Guðni Guðnason (Dölum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðni Guðnason bóndi í Norðurgarði og Dölum fæddist 24. apríl 1828 í Reynisholti í Mýrdal og lést 27. mars 1875.
Faðir hans var Guðni bóndi og vinnumaður víða, síðast bóndi í Reynisholti í Mýrdal, f. 1788 á Syðri-Steinsmýri í Meðallandi, d. fyrir 1842, Guðbrandsson bónda víða, en síðast á Söndum í Meðallandi, f. 1753, d. 7. febrúar 1798 á Söndum, Ólafssonar bónda víða, en flúði í Eldinum frá Refsstöðum í Landbroti, f. 1717, d. 1784 í Skálmarbæ í Álftaveri, Þórðarsonar, og fyrri konu Ólafs, Guðrúnar húsfreyju, f. 1716, d. eftir 1762, Vigfúsdóttur.
Móðir Guðna í Reynisholti og kona Guðbrands á Söndum var Ragnhildur húsfreyja, f. 1746 í Skálmarbæ í Álftaveri, Hjörleifsdóttir bónda þar, f. 1721, d. 26. nóvember 1787, Jónssonar, og konu Hjörleifs, Sesselju húsfreyju, f. 1713, d. 1784, Nikulásdóttur.

Móðir Guðna var Guðný húsfreyja í Reynisholti, f. 1796 á Höfðabrekku, d. 10. október 1831 í Reynisholti, Jónsdóttir bónda á Höfðabrekku, f. 1735, d. 13. mars 1813, Jónssonar bónda og sýslumanns í Holti í Mýrdal, f. 1686, d. 4. ágúst 1767, Sigurðssonar, og konu Jóns sýslumanns, Kristínar húsfreyju, f. 1714, d. 15. maí 1794, Eyvindsdóttur.
Móðir Guðnýjar í Reynisholti og síðari kona Jóns á Höfðabrekku var Guðrún húsfreyja, f. 1752, d. 5. febrúar 1837 á Elliðavatni, Þorsteinsdóttir bónda víða í V-Skaft., en síðast á Flögu, f. 1711, Nikulássonar, og konu Þorsteins, sem er ókunn, f. 1721.

Systur Guðna í Eyjum voru:
1. Dýrfinna Guðnadóttir húsfreyja í Dölum, f. 2. september 1823, d. 31. maí 1866.
2. Þorbjörg Guðnadóttir vinnukona og bústýra, f. 25. febrúar 1830, d. 12. ágúst 1858.

Guðni var með foreldrum sínum til am.k. 1832, var niðursetningur á Reyni í Mýrdal 1834 eða fyrr til ársins 1835 eða lengur. Hann var niðursetningur á Hellum þar 1840, vinnumaður þar 1845, vinnumaður í Breiðahlíð þar 1850.
Hann réðst vinnumaður að Dölum í Eyjum 1850. Þau Vilborg giftust 1851 og voru bændahjón í Norðurgarði 1853, komu að Dölum 1859.
Þau bjuggu í Dölum meðan Guðni lifði.
Hann lést 1875.

I. Kona Guðna, (20. nóvember 1851), var Vilborg Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 12. september 1823, d. 6. maí 1903. Hún var þá ekkja eftir Pétur Magnússon, sem drukknaði 1850.
Börn Guðna og Vilborgar voru:
1. Ragnhildur Guðnadóttir, f. 21. október 1852, d. 22. apríl 1853 úr „Barnaveiki“.
2. Andvana stúlka, f. 21. maí 1854.
3. Bjarni Guðnason, f. 10. júní 1855, d. 16. júní 1855 „af Barnaveiki“.
4. Guðný Guðnadóttir, f. 16. október 1856, d. 8. nóvember 1931.
5. Þorbjörg Guðnadóttir, f. 16. ágúst 1858, d. 23. ágúst 1858 úr ginklofa.
6. Jónína Guðnadóttir, síðar í Haga, f. 14. maí 1863, d. 18. júní 1930.
Stjúpbarn Guðna, dóttir Vilborgar og Péturs:
7. Elína Pétursdóttir, f. 10. september 1845, d. 24. janúar 1926.

II. Barnsmóðir Guðna var Þorbjörg Þorvaldsdóttir, þá vinnukona í Dölum, f. 19. mars 1843, d. 4. janúar 1925.
Barn þeirra var
8. Þorsteinn Guðnason, f. 12. apríl 1872. Hann fluttist til Kanada frá Garðsfjósi 1903 ásamt konu sinni og tveim dætrum þeirra, d. 22. nóvember 1960.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.