Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Miðhúsaránið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


MIÐHÚSARÁNIÐ


1.


MÓÐUHARÐINDIN munu vera stórfelldustu ógnir, sem yfir þetta land hafa gengið. Þó að gosstöðvar Skaftáreldanna væru langt uppi í óbyggðum, spýttist ólyfjanin úr þeim yfir nær allt Ísland og eitraði gróður og graslendi svo, að stórfelldur mannfellir og skepnufellir varð norðanlands og sunnan, og jafnvel fiskimiðin kringum landið urðu fisklaus. Nágrenni gosstöðvanna varð þó verst úti, enda veltist glóandi hraun yfir stór svæði og öskufallið var ógurlegt. Í þeim sveitum féll nær því hver skepna, svo að menn urðu algerlega bjargþrota fyrir sig og sína. Leituðu Skaftfellingar þá á flótta í önnur byggðarlög, þar sem þeir héldu að betur væri ástatt, til þess að bjarga lífinu, ef unnt væri. Nokkrir menn leituðu þá út í Vestmannaeyjar, þar sem þeir væntu að hægt væri að fá björg úr sjó.
Í Eyjum var þó bágt ástand um þessar mundir. Hafði byggðarlagið ekki rétt við eftir áratugs hallæri á árunum 1768—1778. Þá var fiskleysi svo mikið, að naumast fékkst branda úr sjó, hversu vel sem menn báru sig eftir björginni. Íbúunum hafði farið sífækkandi og margar Eyjajarðir lagzt í eyði. Jón Eiríksson sýslumaður í Stakkagerði hefur lýst ástandinu í Vestmannaeyjum nokkru eftir Móðuharðindin í skýrslu til stiftamtmanns, dags. 31. des. 1787. Fara hér á eftir nokkrar glefsur úr þessari skýrslu til þess að sýna, hversu ástatt var og í hvílíka úlfakreppu menn voru komnir af völdum hamfaranna í ríki náttúrunnar og ördeyðunnar til sjávarins.
Lýsing Jóns á fiskveiðum eyjarskeggja er á þessa lund:
„Höfuðatvinnuvegur eyjarskeggja eru fiskveiðarnar. Að fornu voru þær stundaðar á vertíðum á innstæðubátunum, eða tíæringunum, sem að nokkru leyti voru mannaðir eyjarskeggjum sjálfum, en að nokkru mönnum, sem komu þangað af meginlandi að haustinu til róðra. Þessa innstæðubáta var hætt að nota, þegar aflinn brást. En aflaleysið hófst árið 1773, en mest var það árin 1775—1782, og heldur minna síðan.
Í stað innstæðubátanna nota eyjarskeggjar nú smájul eða fjögurra manna för, sem talin eru miklu óheppilegri til fiskveiða um vertíðir á þessum stað, þar sem róið er á opið haf, stundum langt frá eynni. Þessir smábátar, sem íbúarnir eiga, eru nothæfir til sumarróðra, og eiga tveir, þrír og jafnvel fjórir bændur þá í félagi, eins og skýrslan sýnir. Sú ástæða er til þess, að fátækir bændur, sem hafa byggt þá, hafa ekki getað fengið háseta á þá, sökum þess hve dýrkeyptir þeir eru. Þeim eru greiddir tveir ríkisdalir og þaðan af meira. Auk þess er þeim séð fyrir færi og önglum, sem oft tapast, vegna þess að botninn kringum eyjuna, þar sem þeir fiska, er mishæðóttur og grýttur. Er hver bátseigandi ræður til sín þrjá menn og greiðir hverjum þeirra 2 ríkisdali, gerir þá út með þrem færum og stundum fleiri, og verður auk þess að halda bát og fargögnum við, svarar útgerðin ekki kostnaði meðan aflaleysið er svona mikið, enda þótt hann taki tvo hluti eftir bátinn. Af þessum ástæðum eru meðal fátæklinganna eigendurnir jafn margir áhöfn bátsins. Þegar bátseigendurnir greiddu hins vegar hverjum háseta 4—6 mörk og lögðu hverjum manni aðeins til eitt færi, var ástandið bærilegra fyrir bátseigendurna. Fólksfæðin til fiskveiðanna og bátafjöldinn hafa leitt til þess að eigendurnir hafa boðið hver í kapp við annan til þess að fá áhöfn á bátana. Fólksfæðin og aflaleysið hafa orðið til þess að áttæringarnir, sem nokkrir eyjarskeggjar byggðu, eftir að hætt var að halda innstæðubátunum úti (konungsskipunum), hafa legið uppi ónotaðir og fúnað til tjóns fyrir eigendurna. En þessir bátar eru miklu heppilegri til vertíðarróðra á þessum stað.“
