Ritverk Árna Árnasonar/Viðtal Árna Árnasonar við Jón í Brautarholti, tekið 1953

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Viðtal Árna Árnasonar
við Jón í Brautarholti tekið 1953


Samtal það, sem hér verður skráð var tekið á vegum Vestmannaeyingafélagsins Heimakletts fyrir 30 árum og þá flutt í útvarp.
Jón í Brautarholti lifði langa og viðburðarríka ævi. Hann fór ungur að stunda sjó, var m.a. 13 vertíðir skipverji á Gideon hjá Hannesi á Miðhúsum.
Jón og Guðríður Bjarnadóttir kona hans fluttu til Kanada nokkru fyrir aldamót (1900). Þar reistu þau sér hús á bökkum Rauðár í Selkirk. Þar vann Jón í sögunarmyllu. Þau fluttu heim 1907. Eignaðist Jón nú hluti í vélbátum og sótti sjó til 1914. Þá réðst Jón til starfa við byggingu fiskimjölsverksmiðju G. J. Johnsens og vann hjá því fyrirtæki til 1933. Þá tók Jón við starfi ráðsmanns Sjúkrahúss Vestmannaeyja og gegndi því mörg ár. Jón andaðist 4. september 1962.
Jón og Guðríður í Brautarholti eignuðust fimm börn. Tvö dóu ung, Jóna Jóhanna og Bjarni. Þau, er til aldurs komust eru: Ragnheiður, ekkja Sigurðar Ólasonar forstjóra, fædd í Kanada, kom til Eyja með foreldrum sínum 2ja ára, Ólafur fyrrverandi vélstjóri, kvæntur Sigrúnu Lúðvíksdóttur og Jóna, ekkja Kristins Ólafssonar, fyrrverandi bæjarfógeta og bæjarstjóra.

————

Fer nú hér á eftir samtal þeirra Árna og Jóns.
Árni: Okkur langaði að spjalla dálítið við þig og taka það upp á segulbandið. Helst langaði okkur að heyra eitthvað frá uppvaxtarárum þínum. Hvað ertu annars orðinn gamall og hvar ertu fæddur?
Jón: Ég er 84 ára gamall, fæddur 15. júlí 1869 í Norðurbænum á Vilborgarstöðum, en fluttist að Dölum árið 1880 með foreldrum mínum.
Árni: Hverjir voru foreldrar þínir?
Jón: Foreldrar mínir voru Jón hreppstjóri Jónsson, dáinn 1916, og kona hans Jóhanna Gunnsteinsdóttir, dáin 1922. Þau voru bæði Skaftfellingar en fluttu til Vestmannaeyja í febrúar 1869, vikuna eftir Útileguna miklu, sem allir hafa heyrt talað um.
Árni: Viltu segja okkur eitthvað frá uppvaxtarárum þínum í Dölum?
Jón: Þegar við fluttumst að Dölum var aðeins ein einsetukona í því húsi, sem faðir minn flutti í. Konan var kölluð Stutta Ránka, því smávaxin var hún. Öll hús voru niðurfallin og þurfti faðir minn að byggja þau öll upp til þess að komast þar inn. Annars byggði hann þrisvar upp húsin í Dölum í sinni búskapartíð þar. Í Dölum hafði áður verið þríbýli, en í tíð föður míns varð þar einbýli og ávallt upp frá því.
Árni: Hve stór var jörðin?
Jón: Þar voru á fóðrum 2 kýr, 2 hross, 24 ær og 10 til 20 lömb í heimahögum, en í Álsey, sem er leigumáli frá jörðinni, voru 25 kindur auk tveggja köllunarsauða, sem faðir minn hafði sem þóknun fyrir að vera umsjónarmaður eyjarinnar fyrir sameignarmenn sína. Af túninu fengust 80 til 120 hestar af töðu. Grjótgarðurinn kringum Dalahúsið var alls 300 faðmar.
Árni: Já, einmitt — jörðin var með stærstu jörðum Eyjunnar í þann tíð. En hafði ekki Dalajörðin útræði úr Víkinni eða Klaufinni eins og aðrar Ofanbyggjarajarðir fyrir ofan Hraun?
