Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Akurdraugurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Akurdraugurinn)
Fara í flakk Fara í leit


Akurdraugurinn.


Það var einhverju sinni fyrir löngu, að bóndinn, sem þá bjó á Eystri-Gjábakka í Vestmannaeyjum, bað vinnumann sinn, sem var búinn til kirkjugöngu á jóladaginn, að fara austur í Urðir og bjarga upp tré, sem rekið væri í Rekabás. Vinnumaður tók illa undir þetta, og varð þeim bónda mjög sundurorða út af förinni. Þó lauk viðureign þeirra, fyrir harðfylgi bónda, á þá lund, að vinnumaðurinn hafði fataskipti og fór á rekann, en annað heimilisfólk fór til Landakirkju að hlýða messu. Vinnumaður drukknaði þarna í básnum, er hann var að eiga við tréð, og gekk hann aftur, eins og títt var um menn, sem létust með heiftarhug til einhvers.
Þegar kirkjufólkið kom aftur heim frá messu, sá það vinnumann á bæjardyrabitanum, þar sem hann skemmti sér við að flá kött. Af afturgöngu þessari urðu svo mikil brögð að reimleikum á Eystri-Gjábakka, að bóndi flúði af bænum með skyldulið sitt, því að honum var þar ekki vært. Eftir það var ekki búið þar um alllangt skeið, þangað til Abel sýslumaður flutti þangað.
Telja menn, að draugurinn hafi aðallega haft hæli sitt í móanum austur af Eystri-Gjábakka, en einnig í Landahelli.
Áttu einhver undirgöng að liggja á milli þessara staða.
Abel sýslumaður var mikill búsýslumaður, og hóf, skömmu eftir að hann kom að Gjábakka, tilraunir til akuryrkju í móanum austan við bæinn, þar sem draugurinn átti að hafa hæli sitt, og síðan hefur verið nefnt Akur. Lét sýslumaður Svein Hjaltason, vinnumann sinn, starfa að landbrotinu.
Draugurinn tók þetta illa upp, og urðu ásóknir hans við Svein svo magnaðar, að hann sturlaðist á geði. Ekki heppnuðust akuryrkjutilraunir sýslumanns, og var draugnum kennt um það.
(Sögn Hannesar Jónssonar hafnsögumanns)