Búskapnum lýsir hann með þessum orðum:
„Nautgriparæktinni kveður ekki mikið að. Flestar þeirra jarða, sem taldar eru í jarðabókinni tveggja kýrfóðra, fóðra nú tæplega eina kú, og eru þær þó fóðraðar hér að einum þriðja hluta á sjófangi. Fóðurskorturinn stafar nú fremur en fyrrum af afla- og áburðarleysinu, vegna þess að eyjarskeggjar nota mykju til eldsneytis, ásamt þangi. Túnin eru þess vegna komin í órækt. Fyrrum báru eyjarskeggjar fiskinnyfli og fiskbein á tún sín og fengu mikið gras. En þessu var lokið með aflaleysinu. Sökum fóðurskortsins hafa margir bændur, sem hafa hálfar jarðir í ábúð, aðeins hálfa kú á leigu. Hagarnir eru upp blásnir og gefa lítið gras, svo að þær fáu kýr, sem eyjarskeggjar eiga, mjólka lítið að sumrinu. Það getur að nokkru leyti stafað af því, að þær eru að vetrinum fóðraðar á þangi og sinu, sem eyjarskeggjar reyta að haustinu í fjöllunum, þegar snjór hamlar ekki, til þess að spara kjarngóða heyið, sem þeir hafa náð inn um sláttinn. Áður gáfu þeir mjólkurkúnum soðna kútmaga, hrogn og þess háttar sjófang, ásamt litlu af heyi.
Sauðfjárræktin gefur ekki góðan arð hérna. Sauðfé er sjálfala. Vegna þess að eyjan er þakin bröttum og næstum ógengum hömrum, geta eyjarskeggjar ekki smalað því, nema með mannsöfnuði og stundum mestu lífshættu, þegar þeir rýja það að vorinu og marka lömbin eða taka fé til slátrunar að haustinu. Samkvæmt fyrirmælum allra náðugastrar tilskipunar frá 13. maí 1773, reyndu eyjarskeggjar að færa frá, en þessi tilraun heppnaðist ekki. Ærnar hlupu á fjöll, eftir að þeirra hafði verið gætt að nytjalausu nokkra daga á sléttlendinu heima við bæina. Fráfærur virðast erfiðleikum bundnar og telja eyjarskeggjar þær óframkvæmanlegar, þar sem aðeins liprustu menn geta gætt ánna. Vanrækja þeir þá fiskveiðarnar, sem helzt heppnast á þeim tíma.
Næst fiskveiðunum hafa eyjarskeggjar mikinn hag af veiði villtra sjófugla. Að vorinu taka þeir eggin. Síðan veiða þeir lundann til matar, en fiðrið selja þeir og hafa til eigin nota. Veiðin fer fram með þessum hætti: Fuglinn grefur djúpar holur í jörðina og liggur þar á egginu. Þess vegna binda eyjarskeggjar króka á endann á keppi og draga lundann út á króknum. Pysjuna taka þeir líka. Að haustinu veiða þeir hafsúluna og fýlungann. Af hinum síðastnefnda hafa þeir mikið gagn til búsnytja. Nota þeir fýlafeitina í stað smjörs. Fiðrið af þessum fugli er aðeins notað til eldsneytis.“
Að síðustu fer sýslumaður þessum orðum almennt um ástandið: „Allan annmarka hinna atvinnuveganna bættu fiskveiðarnar áður. Síðan vandræðin skullu á hafa eyjarskeggjar að mestu lifað á lánum hjá verzluninni. Þeir eru þess vegna komnir i miklar skuldir, svo að mjög fáir hafa getað notfært sér þá konunglegu náð að greiða aðeins helminginn. Afgjaldaskuldir eyjarskeggja eru einnig miklar vegna þess að þeir hafa ekki getað greitt þær í fríðu síðan fiskleysið kom upp á. Hafa afgjöldin reiknuð til peninga hækkað í samræmi við hið háa fiskverð. Jarðirnar og túnin eru í niðurníðslu, vegna efnaleysis eyjarskeggja. Höfuðorsök fátæktar eyjarskeggja er aflaleysið, og svo það, að hinir gömlu eyjarskeggjar eru dánir og í þeirra stað innfluttir úr nærsýslum, einkum í síðasta hallæri, nýir íbúar, ákaflega fátækir, og ef til vill ekki hinir iðjusömustu, einnig lausafólk af báðum kynjum, sem hér hefur fest ráð sitt og setzt að. Fátæklingafjöldinn þjakar þeim, sem taldir eru betur stæðir, sökum framfæris þeirra og sjúklinga sveitarinnar. Auk þess eru tómthúsmennirnir nú sveitinni til byrði, vegna þess að eina lífsbjörg þeirra, sú vinna, sem til fellur við verzlunarstaðinn, kemur nú í hlut hinna fátæku bænda. Tómthúsin voru að fornu yfir 40 að tölu, en nú er aðeins búið í sjö þeirra. Þessir húsmenn hjálpuðu til við fiskverkunina og stunduðu einnig fiskveiði sér til ábata.“
