Saga Vestmannaeyja I./ VIII. Þjóðlífslýsingar, 6. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Kaup og vinna verkafólks.


Hæsta vinnumannskaup var hér á síðari hluta 19. aldar um 50 krónur og var komið upp í 70 krónur um aldamótin. Hæsta kaup hlutu aðeins þeir, er voru dugandi sjómenn og því skipgengir í „góð“ skiprúm, duglegir fjallamenn eða fuglamenn. Vinnumenn fengu nægileg hversdagsföt, bæði nærföt og utanhafnarföt, en urðu að leggja sér til spariföt. Kvenfólk fékk 20—30 krónur í árskaup og föt. Í daglaunavinnu fengu karlmenn lengi 16 aura um klukkustund og kvenfólk 12 aura. Árskaup verkamanna fyrir seinni styrjöldina: 1200-2000 kr. hæst. Hlutaskipti eru nú ráðandi í ráðningarkjörum sjómanna.
Aðalstörf vinnumanna voru sjómennska á vetrar-, vor- og haustvertíð, úteyjaferðir, fuglaveiði, fiskþvottur á vorin, sláttur á túnum, smíðavinna ýmis konar, garðahleðslur og margs konar fleiri störf. Kvenfólk annaðist, auk tóvinnunnar fyrri part vetrar og algengra hússtarfa, fiskaðgerð á vertíð. Kvenfólk gekk og að uppskipunarvinnu, meðan karlmenn réru á sjó, og máttu bera á bakinu salt og kol langar leiðir. Annars var venja að bera þunga vöru á handbörum, en vagnar þekktust eigi.
Á sumrin fór fólk úr eyjum í kaupavinnu á landi. Skömmu fyrir aldamótin síðustu tók fólk héðan að leita sumarvinnu á Austfjörðum hjá útvegsbændum þar.

Fríðindi fuglamanna og sjómanna.


Í hverri fuglaferð til fýla fengu veiðimennirnir 3—4 fýla hver eftir eigin vali úr fuglakös. Voru þeir festir í keppólina, og þaðan er nafnið keppfýlar. Vinnumenn áttu sjálfir keppfýlana. Við súlnaveiði fékk og hver maður eina væna súlu af óskiptu, keppsúlu. Á fýlaferðum leiðst það og, að menn tækju á belti lítið af lunda og pysju.
Hrófölsfiskarnir voru þrír beztu fiskarnir af afla, er hásetar máttu velja úr fiskkös í eitt skipti fyrir öll. Þeir voru snemma afdæmdir ásamt drykkju- og tóbaksfiskum, og höfðu sjómenn nú eigi annað en happdrætti sína. Vinnumenn áttu formannskaup sitt. Það komst stundum allhátt, er kappboð var um mennina. Svo var talið, að húsbóndi væri ekki skyldur að láta í té vinnumanni, er tók formannskaup, skinnbrók að skipta í eða sjóskó, en hvort tveggja til að róa í. Formaður mátti og sjálfur sjá sér fyrir leðurskóm á fæturna, er hann kallaði háseta til róðra. Skipsáróður, í seinni tíð 3—4 krónur, fengu hásetar. Gjald þetta komst og stundum hærra fyrir kappboð. Festupeningar voru greiddir um leið og ráðning fór fram.
Happdrættir. Þeir voru kinnin af lúðu, dráttarkinnin, þ.e. svarta kinnin aftur að eyrugga, sumir töldu lög leyfa þverhandar- eða sjóvettlingsbreidd aftur fyrir eyrugga. Spildungurinn, varhornið og hryggurinn. Smáfiskur í tregfiski. Ýsa, ef fáar drógust á skip. Smáþyrsklingur, ef hann var bandrakki, sem kallað var, gat ekki legið í böndunum milli byrðings og langbands og smaug niður, en ef fiskurinn var það stærri, að hann ekki smaug bönd, þá kom hann til skipta. Karfi, skarkoli og smákoli, ufsi, háfur, steinbítur, lýsa, keila og murtur. Af skötu hlaunirnar, rassinn. Vinnumenn fengu happdrættina, ef þeir lögðu sér til veiðarfærin, annars átti húsbóndi þá. Hann átti allan mann „með öllum ketum“, eins og sagt var. Happdrættið fékk sá, er t.d. fyrstur setti í lúðu eða skötu, þótt annar drægi. Flyðrur voru lúður kallaðar, er voru ein alin fyrir sporð, þegar tekið var í þönina á sporðinum. Eftir stærð voru lúður stofnaðar eða flakaðar, stofnlúða og flakandi lúða. Þegar skipt var flökum af lúðu, var jafnan sælzt til, að hver fengi bæði hvítt og svart flak, en eigi tvö samlit, því að svörtu flökin, bakflökin, þóttu betri en kviðbeltið.
