Ritverk Árna Árnasonar/Um búskap í Dölum 1880-1905
Til Vestmannaeyja flutti vikuna eftir útileguna miklu, sem var í febrúar 1869, Jón Jónsson, síðar hreppstjóri, f. 1844, d. 1916, og kona hans Jóhanna Gunnsteinsdóttir, f. 28. mars 1839, d. 1. ágúst 1923. Þau voru bæði Skaftfellingar að ætt og giftust 29. okt. 1869 í Eyjum.
Jón Jónsson settist að á Vilborgarstöðum, Norðurbænum, og þar fæddist sonur þeirra Jón er síðar bjó í Brautarholti, f. 15. júlí 1869, kvæntur Guðríði Bjarnadóttur frá Svaðkoti.
Árið 1880 flutti Jón eldri að Dölum, ásamt fjölskyldu sinni, og bjó þar eftir það, meðan hann sinnti búskap, en það mun hafa verið til 1904-05. Þá fluttist hann í þorpið, en við jörðinni tók Jón Gunnsteinsson, bróðir Jóhönnu, sem hingað flutti 1904 frá Vík í Mýrdal.
Þegar Jón Jónsson flutti að Dölum, bjó aðeins ein einsetukona í húsi því, sem Jón flutti inn í. Kona sú var kölluð ,,stutta Ranka“, því að smávaxin var hún.
Öll hús voru niðurfallin og þurfti Jón að byggja þau upp til þess að komast þar inn, en í búskapartíð sinni byggði Jón húsin þrisvar sinnum upp.
Jón Jónsson bætti mikið og stækkaði túnin í Dölum. Grjótgarður var hlaðinn kringum túnin og landeign jarðarinnar þar, og var hann alls 300 faðma langur, tvíhlaðinn. Túnin voru talin að stærð ... dagsláttur. Þar voru á fóðrum 2 kýr, 2 hross, 24 ær, 10-20 lömb, en í Álsey, sem er leigumáli jarðarinnar, voru 25 kindur, auk tveggja svonefndra köllunarsauða. Jón hafði hagagöngu fyrir þá, sem þóknun fyrir það að vera umsjónarmaður eyjarinnar fyrir sameignarmenn sína.
Aðrir, sem leigumála áttu í Álsey, voru jarðirnar Stakkagerðin, 2 jarðir eða völlur svonefndur, Ólafshús, ein jörð, Nýibær, ein jörð, Vesturhúsin, 2 jarðir, og svo Dalir, 2 jarðir eða völlur.
Af túninu í Dölum fengust 80 til 120 hestburðir af töðu, enda var hún ein af stærstu jörðum Eyjanna.
Dalir höfðu útræði úr Víkinni suður, og eignaðist Jón bóndi fljótt fjögramannafar til útræðis þar syðra.
Bátur þessi nefndist ,,Dalbjörg” og var góður bátur. Róið var úr Víkinni ávallt, þegar á sjó gaf. Réri Jón ásamt tveim mönnum á bátnum fyrst, en þegar Jón sonur hans var 12 ára, byrjaði hann að róa með föður sínum á Dalbjörgu, svo að þeir urðu fjórir alla róðra. Áður hafði fjórði maðurinn verið með annað kastið, en enginn fastur. Yfir vetrarvertíðina var ekki róið syðra, - þá var róið ,,niður í Sandi“ þ.e. í Þorpinu. Yfir fuglaveiðitímann var heldur ekki róið úr Víkinni. Þá voru allir við fuglaveiðar, svo að enginn tími var til þess að stunda sjóinn, þ.e.a.s. ekki þeir, sem fuglaveiðar stunduðu, en það var allur fjöldi manna.
Engar fiskikrær voru suður í Vík, svo að allan fisk varð að bera heim úr hverjum róðri, bera hann á bakinu, sem var bæði erfitt og mjög seinlegt.
Ekki mátti reiða fiskinn heim á hestum eftir höfuðdag. Þeir urðu að vera í góðum holdum undir veturinn, því að þá gengu þeir úti, að mestu sjálfala. Þeir þoldu því litla brúkun, enda var þess vel gætt að megra þá ekki undir veturinn. Stöku sinnum tóku krakkarnir hesta í bessaleyfi, því að oft voru þeir þarna suðurfrá til freistingar þreyttum krökkum, sem báru þungar byrðar á bakinu. Er fullvel skiljanlegt, að krakkarnir stóðust ekki þessa freistingu og létu byrði sína á einhvern hestinn part af leiðinni. En góða gát urðu þau að hafa á mannaferðum. Ef ekki, gat farið illa, því að slík hestabessaleyfi voru illa séð og gátu kostað allþunga refsingu. Já, það var betra að fara varlega!