Þessi lýsing ber ljóslega með sér, hversu þröngt hefur verið í búi. Þegar menn eru orðnir mjög aðþrengdir og sjá fá ráð til bjargráða, leiðast þeir á stundum til afbrota og örþrifa, sem aldrei mundi að þeim hvarfla að fremja, ef allt væri með felldu. Hér verður sagt frá atburðum, sem gerðust í Vestmannaeyjum árið 1790, er framið var hið versta óhæfuverk í fjáraflaskyni.

2.


Á síðustu áratugum 18. aldar bjó á Vilborgarstöðum í Vestmannaeyjum Bjarni Björnsson, Skaftfellingur að ætterni, fæddur um árið 1762 að Ásgarði í Skaftártungu. Líklega hefur Bjarni flutzt út í Eyjar undan Skaftáreldum, þó ekki sé þess getið í skýrslum sóknarpresta um þá mannflutninga.
Kona Bjarna var Ingibjörg Hreiðarsdóttir frá Kirkjubæ þar í Eyjum. Gengu þau í hjónaband 7. október 1787 og var Bjarni þá 25 ára að aldri, en Ingibjörg 27 ára. Árið 1792 voru þau búin að eignast 4 börn, Guðríði, Svein, Guðríði og Vigdísi, en Guðríður eldri dó árið 1787. Bjarni bjó enn á Vilborgarstöðum árið 1790, og var þá vinnumaður hjá honum maður að nafni Eyjólfur Eyjólfsson.
Um Bjarna bónda gengu þau munnmæli í æsku Hannesar lóðs í Nýja-Kastala, að hann hefði verið mesta svaðamenni og látið mikið. Fór hann mikið með byssu og gortaði mikið af leikni sinni með hana.
En hvernig sem því er varið, leikur naumast vafi á því, að Bjarni Björnsson var um margt mikilhæfur maður, góður smiður og þrekmaður á marga lund. Verður ævi hans rakin nánar síðar í þessum þætti.
Um sömu mundir bjó á hálflendunni á Vesturhúsum Bjarni Sigvaldason, bóndi, frá Jórvík í Álftaveri. Flúði hann út í Eyjar undan Skaftáreldum, ásamt konu sinni, Ragnhildi Þorsteinsdóttur. Þangað komu þau sumarið 1784, þegar hamfarirnar voru í almætti sínu, ásamt Steinunni Runólfsdóttur, móður hennar. Þau höfðu aðeins búið eitt ár í Jórvík, þegar eldsumbrotin byrjuðu. Misstu þau allan sinn bústofn, nema eina kú, sem þau seldu hálfdauða sér til matbjargar. Fótgangandi héldu þau vestur yfir Mýrdalssand og vötnin, en í Jórvík urðu þau að skilja eftir það, sem þau áttu í fatnaði og búsgagni. Þegar hér var komið, höfðu þau hjónin eignazt tvö börn, og voru bæði dáin, þegar komið var út í Eyjar. Frumburður þeirra dó af vosbúð og hungri á ferðalaginu vestur sveitir. Þessi frásögn um Bjarna og fjölskyldu hans er tekin eftir bréfi séra Guðmundar Högnasonar á Kirkjubæ frá 6. okt. 1786. Í bréfinu lagði prestur með því, að Bjarni fengi nokkurn styrk úr kollektusjóði, sem safnazt hafði erlendis til bjargar nauðstöddum mönnum. Séra Guðmundur skýrði enn fremur frá því, að Bjarni og hans fólk væri sæmilegt til atorku samkvæmt attestum að austan, sem hann hafði séð. Lauk hann bréfinu með þeim ummælum, að Bjarni hefði ekkert fengið af fyrri fjársöfnuninni, en ætti þó engan lifandi grip og hefði „einasta útlifaða kú að láni.“
Það heitorð hafði verið gefið þeim, sem flytja vildu aftur á jarðir sínar á jarðeldasvæðunum, að þeir skyldu fá 10 ríkisdala styrk, en annars ekkert. Þessum skilmálum hefur Bjarni ekki viljað ganga að. Hann flosnaði upp frá Vesturhúsum og fékk þá inni í tómthúsi að Löndum og þar var hann árið 1791. Þá var vinnumaður hjá honum Ísleifur Rafnkelsson, fæddur árið 1770, óskilgetinn. Hann var fermdur árið 1787, þá orðinn 17 ára gamall, eftir 7 ára undirbúning undir ferminguna. Mætti það benda til þess, að hann hafi verið treglega gefinn, enda segir prestur í fermingarskýrslunni hann mjög skilningslítinn.