Til happdrátta mátti og telja hlutdeild í ýmissi stórveiði: beinhákarli eða andanefju eða ef reki fannst á sjó. Svo er að sjá sem hásetar á konungsbátunum hafi verið allaðgangssamir um happdráttu, svo að til dóms þurfti að koma til að setja skorður við þessu. Í Hvítingadómnum frá 1635 er kvartað yfir hinu langvarandi óhófi og ójöfnuði, sem í þessari veiðistöð hafi gengið fremur en í öðrum, þar sem mestur hluti hásetanna skammti sér sjálfur fiska, fyrir utan hlut, án leyfis og setja á þá mark sitt, stundum „einn, tvo, þrjá, fjóra og fleiri.“ Er svo fyrirskipað í nefndum dómi, að allt trosfiski, sem á skipið fæst, skuli koma til réttra skipta og undir sama skilmála sem þorskurinn, og segir hér, að skipseigendur séu ekki haldnir í nema þeir hafi skipsleigu af öllum matfiski, sem guð á skipið gefur, sem er að tilgreindum ýsum, skötum, keilum, kolum, ufsum og háfum, háköllum og hámeyjum allir fljótandi drættir, hvort þeir eru við skipið eða eftir.
Maríufiskarnir voru einn eða tveir fyrstu fiskarnir, er menn drógu úr sjó, og átti þá sá, sem dró. Var það venja að gefa Maríufiskana gömlum einstæðingskonum, og þágu menn góðar fyrirbænir þeirra í staðinn. Sumir töldu til Maríufiska alla fiskana, er sami maður dró í fyrsta sinn í róðri. Maríumessur kölluðu menn hér landlegudaga.

Hjátrú.


Þjóðtrú eða hjátrú, náttúrutrú og dulargáfur þróaðist með fólki hér sem annars staðar. Hjá eldra fólki að minnsta kosti var trúin á álfa í góðu gengi fram á síðustu tíma. Voru margar sögurnar um huldufólk, þótt eigi verði þær sagðar hér. Gömul kona, er var margfróð og deyði hér skömmu eftir 1900, stóð fast á því, að sízt væru byggðir álfa hér um eyjarnar minni en byggðir mennskra manna. Margir trúðu því, að fylgjur væru með mönnum og lá illt orð á sumum fyrir vondar fylgjur þeirra. Þá eimdi og lengi eftir af drauga- og djöflatrú, og fólk kunni særingarþulur til að reka djöfla út af mönnum. Á mörgum stöðum var talið reimt og eigi hollt að vera þar eftir að kvöldsett var orðið eða komið fram yfir dagsetur. Oft þóttust menn verða varir við slæðing frá sjónum, helzt er verið var á rekum á næturþeli. Villt var fyrir mönnum og þeir eltir og reynt að draga þá í sjóinn. Átti þetta helzt heima suður á eyjunum fjærst mannabyggðum, en fór aldrei lengra en að svokölluðum Ömpustekkjum, þar sem komið var upp úr hvarfinu. Á sumum stöðum voru svipverur hrapaðra manna, sem gerðu fólki ónæði í úteyjum, er verið var við heyskap. Mest hafði kveðið að þessu við Heljarstíg. Reimt þótti mjög við dysjar erlendra manna, er dysjaðir voru utan kirkjugarðs, næstum syðst suður á eyjarenda, á öndverðri 19. öld. Trúði fólk því, að presturinn, er stóð fyrir því, að mennirnir voru dysjaðir þarna sem aðrir heiðingjar, hafi hrökklazt burt héðan vegna ásókna og ótta við draugsendingu af hálfu ættmenna hinna látnu erlendis. Vættaverur voru víða á sveimi, mest við Kaplagjótu. Hurfu þar menn, er voru á rekum. Draugur í