Um móður þessara systkina, Margréti Jónsdóttur frá Kirkjubæ, ekkju séra Jóns píslarvotts, er dregin var frá líki manns síns og flutt til Dönskuhúsa og þaðan um borð í ræningjaskipið, er það að segja, að henni var haldið í þungri áþján í Algier, látin ganga með járnhlekki við hönd og fót. Hennar huggun hafði verið í útlegðinni að lesa í Davíðs Saltara. Jón sonur hennar leysti hana úr þessari hörðu þrælkun og andaðist hún skömmu síðar, og annaðist Jón sonur hennar ásamt tengdasyninum, manni Margrétar dóttur hennar, Franciskus van Yberscheel, útför hennar í Algier. Hjá legstað hennar var greftraður Jón Jónsson, er hertekinn var í Grindavík, bróðir Guðrúnar á Járngerðarstöðum, er herleidd var, en kom hingað út aftur. — Það hefir verið sagt um Margréti Jónsdóttur, er hún var prestskona í Kirkjubæ, að það hafi verið hennar vanasvar, er henni þótti eitthvað að, að hún óskaði sér, að hún væri komin eitthvað út í buskann. Hún átti svo við herleiðinguna að hafa staðnæmzt í borg þeirri, er nefndist Buskant. Meðal sálma þeirra, er maður hennar séra Jón orti, er einn, þar sem lesa má í upphafi versanna: Margrét Jónsdóttir í Kirkjubæ. Sonur þeirra séra Jóns og Margrétar var og Jón eldri Jónsson, prestur að Melum. Hann las guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla, sigldi þangað frá Vestmannaeyjum til náms 1616. Kom heim aftur að enduðu námi og varð fyrst heyrari í Skálholti. Bjargaði það honum frá herleiðingu, að hann var kominn frá eyjunum. Séra Jón Jónsson orti kvæðið „Harmavott“ um hertekning móður sinnar og systkina og um dauða föður síns. Þriðji sonurinn var séra Þorsteinn í Holti. Þeir bræður og Jón Westmann, er þá var í Kaupmannahöfn, hafa látið setja legsteininn, er áður um getur, yfir föður sinn.
Anna Jasparsdóttir, drottningin í Algeirsborg. Anna var kona Jóns Oddssonar í Stakkagerði, er áður getur. Hafa þau verið ung hjón, er hernámið var og þau slitin í sundur og hún herleidd til Algier. Anna hefir verið fríð kona sýnum. Þegar út til Algier kom var hún þegar keypt af ríkum höfðingja einum, Iss Hamett að nafni, sagður spánskur að uppruna. Hún þurfti eigi að þrælka, því að maður þessi tók sér hana fyrir eiginkonu og mun hafa fengið henni ambáttir og þræla til að stjana við hana. Sýnir það og dálæti manns þessa á Önnu, að hann borgaði lausnargjald fyrir föður hennar Jaspar Kristjánsson og farareyri til Vestmannaeyja og komst hann hingað heim aftur þegar 1628. Meðan Anna var í Algier hafði maður hennar hér, Jón Oddsson í Stakkagerði, orðið uppvís um hórdómsbrot með kvenmanni þeim, er hann hafði tekið sér hér fyrir bústýru, en eiginkona hans eins og áður segir úti í Algier. Mál Jóns Oddssonar, manns Önnu, var dæmt á Hvítingaþingi í Vestmannaeyjum í júní 1636 af Kláusi Eyjólfssyni og meðdómsmönnum. Í þessu máli voru leiddir sem vitni Þorsteinn Ormsson, er út kom 1634, og Hallur Þorsteinsson, er út kom 1636. Hefir Hallur þann formála í vitnisburði sínum, „að hann sé kominn fyrir guðs miklu náð úr sinni eymdarreisu til síns kristna föðurlands.“ Vitnin Hallur og Þorsteinn bera fyrir dóminum, að Anna Jasparsdóttir, kona Jóns Oddssonar, búi úti í Algier með tyrkneskum höfðingja sem hans kona, og hafi eignazt með honum tvö börn. Lýsa vitnin því yfir, að engin von sé hennar útkomu hingað til lands. Segja þeir, „að hún lifi í hinu mesta meðlæti, hún klæðist í pell og gulllegan purpura, og vilji hún eigi þá íslenzku menn sjá né heyra.“ Segjast vitnin og hafa þekkt Önnu og fylgzt vel með högum hennar um fjögra ára skeið. Lauk svo máli Jóns Oddssonar, er þessar upplýsingar voru komnar fram fyrir rétti um konu hans, að dómsmenn sýknuðu hann algerlega af hórdómsbroti og honum leyft að kvænast konu þeirri, er hann bjó með.