Um þessar mundir var konungsjörðin Miðhús í eyði og hafði verið um nokkurt skeið. Hún var örskammt frá Garðinum, Dönskuhúsum, verzlunarstöðvum konungsverzlunarinnar, sem þá voru inni í Skanzinum, hinu forna virki, er Pétur Nansen borgarstjóri í Kanpmannahöfn lét gera eftir Tyrkjarán um verzlunarhús sín.
Hans Klog kaupmaður nytjaði Miðhús um þessar mundir. Hafði hann mikið bú, enda mun hann og Appólónía, kona hans, hafa verið umsvifafólk og veitul. Þau ólu upp á sínum snærum börn Jóns Eyjólfssonar undirkaupmanns og Hólmfríðar, dóttur séra Benedikts á Ofanleiti, þegar þau urðu munaðarlaus. Hólmfríður dó árið 1784, en Jón, maður hennar, mun þá hafa verið fallinn frá fyrir nokkru. Klog kostaði Pál til lærdóms, meðan fé hrökk til, og gifti Þuríði, systur hans. Páll varð síðan prestur á Kirkjubæ og gekk venjulega undir nafninu Páll skáldi, því að hann var skáld gott.
Í skjóli Klogs var Filippus Eyjólfsson til húsa í eyðibænum á Miðhúsum. Fleira fólk var þar ekki, en í úthýsi voru tveir tómthúsmenn.
Filippus var orðinn háaldraður, kominn á áttræðisaldur og hrumur nokkuð svo. Hann hafði búið á Búastöðum og Stakkagerði í Eyjum um langt skeið og var hann talinn vera nokkuð við efni. Hann var í betri bænda röð. Honum var um langt skeið falin hreppstjórn og er vafalaust, að hann gegndi þeim störfum frá 1756—1773, að hann var settur af embætti fyrir slælegt bókhald. Um árabil var hann skólastjóri við barnaskólann í Vestmannaeyjum, sem stofnaður var árið 1745 og starfaði að minnsta kosti frá því ári og þangað til árið 1766. Hin síðari ár veitti Nathanael Gizurarson skólanum forstöðu.
Filippus var nú kominn að fótum fram, vinum horfinn einsetumaður í bæjarhúsunum á Miðhúsum.

3.


Nóttina milli 9. og 10. febrúar árið 1790 var stórveðursstormur af austri, með regni og sjódrifi. Veður var ófýsilegt og ekki útlit fyrir sjóveður með morgunsárinu, svo að engin sál var á ferli. Undir miðnætti réðust tveir menn inn á Filippus, þar sem hann lá allsnakinn í rúmi sínu, eins og þá var títt, og í fasta svefni. Síðar kom í ljós, að þetta voru Eyjólfur Eyjólfsson, vinnumaður Bjarna Björnssonar bónda á Vilborgarstöðum, og Ísleifur Rafnkelsson, vinnumaður Bjarna Sigvaldasonar, tómthúsmanns á Löndum.