hundslíki var í Leggjagrjótum og villti um fyrir fólki, er var eitt eða seint á ferð ofan fyrir Hraun eða neðan úr kaupstað. Gamlar dysjar voru allvíða og stóð mörgum stuggur af. Ein þeirra var Olbogadysin fyrir ofan Hvíld. Um hana var gömul sögn um unnið víg. Þótti þarna jafnan reimt. Vætta- og dísastaður var fyrir austan Manga-Lönd og margt kynlegt á ferli. Þar lá fyrrum vegurinn upp að Vilborgarstöðum. Þar í túninu var Vilborg Herjólfsdóttir heygð. Vættastaður var í Æsulágum og við klettinn Frið. Fyrir neðan Skarð, þar sem vegurinn lá upp að Búastöðum og Oddsstöðum, höfðu átt að sjást vafurlogar. Völvuleiði í Ofanleitistúni og Unurnar, kennt við Unu eldri og yngri. Þar mátti eigi slá. Víðar voru álögublettir í túnum. Reimt þótti við Danska Garð og í Skanzinum, og þess varð oft vart, er menn sóttu vatn frá Garðinum í nyrðri Miðhúsabrunn. Magnaðastur var draugurinn í Brydesstofu, og hans varð vart fram á síðustu tíma. Var þetta sett í samband við morð, er þar hefði verið framið; líklega ruglað saman við morðið í Hvíld, en umboðsmaðurinn Vibe hafði verið í þingum við konu hins myrta, er ásökuð var um morðið. Er morðið í Hvíld, er framið var undir lok 17. aldar, frægt í sögnum. Var fyrst talið, að huldumaður hefði það framið, og lá rannsókn málsins niðri af þeim sökum. Um ókyrrð mikla í gamla skálanum á Miðhúsum, er hafður var fyrir verskála, gengu ljótar sögur. Akurdrauginn kannast margir við. Fram á þessa tíma notaði sumt gamalt fólk Davíðssaltara til varnar gegn sóttum og illum öndum.
Í Íslandslýsingu Peter Resens frá 1684—88 segir m.a. frá trúnni á afturgöngur og ótta manna við aðsóknir þeirra, er deyi í reiði og hatri til annarra, og sé það hér á landi talið bezta ráðið við þessu að grafa hinn dána upp, höggva af honum höfuðið og brenna með búknum, og hafi þessari aðferð verið nýlega beitt í Vestmannaeyjum við dáinn mann¹). Á síðari hluta 19. aldar kom það fyrir hér, að neðan í iljarnar á líki manns eins, er verið hafði mesti svarri og heitazt hafði við annan, áður en hann skildi við, og hótaði að ganga aftur og drepa hann, voru reknir stórir naglar. Þetta hefir þekkzt víða hér á landi og það að reka stórnagla ofan í leiði. Öll slík kreddu- og draugatrú er útdauð að mestu fyrir löngu.
Útburða er og getið og lét illa í þeim undan veðrum. Oft voru fuglamenn í Elliðaey ónáðaðir af útburðinum í Höskuldarhelli. Svipað var og við legubólið í Miðkletti. Bergbúar höfðust við þar sem flug voru og hættustaðir fyrir fuglamenn vegna lausagrjóts og klungurs. Óvættur eða bergbúi átti að eiga heima í Ókindargili eða Ókindarbás vestan við Hákollagil upp af Dufþekju. Var talið hættulegt að síga í básinn. Mikill hættustaður var Vámúlinn, þar sem nú heitir Klettsnef, með Vámúlaskoru. Sæ- og skeljaskrímsli sáust undan langvinnum óveðrum. Hafmeyjar heimsóttu verur af mennsku blóði. Talið var, að marbendlar og margýgir hefðu stundum komið upp úr sjó og verið innbyrtir á skip.