Jón: Jú, það var útræði frá Dölum. Ég var ekki nema 12 ára, þegar ég fór að róa þar með föður mínum og tveim mönnum öðrum á fjögramannafari, sem hét Dalbjörg.
Árni: Var róið oft þarna suðurfrá frá ykkur? Ég á við daglega eða svo?
Jón: Já, það var róið á hverjum degi, þegar sjóveður gaf, nema yfir vetrarvertíðina, en þá var róið niður í Sandi, og svo yfir fuglaveiðitímann, en þá voru allir við fuglaveiðina og enginn mátti vera að róa þá.
Árni: Voru nokkur fiskihús þarna suðurfrá?
Jón: Nei, ekki var það nú, og urðum við því að bera fiskinn þaðan og heim á bakinu og var það nokkuð erfitt verk og seinlegt.
Árni: Hvers vegna voru ekki hrossin notuð til þeirra flutninga?
Jón: Hrossin var forðast að nota eftir höfuðdag, vegna þess að þau urðu að ganga sjálfala úti yfir veturinn og þoldu því lítið brúkun, en stöku sinnum tókum við krakkarnir hross í óleyfi, því að oft voru þau þarna nálægt okkur til freistingar.
Árni: Hvernig var með aðgerð á fiskinum?
Jón: Að fiskinum var gert heima á túninu í Dölum. Það var gert til þess að fá slorið og hryggina til áburðar á túnið, en ekki létti það okkur burðinn sunnan frá og heim.
Árni: Svo þið hafið þá saltað fiskinn heima í Dölum?
Jón: Nei, fisk, sem átti að selja urðum við svo að bera í pokum niður í þorpið og salta hann þar í fiskikróna okkar niður í Sandi.
Árni: Þetta hefur verið vont verk og erfitt hjá ykkur unglingunum eins og fleira í þá daga. Þið hafið þó getað hvílt ykkur á leiðunum?
Jón: Það gat varast heitið, því aðstæður urðu að vera þannig að hægt væri að koma byrðinni á sig aftur með þægilegu móti. Allsstaðar voru vegleysur, aðeins troðningar, bæði suðureftir og svo niður í þorpið frá Dölum. Ekki hvíldi maður sig nema tvisvar sunnan frá Víkinni og heim að Dölum með þungar byrðar. Var borið frá uppsátrinu í Víkinni norður yfir Aurinn, þaðan að Ömpustekkjum og svo þaðan heim.
Árni: Hvað var nú þessi byrði á að giska þung?
Jón: Við bárum 4 þorska með haus og hala og innvolsi eða álíka þyngd af smærri fiski. Á leiðinni niður í Sand hvíldum við okkur á Hvílurofi, sem var miðsvæðis milli kirkjugarðsins og Dala, svo á kirkjugarðaveggnum og síðast í túngarðinum í Stakkagerði, en þaðan var svo borið niður í Kró.
Árni: Já, þið hafið víst oft verið þreyttir unglingarnir og unnið mikið?
Jón: Ójá, við vorum oft þreyttir, en okkur var ekkert vorkennt að vinna í þá daga, allir urðu að gera eins og þeir frekast gátu í baráttunni fyrir lífinu.
Árni: Já, lífsskilyrðin voru erfið þá, eilíft strit og stríð. Þú sagðir áðan Jón, að Dalir hefðu átt leigumála í Álsey. Var þá ekki sá leigumáli nytjaður á fyllsta hátt og fórst þú ekki snemma til fugla?
Jón: Jú, leigumálinn var nytjaður út í ystu æsar, enda kom þaðan mikill fugl, fýll, lundi og svartfugl auk eggja og var það mikið búsílag. Ég fór fyrst 12 ára gamall þangað eða fyrsta sumarið, sem við vorum í Dölum. Það var draumur allra ungra manna að fara í úteyjar til fugla. Það var ævintýralíf, sem allir þráðu.
Árni: Hvernig var úteyjalífið þá, svona yfirleitt?