Þegar afli dagsins hafði verið borinn sunnan úr Vík og heim að Dölum, var gert að honum á túninu. Það var gert til þess að fá slógið og hryggina til áburðar á túnið. Síðar, er hryggirnir voru orðnir þurrir, voru þeir notaðir til eldiviðar.
Það gefur að skilja, að erfitt hefir verið að bera fiskinn með öllu slóginu sunnan úr Vík. Vegir voru engir, aðeins fjárgötur og hestaslóðir. Aðstæður til þess að geta lagt af sér byrðina og hvílt sig, urðu að vera þannig, að hægt væri að koma á sig byrðinni aftur. Þegar borið var sunnan úr Vík, var borið í einum áfanga frá lendingarstað í Víkinni, norður yfir ,,Aurinn”. Þar var hægt að hvíla sig. Þaðan var borið að Ömpustekkjum og svo í einum áfanga heim á Dalatún. Bornir voru 4 þorskar í einu eða sem þeim þunga samsvaraði í smærri fiski.
En þótt fiskurinn væri kominn heim á tún, þurfti að koma honum niður í Sand, þ.e. niður í Þorpið. Þurfti því enn að setja hann í poka, leggja á bakið, bera hann niður eftir og þræða gamla troðninga, því að engir vegir voru frá Dölum niður í Sand, utan vegurinn, sem aðeins náði upp að Landakirkju úr þorpinu. Hægt var að hvíla sig miðsvæðis milli Dala og Kirkjugarðsins. Það var í svonefndu ,,Hvílurofi“, þar næst á kirkjugarðsveggnum, en þaðan var borið á túngarðinn í Stakkagerði og svo í einum afanga niður í fiskikróna, sem Jón bóndi átti niður í Sandi. Þennan fiskburð önnuðust unglingar jafnt, a.m.k., jafnvel fremur en vinnumennirnir, sem höfðu ærinn starfa annan heimavið. Unglingar voru látnir vinna mikið og ekkert vorkennt, þótt erfitt væri. Þeir voru líka oft mjög þreyttir eftir dagsins önn að kvöldi.
Aðal leigumáli jarðarinnar, þ.e. Álsey, var nytjaður út í ystu æsar. Þaðan kom mikill fugl, fýll, lundi og svartfugl, auk eggja, sem var meir en lítið búsílag. Svo voru, sem áður segir, alls 27 kindur þar í högum, sem Jón bóndi átti.
Jón yngri fór fyrst til fuglaveiða í Álsey 1882 eða 12 ára gamall, varð 13 ára á miðjum lundatíma, þ.e. 15. júlí 1882. Hann var að sjálfsögðu mikið til óvanur fuglaveiðum, en hafði þó stundað það lítilsháttar á Heimalandi, og alóvanur fuglaveiðum eins og þær tíðkuðust í Úteyjum, þar sem allt var í stærri stíl, bjargsig o.fl. En Jón var frá jörð föður síns, og það réði úrslitum um dvalarleyfi þar. Draumur Jóns hafði ræst. Hann var kominn í útey, en það var ævintýralíf, sem allir þráðu. Það var engu líkara en dvöl unglinga í útey væri hámark draumsjóna þeirra.
Þó var úteyjalífið í þann tíma mjög frumstætt, hvað allan aðbúnað snerti, t.d. mataræði, viðlegupláss, veiðitæki og önnur þægindi. Það var í engu líkt og nú til dags, (hvað þessi atriði og fleiri snertir). Kofar til viðlegu voru engir, heldur legið við í tjöldum, fjárbólum, hellisskútum og við móbríkur. Var hlaðið og gert yfir þessi viðleguból, og þóttu þau jafn vel betri til íveru en tjöld, a.m.k. reyndist svo í regni og stormi. Þá voru tjöldin afleit. Þau vildu fjúka ofan af mönnum, þótt vel væri að þeim hlaðið eða allt varð rennandi blautt og illa verkað. Var þó oft hlaðið hátt upp með tjaldinu að veggjum og göflum og vel stagað niður.