Sumir staðir áttu sína hollvætti. Þannig var það um Súlnasker. Sú er sögn um Súlnasker, að lengi framan af hafi engum manni til hugar komið að fara þar upp, og það væri ófært nema fuglinum fljúgandi. Loks gerðu tveir ofurhugar tilraun til að komast upp og tókst það, þótt mesta glæfraför væri. Sá, er fyrr komst upp, sagði: „Hér er ég kominn fyrir Guðs náð,“ en hinn síðari sagði: „Hér er ég kominn, hvort sem Guð vill eða ekki.“ Skerið hallaði sér þá á hliðina og hristi guðleysingjann af sér og út í hyldýpið og týndist hann, en stórvaxinn maður kom fram, greip hinn manninn og studdi hann og hafði hann líf. Þessi stórvaxni maður var Skerpresturinn, sem býr í Skerinu. Frá þessum degi hefir Skerið hallazt. Skerpresturinn hjálpaði svo manninum niður og til þess að leggja veg upp á Skerið, er lengi var notaður. Áður fyrri var sú trú, að Skerpresturinn kæmi fram á brún á Skerinu og bandaði móti mönnum, ef þeir vildu leggja að, ef vont veður var í aðsigi, og þeim, er eigi gáfu gaum bendingum hans, hlekktist æfinlega eitthvað á. Þeir, sem í fyrsta sinn fara upp á Skerið, leggja fáeina skildinga í steinþró uppi á Skerinu sem fórn eða offur til Skerprestsins, og hefir sá siður haldizt við lengi. Alltaf voru peningarnir horfnir, er komið var í Skerið næst. Sagan segir og, að Skerklerkur heimsæki Ofanleitisprest á gamlárskvöld og kemur þá róandi yfir um á steinnökkva. Bar þá heimapresti að setja fyrir hinn alls konar kræsingar og að fylgja honum á miðnætti suður í Vík við Stórhöfða og hjálpa Skerpresti að setja á flot. Slys hafa verið mjög fátíð við Súlnasker og það þakkað Skerpresti. Einu sinni datt maður, er var að binda skóþveng sinn, tæpt á efstu brún Súlnaskers, en það er nokkuð á 3. hundrað fet á hæð, niður fyrir flugið og í sjó. Honum skaut upp aftur og var bjargað af báti, er lá undir eynni. Maður þessi náði sér furðu fljótt aftur og varð jafngóður. Þetta þótti undur. Svo langt sem vitað er, hefir enginn farizt í Súlnaskeri. Hjá eyjafólki hefir jafnan verið eins konar helgi yfir Súlnaskeri. Um Skerprestinn segir Jón skáldi í Vestmannaeyjabrag:

Prestur Skers um Ránarreiti
rær oft upp að Ofanleiti
nóttina fyrir nýjárið.
Það er líka satt að segja
sóknarprestur Vestmannaeyja
höklabúlka hýrt tók við;
stofuna til staupa benti.
Steinnökkvann í Vík, sem lenti,
setti á flot um svartnættið²).

Árið 1623 hrakti báta frá Súlnaskeri og vestur til Þorlákshafnar. Séra Jón í Kirkjubæ píslarvottur orti um sjóhrakning þennan, er seinna var af mörgum skoðaður sem fyrirboði Tyrkjaránsins.
Það hafði fyrrum verið siður, er farið var upp á Súlnasker, að menn gengu þegar, er upp var komið, að vörðu á Skerinu, þar sem það var hæst, til að gá til veðurs, því að hætta gat verið á, að menn kæmust ekki á skip, ef skyndilega hvessti af austri. Var það haft eftir fyrri tíðar mönnum, segir í sóknarlýsingu séra Gissurar Péturssonar, að það hefði sjaldan brugðizt, að þegar austanvindur var í aðsigi, þá hefði einhver séð eybúann undir Vörðum. Svo sterka trú höfðu menn á þessu, að ef nokkur sá eybúann, fóru allir veiðimennirnir þegar ofan af Skerinu og í bátana, hversu blítt sem veður var. Enda varð þeim að trú sinni, því að æfinlega var þá austanveðrið komið á hæla þeim.
Gömul sögn er um það, að tröll hafi í fyrndinni kastað Vestmannaeyjum út í hafið alla leið frá Hellisheiði.