Ísleifur tók Filippus heljartökum og hélt honum, meðan Eyjólfur barði hann með páli, hvert höggið af öðru. Særðist Filippus allmikið á höfði, en samt missti hann ekki meðvitund. Árásarmennirnir hörfuðu nú út fyrir, en komu innan stundar aftur og réðust að nýju á Filippus með offorsi. Eyjólfur barði nú Filippus mörg högg og stór í höfuðið, og féll hann fljótlega í ómegin. Lá hann lengi meðvitundarlaus í sárum sínum. Hafði hann hlotið marga og mikla áverka, meðal annars átta sár á höfði.
Þegar Filippus raknaði aftur við, voru árásarmennirnir horfnir á brott, og höfðu þeir stolið peningakistli hans. Þar átti hann geymda 11 ríkisdali og var það nokkur fjárhæð á þeirra tíma vísu.
Filippus hafði talið sig bera kennsl á annan árásarmanninn, Ísleif Rafnkelsson, og kærði hann daginn eftir til sýslumanns fyrir árásina og þjófnaðinn.
Um þessar mundir var Jón Eiríksson yngri sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hafði hann tekið við sýslunni 19. marz 1787. Jón var bróðir Jóns konferenzráðs, hins mætasta gáfumanns, en hafði ekki gáfur á borð við hann. Hann hafði lagt stund á lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla, en lauk ekki prófi. Árið 1777 varð hann umboðsmaður Flögujarða og reisti bú að Ljótarstöðum í Skaftártungu. Þar bjó hann þangað til vorið 1784. Þá hafði hann misst allan fénað sinn og fluttist þá að Nýjabæ í Ölfusi. Þar bjó hann þangað til hann fluttist til Vestmannaeyja. Var hann settur þar sýslumaður 9. ágúst 1786, en fór þangað ekki fyrri en vorið eftir. Jón fékk síðan skipan fyrir sýslunni og var sýslumaður í Eyjum þangað til hann andaðist, 8. desember 1796. Jón var fyrst til heimilis á Oddsstöðum, en 1788 reisti hann bú í Stakkagerði og bjó þar til dauðadags. Jón var meinhægur maður, og átti ekki í fullu tré við óróamenn þá, sem óðu uppi í Eyjum um þessar mundir.
Jón sýslumaður skipaði Brynjólf Brynjólfsson sækjanda í máli Filippusar. Hann hafði um nokkurt skeið verið settur sýslumaður í Vestmannaeyjum, en þessi skipan mæltist illa fyrir, því misjafnt orð fór af Eyja-Brynka eða Smjör-Brynka, eins og hann var kallaður af alþýðu, sökum þess að hann stóð um tíma fyrir smjörkaupum eyjarskeggja frá meginlandi. Amtmaður ávítaði sýslumann fyrir skipan þessa, því að hann taldi, að ekki væri grunlaust, að Brynki hefði verið í vitorði um árásina á Filippus. Það voru þó ekki annað en kviksögur.
Jón byrjaði ekki rannsókn málsins fyrri en 10. marz. Í bréfi, sem hann skrifaði stiftamtmanni 15. apríl, skýrði hann frá því, að Filippus liggi enn fyrir dauðanum í sárum sínum. Munu veikindi Filippusar að einhverju leyti hafa valdið þessum langa drætti.
Jón sýslumaður kvaddi Ísleif Rafnkelsson fyrir sig, og játaði hann samstundis að hafa tekið þátt í árásinni og sagði nákvæmlega frá öllu, sem gerzt hafði þessa óheillanótt. Kvaðst hann hafa haldið Filippusi meðan Eyjólfur barði hann með pálinum, og lýsti að öðru leyti öllum atvikum. Í fyrstu þrætti Eyjólfur, vinnumaður Bjarna á Löndum, en viðurkenndi síðan, að þeir hefðu framið illvirkið eftir fyrirmælum húsbændanna. Þegar þeir höfðu slegið Filippus í rot, fóru þeir suður að Löndum, sem eru stuttan spöl frá Miðhúsum, og létu Bjarna vita, hversu þeim hefði orðið ágengt. Kom hann með þeim niður að Miðhúsum og tók hann til sín peningaskrín Filippusar og lykla hans og hafði á burt með sér upp að Löndum. Var þá Bjarni Björnsson sóttur upp að Vilborgarstöðum, sem eru stutta vegarlengd sunnan við Lönd, ef farið er beint af augum, þvert yfir túnvellina. Skiptu þeir nafnarnir með sér þýfinu, en eitthvað lítils háttar létu þeir renna til vinnumannanna.