Jón: Það var í engu líkt því, sem nú er orðið. Þá voru engir kofar til að búa í, heldur var legið við í tjöldum eða hellisskútum og við móbríkur, sem hlaðið var að, og var það kallað viðleguból.
Árni: Var ekki slæmt að búa í tjöldum í úteyjum?
Jón: Jú, það var stundum afleitt. Viðlegubólin voru mikið betri. Tjöldin vildu fjúka ofan af manni, enda þótt að þeim væri hlaðið með torfukökkum svo hátt sem hægt var. Þá var sofið við teppi og brekán, í einni flatsæng með matardallinn við höfðalagið, því þá var vitanlega skrínukostur. — Í bleytu var þetta slæmt, því þá öslaði hver yfir annars bæli og allt var blautt og stundum ekki sem hreinlegast að vonum. Kaffið var hitað í hlóðarbyrgi svo litlu, að maður gat naumast rennt sér á rönd og hálfboginn inn með hlóðunum. Oft var erfitt að hita vegna bleytu og storma og stundum alls ekki hægt, og var maður þá kaffilaus. Olíuvélar voru þá vitanlega engar til hér í Eyjum og komu ekki fyrr en um aldamót.
Árni: En hvernig var svo mataræðið hjá ykkur á þessum tíma?
Jón: Allur matur var sendur út í eyjuna með bátnum, sem sótti fuglinn til okkar tvisvar í viku, ef færi gafst. Maturinn var aðallega skrínukostur, brauð, flatkökur, harðir hausar og fiskur og svo fugl eftir fyrstu heimsendingu fugls úr eynni. Viðbitið var bræðingur, fýlafeitis- eða þorskalýsisbræðingur. Einstaka menn frá ríkustu heimilunum fengu smá kjötbita með sér og sárafáir smjör til viðbits. Heima hjá mér var ágætt fæði, og fékk ég kjötbita með mér.
Árni: Elduðuð þið aldrei sjálfir þarna úti?
Jón: Jú, það kom fyrir að elduð var pysja, og voru það dýrðardagar. Og svo eftir að Gísli Lárusson fór að vera í Álsey var hafður þar lítill bátur, sem dreginn var upp í flána og höfðum við þá stundum nýjan fisk. Annars var oft erfitt um mat, sérstaklega þegar teppur komu fyrir 2 til 3 daga í röð.
Árni: Já, mataræðið hefur verið öðruvísi en nú tíðkast, því að nú eru steikur og fínustu réttir á borðum og sameiginlegt mötuneyti.
Jón: Já, það má nú segja, enda fannst mér það árið 1949, er ég hélt 80 ára afmæli mitt í Álsey og var þar nokkra daga í konunglegu yfirlæti, að skoða fornar stöðvar.
Árni: Þú fannst þar einu sinni ágætan veiðistað, var það ekki?
Jón: Jú, ég fann þar veiðistað, sem notaður er enn og þykir góður og er nefndur eftir mér og heitir Jónsnef og er við norðurbrún eyjarinnar.
Árni: Já, ég þekki þetta veiðinef þitt vel og er það prýðis góður veiðistaður. En segðu mér, hverjir eru bestu veiðimenn og fjallagarpar, sem þú hefur verið með í Álsey?
Jón: Þeir eru nú margir en bestir Gísli Lárusson, Stakkagerði, Friðrik Gíslason, Jónshúsi, Árni Árnason, Grund, Jón Pétursson, Þorlaugargerði, Magnús Eiríksson, Vesturhúsum og fleiri.
Árni: Fórstu mikið utan í björgin, þegar þú varst til fugla?
Jón: Nei, ég var lofthræddur. Ég var kinsaður á því að fara í fjöll, þegar ég var lítill. Karlarnir gáfu mér í sjóinn og létu mann stundum detta 2 til 3 faðma í bandinu í sjó niður. Slíkt athæfi karlanna dró úr manni allan kjark. En ég var undirsetumaður við sigaferðir og þótti góður sem slíkur.
Árni: Jæja, Jón — þetta hefur verið skemmtilegt spjall og fróðlegt og þakka ég þér kærlega fyrir góð svör við mínum spurningum.
Viðtal þetta var birt í EYJASKINNU, 2. riti 1983.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit