Friður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson er þessi frásögn af klettinum Frið í landi Nýjabæjar, sem nú er undir hrauni:

,,Sunnan við Nýjabæ í túni jarðarinnar, er grjóthóll, að mestu grasi gróinn, sem nefndur hefur verið Friður. Í hóli þessum er talið að huldufólk hafi átt byggð um langan aldur. Ábúendur í Nýjabæ hafa aldrei látið slá hólinn, og sumir þeirra hafa ekki viljað láta vera með hávaða í námunda við hann, og dregur hann nafn af því. Kristín, dóttir Einars Sigurðssonar bónda á Vilborgarstöðum, ekkja þeirra Magnúsar Austmann, stúdents og Þorsteins Jónssonar, alþingismanns, bjó um langt skeið í Nýjabæ. Var henni mjög á móti skapi, að háreysti væri höfð í frammi nálægt Frið og hastaði oft á börn, sem voru þar að leikjum. Vildi hún ekki láta raska húsfriði hjá huldufólkinu."

Í dag er Friður ennþá á sínum stað, þar hefur engu verið raskað nema hvað hann hefur kannski sigið saman undan öskunni og minnkað. Norðan í Frið var lítill hellir sem hefur sigið saman.


Heimildir

  • Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum eftir Jóhann Gunnar Ólafsson
  • Geirþrúður Sigurðardóttir