Bjarni Sigvaldason kom nú fyrir dóm og játaði hann greiðlega þátt þann, sem hann hafði átt í ódæðisverki þessu. Einnig játaði hann, að hann hefði fyrr þennan sama vetur stolið kistli frá Filippusi. Var hann virtur á þrjú mörk.
Þegar Bjarni Björnsson kom fyrir dóminn, neitaði hann allri þátttöku og vitund um illvirkið. Sagði hann hina ljúga á sig sökum og aldrei var neitt lát á honum að finna, meðan á málinu stóð. Var hann enn staðfastur í neitun sinni, er mál hans kom fyrir Alþingi til endanlegs dóms.
Jón sýslumaður hafði þegar er hann hóf rannsókn málsins tekið þá Ísleif, Eyjólf og Bjarna Sigvaldason í gæzluvarðhald, en Bjarni Björnsson gekk laus þangað til í júlímánuði 1791, alllöngu eftir að dómur í héraði hafði verið kveðinn upp.
Jón Eiríksson kvað loks upp dóm í máli þessu 26. febrúar 1791. Hafði rannsókn málsins verið honum á ýmsan hátt andstæð og erfið, svo að hann hafði haustið 1790 farið þess á leit við stiftamtmann, að hann skipaði setudómara í málum, er rísa kynnu milli sín og eyjarskeggja vegna mótþróa þeirra við hann í embættisfærslu. Með bréfi, dags. 15. nóvember 1790, skipaði Meldal stiftamtmaður Svein Guðmundsson bónda í Þorlaugargerði, bróður séra Bjarnhéðins á Kirkjubæ, setudómara í þeim málum, sem vakin yrðu upp. Þó þurfti ekki að grípa til hans, enda var Jón sýslumaður meinlaus og ekki fylginn sér.
Dómsorðin voru á þá lund, að Bjarni Sigvaldason og Bjarni Björnsson, „höfuðmenn í morðingjaáhlaupi“ því, sem gjört var á Filippus Eyjólfsson, voru dæmdir til þess að þrælka ævilangt á Kaupmannahafnarrasphúsi, en Eyjólfur Eyjólfsson og Ísleifur Rafnkelsson til 4 ára erfiðisvinnu í fangahúsinu í Reykjavík.
Sakborningarnir skutu málinu til Alþingis og var það tekið fyrir þar sumarið 1791. Voru þeir allir fluttir á Þingvöll til þess að standa þar fyrir máli sínu. Um þær mundir tók Jón sýslumaður Bjarna Björnsson fyrst í gæzlu. Í bréfi til stiftamtmanns, frá 12. ágúst 1791, skýrði Jón sýslumaður frá því, að hann hefði í byrjun júlí neyðzt til þess að fangelsa Bjarna Björnsson, foringja ræningjaflokksins, sem ber hefði orðið að afbrotum á síðastliðnu ári. Taldi sýslumaður nauðsyn bera til að gera þetta, sökum þess að hann óttaðist um líf sitt fyrir Bjarna. Eyjólfur Eyjólfsson hafði skýrt frá því fyrir rétti, að Bjarni Björnsson og Bjarni Sigvaldason hefðu ráðgert að brenna sýslumann inni í Stakkagerði. Það virðist ærið undarlegt, að sýslumaður skyldi ekki setja Bjarna Björnsson í fangelsi, um leið og hinir sakborningarnir voru teknir í vörzlur hans. Sést ekki af málsskjölum, hvað þessu hefur valdið, nema neitun hans.
Eins og áður segir voru allir sakborningarnir fluttir á Þingvöll og teknir þar til yfirheyrslu á nýjan leik. Ekkert lát fannst enn þá á Bjarna Björnssyni.
Dómur Alþingis var kveðinn upp 13. júlí 1791. Héraðsdóminum var breytt verulega og varð dómsniðurstaðan sú, að Ísleifur og Eyjólfur voru dæmdir í 3 og 4 ára erfiðisvinnu í Kaupmannahöfn, Bjarni Sigvaldason í 4 ára erfiðisvinnu í fangelsinu í Reykjavík, en Bjarni Björnsson í 3 ára fangelsisvist í Reykjavík. Um sekt hans er komizt svo að orði í Alþingisdóminum, að hann sé „nær því yfirbevísaður um allar honum í héraðsprósessinum tillögðu sakargiftir.“ Þannig lauk þessari sök.
Filippus Eyjólfsson skólameistari hresstist við eftir áverka þá, er hann hafði hlotið, en hann dó síðar á þessu sama ári úr sóttveiki, 73 ára gamall.