Illhveli. Af illhvelum var léttir (stökkull, hrafnreyður) talinn hættulegastur, því að hann hafði það til að stökkva upp úr sjónum og steypa sér yfir báta og granda þeim. Til þess að forðast hann, var helzt talið ráð að kasta út drykkjarkútum og duflum eða belgjum, til að láta hann glíma við og sprengja sig, því að náttúra hans var að vilja kaffæra allt, sem flaut. Annað ráð var og það, ef léttir elti skip, að halda beint undir sól, því að þá sér hann ekki skipið fyrir sólarglampanum. Létti voru stundum eignaðir bátsskaðar, t.d. skipsskaði, er hér varð 1882. Af öðrum illhvelum í sjó, er sögur hafa spunnizt um, má nefna mjaldurinn, katthvelið (sandreyður), rauðkembinginn og sverðfiskinn, búrhvelið o.fl. Steypireyðurinn var bjargvættur fiskibátanna og varði þá fyrir áreitni illhvelanna. Það átti að hafa skeð hér fyrir 1600, að steypireyður bjargaði ellefu fiskibátum úr eyjum undan voðalegum sjóormi eða sjóskrímsli, er var svo stórt, að það virtist bera yfir Heimaklett. Rak steypireyðurinn óvættina langt frá eyjum.
Nauthvelið var með stærstu illhvelum og öskri þess líkt við mesta nautsöskur. Ef það heyrði kýr baula, öskraði það eða baulaði á móti. Ærðust kýr þá og hlupu í sjóinn. Átti það að hafa komið fyrir hér í eyjum, að nauthveli ærði svo kýr, að þær hlupu fyrir hamra. Katthvelið mjálmaði eins og köttur. Hrosshvelið átti að vera í hestslíki og hneggja eins og hestur. Hundhveli átti og að vera til. Grár kúalitur átti að vera sækúalitur. Um náhvelið var því trúað, að það legðist á nái í sjónum. Varð fólki oft tíðrætt um illhvelin í sjó og náttúrur þeirra, og gengu margar sagnir hér um og um sjóskrímsli.
Meðal tákna þeirra, er áttu að ske áður en Tyrkir rændu eyjarnar, var það, „að ein hræðileg ókind með síðum hornum gekk úr sjónum lifandi þar upp á eyjarnar, aktandi eigi fallstykki, spjót og lensur. Hún hafði og áður sézt á undan ráninu 1614“. Svo skyldi og hafa verið dreginn þar hafþorskur „gegnum hvern miðjan stóð sem sverð, með því rúnaletri, er enginn gat lesið“. Í „Undrum Íslands“ er getið sjóormsins mikla við Vestmannaeyjar og furðufuglanna þar. Í Skarðsárannál segir, að 1635 hafi komið á land í Vestmannaeyjum 100 fiskar. Höfðu aðrir eins aldrei fyrr sézt. Þeir voru með tveimur höfðum, emjuðu og ýlfruðu með aumlegum hljóðum. Beit ekki, þótt til þeirra væri lagt með járnum eða höggvið. Fóru þeir í sjóinn aftur.
Um selina, afkomendur manna þeirra, er fórust í Rauðahafi með Faraó, var margt sagt, svo sem það, hversu fíknir þeir voru í að elta óléttar konur og hversu þeir hændust að rauða litnum, svo að hægt var að lokka þá á land. Á selkjöti höfðu margir óbeit vegna skyldleikans við mennina. Banvænt var selbit talið.
Urðarkettir, er héldust við í hellisskútum og giljum, stærri og grimmari en venjulegir kettir, töldust með dulverum náttúrunnar.
Kjöt og egg ránfugla eða klófugla forðuðust allir, þar með og talið kjöt af hænsnum, sem af ýmsum og voru talin heilög.
Um þistilinn, sem vex í Landakirkjugarði og alþýða manna kallar þyrni, sem og hefir komizt inn í Vestmannaeyjalýsingar, var því trúað, að hann yxi upp af leiðum vondra manna og óguðlegra. Af saklausri kærleiksást tveggja systkina í Vestmannaeyjum, er tekin voru af lífi, átti að hafa sprottið á leiðum þeirra reynitré, er náðu greinum saman yfir kirkjuburstina. Sögn þessi gæti verið úr hinu forna kvæði um Tristam og Ísodd.
Jafnan þótti mikil blótsemi ljótur löstur og gert til að skemmta skrattanum. Einkum þótti það mesta ósvinna að viðhafa blót og formælingar á sjó og varðaði vítum. Til sjóvíta taldist það og að nefna nöfn illhvela eða annarra óvætta á sjó, og egna þau þannig að skipinu, með því að þessar ókindur áttu að þekkja nafn sitt og koma þegar þau voru nefnd.
