Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Maddama Roed og jarðarför hennar

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Maddamma Roed og jarðarför hennar.


Árið 1833 tók danskur maður, Kemp að nafni, við verzlunarstjórn í Godthaab í Vestmannaeyjum. Kom hann þá frá Kaupmannahöfn, ásamt konu sinni. Með þeim var fósturdóttir þeirra, Ane Johanne Grüner, og var hún þá rúmlega tvítug að aldri. Var hún af góðum ættum í Holtsetalandi og var hinn frægi, þýzki flotaforingi Adalbert von Grüner sömu ættar.
Árið 1836 eignaðist Ane Johanne dóttur með Rasmussen skipstjóra á vöruflutningaskipi Godthaabverzlunar. Var hún skírð Jóhanna Carolina og varð síðar kona Jóhanns Péturs Benedikts Bjarnasen verzlunarstjóra í Garðinum (d. 1869), en seinni maður hennar var Jes Nicolai Thomsen, verzlunarstjóri í Godthaab. Ekki varð af því, að þau Ane Johanne og Rasmussen skipstjóri gengi í hjónaband, og hafði Kemp þó verið ánægður með þann ráðahag. — Rasmussen hafði verið óvenjulega glæsilegur maður, en hann lét aldrei aftur sjá sig í Vestmannaeyjum.
Ane Johanne giftist Morten Ericksen skipstjóra. — Hann drukknaði í hákarlaferð á jagt sinni annan hvítasunnudag árið 1847 með fimm hásetum sínum. Eignuðust þau tvö börn, Jóhönnu, sem dó ung, og Friðrik, er drukknaði með fleira fólki við Landeyjasand 1. október 1850.
Eftir dauða manns síns stundaði hún veitingar, og átti heima í FrydendalVertshúsinu), en þar höfðu þau hjón búið síðan árið 1839. Fékkst hún mikið við garðrækt, og var með vissu höfuðbrautryðjandi á því sviði í Vestmanneyjum.
Hún giftist aftur C.V. Roed beyki, en áður höfðu þau búið saman fjölda mörg ár í „hneykslanlegri sambúð“, eins og það var kallað. Prestur og sýslumaður höfðu átt í hinu mesta stríði við þau um margra ára skeið, að koma þeim í hjónaband, og giftust þau loks 2. nóvember 1866, eftir að þeim hafði verið birtur amtmannsúrskurður um það, að þeim skyldi stíað sundur, og höfðu þau þá búið saman í 14 ár, og jafnan samrekkt, að því er þau játuðu sjálf.
Ane Johanne eða Madama Roed, eins og hún var venjulega kölluð, andaðist 23. nóvember 1878, 68 ára að aldri, og var hún jörðuð 30. nóvember. Við jarðarför hennar voru þessir líkmenn: Hannes Jónsson á Miðhúsum, Bjarni Ólafsson í Svaðkoti, Árni Einarsson á Vilborgarstöðum, Árni Diðriksson í Stakkagerði, Lárus Jónsson á Búastöðum, Jón Vigfússon í Túni, Ólafur Einarsson í Koti og auk þess einn maður enn, ónafngreindur, eða átta alls.
Eins og venja var, fóru líkmennirnir upp í Landakirkjugarð í bítið um morguninn, sem jarða átti, til þess að taka gröfina. Var maddömmu Roed ætlað leg í suðvestanverðum gamla kirkjugarðinum, við hliðina á leiði dóttur hennar, sem þá var dáin fyrir allmörgum árum. Gekk þeim líkmönnunum mjög erfiðlega að taka gröfina, og hafði ekki allt verið með felldu. Þeir luku verkinu ekki fyrri en nokkru eftir miðdegi og var þá skammt eftir, þangað til húskveðjan ætti að hefjast. Höfðu þeir tæplega tíma til fataskipta, en svo var uggurinn mikill í þeim, að ekki þorðu þeir að láta Bjarna í Svaðkoti fara einan upp fyrir Hraun, þótt enn væri dagur á lofti, heldur fylgdu honum allir og biðu hans, meðan hann skipti um föt. Sagði Ragnheiður kona hans síðar, að hann hefði verið óvenjulega æstur, svo að sýnilegt var á honum, að eitthvað sögulegt hafði komið fyrir við grafartökuna. Enginn líkamannanna fékkst þó til þess að segja frá því, sem við hafði borið, og var því almennt um kennt, að þeir hefði bundist svardögum um að segja aldrei frá því, hvað sem við lægi. Heyrst hefur þó, að orðið hafi fyrir þeim afturganga, strax og þeir höfðu stungið svörðinn af, því áður hafði verið jarðað á sama stað. Vildu þá sumir líkmannanna hætta við að grafa gröfina þarna, en Bjarni í Svaðkoti og Árni Diðriksson vildu ekki fallast á það, og réðu þeir. Kvaðst Bjarni mundi moka moldinni upp úr gröfinni, því ekkert kæmist að sér, hvorki að framan né aftan. Segir sagan, að þeir líkmennirnir hafi orðið að takast á við afturgönguna, svo þeir fengi lokið greftrinum.
Þegar þeir höfðu borið líkið í kirkju, fóru þeir austur í kirkjugarð, eins og gjörðist, til þess að huga að því, hvort allt væri með ummerkjum við gröfina. En þeim þótti aðkoman slæm. Var gröfin öll hrunin og full af mold. Kenndu þeir afturgöngunni um það. Grófu þeir síðan gröfina aftur, og var komið myrkur, er þeir höfðu lokið því, enda var þetta í svartasta skammdeginu. Á meðan þessu fór fram, en til þess gekk alllangur tími, beið prestur og öll líkfylgdin í kirkjunni. Fór jarðarförin eftir þetta skaplega fram, en það sögðu þeir, sem við voru og sáu gröfina, að ekkert grafarlag hefði verið á henni. Var gengið inn í hana með kistuna og var þar allt út traðkað, eins og eftir hörðustu sviptingar og áflog. Ekki vita menn nánar hvað við bar, því aldrei fengust líkmennirnir til þess að segja frá viðureign þeirra við afturgönguna. Það er þó haft eftir Ólafi Einarssyni í Koti, að hann mundi ekki verða líkmaður C.V. Roed, dæi hann á undan sér, hvað, sem væri í boði, ef hann yrði jarðaður í nánd við legstað konu hans. Hannes Jónsson, sem einn er nú lifandi af líkmönnunum, nær hálfníræður að aldri, segir að ekkert óvenjulegt hafi skeð við grafartektina. Þeir hafi komið niður á tvær grafir, og hafi bakkarnir þess vegna sífellt hrunið, svo að langan tíma hafi tekið að grafa. Trúlegt er, að hann hafi rétt fyrir sér, en þó er ekki fyrir það takandi, að hann muni enn hina fornu svardaga þeirra félaga, enda þótt langt sé um liðið.
(Skrásett 5. apríl 1937 eftir sögnum Guðríðar Bjarnadóttur, Ólafs Sigurðssonar, Strönd, Hannesar Jónssonar og skriflegum heimildum)