Hinir dómfelldu voru allir fluttir í fangelsi, Bjarnarnir til Reykjavíkur, en hinir voru fluttir til Danmerkur, og er ekki vitað um afdrif þeirra.
Í sálnaregistri Reykjavíkur árið 1792 eru taldir upp íbúar tugthússins. Þá var Hendrich Scheel ráðsmaður, en tugtmeistari Jóhannes Zoëga. Meðal tugthúslima eru taldir Bjarni Sigvaldason og Bjarni Björnsson. Þar er þá einnig Arnes Pálsson útileguþjófur og Þuríður Högnadóttir, húskona frá Hólakoti í Reykjavík, sem dæmd hafði verið í fangelsi fyrir 4 frillulífisbrot. Hún átti eftir að verða eiginkona Bjarna Björnssonar. Alls voru 12 fangar í fangahúsinu um þessar mundir.
Árið 1793 var þeim Björnunum sleppt úr fangahúsinu. Bjarni Björnsson fór að Hólakoti til Þuríðar Högnadóttur, en Bjarni Sigvaldason að Hlíðarhúsum. Bjarnarnir voru báðir kvæntir menn, er þeir fóru í fangahúsið. En svo var orðið ástatt, þegar þeir voru látnir lausir, að konur beggja höfðu tekið fram hjá þeim og fallið í hórdóm, eins og sagt var. Ragnhildur Þorsteinsdóttir, kona Bjarna Sigvaldasonar, hafði árið 1792 eignazt tvíbura með Árna Hákonarsyni, bónda í Gerði. Bjarni krafðist skilnaðar við Ragnhildi og voru þau dæmd í sundur. En árið 1799 kvæntist Bjarni aftur Ingibjörgu, ekkju í Hlíðarhúsum, systur Jóns Magnússonar bónda þar. Áður höfðu þau búið saman í Skálholtskoti, en síðan áttu þau heima um langt skeið í Reykjavík. Að síðustu fluttu þau árið 1817, er þau voru orðin farlama af elli, til Magnúsar Magnússonar, sonar Ingibjargar, að Ey í Landeyjum, og þar munu þau hafa endað sitt æviskeið. Þar var þá einnig Rannveig, dóttir þeirra. Í manntalinu 1816 er Bjarni Sigvaldason talinn vera ættaður úr Vestmannaeyjum, en það er rangt.
Ingibjörg Hreiðarsdóttir, kona Bjarna Björnssonar, átti einnig barn árið 1792, er hann var í fangelsinu í Reykjavík. Faðir þess var Páll Guðmundsson bóndi á Kirkjubæ. Bjarni krafðist þess, að skilnaður þeirra væri gerður og var hjónaband þeirra dæmt ógilt fyrir lauslæti hennar, 16. júní 1798, með dómi að Nesi við Seltjörn. Sama árið sótti Ingibjörg um konungsleyfi til þess að giftast aftur, og lætur hún þess getið í umsókninni, að Bjarni hafi þá ekki enn þá komið aftur til Vestmannaeyja, þó hann hefði verið aðeins þrjú ár í fangelsinu. Bjarni hafði allan tímann verið í Hólakoti hjá Þuríði Högnadóttur, og verið fyrirvinna hennar. Og 14. maí 1799 kvæntist hann aftur og gekk þá að eiga Þuríði, lagskonu sína úr fangahúsinu. Í prestsþjónustubók Reykjavíkur bókar sóknarprestur giftinguna og kemst hann meðal annars svo að orði: „Nefndri Þuríði Högnadóttur, nú 34 ára, hefur landfógeti Finne sem sýslumaður með úrskurði 7. júní þ.á. leyfi gefið að giftast megi, að óuppátöluðum hennar mörgu legorðsbrotum frá verðslegri síðu.“
Þuríður, sem í sálnaregistri er nefnd ekkja, hafði eignazt að minnsta kosti 4 börn sitt með hverjum og eitt þeirra árið 1791, er hún var í fangahúsinu að afplána refsingu þá, sem henni hafði verið dæmd. Áður hafði hún verið í fangahúsinu fyrir sams konar brot.
Svaramenn þeirra hjóna voru Þorleifur Hítdal og Teitur Sveinsson, fabríkuforstandari, kunnur listamaður.