Um fyrrgetinn dóm í máli Jóns Oddssonar hefir útgefendum Tyrkjaránssögunnar eigi verið kunnugt. Sögnin um drottninguna í Algeirsborg, sem að vísu er óljós, en hermir frá því, að íslenzk hernumin stúlka hafi átt að vera drottning í Algeirsborg, mun eiga við Önnu þessa Jasparsdóttur. Eftir lýsingum þeirra Halls og Þorsteins hefir Anna skipað sess sem hefðarkona. Munu þeir hafa séð hana fara um stræti borgarinnar með föruneyti, klædd í dýrasta skrúða. Að sið Múhameðsmanna mun hún hafa borið andlitsblæjur, og við landa sína hefir hún eigi mátt gefa sig á tal fremur en við aðra karlmenn, en þetta víst misskilið, en vitnin láta svo um mælt, að hún hafi þá íslenzku eigi viljað sjá né heyra. Sagan um hið mikla meðlæti Önnu Jasparsdóttur og háu tignarstöðu, er hún hlaut úti í Algier, hefir eigi minnkað í meðförunum hér heima og orðrómnum veitzt næsta auðvelt að lyfta konunni, er klæddist í drottningarlegan skrúða, pell og gulllegan purpura, upp í sjálfan drottningarsessinn, þótt að líkindum hafi það eigi við rök að styðjast, heldur að Anna þessi hafi verið vildarkona eins af höfðingjum soldánsins. Til er málsháttur, sem vera mun frá þessum tímum, er hljóðar svo: Skrökva má á skemmri leið en frá Algeiruborg til Íslands.
Gömul þjóðsaga í Vestmannaeyjum hermir svo frá, að maður hafi komið að óvörum ræningjum, er með leynd höfðu komizt upp á eyjarnar og lagzt til svefns á Flötinni í Lyngfellsdal, og höfðu áður breitt til þerris púður sitt á grundinni. Maðurinn gat komizt að ræningjunum án þess þeir yrðu hans varir og kveikti í púðrinu. Fórust ræningjarnir þar allir. Graslaust er þarna á nokkru svæði, þar sem kveikt var í púðri ræningjanna, og hefir þar aldrei gróið gras síðan.


Heimildir neðanmáls í þessum kafla:
10 ) Bréf Gísla biskups Oddssonar 9. nóv. 1834, Bréfabók Gísla biskups Oddssonar í Lbs.
11) Jón Þorkelsson: Þjóðsögur og munnmæli, Rvík 1899.
12) Sjá Sigfús M. Johnsen: Kláus Eyjólfsson, 300 ára minning, Rvík 1927. Sjá og Lbs. 68, 4to.
13) Sjá: Konungsbréf til höfuðsmanns 4. marz 1630; Flugumýrar-prestasamþykkt 20. apríl 1632; bréf biskups til Árna Oddssonar lögmanns 22. febr. 1633; bréf Kristjáns konungs fjórða til Filippusar Spánarkonungs um útlausn íslenzkra fanga frá Tyrkjum 28. sept. 1634 og bréf 22. des. 1636. Sjá og bréf fanganna í Algier 21. ágúst 1634 um ástand þeirra og útlausn, sviksemi útlausnarmanna o.fl. — Tyrkjaránssagan, bls. 384, 410, 412, 416, 423 og 432.
14) Tyrkjaránssagan, bls. 30, 52, 70, 83, 86, 148—149, 254, 256, 484; Umboðsr. 1660.
15) Lbs. 68, 4to.
16) Tyrkjaránssagan. — Björn Þórólfsson: Jón Westmann (Ársrit hins íslenzka Fræðafélags 1930).


Til bakaSaga Vestmannaeyja efnisyfirlit