Allflestir höfðu lengi ótrú á því að „draga út“, þ.e. róa fyrsta róðurinn á vertíð á mánudegi. Bezta trú höfðu menn á seinni dögum vikunnar. Þótti jafnan sem menn hefðu einnig stóran hagurbala af því að hreyfa skip og setja fram að sjó eða í hróf og tilbúa skip á mánudegi. Vissara þótti að setja að minnsta kosti í hróf t.d. á laugardegi, ef menn vildu róa á mánudegi. Fýlaferðir byrjuðu alltaf eins og áður segir á laugardegi.
Ótrú höfðu sumir á því að mæta kvenmanni, er menn fóru til sjós, og tóku þá oftlega heldur á sig krók. Eins snéri kvenfólk úr vegi, er það mætti mönnum á leið til sjós, í öllum böslum, þ.e. alskinnklæddir og færið uppgert með sökku og öngli um öxl sér. Hitt þótti aftur afbragð að láta stúlku fægja öngul sinn, og allra helzt að festa forsenduna í færissökkuna, drógu menn þá óðan fisk á eftir, þótt áður fengju eigi bein úr sjó. Sumir trúðu því, að menn væru fisknir eftir því, hvað þeir væru kvenhollir.
Margir veittu því athygli, er skip voru sett í hróf, hvernig hljóðið var í hrófinu, er skipið nam niðri, hart eða milt, og fór sjósóknin eftir því. Ef hrikti eða brast mikið í skipi, er rennt var af stokkum og sett fram í fyrsta sinn, var það talið með vábrestum og þótti sem feigð kallaði að. Þannig var það, er skipið Blíður var sett fram í fyrsta skipti, þótti bresta í því með ólíkindum. Þessu skipi sögðu menn líka, að hefði hlekkzt á í öll þau fáu skipti, sem það kom á sjó. Það fórst í þriðja eða fjórða róðri í útilegunni 1864. Sagt var, að gömul og forspá kona hefði ráðið formanni að setja nýjan kjöl í skipið, því að hinn væri úr villieik, er var óheillatré. Mikla ótrú höfðu menn á seljuvið í skip.
Hinn forni siður, að leita að líkum sjódrukknaðra manna með því að róa með hana þar um sjóinn, er menn fórust, hélzt hér fram yfir aldamótin síðustu. Átti haninn að gala þar, sem líkið lá undir.
Það kom fyrir, að menn hlóðu sig í sjó, því að fastheldnir voru menn á fisk þann, er einu sinni var kominn á skip, og vildu ógjarnan kasta út, eins og segir í vísunni: Fyrr vil ég dauður, dreginn ráðum hníga, o.s.frv.
Násjóa og feigðarboða könnuðust margir við. Voru þeir blárri á litinn en vanalegur sjór. Sæust þeir í námunda við skip, mátti telja það skip af. Násjóirnir fóru jafnan þrír hver á fætur öðrum og þóttu jafnan boða skipsskaða. Náhljóð heyrðust og í sjó, líkust sogstunum. Þegar sæta skyldi lögum, var vandinn að kunna að sitja af sér aðalólagið eða þrjár ólagsöldurnar, er fylgdust að, og fylgja næstu öldu, og var þá ráðið að taka lífróðurinn og lina ekki á, fyrr en komið var að landi. Þegar skip fórust í brimsjó, töldu menn, að jafnan lægði veður og sjó örlitla stund á eftir, mátti þá taka dauðalagið. Talið var, að með þessum hætti hefðu menn stundum bjargazt hér inn yfir Leið.