Ekki var miklum sængurfatnaði til að dreifa. Var sofið við brekán og teppi í einni allsherjar flatsæng.
Matarkassinn, skrínan, var við höfðalagið. Þá var einvörðungu skrínukostur í úteyjum og samanstóð hann af flatkökum, brauði, harðfiski og þá oftast hertum þorskhausum, og svo fugli, reyktum og söltuðum. Nýjan fugl fengu menn að heiman eftir fyrstu heimsendingu fuglsins úr eynni. Viðbit var helst bræðingur úr fýlafeiti eða þorskalýsi. Einstaka menn, og þá auðvitað aðeins frá ríkustu heimilunum, fengu smávegis kjöt og smjörklípu. Jón yngri í Dölum fékk sent kjöt og smjörögn eða fór með það í fyrstu ferðinni. En svo var það heldur ekki meira að öllu jöfnu. Þó var ágætt fæði í Dölum, kjöt og smjör, en þar, sem annarsstaðar, var ekki bruðlað með þá fæðu. Það var of dýrmæt vara. (Sögn Jóns yngra).
Í þennan tíma kom fyrir að eldað var í útey, t.d. svartfugl og ritupysja. Það voru dýðardagar. Eftir að Gísli Lárusson fór að hafa lítinn bát í Álsey, sem dreginn var upp bergflána, þá var stöku sinnum nýr fiskur eldaður úti í eyjunni. Var slík fæða mikið hnossgæti og sparaði ekki svo lítið skrínukostinn. Það var líka hvíld frá því einhliða fæði, sem fólst í honum. Oft var erfitt um mat í úteyjum, sérstaklega, þegar teppur fyrir komu vegna óveðra. En allt blessaðist þetta þareð menn voru nægjusamir.
Ég hef farið hér inn á óskylt efni við Dalabúið, en mér fannst það þó ekki óviðeigandi, þar sem jörðin átti leigumála í Álsey og afkoma heimilisins var mikið komin undir því, að vel aflaðist þar af fugli og eggjum.
Dalir voru allstór jörð, sem áður getur. Dalir voru að fornu mati talinn völlur eða 4 kýrfóður, og enn talinn völlur. Var þar oft tvíbýli og meira, t.d. 1837 var þar fjórbýli. Þá bjuggu þar:
- 1. Margrét Guðmundsdóttir, ekkja með 5 börn,
- 2. Einar Jónsson, kona hans og 3 börn,
- 3. Oddur Jónsson og kona hans Guðríður Jónsdóttir, 4 í heimili,
- 4. Fides Pétursdóttir og Ólafur Jónsson, 2 í heimili.
Í Dölum bjó fyrsti sýslumaður eyjanna, sem búsettur var hér. Það var Ólafur Árnason 1696-1722.
Árið 1890 bjó í Dölum Bjarni Bjarnason og kona hans Margrét Guðmundsdóttir, en þau voru foreldrar Guðríðar í Sjólyst, er gift var Guðjóni sýslunefndarmanni Jónssyni. Hann drukknaði 1896 á höfninni ytri. Fleiri voru börn Bjarna og Margrétar:
- 1. Einar Bjarnason, kvæntur Steinvöru Lárusdóttur frá Búastöðum. Þau fóru til Ameríku 1891 og komu aldrei meir til Íslands.
- 2. Guðrún, fór til Danmerkur.
- 1. Einar Bjarnason, kvæntur Steinvöru Lárusdóttur frá Búastöðum. Þau fóru til Ameríku 1891 og komu aldrei meir til Íslands.
Þau Bjarni og Margrét skildu samvistir. Fór hann þá að Útgarði á Landi og drukknaði í Þjórsá 1890, en Margrét lést hér háöldruð.
Í Dölum bjó um eitt skeið Guðni Guðnason. Kona hans var Vilborg Guðmundsdóttir. Dætur þeirra voru Guðný, sem lengst var á Búastöðum („Gunnsa á Búastöðum“) og Jónína í Haga, móðir Guðfinns þar Þórðarsonar, - hrapaði í Dalfjalli 25. ág. 1897, Hjaltasonar. Að sjálfsögðu hafa margir fleiri búið í Dölum, en þessa fólks minnist margur, ýmist af persónulegum kynnum, t.d. þeirra Hagasystra, Guðnýjar og Jónínu, hjónanna í Sjólyst o.m.fl.