Samkvæmt manntali 1797 voru þau Þuríður og Bjarni í Hólakoti, og voru þar ekki aðrir heimilismenn, nema þau og þrjú börn hennar: Jóhanna Jónsdóttir, 8 ára, Jón Jónsson, 7 ára, og Jónas Einarsson, ¼ árs, sem var sonur Einars Þorvaldssonar skósmiðs í Reykjavík.
Árið 1800 fluttu þau Bjarni og Þuríður til Vestmannaeyja og settust að á Kornhól, í skjóli faktors Garðsverzlunar. Bjarni gerðist nú assistent eða verzlunarmaður í Danska-garðinum við verzlun þeirra Svane og Westy Petræusar. Verzlunarstjóri fyrir henni var Jens Klog, „heiðarlegur sonur Hans Klogs kaupmanns í Kornhólmsskanzi.“ Jens var mikill drykkjumaður og flutti skömmu síðar til Reykjavíkur og dó þar í vesöld og óreglu.
Bjarni og Þuríður eignuðust aðeins eitt barn saman og dó það 1801, á fyrsta ári, úr ginklofa. Þuríði varð ekki langra lífdaga auðið. Hún andaðist 12. september 1801, aðeins 36 ára.
Um þessar mundir fékk Bjarni byggingu fyrir Miðhúsum og settist þar að. Kom þá í vist til hans Halldóra Pétursdóttir og eignuðust þau barn saman árið 1805, Þuríði. En ári síðar kvæntist hann Halldóru. Var hún þá 35 ára gömul og hafði eignazt tvö börn. Svaramenn þeirra voru Jón Þorleifsson sýslumaður og Guðmundur Jónsson eldri, hreppstjóri á Vilborgarstöðum. Má af því sjá, að tekið hefur verið að fyrnast yfir afbrot Bjarna, enda virðist hann hafa verið dugnaðarmaður og margt til lista lagt. Og vafalaust hefur hann brotið í blað og bætt ráð sitt.
Bjarni ól upp þrjú stjúpbörn sín, börn Þuríðar sálugu Högnadóttur, og varð eitt þeirra, Jónas, vel að manni. Honum kenndi Bjarni trésmíði og sigldi hann til náms til Danmerkur til frekara náms í iðn sinni. Þá mun hann hafa tekið sér ættarnafnið Vestmann. Eftir að Jónas kom aftur til Eyja, lagði hann fyrir sig smíðar, en stundaði jafnframt búskap og sjómennsku. Hann tók í ábúð Vesturhúsin og kvæntist um þær mundir Ingibjörgu Jakobsdóttur, ekkju séra Snæbjörns Benediktssonar* á Ofanleiti. Jónas var formaður með áttæringinn Þurfaling og fórst með honum á Leiðinni 5. marz 1834. Jónas var góður sundmaður. Fannst hann í flæðarmálinu undir Löngu og var haldið, að hann hefði synt þangað, en örmagnazt.
Bjarna hefur verið umhugað um Jónas, stjúpson sinn. Þegar Bjarni kvæntist í þriðja sinn, Halldóru Pétursdóttur, árið 1806, áskildi hann Jónasi fjórðungsgjöf úr eignum sínum, eftir sig látinn.
Bjarni Björnsson átti fjölda barna með þremur konum sínum, sem flest dóu ungbörn af völdum ginklofans, hins skæða barnamorðingja, sem landlægur var í Vestmannaeyjum svo öldum skipti. Þrjár dætur Bjarna og Halldóru komust á legg, en dóu ungfullorðnar, ein þeirra úr holdsveiki. Engir afkomendur Bjarna munu vera á lífi.
Auk starfa sinna við Garðsverzlun stundaði Bjarni landbúnað, eftir að hann fékk ábúð á Miðhúsum, og einnig sótti hann sjó á vertíðum. Bjarni virðist hafa unnið hylli sýslumanna. Hann var iðulega réttarvottur hjá þeim, þegar þing voru háð og árið 1815 er hann orðinn hreppstjóri. Þá skrifar hann upp dánarbú Arnþórs Guðmundssonar stúdents, sem drukknaði um þær mundir, ásamt Jóni Þorleifssyni sýslumanni og fleiri mönnum. Fórust þeir í fiskiróðri.
Bjarni hefur verið batnandi maður, enda naut hann mannhylli síðari hluta ævi sinnar. Hann dó 27. nóvember 1827, þá talinn 73 ára gamall.
* Leiðr.: Sr. Snæbjörn var Björnsson, - (Heimaslóð).