Margir veðurglöggir menn voru hér og fljótir að átta sig á veðrabrigðum til sjós og lands, svo að þeir gátu sagt fyrir, hvernig viðra myndi næsta dag og frá degi til dags með furðanlegri nákvæmni. Veðráttunni voru menn mjög háðir hér bæði í sjósókn allri og veiðisókn í úteyjum, auk hinna venjulegu atvinnustarfa á landi. Þegar til veðurs var gáð blasti við frá norðvestri til austurs fjallahringurinn frá Reykjanesi að Dyrhólaey, með Langjökul og Hofsjökul, Heklu og Bláfell, Eyjafjalla- og Mýrdalsjökla að baki. Eftir því, hvernig veðrið var á heiðum og fjöllum á landi, sérstaklega á næstu jöklunum, — eftir því, hvernig hann dró upp, gekk upp, faldaði eða kembdi, setti í bakka eða þykkni, vindský eða skúrir, krapa eða él, gátu menn markað mikið, hversu veður myndi verða hér á næstu eyktum. Þegar litið var til opnu áttarinnar, til hafsins í austur, landsuður, suður og vestur, voru hafblikurnar fyrirboði og bakkinn í austri. Menn veittu fasta athygli öllu veður- og skýjafari, afstöðu himintungla, regn- og rosabaugum, hjásólum, sólhringum, veðrahjálmum. Þá fóru menn og eftir vindgný, brimhljóði, sjávarstraumum og brimfroðu. Undiralda, lágniður og sog í sjónum og hversu hann kveikti við úteyjar talaði sínu aðvörunarmáli, er hugsað var til stórferða. Klósigar þóttu vita heldur á staðviðri og sömuleiðis hafgall, en hafglenna á votviðri. Flugi og háttum fugla veittu veðurglöggir menn athygli, einnig því, hvernig útigöngufé í Heimakletti og úteyjunum hagaði sér, dreifði sér um haga eða hnappaði sig og leitaði bóls. Bezt var tíðarfarið, er sólfarsvindar gengu á vorin og á sumrin fram undir höfuðdag. Gekk þá vindur með sól og mikill hiti með tíbrá á daginn og norðankaldi eða andvari á nóttum. Hornriða- og fjallaskúrir gátu komið á landi, þótt eigi rigndi hér. Leiðastar þóttu hinar langvinnu austan- eða hafáttir með þokum og rigningum. Úr sortasveipnum af jöklinum stóð oft langstætt hörku landnyrðingsveður hingað út yfir eyjarnar og náði skammt vestur fyrir. Af hornriðanum eða hornriðabrimi við úteyjar mátti sjá, að stormur var í aðsigi. Hér var lítil alda kölluð bærlingur og toppalda lítil tipplingur. Af því, hvernig sjór var hér við úteyjar, mátti marka, hvernig sjór var við Landeyja- eða Fjallasand. Einhver allra veðurgleggsti maður hér, sem heyrðist getið um, var Árni Einarsson hreppstjóri á Vilborgarstöðum, lengi formaður. Hann var og manna kunnugastur um fiskimið og átti sjálfur miðabækur. Næstu forfeður hans í báðar ættir var að finna hér meðal formanna og helztu bænda.
Um drauma var margt talað manna á millum og margir voru berdreymnir. Margs var getið úr draumum og forsögnum, er stórslys urðu og mannskaðar, og ýmsir náttúruviðburðir þóttu boða stórtíðindi. Þó hefir verið miklu meira um slíka viðburðatrú áður. Undan Tyrkjaráninu áttu að hafa skeð hér ýms tákn, sólar- og tunglmyrkvi, stjörnuhrap stórfengilegt. Glóandi sverð með miklum ljóma sást á lofti. Þá sást halastjarna. Einnig urðu jarðskjálftar miklir hér, svo að bjargfugl hrundi niður. Þá varð og ofsalegur sjávargangur, er ruddi upp úr hafsdjúpum stórum björgum, og hvirfilvindur, er sleit upp þrjú skip hér á höfninni. Kötlugos og -hlaup um þær mundir mun hafa valdið því. Rautt flagg hafði sézt hér á kirkjunni á hárri, rauðri stöng á sjálfan nýjársdag á undan ráninu. Í Skarðsárannál segir, að 1633 hafi sjórinn verið sem blóð við Vestmannaeyjar. Þótti þetta fyrirboði mannskaðans mikla hér 1636 á vertíð og fórust þá 45 manns.

Heimildir neðanmáls í þessum hluta:
1) Landfræðis. Ísl., bls. 190.
2) Jón Jónsson Torfabróðir: Álit og dómar ýmsra ... um Vestmannaeyinga og þeirra lífernisháttu, bls. 40, Lbs. 44, fol., III.


Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit